Apple mun á miðvikudaginn sennilega kynna “tablet” tölvu. Tölvu, sem verður væntanlega í laginu einsog stór iPhone með um 10 tommu skjá. Í að minnsta kosti 2-3 ár hafa verið í gangi miklar sögusagnir um að Apple muni kynna “tablet” tölvu og nú eru menn fullvissir um að á miðvikudaginn sé komið að því að sýna þessa nýju græju. Þar sem ég er forfallinn Apple nörd og les daglega slatta af síðum á netinu um Apple, þá hef ég auðvitað fylgst vel með slúðrinu í kringum þessa kynningu.
Það hafa verið í gangi miklar pælingar varðandi þessa tölvu (sjá hérna fínar pælingar hjá John Gruber, sem skrifar besta Apple bloggið). Það sem menn eru nokkuð sammála um er að þetta verður snertiskjátölva með um 10 tommu skjá. Á henni verði hægt að horfa á vídeó, lesa bækur, tímarit og dagblöð, sörfa á netinu og keyra forrit svipuð og eru á iPhone. Flestir halda að tölvan muni keyra einhvers konar útgáfu af því stýrikerfi sem að iPhone og iPod Touch nota, því það sé mun hentugra fyrir snertiskjái heldur en hefðbundin stýrikerfi.
Einsog sönnum Apple nörd þá er ég orðinn gríðarlega spenntur fyrir þessari vöru sem að enginn, nema starfsmenn Apple, veit einu sinni hvernig lítur út. Það hafa mörg fyrirtæki reynt að hanna tablet tölvur en þær hafa flestar klikkað þar sem að stýrikerfið (oftast Windows) hefur ekki hentað fyrir snertiskjái. Menn sjá nokkra hluti sem að munu hugsanlega gera Apple kleift að gera vænlega söluvöru úr tablet tölvu, sem að engum hefur tekist áður.
– Þeir gera samninga við dagblöð og tímarit, þannig að þú getir keypt áskriftir í tablet tölvuna þína af þínum uppáhalds dagblöðum eða tímaritum (sjá hérna skemmtilegar pælingar á því hvernig að íþróttablað gæti litið út).
– Tölvan mun vinna vel saman við iTunes. Þannig að þú getir í henni þráðlaust horft á myndir, sem þú átt í iTunes eða hlustað á tónlistina þína.
Ég held að þetta gæti orðið frábær græja ef hún er rétt gerð. Ég sé sjálfur fjölmarga möguleika á því hvernig maður myndi nota svona tablet tölvu í staðinn fyrir hefðbundna fartölvu.
– Það er þægilegra að lesa lengri texta með skjáin lóðréttan í stað þess að hann sé láréttur einsog á fartölvum. Maður les alltaf bækur, dagblöð og tímarit þannig. Ég held að það væri gríðarlega þægilegt að lesa flestallar heimasíður með slíkum skjá.
– Ef að Apple menn væru sniðugir (sem þeir eru) þá væri hægt að sjá fyrir sér að hægt væri til dæmis að vinna ljósmyndir úr iPhoto á tablet tölvunni. Það held ég að gæti verið gríðarlega skemmtilegt og þægilegt að geta notað snertiskjá til að laga til og skoða ljósmyndir.
– Ef að á henni væri myndavél framaná, þá væri þetta snilldar tölva til þess að tala við fólk í gegnum Skype eða iChat með vídeói.
– Og það að þetta sé bara eitt stykki skjár myndi gera fólki auðveldara að lesa tölvupósta og blogg og annað uppí sófa. Mér finnst til dæmis oft þægilegra að lesa blogg á pínkulitla iPhone skjánum mínum heldur en að burðast með fartölvu. Ef að skjárinn væri aðeins stærri en jafn meðfærilegur og á iPhone þá held ég að þetta væri orðin gríðarlega sniðug græja.
En allavegana, þetta kemur í ljós á miðvikudaginn. Hluti af því af hverju okkur Apple nördum finnst svona gaman að pæla í fyrirtækinu er einmitt það að oftast höfum við litla hugmynd um það hvað þeir kynna næst. Þeir komu öllum gríðarlega á óvart með því hversu iPhone síminn var frábær (og nú 3 árum seinna er hann enn klárlega besti síminn á markaðinum) og ég held að kynningin á miðvikudaginn eigi líka eftir að verða spennandi.
Já, og svo eru einnig pælingar um að þeir muni kynna iPhone stýrikerfi 4. Ég hef ekki yfir mörgu að klaga í iPhone-inum. Það eina sem ég vil í raun sjá er þráðlaus uppfærsla á podcast þáttum. Það er verulega pirrandi fyrir mig að þurfa að tengja iPhone-inn við tölvu í hvert skipti sem að ég vil hlusta á nýjan fréttaþátt, sérstaklega þar sem að sync á iPhone tekur lygilega langan tíma. Já, og svo verða þeir að bæta póstforritið og leyfa manni að flagga tölvupósta. Það er lygilega pirrandi að geta ekki gert það. Það er nokkuð magnað að það sé ekki fleira sem ég hafi yfir að klaga varðandi þennan síma.
Hér í BNA er hægt að uppfæra flest podcast í gegnum iTunes application-ina á símanum. Það var m.a. hægt með RÚV podcast þangað til 9. nóvember s.l. Ég veit reyndar ekki hvað gerðist þá, en síðan þá finnast RÚV podcöst ekki í iTunes app á símanum mínum.
Já, ég veit af þessum möguleika og hef notað hann á ferðalögum. En hann er afskaplega leiðinlegur. Maður þarf að uppfæra hvert podcast og hvern þátt handvirkt. Ég vil bara geta uppfært þær 10 podcast sem ég er með sjálfkrafa.