Þá erum við Margrét komin að strönd Miðjarðarhafsins í Alexandríu. Þessari ótrúlega sögufrægu borg, sem hefur þó því miður ekkert að sýna fyrir frægustu staðina. Vitinn er löngu hruninn og bókasafnið löngu brunnið. En í stað þess er Alexandríu nokkuð falleg stórborg, sem er talsvert ólík Kaíró.
Hér í úthverfunum blöstu strax við falleg hús, sem eru ólík hinum endalausu rauðu múrsteins húsum, sem við sáum í Kaíró. Um leið og við vorum komin út fyrir miðbæ Kaíró blöstu við okkur *alls staðar* byggingar, þar sem að hæðir og burðarbitar voru steyptir en veggir hlaðnir úr rauðum múrsteinum. Þannig var þetta útum allt, þúsundir bygginga, sem voru nákvæmlega eins. Flestallar ókláraðar, annaðhvort alveg ókláraðar eða þá að efsta hæðin var ókláruð með vírum sem stóðu uppúr. Ég las einhvers staðar að það væri vegna skattamála, það er víst eitthvað ódýrara að klára ekki byggingarnar alveg. Slíkt veldur því að fyrir utan elsta hlutann í Kaíró er allt ókláraðar rauðar byggingar.
Þetta var nokkuð áberandi þegar við keyrðum á milli píramída í gær. Alveg einsog í Kambódíu var ekki laust við að manni finndist hálf sorglegt að sjá, í bland við stórkostlegar ævafornar byggingar, ömurlegar byggingar nútímans. En Kaíró hefur auðvitað þanist út svo stórkostlega síðustu ár og þangað flytur aðallega fátækt fólk, sem hefur ekki efni á öðru. Þannig að þróunin er kannski skiljanleg þó hún sé sorgleg.
* * *
Píramídarnir eru auðvitað aðalástæða fyrir því að flestir túristar koma til Egyptalands. Sól og píramídar. Gærdagurinn hjá okkur var ágætis blanda af því tvennu.
Píramídarnir í Giza eru á meðal um 100 píramída, sem að enn standa í Egyptalandi. Við leigðum okkur í gær leigubíl, sem keyrði okkur um þá helstu í nágrenni Kaíró. Fyrstur var “Step Pyramid“, sem var byggður fyrir faróann Djóser árið 2.630 fyrir Krist og er talinn vera elsta stóra steinbygging í heiminum. Píramídarnir í Gíza spruttu ekki upp fullskapaðir, heldur voru í Egyptalandi byggðir þónokkrir píramídar fyrir þann tíma. Smám saman tókst arkitektunum að fullkomna listina. Eftir það skoðuðum við leifar borgarinnar Memphis og þaðan fórum við að Rauða og skakka píramídunum. Sá skakki er skakkur vegna þess að arkitektarnir áttuðu sig þegar að verkið var hálfnað að þeir höfðu verið full bjartsýnir og þurftu því að minnka hallann á efsta hlutanum. Sá Rauði er svo þriðji stærsti píramídinn í Egyptalandi. Við fórum inní þann píramída, sem var nokkuð spennandi. Við klifruðum niður löng göng þangað til að við stóðum inní miðjum píramídanum í litlu plássi.
Allir þessir píramídar voru góð upphitun fyrir Píramídana í Gíza. Þeir eru auðvitað aðalmálið. Ég hafði heyrt alls konar hryllingssögur af því hvernig svæðið þar væri, en það var alls ekki jafn slæmt og ég hélt. Svæðið er þó smá einkennilegt því að ólíkt því sem ætla mætti af myndum, þá eru píramídarnir í raun inní miðri borg. Gíza borgin er komin alveg uppað píramídunum og það gerir upplifunina skrýtna. Svo er þar auðvitað fullt af sölumönnum og úlfaldaköppum, en þeir voru ekkert jafn ægilegir og okkur hafði verið sagt.
Píramídarnir eru auðvitað (það þarf varla að taka það fram) stórkostlegir.
Ég var ekki alveg viss hverju ég ætti að búast við. Ég hef jú séð flesta af hinum merkilegustu píramídum heims (Teotihuacan og Chichen Itza í Mexíkó og Tikal í Gvatemala). En þeir í Egyptalandi eiga þó klárlega vinninginn. Sérstaklega þegar að maður tekur það með í reikninginn að þeir voru gerðir sirka 2.300 fyrir Krist, sem er um 2.700 árum áður en að píramídar Maya-nna voru gerðir. **2.700 árum áður**.
Á þessum 4.300 árum, sem að píramídarnir hafa staðið þarna í Giza hefur auðvitað barið á þeim. Þeir eru um 10 metrum lægri en þeir voru í upphafi (í kringum 150 metrar í dag) og efsta laginu af þeim hefur nánast öllu verið stolið (fyrir utan toppnum á minni píramídanum). Í fjarlægð virka þeir fullkomnir, en það er í raun enn magnaðara að sjá þá nálægt þegar að maður sér hversu mikið sést á þeim. Þetta eru stórkostlegar byggingar og sennilega fátt í heiminum, sem jafnast við þá upplifun að sjá þá í fyrsta skiptið. Fyrir framan þá situr svo Sfinxinn, sem er minni en allir halda að hann sé, en samt magnaður. Skeggið er jú á British Museum og nefið var dottið af fyrir 1.000 árum, en hann stendur samt fyrir sínu.
* * *
Eftir þennan píramída-túr þá eyddum við síðasta kvöldinu í Kaíró á Abu Simbel, frábærum egypskum veitingastað. Í morgun vaknaði Margrét þó með magapest og kölluðum við á lækni fyrir hana. Hún er auðvitað ekki alveg jafn vön ferðalögum og ég og maginn hennar virðist ekki samþykkja matinn alveg eins auðveldlega og minn magi. Við keyrðum þó samt hingað til Alexandríu þar sem við erum búin að koma okkur fyrir á hóteli við Corniche strandgötuna. Margrét er uppá herbergi og hún verður vonandi orðin nógu hress á morgun til þess að halda áfram fjörinu.
*Skrifað í Alexandríu, Egyptalandi klukkan 20.18*
Sæll Einar og takk fyrir þetta frábæra ferðablogg….eins og ég hef sagt áður þá er eins og maður sé á staðnum, eða allt að því !
Ég bið kærlega að heilsa Margréti og óska henni góðs bata.
Kærleikskveðja frá mér 🙂
Hæ gaman að lesa blogið þitt . Þetta hlýtur að vera meiriháttar. Skilaðu kveju til Margrétar frá mér. Knús og kram
Björg
Hæ. Hlakka til að heyra einhverjar köfunarsögur frá Egyptalandi. Hvenær ætlið þið að kafa? Annars alltaf gaman að fylgjast með ykkur á ferðalagastússinu,.. maður fylgir ykkur “virtually” eftir.
Kv. frá Skáni.
Borgþór og bura.
Takk takk.