Ég er kominn til Ísrael, er staddur núna inná hóteli í gömlu borginni í Jerúsalem. Ég sit uppá þriðju hæð hótelsins og ef ég sný mér við blasir við mér Klettamoskan uppá Musterishæðinni. Ef ég horfi svo aðeins til hægri sé ég í turninn á Grafarkirkjunni, sem er byggð á þeim stað sem að Jesús á að hafa verið krossfestur.
Þetta er mögnuð borg!
* * *
Ég kom hingað til Jerúsalem seint í dag frá Eilat, sem er strandborg við Rauða Hafið – alveg við landamæri Jórdaníu. Þar gisti ég eina nótt og naut seinni partinn í gær lífsins á ströndinni og baðaði mig í Rauða Hafinu, sem var frekar kalt þrátt fyrir um 35 stiga lofthita.
Ansi margt breytist við það að koma úr Arabaheiminum yfir til Ísrael. Ég ætla að bíða með að skrifa almennt um Ísrael, þar sem ég hef verið hérna í svo stuttan tíma. En um leið og ég fór yfir landamærin frá Jórdaníu þá breyttust strax hlutirnir. Fyrir utan augljsa hluti einsog klæðaburð kvenna, þá er efnahagurinn greinilega umtalsvert betri í Ísrael. Húsin eru fallegri og stærri, bílarnir nýrri og verslanirnar flottari. En svo eru það líka ótal aðrir hlutir sem eru svo ólíkir. Hérna í Ísrael spenna menn öryggisbelti í bílum og fara eftir umferðarreglum. Hér eru gangbrautir virtar, fólk hendir ekki rusli útum allt og svo framvegis
En það er líka mikill munur á Ísrael sem ég sá í Eilat og Ísrael sem ég hef séð á nokkrum klukkutímum í Jerúsalem. á leiðinni á rútustöðina keyrðum við framhjá hverfum þar sem virtust nær eingöngu búa Hasidim gyðingar (sem eru auðþekkjanlegir af klæðaburði og hárgreiðslu (hliðarlokkum)), en svo er gamli miðbærinn hérna í Jerúsalem nánast alveg einsog markaðirnir í Damaskus og Aleppo í Sýrlandi. Hérna í kringum hótelið heyrir maður salam alaykum (arabísk kveðja) miklu oftar en shalom (hebreska).
* * *
Síðustu dögunum í Jórdaníu eyddi ég í Wadi Rum eyðimörkinni. Þar var ég keyrður á jeppum um eyðimörkina þar sem ég skoðaði stórkostlegt landslag (og lenti í skemmtilegum ævintýrum sem ég nenni ekki að skrifa um á svona hrikalega lélegu lyklaborði). Ég svaf svo í Bedúínatjöldum í miðri eyðimörkinni þar sem ég gat horft uppá stjörnubjartan himininn. ógleymanleg ferð! Svo daginn eftir fór ég á úlfalda frá tjöldunum til Wadi Rum þorpsins þar sem ég tók leigubíl til Aquaba við landamæri Ísraels. úlfaldaferðin var skrautleg. Hún tók um 3 tíma án þess að stoppa og ég get staðfest það að rassinn minn hefur ekki enn fyrirgefið mér fyrir þá meðferð.
Við ísraelsku landamærin lenti ég svo í um klukkutíma bið (þrátt fyrir að ég væri nánast einn) þar sem ég var spurður alls konar spurninga, en var svo að lokum hleypt í gegn.
Ég mun sennilega vera með annan fótinn í Jerúsalem í nærri því viku. Hérna er gríðarlega mikið að skoða og svo ætla ég einnig að nota borgina sem grunnbúðir til að skoða Vesturbakkann. Ég er jafnvel að gæla við að fara þangað strax á morgun. Planið er að fara til allavegana Ramallah, Jericho og Betlehem en það er þó ekkert fastneglt.
Skrifað í Jerúsalem, Ísrael klukkan 21.53
að vera ferðast eins og þú ert að gera núna er eitthvað sem ég myndi taka fram yfir flest en það var líka frábært að vera í reykjavík í kvöld á dylan tónleikum .)
Já, Dylan byrjaði hræðilega en vann á þegar líða tók á tónleikana. Ballad of a thin man var langbesta lagið en einnig Highway 61 í rokkútgáfu. Hitt var síðra.
Dylan var smá skaðabót fyrir okkur sem lesum bloggið og öfundum þig fyrir ævintýrið sem þú ert í núna.
Þarna langar mig að fara, þ.e. Ísrael.. þetta er eitthvað svo andskoti fjarlægt en þarna lekur sagan af hverju strái.. njóttu vel vinur og farðu varlega. kv, frá Santiago
Takk, Friðrik.
Og gott að heyra með Dylan – ég var búinn að kaupa miða á þá tónleika, en ákvað að fórna þeim fyrir ferðina.