Núna er tæp vika í hálf maraþonið hérna í Stokkhólmi. Ég hef verið að undirbúa mig síðustu 10 vikur með því að hlaupa þrískipt prógramm þrjá daga í hverri viku.
Þetta hefur gengið misjafnlega. Prógrammið er semsagt þrískipt:
– Sprettir: 400, 800 eða 1600 metra. Ég hef ekki átt í miklu erfiðleika með þá (400 metra á 90 sekúndum, 800 metra á 3.03 og 1600 metra á 6.27).
– Lengri hlaup á hægu tempói. Þetta eru hlaup frá 10 og uppí 19km á tempói, sem samsvarar 5 mínútum og 7 sekúndum á hvern kílómeter. Þetta hefur ekki verið neitt sérstaklega erfitt.
– Milli-vegalengdir á hröðu tempói. Það eru 6-13km hlaup á tempóinu 4.20 per kílómeter. Ég hef átt í bullandi erfiðleikum með þessi hlaup. Í dag náði ég í fyrsta skipti að klára 10km hlaup nokkurn veginn skammarlaust. Þessi slappi árangur í þessum hlaupum hefur gert mig aðeins stressaðan fyrir sjálft hlaupið næsta laugardag.
Í gegnum þessar vikur þá hef ég haldið utanum allt með því að nota Runkeeper forritið í iPhone símanum mínum. Síminn er með GPS og Runkeeper forritið heldur utanum hlaupaleiðir og tíma. Forritið getur líka hjálpað manni því ég set inní það hraðann sem ég ætla að hlaupa á og forritið lætur mig vita á 500 metra fresti (eða hversu oft sem ég vel) hvernig ég standi mig miðað við hraðann, sem ég ætlaði að hlaupa á. Þetta hefur algerlega haldið mér við efnið í sumar – og ég á bágt með að skilja hvernig ég gat nokkurn tímann hlaupið án forritsins.
Auk þess þá fær maður þessa fínu heimasíðu á Runkeeper.com þar sem maður getur flett upp gömlum hlaupum, teiknað upp og mælt nýjar hlaupaleiðir og fleira. Síðan tekur einnig saman fyrir mann tölfræði um hvað maður hefur hlaupið mikið. Samkvæmt henni þá hljóp ég t.a.m. 140 kílómetra í ágúst. Ég mæli með þessu fyrir alla, sem hafa áhuga á hlaupum.
Annars var í gær Tjejmilen hlaupið í Stokkhólmi, sem er risa kvennahlaup þar sem 26.000 konur taka þátt. Margrét Rós tók þátt og náði léttilega þeim tíma, sem hún hafði ætlað sér að ná. Hún var því klárlega hetja dagsins hérna á Götgötunni.
Ertu ad nota Pro utgafuna af RunKeeper? Ef svo, mælir tu med ad update-a?
Jamm, ég er að nota pro útgáfuna. Mig minnir að venjulega útgáfan boði ekki uppá “target pace”, sem er alveg nauðsynlegt til að klára það prógramm, sem ég er í.
Þannig að já, ég mæli hiklaust með því að uppfæra í Pro.