Enn einu sinni sannast sú kenning mín að ég bloggi mun minna um sjálfan mig þegar að lífið er spennandi og skemmtilegt en þegar ég er í einhverri allsherjar sjálsvorkun.
Og það hefur jú verið svo að þetta haust byrjar alveg jafn vel og sumarið endaði. Þessir mánuðir eftir að ég kom heim frá Ísrael hafa verið svo skemmtilegir að það er engu lagi líkt. Ég ætla að reyna að koma einhverjum punktum frá mér, sem hafa verið að hlaðast upp.
* * *
Fyrir það fyrsta, þá skrifaði ég fyrir einhverjum vikum um það að ég væri fluttur af Hagamelnum. Glöggir lesendur hafa sennilega tekið eftir því að ég talaði ekkert um það hvert ég væri að fara. Ég flutti semsagt inn til tveggja vina minna, sem að búa á Njálsgötunni. Sú íbúð hefur í nokkuð ár flakkað á milli manna í þessum vinahóp. Þar sem að ég sé fram á að vera kannski með hálfan fótinn á Íslandi þá tók ég vel í það boð að flytja þangað inn, því það er erfitt að hafa engan stað til að geta stokkið inná á Íslandi.
Þannig að fyrir um þrem vikum flutti ég rúmlega þrítugur með allt mitt drasl úr íbúðinni, sem ég hafði búið í síðustu 5 ár, inní lítið herbergi í piparsveinaíbúð í miðbænum.
Það furðulega við þetta er að ég er bara þvílíkt sáttur við þessi skipti. Það var eitthvað verulega frelsandi við að kveðja gömul íbúðina og allar þær minningar sem að henni fylgja og flytja inná nýjan stað. Losna við allt draslið sem ég hafði enga þörf fyrir og fókusa bara á að eiga nokkra hluti, sem mér þykir virkilega vænt um. Byrja uppá nýtt.
Ég er reyndar sirka helminginn af tímanum heima hjá kærustunni minni, sem býr líka í hálfgerðri kommúnu með tveimur öðrum stelpum. Þetta er skemmtileg tilbreyting frá því að búa einn stóran hluta síðustu ára – og ég gæti vart verið sáttari.
Einnig er ég búinn að leigja íbúð í Stokkhólmi næsta hálfa árið.
* * *
Hef ögn slakað á djamminu frá því sem er í sumar, sem ég held að sé bæði tengt sambandinu og því að vinir mínir eru kannski ekki alveg jafn duglegir í djamminu og þeir voru í sumar. Það verður að teljast eðlilegt. Hef þó farið í skemmtileg partí, til dæmis í kveðjupartí til vinar míns sem er að flytja til Kaliforníu, reunion partís með Verzló árganginum mínum, ótrúlegs partís heima hjá kærustunni minni og svo var í algjörlega sögulegu partí hjá einum vini mínum síðasta laugardagskvöld, sem ég mun seint gleyma.
Fór líka í leikhús á Fló á Skinni, sem var frábært og svo hef ég séð tvær myndir í bíó – Tropic Thunder, sem er fín og Pineapple Express, sem er góð.
Hef svo borðað slatta úti. Fyrir utan þessa staði sem ég hef sótt oft, þá fór ég á tvo nýja staði. Prófaði að fara á Silfur í fyrsta skipti, sem er frábær staður. Prófaði líka Geysi (borðaði vínarsnitsel þar) og var verulega hrifinn.
Já, lífið er gott þessa dagana.