Þar sem ég er svo latur við að blogga þá er ekki úr vegi að vísa á þetta viðtal við mig á Ferðapressunni.
Þar var ég meðal annars beðinn um að velja topp 5 merkilegustu staðina sem ég hef heimsótt. Ég var í smá vandræðum með það val, en á endanum valdi ég þetta (ekki í neinni sérstakri röð)
Jerúsalem, Ísrael
„Jerúsalem er stórkostleg borg og einn helgasti staður kristinna manna, gyðinga og múslíma. Hvort sem þú ert trúaður eða ekki, þá er ótrúleg upplifun að sjá allt þetta fólk og þá trúaratburði sem þarna fara fram. Borgin er afar lifandi og skemmtileg. Ekki síst vegna þess að hún er alvöru borg sem fólk býr í en ekki safn.“
Iguazu fossarnir, Argentína
„Þetta eru ótrúlegustu fossar í heimi. Þeir eru gríðarlega stórir og hægt að fara að þeim bæði frá Brasilíu og Argentínu. Ég eyddi tveimur dögum í það að skoða þessa fossa en hefði hæglega getað verið þarna mun lengur.“
Machu Picchu, Perú
„Ég og þrír vinir mínir úr Verzló fórum í sex mánaða ferðalag um S-Ameríku eftir stúdentinn. Meðal annars gengum við í þrjá daga eftir gamalli inkaslóð til þess að komast upp að Machu Picchu í Perú, hinni týndu borg Inkanna. Þetta var áður en maður þurfti að leigja sér leiðsögumann í ferðina og því löbbuðum við þetta einir, sem var ógleymanlegt. Það er ástæða fyrir því að Machu Picchu er vinsæll ferðamannastaður. Þetta er einfaldlega stórkostlegur staður og alls ekki ofmetinn.“
Angkor Wat, Kambódía
„Angkor er samansafn af musterisleifum frá 12.öld. Á gríðarlega stóru svæði eru alls um 1.000 hof. Ég tók þrjá daga í það að fara um svæðið. Þarna er allt frá hinu stórfenglega Angkor Wat hofi, þar sem þúsundir túrista mæta daglega til þess að sjá sólarupprás, til lítið heimsóttra mustera þar sem maður getur labbað einn um og liðið eins og Indiana Jones.“
Grand Canyon, Bandaríkin
„Það er dálítið erfitt að lýsa Grand Canyon. Allir hafa séð bíómyndir sem sýna eða lýsa þessu ótrúlega gljúfri. Það að standa í fyrsta skipti fyrir framan það er dálítið einsog að koma til New York í fyrsta skipti – maður kannast við allt eftir að hafa séð hlutina í ótal kvikmyndum en samt er upplifunin ógleymanleg.“
En allavegana, í viðtalinu tala ég líka almennt um ferðalög.
hefuru ekkert ferðast um ísland?
Nei Katrín við ætlun að eiga það inni þegar við erum komin með station bíl og krakka 😉
heh ok
mér finnst bara svo magnað hvað er til mikið af fínum stöðum á íslandi (og hef alveg jafngaman að því að skoða þá og staði í útlöndum, þó ég eigi hvorki station né krakka) sem fólk gefur sér ekki tíma í að skoða
svosum í lagi mín vegna, meira pláss fyrir mig meðan það eru færri fellihýsi og tjaldvagnar:)
Jú, ég hef reyndar ferðast umtalsvert mikið um Ísland og séð flest það merkilegasta. Ég fór þetta með foreldrum mínum þegar ég var lítill og svo líka með vinum. Það sem ég á kannski aðallega eftir á Íslandi eru lengri gönguferðir.
Ég veiti því athygli að Kópavogur er ekki á þessum lista. Ég veit ekki hvort ég eigi að skrifa þetta á fljótfærni, steisjónbíl eða smáborgarahátt?
Já, Jensi – þegar við verðum komin með station bílinn þá viljum við þokkalega fá sight-seeing túr með þér um Kópavog. Ég hef heyrt af verslunarmiðstöð þar í bæ sem á víst að vera spennandi og svo bensínstöð sem er innanhús. Get ekki beðið. 🙂
Jamm, akkúrat það sem ég var að pæla.
Þú nefnir td þarna Machu Picchu og það hafi verið svo gaman og þið hafið þurft að eyða 3 dögum í að komast fótgangandi á þennan fína stað, en kommentið hennar Margrétar gefur í skyn að Ísland sé bara skoðað með því að keyra á milli tjaldstæða.
Það eru svo margir sem líta þannig á ferðalög á Íslandi, sem mér finnst pínu sorglegt, því það er svo ótrúlega mikið af einstökum og fallegum stöðum hérna sem fólk nennir ekki að skoða eða kynna sér því það er svo næs að liggja í sólinni á mallorca (ég elska Ísland).
Sæll Einar
Ég verð að játa að ég er að skrifa hérna inni í fyrsta skipti en kíki reglulega hingað inn á leið minni á eoe.is/liverpool (nú kop.is) því mér finnst alveg endalaust gaman að lesa ferðalagapælingarnar þínar.
Það er eitt sem stakk augað við lestur greinarinnar á Ferðapressunni og það er þegar þú segir að maður fer ekkert fertugur í hálfs árs ferð um S- Ameríku.
Vildi bara láta vita að ég veit um hjón að nálgast áttræðisaldurinn sem skelltu sér í tveggja ára heimsreisu, þar af átta mánuði í Mið og Suður Ameríku. Þannig að Impossible is nothing 🙂 Þau leigðu einfaldlega íbúðina og bílinn sinn og það kom maður sem hafði áhuga að leigja hana en bara ef hann fengi hana í tvö ár. Svo þau einfaldlega tóku því og fóru í heimsreisu sem spannaði tvö ár um allar heimsálfur nema Evrópu, enda höfðu þau oft farið til ýmissra landa í Evrópu en aldrei neitt fyrir utan hana.
Annars dauðöfunda ég þig af öllum þessum ferðalögum og sérstaklega ferðinni til Jórdaníu og Ísrael auk auðvitað hálfs árs ferðarinnar til Suður Ameríku. Ég segi bara minn tími mun koma eins og ein vitur kerling sagði einu sinni, hvort sem ég verð þrítugur, fertugur eða níræður 🙂
Óska ykkur annars frábærrar skemmtunnar í Egyptalandi um Páskana.
Sko, þetta með station bílinn var náttúrulega klárlega grín hjá Margréti. Ég hélt að það hefði verið augljóst. Ég tel að við Margrét séum líklegri til að fara um landið labbandi en með fellihýsi. 🙂
Já, þetta var reyndar pínu vitlaust haft eftir mér (og ég hefði átt að leiðrétta það betur við Snæju). Pointið hjá var að ég fór með þremur vinum mínum um Suður-Ameríku í 6 mánuði. Ég er alveg á því að maður geti farið í lengri ferðir alla ævi, en það eru kannski talsvert litlar líkur á að við getum farið saman fjórir strákar einir í ferð þegar við erum fertugir. Kannski er það hægt, en það er allavegana ekki létt. 🙂
Varðandi S-Ameríku segirðu 3 vinir…Björk og Thelma voru með okkur í þessu ferðalagi í 2 mánuði þannig að í rauninni vorum þetta 5 vinir í hluta ferðalagsins.
Varðandi Rússlandsferðina, þá er magnað að vera hent út, handjárnaður, laminn og yfirheyrður af löggunni og fá svo engar skýringar! ..spurning að maður setji Rússland aðeins neðar á to-do listann sinn.
Flott viðtal… og gaman að lesa bloggið þitt… mæli með Ástralíu við tækifæri en þú þarft góðan tíma þar.. 🙂
Góða skemtun um páskana, hlakka til að lesa ferðasöguna.