Dagur 3 í veikindum. Megi þetta verða síðasti dagurinn. Er byrjaður að bryðja einhverjar magatöflur frá Íslandi, sem ég átti að taka í neyð og þriggja daga magakveisa á ferðalagi er neyð í mínum huga. Djöfulsins vesen. Þetta var allavegana ekki þynnka, þannig að ég kenni sushi-inu um. Helvítis viðbjóðslega ofmetna japanska rusl.
Eitthvað við magakveisur á ferðalögum veldur því að ég fæ algera óbeit á matseld innfæddra. Ég man hvernig þetta var í Suð-Austur Asíu þegar ég gat ekki hugsað mér að borða núðlusúpur eða hrísgrjónarétti. Núna get ég ekki hugsað mér að borða shawarma, falafel og allt það dót og hef þess í stað gripið til þess örþrifaráðs að panta á veitingastöðum aðeins hluti, sem ég kannast við frá Íslandi einsog hamborgara. Í þessu er nákvæmlega ekkert vit því að hamborgaranir hérna eru ógeðslegir, en matur innfæddra er frábær. Jæja, þetta hlýtur að fara að skána.
Ég var að koma til Wadi Musa í dag, en það er bærinn sem hýsir hótelin fyrir Petra rústirnar, sem ættu væntanlega að vera einn af hápunktum þessarar ferðar. Þegar ég kom inná hótel um þrjú leytið í dag henti ég öllu draslinu mínu á rúmið og sofnaði, örmagna af þreytu. Málið er að í viðbót við veikindin hef ég verið á alveg rugl lélegum hótelum undanfarna daga. Hótel án allra viftna (og auðvitað án loftkælinga), sem hefur gert það að verkum að ég hef þurft að hafa opna glugga, sem hefur hleypt inn hópum af flugum, sem vilja ekkert meira en blóðið mitt (jú, þeim þykir reyndar dótið sem ég spreyja á mig til að verjast þeim vera líka gott). Þetta hefur valdið því að ég hef lítið sofið útaf ágangi flugnanna og vakna örmagna – og svo er það líka eitthvað við öll þessi bit, sem draga úr mér kraftinn.
En nóg af þessu andskotans væli. Aggi vill hressar sögur, svo að hér með lýkur þessu væli.
* * *
Í gær tók ég leigubíl til að skoða helstu túristastaðina í Jórdaníu á milli Amman og Petra. Við byrjuðum á því að fara til Madaba, borgar rétt sunnan við Amman. Þar skoðuðum við nokkrar mósaík myndir, sem eru eflaust stórkostleg listaverk fyrir áhugamenn um mósaík myndir. Þaðan keyrðum við svo uppá Nebo fjall. Það er fjallið þar sem að Móses kom 120 ára gamall til að sjá fyrirheitna landið og dó. Af fjallinu er gott útsýni yfir Dauða Hafið og Palestínu.
Þaðan keyrðum við svo að Bethany handan Jórdan ánnar, sem er staðurinn þar sem að Jesús var skírður. Auk þess að sjá staðinn þar sem hann var skírður, þá er þetta líka eini staðurinn þar sem hægt er að snerta Jórdan ána, sem ég og gerði og fékk mér fótabað í þessari frægu á, sem er í dag mjög vatnslítil. Áin markar auðvitað landamæri Jórdaníu og Vesturbakkans (Jórdan-árinnar) í Ísrael, en það svæði sem mun vonandi sem fyrst mynda meginhluta lands sjálfstæðrar Palestínu, en Vesturbakkinn var áður undir stjórn Jórdaníu, en Ísrael tók svæðið yfir í Sex Daga Stríðinu árið 1967. Vegna landamæranna er nánast öll Jórdan áin umvafin hernarðarmannvirkjum og því ekki hægt að komast að henni nema á þessum litla stað.
Allavegana, þaðan fórum við svo að Dauða Hafinu. Dauða Hafið heitir því skemmtilega nafni þar sem að mikið saltmagn gerir það að verkum að í vatninu þrífst ekkert líf. Hafið markar einnig lægsta punkt á jörðinni, en það er um 330 metra undir sjávarmáli (og fer lækkandi). Vegna þess hve hratt vatnið gufar upp hefur saltmagnið í vatninu aukist og veldur því núna að hægt er að fljóta í vatninu (sökum þess hve salt það er). Þetta er nokkuð skemmtilegt að upplifa. Maður getur legið í vatninu með hendur undir höfði og slappað af. Einnig er ekki hægt að synda þar sem að stór hluti líkamans flýtur alltaf uppúr vatninu og því ekki hægt að hafa hendur og fætur í vatninu á sama tíma (nema að maður standi). Þetta er allt mjög skemmtilegt að upplifa.
Ég slappaði svo af í sundlaugum nálægt ströndinni og naut ótrúlega góðs veður. Reyndar var hitinn gríðarlegur, sem var í lagi þegar maður var ofaní vatni, en versnaði þegar að vatnið hafði þornað. Eftir þetta fór leigubíllinn svo með mig að Dana þjóðgarðinum, þar sem ég gisti síðustu nótt.
* * *
Í dag byrjaði ég svo daginn á 6 tíma gönguferð um Dana þjóðgarðinn, sem var ágæt og er sennilega best lýst af myndum.
Næstu tvo daga ætla ég svo að skoða Petra rústirnar. Þaðan ætla ég að fara til Wadi Rum, þaðan til Aqaba og svo yfir til Eilat í Ísrael.
Skrifað í Wadi Musa, Jórdaníu klukkan 21.00
Núna ertu farinn að veita almennilegar upplýsingar… um hamborgaramenninguna! Það er afar nauðsynlegt fyrir mig að vita hvernig hamborgaraástandið er í hverju landi, ef ég skildi nú einhverntímann ætla í alvöru ferðalag 🙂
Vona annars að þú hafir ekki misst af leiknum… ef svo er, þá er þetta það eina sem þú þarft að vita.
Æ, takk fyrir myndina Aggi. Þú ert æði.
En annars, þá var þetta frábær leikur. Besti úrslitaleikur sem ég hef séð í CL fyrir utan Istanbúl auðvitað. Horfði á hann með hópi af jórdönskum Man U stuðningsmönnum á bar hérna í Wadi Musa. Ég stökk upp og fagnaði þegar ég hélt að Nani hefði klúðrað vítaspyrnunni sinni.
Ég var alveg viss um það að Terry myndi klikka og var eiginlega bara að spá hvort að það væri þess virði að horfa á verðlaunafhendinguna. Jú, ég þyrfti að horfa á Lampard lyfta bikarnum, en svo myndi ég líka horft á Ronaldo grenja, sem er það skemmtilegasta sem ég geri.
En vallarvörðurinn var greinilegla Man U maður. Helvítis samsæri. 🙂
Og svo til að klára þetta þá óska ég vinum mínum, sem eru Man U stuðningsmenn til hamingju. Þið megið ekki búast við frekari hamingjuóskum frá mér. Ég tárast bara við að skrifa þessi orð núna. Sjáiði hvað þið hafið gert mér!