Nú styttist heldur betur í lok þessarar ferðar. Við erum komin aftur til Bali eftir ævintýrin okkar á Borneo og á morgun er okkar síðasti dagur hér. Rétt eftir hádegi eigum við flug frá Bali til Jakarta, svo frá Jakarta til Bangkok á Taílandi og svo frá Taílandi aftur heim til Stokkhólms.
Sólahrings-seinkun var greinilega ekki nóg fyrir Riau flugfélagið til að koma málunum í lag í Borneó þannig að við þurftum að bíða aukalega á flugvellinum í Pankalang Bun í um klukkutíma. En við komumst á endanum til Jakarta. Þar þurftum við að taka leigubíl yfir á annað terminal, þar sem að Air Asia skrifstofa var. Þegar ég ætlaði að fara að kaupa miðana fattaði ég hins vegar að ég hafði skilið eftir ferðaveskið mitt, sem innihélt meðal annars vegabréfið mitt, í leigubílnum.
Ég fékk um það bil taugaáfall.
Ég hljóp útá bílastæðið (taxi-inn var löngu farinn) og talaði þar við gaur sem að Margrét hélt að hefði skráð númerið á leigubílunum þegar þeir komu inná stæðið. Hann hafði ekki gert það, en hann leiddi mig aftur á flugstöðina og að lögreglumönnum þar. Þeir virtust í fyrstu ekki hafa hugmynd um hvað þeir ættu að gera. Þeir voru sex eða sjö (í Indónesíu eru alltaf fjölmargir einstaklingar saman við öll störf – þrír að afgreiða á einn afgreiðslu-kassa og svo framvegis). Eftir smá stund tók þó einn í hópnum sig til, spurði hvernig leigubílstjórinn leit út (ég gat líst honum sem “strák”), lét annan gaur fá hríðskotabyssuna sína, og hljóp svo af stað og sagði mér að bíða.
Ég hafði ekki mikla trú á þessu framtaki hans. Margrét var inná AirAsia skrifstofunni til að kanna hvað þau gætu gert – við tékkuðum möguleika einsog hvort ég hefði gleymt vegabréfinu í síðasta flugi. En ÓTRÚLEGT, en satt – þá um korteri seinna kom löggan aftur og með helvítis leigubílstjórann með sér. Hvernig hann fann bílstjórann mun ég seint skilja. Þá kom í ljós að bíllinn var ekki í eigu bílstjórans, en hann kannaðist hins vegar við veskið. Þeir hringdu í eiganda bílsins, sem var þá kominn langleiðina inní Jakarta með annan farþega, en hann var með veskið. Við höfðum ekki tíma til að bíða eftir honum (þar sem flugið til Bali var að fara) en hann kom á endanum með veskið og skilaði því til konu hjá Air Asia.
Trú mín á flugvalla-leigubílstjórum og indónesískri lögreglu hefur aukist til muna.
* * *
Eftir að hafa flogið í gegnum þrumur og eldingar (sem er ekki gaman) þá komumst við loks til Bali í gærkvöldi. Ég átti víst afmæli í gær og það er óhætt að segja að afmælisdagurinn með sinni bið á flugvöllum, viðbjóðslegum mat (hvít hrísgrjón og eitthvað óþekkt kjöt í morgunmat, kjúklingasúpa í hádegismat og djúpsteiktur kjúklingur í kvöldmat) og vegabréfs-eltingaleik, hafi verið frekar skrautlegur. Margrét ákvað að afmælisdagurinn yrði færður til um einn dag og erum við því að halda uppá hann í dag. Við höfum notið lífsins á hótelinu og erum á leið útað borða á eftir.
Lífið hérna í Kuta og Seminyak á Bali hefur verið fínt. Við höfum legið á ströndinni (sem er hreinasta afbragð), fórum í smá ferð til Jimbaran þar sem við horfðum á sólsetrið á ströndinni og borðuðum sjávar-rétti og höfum notið þess að vera hérna í túristavæna hluta Indónesíu. Maturinn hérna er einstaklega góður, einsog reyndar í mestallri Indónesíu. Ég er svo heppinn að geta borðað hrísgrjón í öll mál og sá einstaki hæfileiki hefur komið sér vel hér. Á hótelum er oft boðið uppá Nasi Goreng (steikt hrísgrjón með kjúklingi) í öll mál – morgunmat, hádegismat og kvöldmat. Margrét hefur oftast kosið aðeins vestrænni morgunmat, en ég vandist því furðu fljótt að fá steikt hrísgrjón í öll mál. Aðrir réttir eru svo oftast góðir. Í raun er indónesískur matur alls ekki síðri en til dæmis taílenskur og víetnamskur.
Lífið hefur semsagt verið gott hérna og þrátt fyrir að við höfum misst einn Bali dag út, þá var það samt gott að fá einn dag í viðbót í sólinni.
*Skrifað í Seminyak á eyjunni Bali, Indónesíu klukkan 19.10*
Ég ákvað einnig að færa til afmælisdaginn þinn,.. allaveganna,.. innilega til hamingju með árin 32 og megi næsta árið verða jafn happadrjúgt og það liðna.
Megi heimferðin ganga vel og ég hlakka til að sjá allar myndirnar þegar þær rata á síður alnetsins.
Kv. Borgþór og fjölsk.
32? Ég trúi ekki að maðurinn sé deginum eldri en 27. Til lukku með síðbúinn afmælisdag og lýsi yfir því enn einu sinni hversu skemmtilegt er að lesa ferðabloggin þín!