Markaðurinn í Mexíkóborg

Central de Abasto

Hjá Kottke rakst ég á þessa færslu þar sem fjallað er um aðalmarkaðinn í Mexíkóborg, Cental de Abasto.

Central de Abasto er risavaxinn markaður, alls um 3,3 ferkílómetrar að stærð.  Þar er hægt að fá nánast allt, sem manni getur dottið í hug.  Inná markaðinum eru 2.230 básar sem selja allt.  Markaðurinn hefur meira að segja sína eigin lögreglu með um 700 lögregluþjóna.

Ég hef afrekað það að vinna á þessum markaði á nánast hverjum degi eitt sumar þegar ég vann í Mexíkó.  Þá vann ég hjá sælgætisfyrirtæki og markaðurinn var mikilvægur söluaðili fyrir okkur.  Í Mexíkóborg er það nefnilega þannig að stór hluti af sælgæti er seldur af gríðarlegum fjölda sölumanna, sem að labbar um borgina eða situr á teppi og selur nokkrar tegundir af tyggjói, sígarettum og sælgæti.  Öfugt við Ísland þar sem oftast er nóg að tala við 2-3 aðila til að fá góðan markað fyrir nýjar vörur, þá þurftum við að höfða til þessara tugþúsunda sölumanna til að kynna okkar vöru.

Til þess vorum við með nokkrar stelpur, sem unnu á markaðinum á hverjum degi við að kynna okkar sælgæti.  Mitt hlutverk var að fara á markaðinn og sjá hvernig þeim gekk, hvernig þær seldu, og þjálfa nýtt sölufólk (sem voru alltaf stelpur).  Hálf vinnuvikan mín fór fram á Central de Abasto, en einnig heimsótti ég kynningarstelpur okkar sem unnu í öðrum búðum og mörkuðum í Mexíkóborg.  Þetta var einstaklega skemmtilegt starf (allavegana í minningunni) og þarna lærði ég ansi mikið um sölustörf, sem hefur nýst mér. Ég fékk að sjá ansi stóran hluta borgarinnar með þessu og ég kynntist annari hlið af Mexíkóborg en túristarnir gera.

Myndin við færsluna tók ég af sölubás í Central de Abasto árið 1997.

2 thoughts on “Markaðurinn í Mexíkóborg”

  1. Ég bý einmitt í Mexíkóborg um þessar mundir, hef reyndar verið hér síðustu þrjú árin. Central de Abasto er ótrúlegt fyrirbæri, maður gæti rölt þar um í nokkra daga án þess að sjá allt sem er til sölu.

    Gaman að sjá bloggað á íslensku um þessa miklu borg. Leit aðeins yfir þessa síðu og sá að þú kannt að meta tacos al pastor, það verður einmitt eitt af því erfiðasta við að yfirgefa þetta land að skilja við allan þennan dásamlega mexíkanska mat 🙂

  2. Jamm, ég sakna matarins í Mexíkóborg mikið. Ég hef farið á marga mexíkóska veitingastaði, sem segjast vera “ekta” en aldrei fengið jafngóða tacos og á götunni í Mexíkóborg.

Comments are closed.