Við Margrét sitjum hérna inná hóteli núna þegar að aðeins nokkrir tímar eru eftir af fríinu okkar. Klukkan 11 í kvöld eigum við flug til Kaíró og þaðan til Amsterdam og svo til Stokkhólms þar sem við eigum að lenda á hádegi á morgun.
Við höfum verið hérna í Sharm El-Sheikh í 5 daga og þetta hefur verið frábær tími. Tímanum hefur verið skipt á milli sólbaðs og köfunnar. 2,5 dagar í sólbaði og 2,5 dagar í köfun. Þessi tími í sólbaði er svo sannarlega nógu langur fyrir mig – ég mun seint skilja hvernig fólk endist mikið lengur í fríi við sundlaugarbakka.
Hápunktarnir hérna hafa klárlega verið kafanirnar hérna í Rauða Hafinu. Við höfum kafað sex sinnum hérna. Fyrsta köfunin var bara tékk-köfun, sem maður þarf oftast að fara ef langt er liðið síðan að maður kafaði síðast, þar sem við köfuðum bara við lítið rif hérna rétt hjá hótelinu. Við höfum svo farið í tvær dagsferðir þar sem við höfum kafað í þjóðgörðum hérna í nágrenni Sharm. Í fyrra skiptið vorum við í hinum fræga Ras Mohammed garði þar sem við köfuðum tvisvar og í gær köfuðum við þrisvar í Strait of Tiran.
Bæði skiptin voru stórkostleg. Ég hef farið í um 16 kafanir um ævina og það kemur mér alltaf á óvart hversu ótrúlega skemmtilegt þetta sport er. Bara það að geta verið á 20 metra dýpi í nánast algjöru þyngdarleysi og svifið þar um er nógu skemmtilegt. Þegar maður svo bætir við jafn stórkostlegu dýra- og plöntulífi einsog er hérna í Rauða Hafinu og þá eru fáar upplifanir sem að jafnast við það. Í gær vorum við með strák, sem tók myndir af okkur í köfununum og þær segja kannski meira en mörg orð og ég mun reyna að setja myndirnar inn þegar við komum heim en dýralífið var ótrúlegt. Við sáum endalaust magn af fiskum og skjaldbökum.
Ég hef núna kafað við strendur Belize, Indónesíu og Egyptalands og ég verð að segja að Rauða Hafið hefur vinninginn. Við erum þó bara búin að kafa á nokkrum af þeim fjölmörgu frábæru stöðum sem eru hérna í nágrenninu og seinna stefnum við á að koma aftur og kafa þá meðal annars í frægu skipsflaki, sem liggur hér nálægt.
*Skrifað í Sharm El-Sheikh, Egyptalandi klukkan 17*
Mjög gaman að lesa ferðasöguna ykkar. Rauða hafið er náttúrulega bara snilld, skil vel að ykkur langi til þess að koma aftur og kafa meira þarna.