Það er komið meira en ár síðan að ég kom heim úr Mið-Austurlandaferðinni minni og því ekki seinna vænna en að byrja að huga að næsta ferðalagi.
Það hefur margt breyst á þessu ári síðan ég kom heim frá Tel Aviv. Fyrir það fyrsta þá er ég kominn með bestu kærustu í heimi og það þýðir að ég mun ekki fara í þetta ferðalag einn. Svo bý ég líka í Stokkhólmi, sem gerir manni auðveldara að finna ódýr flug til allra staða.
Við Margrét erum búin að ræða aðeins um það hvert okkur langaði að fara. Við vildum fara á stað þar sem hvorugt okkar hafði komið og við vildum stað þar sem að væri gott að vera í ágúst. Margrét byrjar í skóla í lok ágúst og því þurftum við að skipuleggja ferðalagið í kringum það.
Fyrir valinu varð svo Indónesía.
Ég hef ekki pælt neitt sérstaklega mikið í Indónesíu í gegnum tíðina, en fyrir þessa tímasetningu (bæði dagsetningu og lengd – 4 vikur) og fyrir það sem við vildum í fríinu okkar þá virtist hún vera nánast fullkomin.
Það þekkja eflaust allir frábærar strendur á Bali, en við erum líka ótrúlega spennt fyrir að sjá magnaða hluti á Jövu einsog Borobodur, sem hefur verið ofarlega á listanum mínum lengi, Gunung Bromo og fullt af fleiri stöðum.
Það er dálítið erfitt að gera sér grein fyrir því hvað maður hefur tíma fyrir á Indónesíu þar sem að ferðalög á milli staða eru oft flókin (Indónesía er samansafn af gríðarlegum fjölda eyja og því þarf maður oft að fara með ferjum), en við ætlum okkur allavegana að sjá Jövu, Bali, Lombok og Flores (þar sem við getum vonandi kafað). Ef við höfum einhvern tíma, þá langar okkur að fara líka til Borneo. En þetta eru hlutir sem við munum sennilega ekki ákveða fyrr en við komum á staðinn.
Við erum búin að kaupa beint flug til Bangkok. Það kostaði um 6.000 sænskar krónu hver miði. Þaðan munum við svo taka AirAsia flug til Jakarta sennilega. Þau flug eiga að vera ódýr. Að ferðast um og lifa í Indónesíu í nokkrar vikur á svo að vera mjög ódýrt.
Planið er að leggja af stað 23.júlí. Ef þið hafið einhverjar ábendingar varðandi það hvað við eigum að sjá, þá eru þær vel þegnar.
(mynd fengin [héðan](http://www.flickr.com/photos/maggi_homelinux_org/534390110/))
Borobudur og umhverfi munu ekki valda vonbrigðum. Götumaturinn og stemmningin í Yogyakarta svíkja heldur engan né heldur Solo.
Ekki sleppa Sulawesi, nokkrir dagar ættu að gefa góðan snert af þeirri stórgóðu eyju. Sjá Lonely Planet eða hliðstætt en fólkið þarna er engu líkt.
Þetta hljómar allt vel. 🙂
óh my… ég er að deyja ég hlakka svo til!!
Og eitt enn, þó þú hafir komið til n-margra asískra stórborga þá er Jakarta samt nokkuð góð, gamli hollenski nýlendubærinn “Kota” er mjög sérstakur og heillegur miðað við það sem gengur og gerist í Asíu.
Þetta er þó ekki borg sem þarf langan tíma fyrir og er ágætt t.d. ef komið er þangað um miðjan dag að fá sér góðan kvöldmat, rölta um hverfin (besta staðsetningin er nálægt hinu hrikalega stóra aðaltorgi borgarinnar) og fljúga síðan t.d. til Yogyakarta kvöldið eftir. Svæðið þar í kring er allt sem Java snýst um!
Okei. Við ætlum að fljúga til Jakarta (frá Bangkok) – ég hafði ekki ætlað langan tíma þar, enda ekki mikið þar sem ég er spenntur fyrir. Aðallega að ná úr sér tímamuninum.
Ég myndi fara til Yogyakarta, Skoða Borobudur og Prambanan rústirnar og kannski fara á ströndina þarna frægu við Yogya… (Parangkritis?!?) en reyndar eru mun betri strendur á Jövu utan alfaraleiðar sem eru þess virði að leita uppi.
Ég myndi sleppa Solo. Það er annað svona Hollenskt herrasetur, en bætir ekki miklu við Yogyakarta. Nett svona Blönduós-stemning þar fannst mér.
Ég sé þú nefnir Mt. Bromo. Ég hef komið þangað tvisvar. Það er náttúrulega ekki jafn merkilegt fyrir okkur eins suma aðra, af því að við komum sjálf frá eldfjallasvæði.
En það er mjög falleg sólarupprás þarna, og gaman að fara þarna upp á smáhestum og gista í litlum gistiheimilum þarna í fjöllunum.
Mt. Bromo e góð upplifun semsagt, en er vinsælt fyrst og fremst að þetta er frekar einstækt svæði í Indónesíu, frekar en að það það sé eitthvað sem maður geti ekki séð víða annars staðar í heiminum.
Batu nálægt Malang er líka vinsælt, aðallega vegna þess að það er svalara loftslag og líka út af eplagörðum sem eru ekkert merkilegir. Ég myndi frekar skoða markað með dýr í útrýmingarhættu sem leynist þarna í hliðargötunum.
Malang var minn heimabær í nokkra mánuði. Svo sem ekki margt markvert þar, þannig séð, góður veitingastaður er Toko Euen, Es Teler ísbúð nálægt Alun alun í miðbænum og eitthvað svona. Markaðirnir eru fínir.
Ég myndi fara að skoða Singorsari rústirnar í nágrenninu og Pelangi rústirnar jafnvel… og svo eru fossar sem eru helv. nettir,,, sem heita jafnvel Pelangi líka, ef ég man rétt.
Ég myndi síðan nota þessar ferðir til að smakka ferskan sykurreyr beint af akrinum og steikta kobraslöngu.
Síðan eru tvær leynistrandir, sem eru mjög góðar. Ein ekki fjarri Jember og önnur nær Malang.
Surabaya er ekkert spes. Það er svona iðnaðar og stórborg fyrst og fremst.
Þetta er Mið- og Austur-Java í fljótu bragði skv. minni reynslu.
Vestur-Java er efni í aðra athugasemd.
Sæll Einar,
ég hef farið til Bali það var árið 2004, ég kafaði þar niður af herskipi(burðarskip) sem sökk þarna við strendur bali í seinni heimstirjöldini… maður kafar beint út frá strönd sem er nokkuð sérstakt, flakið liggur í myklum halla á um 15til 35metra dýpi.
þetta er staður sem þú hefðir gaman af því að skoða..
félagi minn frá þýskalandi var þarna fyrir svona mánuði og sagði að þetta væri með flottustu köfunum sem hann hefur farið í.
svo mæli ég með skemtistað á bali sem heitir 006 í bakgarðinum á honum er teyjustökk yfir sundlaug, mæli með því 🙂
Hljómar vel. 🙂