Fyrstu dagarnir með iPad

iPad-inn minn
Ég er búinn að eiga iPad í um þrjár vikur.  Vinkona mín keypti einn slíkan fyrir mig í Bandaríkjunum og kom með hann hingað til Stokkhólms.  Það er eflaust hægt að finna milljón greinar um iPad, en ég ætla samt að bæta aðeins við þá flóru og taka saman nokkra punkta um mínar tilfinningar gagnvart þessu tæki.

Einsog öllum, sem lesa þessa síðu reglulega, ætti að vera ljóst er ég forfallinn tækjasjúklingur og hef notað Apple vörur í áratugi (úff, ég fékk mína fyrstu Macintosh Plus tölvu þegar ég var 10-11 ára).  Ég er Apple-nörd og ég geri mér alveg grein fyrir því hversu fáránlegt það er að kaupa iPad þegar að maður á nú þegar iPhone og Apple fartölvu.

  • Ég borgaði um 550 dollara fyrir iPadinn (500 + skattur), sem eru um 4.300 sænskar.  Það er minna en flestar Netbook fartölvur kosta hérna í Svíþjóð.  Ég hef einmitt keypt tvær Windows netbook fartölvur fyrir Serrano og þær eru báðar fokking drasl.
  • iPad hefur ekki breytt lífi mínu og ég gæti vel lifað án iPad.   Þetta er kannski ekki merkar yfirlýsingar, en ég gæti hins vegar sagt að iPhone-inn minn hafi algjörlega breytt því hvernig ég virka dags daglega og þegar ég hef reynt að lifa án hans í nokkra daga þá finnst mér allir símar og öll tæki vera ómöguleg.  iPad er ágæt viðbót, en alls engin bylting einsog iPhone hefur verið í mínu lífi.
  • Ég nota iPad nánast eingöngu þegar að ég sit í sófanum og er að lesa blogg, lengri greinar eða tölvupóst.  Ég held að án efa sé þetta besta tækið, sem ég hef fundið fyrir slíkt.  Að nota forrit einsog NetNewsWire (RSS lesari) og Instapaper (sem vistar lengri greinar og gerir þær auðlæsilegri) er algjörlega frábært.  Það að halda á skjánum og hafa hann fyrir framan sig er einfaldlega miklu þægilegra en að lesa á fartölvu.  Plús það að iPad hitnar nánast ekki neitt, öfugt við til dæmis fartölvuna mína.
  • iPad held ég að myndi aldrei nokkurn tímann koma í staðinn fyrir tölvu á heimilið.  Hann er ágætis viðbót, en ég gæti varla mælt með kaupum á iPad nema ef að fólk hugsar sér hann sem viðbót við núverandi tölvu.
  • Það er ferlega tímafrekt og leiðinlegt að skrifa á iPad skjá lyklaborðið.  Ég er í raun mun fljótari að skrifa á iPhone-inn minn með þumlunum.  Að vissu leyti er það 3- ára reynsla af iPhone, en svo er bara eitthvað óþægilegt við iPad lyklaborðið og stærðina á því.  Auk þess eru íslenskir stafir óþægilegir (það þarf að halda niðri D til að fá Ð og svo framvegis) sem hægir enn frekar á skrifunum.  Ég nenni varla að skrifa meira en 1 línu email á iPad.
  • Það er ótrúlega þægilegt að horfa á vídeó á iPad – stundum finnst mér þægilegra að gera það en á sjónvarpi.  Youtube forritið er algjör snilld, en það er frekar pirrandi að maður þurfi að synca sjónvarpsþætti úr iTunes til að horfa á þá.  Ég er bara með 16 gb minni á mínum iPad og það dugar skammt.  Betra væri ef hægt væri að stream-a efni úr iTunes safninu mínu, svo að ég þyrfti ekki alltaf að tengja iPadinn við tölvuna mína til þess að fá nýja þætti.  Ég trúi ekki öðru en að einhver hjá Apple sé sammála mér.
  • Helsti gallinn við iPad enn sem komið er er aðallega að það eru ekki nógu mörg spennandi forrit til.  Ég fór í gegnum þetta og það eru ekki nema 5 forrit, sem ég hef keypt mér og nota reglulega: NetNewsWire til að lesa blogg, Instapaper fyrir lengri greinar, Dropbox til að færa skrár inná iPadinn, Twitteriffic til að lesa Twitter og ESPN Score center til að skoða ESPN.  Fleira er það varla.  Ég er jú með Evernote, Gowalla og eitthvað fleira þarna inná, en ég nota þau forrit mun meira á iPhone en iPad.

    Þetta mun þó væntanlega breytast.  Ég get til að mynda ekki beðið eftir því að fá SVT (sænska ríkissjónvarpið) forrit á iPadinn.  Þeir eru með algjörlega frábært forrit fyrir iPhone (sem virkar því á iPad), en myndgæðin eru of léleg til að njóta á iPad.

  • Ég hef ekki enn prófað skemmtilega eða spennandi leiki á iPadinum, en ég er viss um að þeir muni koma. Flestir sem ég var spenntur fyrir (Plants vs Zombies t.d.) eru leikir, sem passa einhvern veginn alveg jafn vel á iPhone.

Semsagt, iPad er frábært tæki í vissum tilfellum.  Ég tek ekki lengur fartölvuna heim með mér úr vinnunni, heldur skoða ég frekar póst og RSS á iPad-inum einfaldlega vegna þess að það er skemmtilegra og þægilegra.

Og þetta tæki hefur öll tækifæri til að verða enn frábærara þegar að forritin verða betri.  Þetta kemur ekki í stað fyrir heimilistölvuna, en er frábær viðbót fyrir þá sem eru jafn tækjasjúkir og ég.

11 thoughts on “Fyrstu dagarnir með iPad”

  1. Tékkaðu á AirVideo appinu til að streyma í iPaddinn sjónvarpsefni … nota það fyrir iPoddinn minn litla, algjör snilld.

  2. Já, ég skrifaði þessa færslu í gær og í gærkvöldi var ég akkúrat í partíi þar sem ég var bent á þetta forrit. Ég er búinn að kaupa það og er að setja inn núna.

  3. Búinn að prófa þetta. Gallinn er að ég get ekki horft á myndbönd, sem ég hef keypt í iTunes þar sem þau eru DRM varin. Það er fáránlega óþolandi.

  4. Hvada lyklabordsstilling leyfir tér ad fá dt tegar tu heldur d inni?

  5. Nei, sorrí Halldór – það er auðvitað stafurinn sem að virkar ekki. Ég var að meina í og á og alla þá stafi. Mitt rugl.

    En pointið var að jafnvel þegar að það verður komið í lag, þá er það mjög leiðinlegt að þurfa að halda inni takka til að fá íslenska stafi. Ég hef vanist því á iPhone, en á iPad væri það bara fáránlegt.

  6. Sæll Einar

    Gaman að lesa bloggið þitt – takk fyrir flottar síður 🙂
    Mig langar að spyja þig hvort þú hefur tök á því að ráðleggja mér.
    Ég er að undirbúa viku snorkelferð fyrir okkur hjónin í haust til Sharm El Sheikh og er að leita að góðu hóteli, 13 ára dóttir okkar fer með okkur. Er að leita að hóteli þar sem stutt er í snorkel.
    Ég sá að þú ert nýkomin þaðan, getur þú mælt með góðu hóteli, mér skilst að sum hótelin eru yfirfull af yfirgengilega frekum rússum:-)

    kær kveðja,
    Ágústa

  7. Sælir,
    Nú væri gaman að fá aðra grein frá þér um iPad.
    Þú fékkst gripinn í byrjun Maí og því komin 5 mánaða reynsla á hann og gaman að sjá hvernig þróunin hefur verið !

    Ég gaf konunni iPad í afmælisgjöf fyrr í sumar og hún er algjörlega heilluð.

    Bestu kveðjur til Stockholm
    GJ

  8. Já, það er svo sem ekki svo miklu að bæta við þetta. Notkunin hefur verið nokkurn veginn einsog ég bjóst við – ekki svo brjálæðislega mikil. Aðallagea á kvöldin þegar ég er að lesa blogg eða annað á netinu. Mér finnst forritin þó ennþá alltof takmörkuð og ekki nógu spennandi til þess að ég fari að nota tækið mikið meira.

  9. Sæll,

    rambaði inná bloggið þitt, vel skrifað og gaman að fylgjast með ævintýrum þínum í gamla heimalandinu mínu. Var þarna við tónlistarnám áður fyrr.

    Allavega, smá iPad tips sem þú ert eflaust búinn að fá en here goes:

    AirVideo Server er forrit sem gerir þér kleyft að stríma kvikmyndir úr hvaða tölvu sem er (sem er með forritinu uppsettu) yfir í iPadinn þinn. Snilld.

    kveðja,
    Kristinn Snær

  10. Takk fyrir þetta, Kristinn. Ég var búinn að tékka á þessu. Mestallt af mínu efni er samt keypt löglega í gegnum iTunes og AirVideo virkar ekki fyrir það, því miður.

Comments are closed.