Indlandsferð 9: Agra og Taj Mahal

20110322-060053.jpg

Taj Mahal við sólsetur frá bakhlið

Sögufrægar byggingar eiga það til að valda ferðamönnum vonbrigðum, hvort sem þeir eru vanir eða óvanir. Ég hef ekki oft heyrt fólk lýsa yfir vonbrigðum með náttúruundur – ég hef aldrei heyrt neinn svekkja sig yfir Iguazu fossum eða Grand Canyon. En merkar byggingar vekja oft upp misjöfn viðbrögð hjá túristum. Þær eru minni en fólk átti von á eða ekki jafn fallegar eða það eru of margir ferðamenn þar og svo framvegis. Á Indlandi höfum við heyrt ferðamenn lýsa yfir vonbrigðum sínum með Taj Mahal – að sú bygging hafi einhvern veginn ekki staðist væntingar. Aðrir segja Taj Mahal vera stórkostlegt.

Það var því smá skrýtið að keyra með rickshaw bíl yfir Yamuna ána í Agra til að horfa á sólsetur við Taj Mahal. Sjálft Taj Mahal, sem ansi margir kalla fallegustu byggingu í heimi. Það er sæmilega óumdeilt að Taj Mahal er einstök bygging og fegurð allra annarra bygginga í heiminum er miðuð út frá þessu merka grafhýsi í Agra á Indlandi.

Á fimmtudaginn, stuttu eftir að við komum til Agra keyrðum við semsagt yfir ána og yfir í garð þar sem er ágætis útsýni yfir bakhliðina á Taj Mahal og sáum bygginguna breyta um lit við sólsetur.

Á laugardagsmorgun vorum við svo mætt klukkan hálf sjö um morguninn þegar að opnað var fyrir aðgang að svæðinu í kringum Taj Mahal. Þegar að sólin var að rísa gátum við loksins labbað uppað Taj Mahal og horft á marmarann breyta um lit frá dökkum litum þegar að sólin var að koma upp, yfir í skjannahvítan þegar að hún var hátt á lofti. Við fórum inní Taj Mahal og sáum grafhvelfinguna þar sem að Mumtaz Mahal er grafin ásamt Shah Jahan eiginmanni sínum, sem hafði byggt Taj Mahal handa henni eftir að hún lést. Og við skoðuðum moskuna við hliðiná og settumst á Díönu-bekkinn og tókum milljón myndir af okkur hjá Taj Mahal frá öllum mögulegum hliðum svo við værum pottþétt á að ná réttu myndunum.

Og eftir einhverja 3 klukkutíma hjá byggingunni, þá hlýtur maður að spyrja hvernig í ósköpunum einhver geti orðið fyrir vonbrigðum með Taj Mahal? Ég kom að staðnum með þær væntingar að þetta væri fallegasta bygging, sem ég hefði séð og hún stóðst þær væntingar fullkomlega. Auðvitað er fátt sem kemur manni á óvart (nema kannski hversu gríðarlega stór byggingin er) því maður hefur séð milljón ljósmyndir af byggingunni, en það breytir því ekki að upplifunin er einstök. Taj Mahal er einfaldlega fallegasta bygging, sem ég hef séð.

* * *

Agra er ekki spennandi borg. Við gistum á litlu gistiheimili á milli virkisins og Taj Mahal við stóra götu, en samt einsog í miðjum skógi. Það voru aldrei fleiri en 2-3 aðrir gestir á hótelinu fyrir utan okkur, en þarna voru samt alltaf eigandinn og 3-5 vinir hans, sem virtust hafa þetta sem samkomustað. Þannig var þetta nokkuð þægilegur staður til að vera á. Við gátum setið úti við stóra grasflöt, þar sem páfuglar og íkornar léku sér, því að dagskráin okkar í Agra var ekki svo þétt.

Við fórum í dagsferð frá Agra til Fatehpur Sikri, sem var um stuttan tíma höfuðborg Mughal veldisins um 1585. Þegar að Akbar (Mughal keisari, sem lét byggja borgina) lést, var höfuðborgin hins vegar flutt til Agra vegna vatnskorts í Fatehpur Sikri. Þetta kemur sér vel í dag því að eftir standa í Fatehpur Sikri ótrúlega heillegar minjar þessarar borgar. Frá mögnuðu borgarhliði til þriggja halla byggðar fyrir eiginkonur Akbars (ein múslimsk, ein kristin og ein hindúsk – hann var víðsýnn – hann sjálfur var múslimi). Þessi dagur þarna var fyrsti dagurinn, sem við höfum lent í virkilega þrúgandi hita (37 stig) en það breytti ekki því að þetta var verulega áhugavert og fallegt.

Í Agra skoðuðum við svo Agra virkið, sem er síðasta virkið, sem við munum skoða í þessari ferð, enda er ágætt að hafa séð einhver 6-7 virki á þessu ferðalagi.

* * *

20110322-060257.jpg

Ég og Margrét eftir Holi hátíðina

Á sunnudaginn var svo Holi hátíðin haldin á Indlandi til að fagna vorinu. Indverjar halda uppá hátíðina útá götu þar sem að blindfullir karlmenn (kynjahlutfallið útá götu var sirka 99%-1%) dansa og ata hvorn annan í málningu. Við þurftum rétt að stíga útá götu til að verða partur af hátíðarhöldunum. Eftir að hafa labbað smá höfðu ábyggilega 20 Indverjar makað á okkur alls konar litum og svo faðmað okkur í kjölfarið. Nánast allir karlmenn í Agra virtust vera ölvaðir og meira að segja hjóla-rickshaw ökumaðurinn okkar var svo ölvaður að við þurftum að leiðbeina honum um hvar hann átti að beygja á götum Agra. En þetta var samt verulega skemmtilegt þótt að við þyrftum að henda bolunum okkar á eftir og ég sé enn með málningu á mér.

* * *

Frá Agra tókum við svo í gær næturlest til Khajuraho, sem er í Madhya Pradesh héraði. Þar er hópur af stórkostlegum Hindúa hofum frá árunum í kringum 1000, sem voru orðin skógi vaxin þegar að þau fundust aftur árið 1838. Hofin eru þekkt fyrst og fremst fyrir magnaðar úthoggnar myndskreytingar utaná þeim, sem eru margar hverjar ansi grófar (það er ef þú telur karlmann vera að taka hest í afturendann vera gróft). Hofin eru gríðarlega falleg – sennilega enn fallegri en þau sem við sáum í Prambanan á Jövu í Indónesíu.

Frá Khajuraho tókum við leigubíl til Satna og þaðan tókum við þá lest, sem ég sit núna í. Klukkan er 10 um kvöld og lestin á að skila okkur í Varanasi í fyrramálið. (hér er ekkert net, ég skrifa þetta bara núna og birti seinna).

Indverskar lestar eru magnaðar. Ekkert lestarkerfi ber fleira fólk á hverju ári og ekkert fyrirtæki hefur í vinnu jafnmarga einstaklinga og indverska lestarkerfið (1,6 milljón manns samkvæmt Rough Guide). Þær eru sannarlega eitt af því besta við ferðalög á Indlandi, því það er umtalsvert þægilegra að ferðast í lest heldur en í rútu. Þar sem Indland er gríðarlega stórt og við höfum ferðast langmest landleiðina, þá eru þær ótrúlega þægilegur ferðakostur.

Við erum í fyrsta skipti á 2AC farrými, sem er það besta í þessari lest. 2 þýðir að við erum í 2-hæða koju og AC þýðir að vagninn er loftkældur og hitaður eftir þörfum. Inní okkar vagni eru sennilega um 50 manns, 6 í hverjum klefa – sem er þó ekki lokaður heldur bara dregin tjöld fyrir á milli. Þetta er nokkuð þægilegt, en standardinn þætti þó hræðilegur í evrópskum lestum. Ég kvarta ekki, svo lengi sem að stoppin eru ekki of mörg og því truflunin af öðrum ferðalöngum ekki mikil.

Þetta farrými er þó gríðarlegur munur frá lægri farrýmunum í þessari sömu lest. Miðinn minn kostaði um 1.000 rúpíur (um 300 íslenskar krónur) en í lestinni er hægt að fá farmiða fyrir allt niður í um 100 rúpíur. Það eru hins vegar farrými þar sem gríðarlegum fjölda fólks er hrúgað inní sömu stærð af vagni og þar er engin loftkæling eða hitun, sem þýðir að hitinn á daginn getur verið 50 gráður inní vagni og á sumum leiðum getur hitinn á næturna verið langt undir frostmarki. Engin merkt sæti eru þar, þannig að þegar lestar koma inná stöðvar myndast öngþveiti þegar að fólk hópast inní þessa vagna. Í þeim vögnum eru einungis Indverjar, en í loftkældu vögnunum læðast einstaka túristar, þótt að Indverjar séu ávallt 90% af farþegunum þar.

Við höfum í raun hvergi rekið okkur á mikið af útlendum ferðamönnum nema kannski í Taj Mahal. Á öllum öðrum túristastöðum eru það hins vegar indverskir túristar, sem eru í miklum meirihluta. Þess vegna þykir það alltaf stórkostlegur viðburður þegar við Margrét (aðallega Margrét) mætum á svæðið og fjöldi fólks vill tala við okkur eða taka myndir af okkur.

* * *

Planið er að eyða 3 dögum í Varanasi og reyna svo að koma okkur einhvern veginn til Darjeeling. Hitinn í Varanasi er víst eitthvað í kringum 40 gráður þannig að smá fjallaloft í Darjeeling hljómar ekki illa. Þaðan förum við svo til Kolkata.

*Skrifað um borð í lest frá Satna til Varanasi, Uttar Pradesh, Indlandi klukkan 22.25*

2 thoughts on “Indlandsferð 9: Agra og Taj Mahal”

  1. Rifjar upp góðar minningar að lesa þessa færslu ykkar. Fullkomlega sammála að erfitt að skilja að einhver geti orðið fyrir vonbrigðum með Taj Mahal. Hins vegar mikilvægt að eyða góðum tíma þarna og skoða bygginguna frá öllum hliðum á mismunandi tímum dagsins.

    Góða ferð til Varanasi. Verður gaman að heyra hvernig ykkur lýst á ykkur þar. Varanasi er ógleymanleg upplifun, erfið en ómisssandi ;-o

Comments are closed.