Mið-Austurlandaferð 10: Petra og Jórdanía

Ok, fyrir það fyrsta, þá er ég á þessu netkaffihúsi núna búinn að hlusta á I will always love you með Whitney Houston TVISVAR í röð. Allah hjálpi mér!

Í öðru lagi, þá er mér batnað. Líður alveg hreint ljómandi vel og er núna búinn að vera hress tvo daga í röð. Eina sem angrar mig er þetta lélega lyklaborð, sem virðist hoppa yfir annan hvorn staf sem ég pikka inn.

Og núna, Everything I do I do it for you í einhverri stelpubands útgáfu. Ég er farinn. FARINN!

* * *

Ok, ég er kominn á nýtt netkaffihús. Stökk heim á hótel og náði í iPod-inn minn og hlusta nú á BetaBand í staðinn fyrir Whitney og pikka inná sæmilegt lyklaborð. Talsvert betra. Ég er enn staddur í Wadi Musa, sem er við hlið Petra rústanna. Er búinn með minn skammt af Petra og hef því nákvæmlega ekkert að gera það sem eftir lifir af þessum degi nema að lesa eða hanga á netinu.

Jú, ég gæti reyndar verið inná hóteli, en á herberginu mínu er gervihnattasjónvarp með SEX hundruð stöðvum. Gallinn við það eru aðeins tveir. Fyrir það fyrsta eru um 100 stöðvanna klámstöðvar. Nú gæti sennilega margt verið verra en það, en klám hér virðist eingöngu afmarkast af því að gellur í bikiní sitja uppí sófa og klæmast á arabísku við einhverja graða kalla sem eru eflaust dreifðir um Arabaheiminn. Áhugi minn á slíku er takmarkaður. Restin af stöðvunum (fyrir utan Al-Jazeera og BBC World) eru svo stöðvar frá öllum múslima heiminum, allt frá súdönskum stöðum til jórdanskra. Dagskrárgerð virðist aðallega miðast við þætti þar sem að stjórnandinn situr heima í stofu og talar á arabísku. Það er líka slappt sjónvarp, allavegana fyrir mig.

* * *

Jórdanía var teiknað upp sem land af Winston Churchill árið 1921, en landið fékk sjálfstæði frá Bretum árið 1946. Jórdanía er um 10% minna en Ísland og hér búa rúmlega 5 milljón manns – þar af eru um 60% þeirra Palestínumenn sem hafa flúið hingað eftir hin ýmsu stríð, en Vesturbakkinn tilheyrði áður Jórdaníu.

Landið er konungsríki, stjórnað af Abdullah II Hussein. Landið er einnig merkilegt fyrir þær sakir að það skartar sennilega fallegustu þjóhöfðingjafrú í heimi (ég vil allavegana sjá ef að ég hef rangt fyrir mér), en Raina drottning er með ólíkindum falleg.

* * *

Ég er búinn að eyða síðustu tveim dögum að skoða merkustu fornminjar Jórdaníu, Petra. Borgin, sem er að mestu höggvin útúr fjallgarði var byggð af Nabateum frá um 600 fyrir Krist til um 100 eftir Krist. Borgin er ótrúleg. Fyrir það fyrsta er umhverfi hennar magnað með áhrifamiklum fjöllum allt í kring, en svo eru líka byggingarnar ótrúlegar. Fallegustu byggingarnar eru á einhvern ótrúlegan hátt höggnar úr berginu. Frægust er sennilega Al-Kazneh, sem blasir við manni eftir nokkuð langa göngu eftir gjá, sem kallast Siq.

Ég er einsog ég sagði búinn að eyða tveim dögum í að skoða borgina og hafa þeir dagar verið nokkuð þéttskipaðir. Borgin er gríðarlega stór og fjöldi bygginganna (flestar eru þær grafhýsi) gríðarlegur. Ég er búinn að labba um svæðið allt, labba uppá tvö fjöll (þar á meðal til að sjá Al-Deir. Stórkostlegir tveir dagar og þetta er svo sannarlega með mikilfenglegustu stöðum sem ég hef séð á ferðalögum mínum.

Í gærkvöldi sá ég svo Petra að nóttu til. Þá var fólki smalað saman við innganginn að Petra svæðinu, þaðan sem við löbbuðum í röð eftir veginum lýstum af kertum uppað Al-Kazneh.  Ég verð seint talinn fylgismaður slíks hjarðtúrisma, en þetta var víst eina leiðin til að sjá borgina að kvöldi til.

* * *

Í kvöld ætla ég svo að fara snemma að sofa enda föstudagur og frídagur hér og allt lokað – og ég uppgefinn eftir labb síðustu daga. Á morgun ætla ég svo að reyna að koma mér til Wadi Rum.

Skrifað í Wadi Musa, Jórdaníu klukkan 18.55

3 thoughts on “Mið-Austurlandaferð 10: Petra og Jórdanía”

  1. Ég gat ekki varist brosi þegar þú minntist á tónlistina og lyklaborðið…hugsaði með mér, þegar ég sá þig fyrir mér, nett pirraðan;

    -Hjúkkit! Ég get sátt við unað í vinnunni með tónlist, vandlega ígrundaða og valda “ala Einsi” og hann langt langt langt í burtu!

    Ævintýralegar lýsingar.

    Frábært að þú sért búin að ná þér eftir fráhvörf af einum; venjulegum, velvöfðum og lokuðum. 🙂

    Þetta er ávanabindandi andskoti!

  2. “Gallinn við það eru aðeins tveir. Fyrir það fyrsta eru um 100 stöðvanna klámstöðvar. ” Þarna ert þú að lýsa draumafríi 97,3% kynstofns þíns. En þú skoðar bara fjöll & rústir.
    En skemmtileg lesning. Ég er orðin fan. 😀

Comments are closed.