Svona bakpokaflakk snýst auðvitað að mörgu leyti um að skoða helstu túristastaðina. Skoða helstu moskurnar/hofin/kirkjurnar í hverri borg, helstu náttúruperlur og gera það sem að allir pakkatúristarnir gera á sínum ferðum.
En svo snýst þetta flakk líka um daga einsog daginn í dag, sem hefur verið nánast fullkominn. Daga þar sem maður getur kynnst innfæddum, daga þar sem maður hefur ekkert betra að gera en að sitja á torgi, stara útí loftið og spjalla við fólkið á götunni. Setjast svo á kaffihús, horfa á mannlífið, lesa góða bók og spila fótbolta við krakka útá götu. Dagar sem að fulltaf litlum, óvæntum og skemmtilegum hlutum gera svo frábæra. Svoleiðis dagar eru líka ótrúlega mikilvægir.
* * *
Sýrland hefur ekki beint á sér gott orðspor. Ég man ekki eftir að hafa lesið neitt gott um þetta land í fréttum áður en ég kom hingað. Landinu hefur í nærri því 40 ár verið stjórnað af al-Assad feðgum, fyrst Hafez al-Assad, sem komst til valda í valdaráni hersins árið 1970 og stjórnaði landinu alveg til dauðadags árið 2000 þegar að sonur hans Bashar al-Assad tók við. Hér búa um 20 milljónir manns, langflestir Súnní múslimar.
Í fréttum hefur Sýrland aðallega verið tengt vandamálum í nágrannaríkjunum. Ríkisstjórnin hefur verið með puttana í málefnum Líbanons, landið hefur staðið í landamæradeilum við Ísrael mjög lengi, ríkisstjórnin var að mati Bandaríkjamanna ekki nógu dugleg við að loka landamærunum að Írak (svo að vígamenn gætu ekki komið inní Írak frá öðrum Arabalöndum) og svo framvegis og framvegis. Í 24 þáttunum eru hryðjuverkamenn frá Sýrlandi og ég man ekki eftir að hafa séð sýrlenskan karakter í bandarísku afþreyingarefni öðruvísi en hann væri tengdur hryðjuverkum. George W Bush tilnefndi svo Sýrland sem einhvers konar viðbótarmeðlim í möndulveldi hins illa ásamt Kúbu og Líbíu.
En ef það er eitthvað sem ég hef lært af ferðalögum mínum um heiminn, þá er það að skilja frá aðgerðir ríkisstjórna og álit mitt á þegnum viðkomandi lands. Ég get til að mynda vel elskað Bandaríkin og þegna þess lands þrátt fyrir að aðgerðir GWB séu mér ekki að skapi og þótt að ég viti að í því landi séu hópar sem mér líkar ekki við.
Þetta er frekar langur fyrirvari að því að koma því frá mér að Sýrlendingar eru með yndislegasta fólki sem ég hef kynnst. Ég veit að ég hef bara verið hérna í 4 daga, en aldrei áður hef ég kynnst jafnmikilli gestrisni. Aldrei hefur mér liðið jafnvel í nýju og ókunnu landi. Aldrei hefur jafnmikið af fólki komið uppað mér á götu og boðist til að hjálpa mér. Ólíkt mörgum fátækari löndum sem ég hef komið til þá eru þessi almmennilegheit algjörlega ótengd því að verið sé að reyna að selja manni eitthvað. Fólkið býður mann einfaldlega velkominn úti á götu af engri auðsýnilegri ástæðu. Mér hefur verið boðið heim til fólks í te, fólk brosir sífellt til mín úti á götu og hvert sem ég fer heyri ég fólk hrópa “Hello!” og brosa til mín. Þetta er með hreinum ólíkindum. 🙂
* * *
Ég er núna staddur í Aleppo, næst stærstu borg Sýrlands í norðurhluta landsins. Hingað kom ég um hádegisbilið í dag með rútu frá Hama. Þeir sem að taka vel eftir ættu að hafa áttað sig á því að planið mitt hefur breyst. Ég ætlaði upphaflega að fara til Palmyra á sunnudaginn, en á laugardagskvöldið ákvað ég að breyta planinu. Þess í stað fór ég á sunnudaginn (sem var einmitt í gær – VÁ hvað tíminn líður oft hægt á svona ferðalögum – Yndislegt!) í ferð um austurhluta Sýrlands.
Hótelið mitt í Hama skipulagði þennan túr, sem fólst í því að leigja leigubíl með arabísku-mælandi bílstjóra og segja honum hvert átti að fara. Við byrjuðum á að skoða Rasafa rústirnar, sem eru magnaðar rústir borgar í miðri eyðimörkinni. Þar var ég einn einsog við flestar fornminjar á þessari ferð minni og það var frábært. Síðan keyrðum við að Efrat ánni, sem rennur í gegnum Tyrkland, Sýrland og Írak. Þar sem við komum að ánni er risastórt uppistöðulón fyrir virkjun, sem var reist af stjórn al-Assad á sjöunda áratugnum. Sú virkjun er mikið þjóðarstolt í Sýrlandi. Hjá lóninu skoðuðum við svo eitt virki í viðbót. Á leiðinni aftur til Hama skoðuðum við svo fleiri rústir og það var eiginlega orðið svo í gær að ég var kominn með nett leið á að skoða gamla steina í eyðimörkinni, enda hafa síðustu dagar verið uppfullir af slíku.
Ég ákvað því að hætta við að fara til Palmyra (sem eru frægustu fornminjar Sýrlands) í bili og tók þess í stað rútu hingað til Aleppo. Hérna er ég svo búinn að eiga frábæran dag. Eftir að ég hafði komið dótinu mitt inná hótel, sem er í miðju hverfi dekkjaverkstæða, þá labbaði ég niður að gamla miðbænum í Aleppo. Þar er hinn frægi markaður, sem er furðu skemmtilegt að labba í gegnum. Aðallega vegna þess að markaðurinn er (ólíkt t.d. Grand Bazar í Istanbúl) ekki mikill túristamarkaður. Þetta er fyrst og fremst markaður þar sem að borgarbúar koma til að kaupa sínar nauðsynjar. Allt frá kindaheilum til kjóla.
Eftir að hafa labbað í gegnum markaðinn og skoðað aðalmoskuna í Aleppo fór ég uppí virkið sem gnæfir yfir borginni. Þar skoðaði ég mig um í smá tíma og settist svo niður á torgi í miðju virkinu. Úr því varð hin besta skemmtun því uppað mér komu strax nokkrar stelpur, sem byrjuðu að spjalla við mig. Þær töluðu nokkuð góða ensku og vildu sennilega æfa enskuna. En svo vildu þær líka taka mynd með mér. Stelpan sem var með mér á myndinni var í litríkum hijab, sem var því fínt tækifæri fyrir mig að ná mynd af slíkum klæðnaði.
Þegar ég var svo sestur aftur og þær farnar settust hjá mér þrjár aðrar stelpur. Ég spjallaði heillengi við þær líka, sem og mömmu þeirra og frænku sem komu síðar. Þegar ég var að fara vildu þær líka fá að taka mynd af mér með sér. Önnur þeirra var í algerlega svörtum hijab með allt hulið nema augun (einsog á þessari mynd efst til hægri), en fyrir myndatökuna tók hún niður blæjuna sem var fyrir andlitinu. Þá var bróðir þeirra mættur á svæðið með eiginkonu sína (sem var gull gull gullfalleg stelpa, sú fallegasta sem ég hef séð á þessari ferð minni) en hann bannaði henni að vera með á myndinni, þrátt fyrir að hann virtist þess utan vera ótrúlega skemmtilegur og líbó gaur. En svona geta hlutirnir verið skrýtnir.
Hérna í Aleppo er einsog í hinum borgunum mismunandi hversu mikið stelpurnar hylja andlit og líkama. Ég hef séð slatta af stelpum, sem hylja allt nema augun, en eru samt sem áður í þunnum hijab sem að sýnir að mörgu leyti vöxt þeirra (og sumar þeirra eru líka í litríkum og fallegum skóm, sem er það eina sem aðgreinir þær). Svo eru ansi margar sem eru í þykkum hijab, sem er einsog þykkur frakki og hylur allan vöxt – svo mikið að maður getur ekki einu sinni greint hvort að undir er ung stelpa eða eldri kona.
Karlmenn klæða sig einsog karlmenn á Vesturlöndum.
* * *
Eftir þessar skemmtilegu samræður og myndatökur fór ég svo útúr virkinu og spilaði á torginu fyrir utan fótbolta með nokkrum krökkum í smá tíma. Svo rölti ég í átt að hótelinu mínu og fann á leiðinni þetta frábæra netkaffihús. Í kvöld ætla ég að vera ótrúlega frumlegur og fá mér kjöt á spjóti eða þá shawarma. Það væri skemmtileg tilbreyting. 🙂
Á morgun fer ég svo með rútu suður til Damaskus.
Skrifað í Aleppo, Sýrlandi klukkan 19.36
það er svo frábært að lesa bloggið þitt og láta sér hlakka til að fara út í sumar að ferðast
Takk 🙂