Fyrir ferðina hingað til Indlands keypti ég mér þráðlaust lyklaborð. Það lyklaborð tengi ég með bluetooth við iPhone símann minn og get ég því skrifað bloggfærslur beint inná símann. Þetta gerir mér kleift að sitja hérna uppi á þaki gistiheimilsins í Jodhpur með bara lyklaborð í fanginu og blogga um atburði síðustu daga. Í stað þess að hanga inná rykfylltu internetkaffi, þá sit ég hér úti í sólinni og blogga.
Hótelið okkar í Jodhpur er í gamla miðbænum og fyrir framan mig sé ég Meherangarh virkið gnæfa yfir borginni. Í fjarska heyri ég bænaköll frá þremur ólíkum moskum og í húsi rétt hjá var áðan brúðkaupspartí með tilheyrandi söng.
* * *
Glöggir lesendur taka eflaust eftir því að þessi færsla heitir “Indlandsferð” en ekki því metnaðarfulla nafni “Suður-Asíuferð”. Fyrir því er auðvitað ástæða. Upphaflega var planið að eyða 2 mánuðum á Indlandi, Nepal, Bútan og Bangladess, en okkur þótti það á endanum of mikið og við kipptum Nepal út. Þegar við tókum aðeins saman hvað okkur langaði að sjá á Indlandi þá ákváðum við á endanum að sleppa Bútan líka. Landið er gríðarlega dýrt og okkur fannst Indlands-yfirferðin of hröð til að ná inn nokkrum dögum í Bútan. Þannig að við munum halda okkur við Indland, með smá stoppi í Bangladess. Einnig höfum við hætt við Suður-Indland – við ætluðum að enda á Goa – og enda þess í stað á hinum afskekktu Andaman eyjum, sem eru í Bengal flóa nálægt Myanmar. Þar er lítið annað en blár sjór, hvítar strendur og kóralrif.
* * *
Við komum hingað til Jodhpur í gærkvöldi með taxa frá Udaipur. Við tókum taxa hingað til þess að geta stoppað á leiðinni á tveimur merkum stöðum. Fyrst í Kumbalgarh virkinu um 80 km fyrir norðan Udaipur. Þetta er eitt stærsta virkið á Indlandi, byggt á 15. öld. Í kringum það er 36 kílómetrar af múr, sem leigubílstjórinn sagði okkur að gerði hann að næst-stærsta múr í heimi. Ég veit ekki hversu áreiðanlegar heimildir hann hefur fyrir því. Næsta stopp var svo hjá Ranakpur hofinu. Ranakpur er Jain hof, sem var byggt árið 1439 og inní því eru ótrúlega miklar og fallegar marmaraskreytingar. Hofið er á fallegum stað í dal ekki svo langt frá Kumbalargh.
Hofið er byggt af fólki, sem tilheyrir Jain trúarbrögðunum, sem um 1% Indverja aðhyllast. Þrátt fyrir að vera ekki stærri þá eru þessi trúarbrögð nokkuð áberandi og mörg falleg hof standa þeim til heiðurs enda voru þau vinsælli meðal Indverja áður. Þau eru ekki ósvipuð Hindúisma (og margir sem áður aðhylltust Jain hafa fært sig til Hindúisma) – í þeim er mikil áhersla á friðsemi og mega iðkendur ekki drepa neinar lifandi verur. Þeir borða ekki kjöt, reyna að forðast að drepa skordýr og svo framvegis. Áður en við fengum að fara inní hofið þurfti ég að taka af mér leðurbeltið mitt.
Á milli Ranakpur og Jodhpur stoppuðum við á miðjum sveitavegnum til þess að hyllla Mótorhjólaguðinn. Fyrir einhverjum 30 árum lést þar mótorhjólakappi. Stuttu eftir andlátið tók mótorhjólið hans uppá því að keyra sjálft aftur á slysstað og auk þess fjölgaði slysum í nágrenninu mikið. Hinn látni mótorhjólakappi birtist bróður sínum í draumi og tilkynnti honum að bílstjórar þyrftu að reisa sér til heiðurs skríni og byrja að tilbiðja sig og mótorhjólið. Þannig að í dag stendur þarna blómaskreytt hjólið og skríni tileinkað mótorhjólaguðnum. Bílstjórar votta því virðingu sína annaðhvort með því að stoppa, hella viskí á skrínið (gott að vita að allir bílstjórar hafi viskí á sér) eða flauta vel og lengi þegar þeir keyra þarna framhjá.
* * *
Við vorum í Udaipur í 4 daga og dvölin þar var frábær. Udaipur er ótrúlega falleg borg, sem liggur við Pichola vatn. Frægast í Udaipur er sennilega hin hvíta Vatnshöll, sem er á miðju vatninu.
Udaipur varð pínu fræg þegar að stór hluti James Bond myndarinnar Octopussy var tekin upp þar. Sú mynd er sýnd á hverju gistiheimili í borginni á hverju kvöldi og við ákváðum að sjá hvernig borgin kæmi út í henni. Ég man að sirka 8 ára gömlum Einari Erni fannst Octopussy vera stórkostleg mynd. Hún hefur hins vegar elst með ólíkindum illa og er í dag frekar illa leikin della. Þeir sem muna eftir myndinni vita auðvitað að enginn hluti hennar gerist í Udaipur, heldur í Delhi. Semsagt, sá hluti myndarinnar sem gerist í Delhi er tekinn uppí Udaipur – þrátt fyrir smáatriði einsog þau að í Delhi er ekkert stöðuvatn. Framleiðendurnir gerðu greinilega ekki ráð fyrir að fólk vissi mikið um Indland.
Við tókum því frekar rólega í Udaipur. Við skoðuðum hina mögnuðu Borgarhöll, sem að er bústaður kónganna úr Sisodia fjölskyldunni, sem er sennilega sú konungsfjölskylda sem hefur setið hvað lengst – núverandi kóngur er ættliður númer 67 í röð konunga. Völd þeirra eru þó lítil í dag. Höllin er að hluta til safn og hún er gríðarlega falleg.
Við fórum líka í bátsferð á Pichola vatni, sigldum þar framhjá Vatnshöllinni (það má ekki fara á land þar í kjölfar Mumbai hryðjuverkanna – einungis hótelgestir mega vera þar) og stoppuðum svo á eyjunni þar sem að Jag Mandir höllin er (þar sem að Octopussy og gellurnar hennar bjuggu).
Við borðuðum líka ótrúlega góðan mat á fallegum veitingastöðum með útsýni yfir vatnið og svo lærðum við að elda indverska grænmetisrétti á stuttu matreiðslunámskeiði sem við fórum á heima hjá konu eigenda gistiheimilisins.
* * *
Einna eftirminnilegast frá Udaipur var svo heimsókn okkar á dýraspítala í nágrenni borgarinnar. Spítalinn er rekinn af bandarískum hjónum og hýsir hundruði veikra og slasaðra götudýra frá Udaipur. Mest er þarna af götuhundum, sem hefur verið keyrt yfir og af veikum götubeljum. Kýr eru jú heilagar hérna á Indlandi og því eru þær ekki drepnar. Þegar að mjólkurkýr geta ekki mjólkað almennilega er þeim oft bara sleppt. Þær enda inní borgum þar sem enginn þorir að gera þeim neitt og éta þar mat af ruslahaugum.
Þær átta sig ekki á því að plastpokar eru ekki matur og því enda þær með tugi plastpoka í maganum, sem gerir þeim smám saman lífið óbærilegt. Einsog eigandi spítaland orðaði það við okkur þá er virðing Indverja fyrir kúnum að stóru hluta fólgin í því að þeir eru ekki vondir við þær – en þeir eru ekkert sérstaklega góðir við þær heldur. Það er ekki keyrt á þær, en þær lifa sennilega heldur ekki mjög góðu lífi í stórborgunum.
Götuhundar eru önnur saga – á þá er keyrt og fáum þykir sérstaklega mikið til þeirra koma. Þeir eru flestir úrkynjaðir og borða af ruslahaugum. Flestir þeirra hunda sem eru á spítalanum eru annaðhvort með meltingarsjúkdóma (sem þýðir að þeir geta engan mat borðað) eða hafa lent undir bíl og eru því annaðhvort án fóta eða geta ekki labbað almennilega af öðrum ástæðum (hundurinn á myndinni hér að neðan var ekki með neina afturfætur). Við buðumst til að vinna þarna sem sjálfboðaliðar (eitthvað sem mér hefði ekki dottið í hug án Margrétar) og okkar verk var að sitja í nokkra klukkutíma úti með nokkrum hundum og klappa þeim.
Þetta hljómar furðulega, en þessir hundar hafa alist upp við að fá enga umhyggju, sem þeir virðast þrá, því við þurftum bara að vera þarna í nokkrar mínútur áður en þeir voru orðnir okkar bestu vinir og kepptust um að láta klappa sér. Það var með ólíkindum hversu lítið við þurftum að gera til að gera þá glaða í smá stund. Það eru oft svona hlutir, sem manni hefði aldrei dottið í hug að gera, sem gera svona ferðalög svo skemmtileg og gefandi.
*Skrifað í Jodhpur á Indlandi klukkan 17.40*
Ánægður með ykkur!!
Ef þú setur fleiri myndir með þessum fínu bloggum þá mynduru bæta upplifun lesandans mikið með lítið meiri fyrirhöfn..
Gangi ykkur vel.