Það er pínu skrýtið að vera kominn aftur til Stokkhólms eftir öll ferðalagin að undanförnu. Núna sit ég inní stofu á meðan að Margrét lærir með vinkonu sinni inní eldhúsi. Ég var að klára að horfa á ManU-ManC (sem var kennslustund í því hvernig er hægt að troða 7 mínútna uppbótatíma á leik þar sem ekkert réttlætir slíkt) og horfi núna á Chelsea-Tottenham með öðru auganu. Það er ágætt að hafa ekki mikið meira á planinu núna eftir hasarinn að undanförnu.
Við vorum semsagt að koma úr stuttri Íslandsheimsókn á þriðjudaginn (eftir ferðir til Færeyja og San Francisco nokkrum dögum áður). Tilgangurinn var að fara í brúðkaup Emils og Ellu, sem var haldið í Hafnarfirði síðasta laugardag. Brúðkaupið var frábært og í raun var öll ferðin frábær. Við Margrét héldum partí fyrir vini á föstudagskvöld, fórum í skírn og brúðkaup á laugardaginn og fórum auk þess í heimsóknir til vina okkar og í matarboð. Einsog við mátti búast þá var dagskráin fáránlega þétt.
* * *
Ég þurfti líka að klára nokkra hluti í vinnunni heima og því var mánudagurinn fullur af fundum og látum. Á föstudaginn opnuðum við nefnilega sjötta Serrano staðinn á Íslandi. Þetta er í fyrsta skiptið sem að ég er ekki viðstaddur opnun á Serrano stað og það var dálítið furðulegt og einnig gaman, því það er hressandi að sjá að hlutirnir ganga jafn vel upp þegar ég er ekki á Íslandi.
Staðurinn er við Höfðatorg – við erum fyrsta fyrirtækið sem að flytur inní nýju bygginguna þar. Með opnuninni erum við að breyta nokkrum hlutum á Serrano, sem við höfum verið að skoða síðustu mánuði. Fyrir það fyrsta þá er þetta stærsti staðurinn okkar með sætum fyrir um 40 manns, hann er svipaður að útliti og staðirnir okkar í Hafnarfirði og Smáralind með nokkrum litlum útlisbreytingum þó.
Stærsta breytingin, sem að viðskiptavinir taka eftir, er sennilega sú að við notum venjulega margnota diska, glös og hnífapör í stað einnota hluta á hinum stöðunum. Þetta er nokkuð sem við ætlum að taka upp á þeim stöðum sem við getum og einnig á nýjum Serrano stöðum hérna í Svíþjóð. Einnig verðum við með barnamatseðil í fyrsta skipti heima.
* * *
Helgin hérna í Svíþjóð er búin að vera góð. Veðrið er ennþá nógu gott til að labba um bæinn á stuttermabol og við vorum búin að sakna Stokkhólms mikið á öllu þessu flakki. Við Margrét fórum á föstudaginn á [Halvgrek +Turk](http://www.halvgrekplusturk.se/), sem er grískur veitingastaður í Östermalm. Það er enginn skortur á grískum stöðum hérna í Stokkhólmi og þessi var afskaplega góður. Ég eyddi svo stærstum hluta gærdagsins í að skipuleggja hlutina í gesta/vinnuherberginu okkar hérna í íbúðinni auk þess að horfa á [Liverpool vinna West Ham](http://www.kop.is/2009/09/19/18.25.32/). Í dag tókum við svo daginn snemma með ferð á Nýlistasafnið þar sem er í gangi sýning þar sem að [verkum Salvador Dalí og Francesco Vezzoli er blandað saman](http://www.modernamuseet.se/Templates/Pages/Exhibition.aspx?id=11187).
Réttir dómarar og Old Trafford eru orð sem rúmast ekki í sömu setningu. Hvað er málið með dómara. Hvenær fengu scum utd seinast dæmt víti á sig á Old trafford?
Fucking brjál.