Hraðinn á ferðalaginu okkar hefur heldur betur aukist eftir að Margrét var útskrifuð af spítala í Delhi síðasta mánudag. Núna er fimmtudagskvöld og við erum síðan þá búin að sjá Delhi, Amritsar og núna sit ég inná hóteli í Agra, um 1km frá Taj Mahal, sem við sáum í fyrsta skipti áðan.
Margrét hefur það rosa gott og hún hefur verið mjög hress eftir að hún kom útaf spítalanum. Það tók sinn tíma að klára öll okkar mál þar og við vorum ekki búin fyrr en um kl 2 um eftirmiðdaginn síðasta daginn okkar í Delhi. Við höfðum því bara 4 klukkutíma til að sjá á hluti í Delhi, sem við höfðum ekki séð. Við vorum búin að skoða Rajpath, India Gate og National Museum – og ég hafði eytt slatta tíma í vestrænum þægindum hjá Connaught Place – en annað ekki.
Við leigðum okkur því leigubíl og keyrðum um þá staði, sem uppá vantaði. Fórum fyrst í Gömlu Delhi, sem er einsog annar heimur. Þar borðuðum við frábært Kebab á Karim’s, frægum veitingastað í miðri borginni og löbbuðum svo að Jama Masjid moskunni, sem er stærsta moska Indlands. Þaðan var gott útsýni yfir í Rauða Virkið.
Frá Gömlu Delhi fórum við í suður-átt til Akshardham, sem er stærsta Hindúa hof í heimi – byggt árið 2005. Við stoppuðum stutt þar og keyrðum því næst enn lengra suður að Grafhýsi Humayun, byggt fyrir annan Mughal keisarann, Humayun. Það er magnað grafhýsi, sem sviopar að vissu leyti til Taj Mahal, sem var byggt seinna. Þaðan keyrðum við svo að Lótus Hofinu, sem er helgur staður Baha’i.
Við enduðum svo kvöldið á vestrænum mat á Friday’s og Hard Rock. Enduðum á HRC á eftir Friday’s, þar sem að hamborgarinn á Friday’s olli okkur svo stórkostlegum vonbrigðum. Ég veit að það var ekki við miklu að búast þegar að kemur að hamborgara á Indlandi, en þessi var svo slæmur að mig langaði að fara að gráta. Desert og einn Hurricane á HRC redduðu málunum.
* * *
Frá Delhi tókum við svo 5 tíma morgunlest upp til Amristar í Punjab héraði. Punjab héraði var skipt í tvennt þegar að Indlandi og Pakistan var skipt upp og gamla höfuðborg Punjab, Lahore, endaði í Pakistan. Amritsar er auðvitað þekkt fyrst og fremst vegna þess að þar er helgasti staður Síka, Gullna Hofið.
Við byrjuðum þó á því að taka okkur leigubíl að landamærum Indlands og Pakistan við Wagha. Þar fer fram á hverjum degi mögnuð athöfn, sem mig hefur lengi langað að sjá eftir að Michael Palin fjallaði um hana í ferðaþáttum sínum, sem sýndir voru á RÚV fyrir einhverjum árum. Sjá hérna á Youtube myndbrot úr þættinum. Hrein snilld.
Sitthvoru megin við landamærin eru áhorfendapallar, þar sem að almenningur getur horft á athöfnina í lok hvers dags. Þúsundir Indverja og hundruðir Pakistana (aðallega karlmenn – pallarnir þeim megin voru kynjaskiptir) mæta þarna á hverjum degi og fylgjast með látunum og hvetja sína verði. Landamæraverðirnir frá hvoru landi opna í lok dags hliðið á milli landanna og svo keppast þeir í að öskra sem lengst og vera sem mest ógnandi gagnvart hinu landinu – aðallega með einkar sérkennilegum (Monty-Python-esque) göngustíl – án þess að fara þó sentimeter yfir landamærin. Á meðan tryllast áhorfendur báðum megin. Í lokin eru svo fánar beggja landa dregnir niður og landarmærunum lokað. Þetta var mögnuð skemmtun, þótt að Gandhi hefði sennilega farið að gráta ef hann sæi hversu víggirt landamærin á milli landanna eru þarna í nágrenninu.
* * *
Við keyrðum svo að Mata musterinu í Amritsar. Ég er trúlaus og það hættir ekki að koma mér á óvartr hvað fólk er tilbúið að gera í nafni trúarinnar og hverju það er tilbúið að trúa. Mata hofið er án ef það allra skrýtnasta, sem ég hef séð á ævinni.
Hofið er byggt til heiðurs Lal Devi, sem var uppi á síðustu öld og er talin hafa gert kraftaverk. Konur, sem vilja verða ófrískar, koma þangað og biðja til hennar. Á efri hæð hofsins er svo það allra furðulegasta trúartengda fyrirbæri, sem ég hef séð. Við fórum þar í gegnum einhers konar völundarhús trúarupplifanna. Á hluta leiðarinnar þurftum við að vaða í gegnum vatn, á öðrum stöðum fengum við blessun frá gúrúum og á enn öðrum stöðum tilbað fólk risastórar plast-styttur af ullandi andlitum. Verulega furðulegt.
En það er jú líka trúarbrögðum að þakka að til eru staðir einsog Gullna Hofið í Amritsar. Það var ástæða þess að við lögðum á okkur 2 stykki 6 tíma lestarferðir til Punjab héraðs og það var svo sannarlega þess virði.
Gullna Hofið er helgasti staður Síka. Á Indlandi eru milljónir Síka og þeir eru í meirihluta í indverska hluta Punjab héraðs. Trúarbrögð Síka eru bara um 500 ára gömul og byggja á ýmsum hlutum úr Íslam og Hindúisma. Síkar trúa, ólíkt Hindúum, bara á einn Guð. Í gegnum árin hafa þeir krafist eigin ríkis, Khalistan, án árangurs. Indira Gandhi var drepin af Síka lífvörðum sínum eftir að hún réðst gegn aðskilnaðarsinnum inní Gullna Hofið árið 1984.
Gullna Hofið var byggt fyrir 250 árum og þetta litla hof er í einu orði sagt *stórkostlegt*.
Hofið stendur í miðri laug, sem að Síkar telja að sé heilög og því baðar fjöldi þeirra sig í lauginni allan daginn. Við skoðuðum Gullna Hofið bæði að kvöldi til, við sólarupprás og seinni part dags. Svo magnað er það að þrjár heimsóknir eru alls ekki of mikið. Í kringum vatnið hljómar allan daginn tónlist og bænasöngur innan úr sjálfu hofinu, sem gerir stemninguna enn magnaðri. Við fórum inní hofið (myndatökur bannaðar), þar sem allir Síkar þurfa að koma minnst einu sinni á ævinni. Hofið er pínulítið og þar rúmast á gólfinu þeir sem syngja bænasöngana og um 30-40 manns, sem koma þangað til að biðja. Fólkið í Amritsar er líka með því skemmtilegra, sem við höfum kynnst á Indlandi og það bætti við upplifunina.
* * *
Frá Amritsar tókum við í gærkvöldi næturlest hingað til Agra. Sú lest var indverskur hryllingur af verstu sort með símalandi fólki, Chai sölumönnum og öðrum látum, sem gerðu okkur ómögulegt að sofa á 16 tíma lestarferð. Við komum hingað til Agra um hádegið og eyddum hálfum deginum sofandi inná herbergi. Áðan fórum við yfir ána og horfðum á sólsetur fyrir aftan Taj Mahal. Taj Mahal er líka stórkostlegt, en ég skrifa betur um það þegar við höfum skoðað bygginguna frá öllum hliðum.
Á morgun ætlum við svo að fara til Fatehpur Sikri og á laugardaginn ætlum við að skoða Taj Mahal og fara svo til Vrindavan, þar sem við ætlum að henda málningu í Indverja í tilefni Holi hátíðarinnar.
*Skrifað í Agra, Uttar Pradesh, Indlandi klukkan 20.50*
Happy Holi!
(Minnir á Karl Pilkington. Hann var að fíla´ða!)
Varðandi landamærin og fulltrúa Ministry of Silly Walks, þá er í raun magnað að hugsa til þess að þetta er í raun sama þjóðin.
Sjúklega töff göngulag samt! Ég er byrjaður að æfa mig.
Já, Pilkington var góður í sínum þætti á Indlandi. Einkar hress og kátur og opinn fyrir öllu. Ég var að spá í að reyna að panta á sama hóteli í Agra og hann var á, en mundi ekki hvað það hét.