Einsog ég skrifaði í fyrri hluta bloggsins um Rómarferðina, þá er nánast ómögulegt að skrifa ferðablogg þegar maður er kominn heim. Það á enn meira við núna þegar yfir mánuður er liðinn frá sjálfri ferðinni. Ég ætla að reyna að koma þessu frá mér með punktabloggi.
- Það skemmtilegasta við Róm er ekki Vatíkanið eða Colosseo, heldur að labba um endalausar götur, horfa á mannlíf, borða ís og njóta þess að vera í Róm. Bestu stundirnar okkar í Róm voru þannig. Róm hefur auðvitað alla þessa heimsþekktu túristastaði, en auk þess er yndislegt að bara vera í borginni.
- Maturinn í Róm er frábær. Við borðuðum nokkrar máltíðir, sem ég myndi telja með þeim betri sem ég hef borðað á ævinni. Reyndar fannst mér aðalrétturinn oftast sísti hluti máltíðarinnar. Forréttir og pasta voru vanalega betri. Guð minn góður hvað pastað var gott.
- Villa Borghese er stórkostlegt listasafn. Á ferðalögum fær maður oft óþol fyrir málverkum og listaverkum eftir að hafa heimsótt 2-3 söfn. En það er hreinlega ómögulegt að verða ekki heillaður af höggmyndum Bernini í Villa Borghese. Þær eru stórkostlegar. Það að sjá Appollo og Daphne á ljósmynd er ekki svo merkilegt, en að sjá þessar höggmyndir fyrir framan sig er stórkostlegt.
- Ís í Róm er æðislegur. Ef ég byggi í Róm væri ég eflaust 150 kíló af öllu þessu pasta og ísáti og allri þessari víndrykkju. Allavegana ef ég hegðaði mér einsog túristi sérhvern dag. Sem Ítalir sennilega gera ekki.
- Laugardagskvöldið í Róm var eitt besta kvöld ævi minnar.
- Við Margrét borðuðum stórkostlegan mat á veitingastað rétt hjá hótelinu. Svo löbbuðum við um nágrennið og á tómri götu rétt hjá Spænsku Tröppunum bað ég hana að giftast mér. Hún sagði já.
- Við löbbuðum yfir á næsta veitingastað, pöntuðum þar kampavínsflösku, drukkum fyrsta glasið á veitingastaðnum og tókum svo flöskuna með okkur og drukkum kampavín á Spænsku Tröppunum. Þetta var svoooo skemmtilegt.
- Margrét er auðvitað skemmtilegasta, klárasta, sætasta og besta stelpa í heimi. Og nú er hún mín. Brúðkaup verður auglýst síðar.
*Skrifað í Stokkhólmi*
Kvenmenn!
Hættið svo að röfla um órómantíska karlkyns knattspyrnuáhugamenn. Þetta er mýta. Mýta segi ég!
Ehemm…til hamingju bæði.
Vá hvað ég er þér sammamála ” Margrét er auðvitað skemmtilegasta, klárasta, sætasta og besta stelpa í heimi” Þú ert nú alveg frábær sjálfur og þið passið frábærlega vel saman . Þetta verður bara gaman hjá ykkur.
KK Tilvonandi tegdó.
Flott mynd og innilega til hamingju með þetta:-)
Takk öll. 🙂
Maður er búinn að fylgjast með blogginu þínu það lengi sem áhorfandi á hliðarlínunni, að svona fregnir eru eins og frábær endir á skáldsögu eða góðri bíómynd, nema þetta er raunverulegt! Mjög súrrealískt en samt snilld, að fá að fylgjast með því sem drífur daga þína þó maður þekki þig ekki!
Innilega til hamingju bæði tvö!
Best í heimi!! svo glöð fyrir ykkar hönd & þennan frábæra endi á “sögunni”*
Takk Elín og HHG 🙂
Já,.. hljómar eins og þetta hafi verið hin fullkomna ferð. Innilega til hamingju með trúlofunina og þið eigið bæði hvort annað skilið. Hlökkum til að mæta í brúðkaupið ykkar sem ég býst við að verði næsta sumar,.. eller?
Kv. Borgþór og fjölsk.
Innilega til hamingju með þennan áfanga í lífinu…
Takk kærlega. 🙂