Í fyrsta skipti í þessari ferð hefur veður sett talsvert strik í reikninginn hjá okkur. Veðrið hingað til hefur verið nokkurn veginn fullkomið, því að þetta er góður árstími til að heimsækja Indland. Í Rajasthan var hitinn oftast í kringum 30 gráður og sól uppá hvern einasta dag. Við sáum, að ég held, aldrei rigningu.
Síðustu dagana var þó hitinn orðinn ansi mikill. Í Khajuraho fór hann yfir 35 stig og svo yfir 37 stig í Varanasi. Við vorum því spennt yfir því að koma hingað upp í Himalaya fjöllin til Darjeeling.
En veðrið hérna er auðvitað mun óvissara en nálægt sjávarmáli. Hérna eru í raun bara tveir mánuðir þar sem að ferðamenn geta verið nokkuð vissir um gott gönguveður og gott skyggni – það er október-nóvember. Næst besti tíminn er vanalega talinn vera febrúar-maí. Hvernig sem það nú nákvæmlega virkar þá hefur verið skýjað og þoka hérna allan tímann. Það er leiðinlegt því að Darjeeling er aðallega frægt fyrir fjallasýn – frá bænum á að sjást nokkuð vel í þriðja hæsta fjall heims, Kanchenjunga, sem er yfir 8.700 metra hátt. Í dag og síðustu daga höfum við hins vegar bara séð þoku.
Við eyddum gærdeginum á labbi um sjálfan bæinn. Bærinn er ekki stór á indverskan mælikvarða. Allt frekar afslappað og ef það væri ekki sér-indversk-bílflautu-geðveiki hérna einsog alls staðar, þá væri þetta friðsæll bær líka (hann er í raun nokkuð friðsæll – þrátt fyrir flautin). Við löbbuðum alla leið í dýragarðinn, sem er nokkuð þekktur þar sem þetta er eini dýragarðurinn í heiminum, þar sem fæðst hafa snjó-hlébarðar (e: snow leopard – dýr, sem heita í höfuðið á nýjasta Apple MacOSX stýrikerfinu). Í dýragarðinum er slatti af dýrum úr Himalaya fjöllum, sem var skemmtilegt að sjá – svo sem rauða pöndu og svo snjó-hlébarða, sem var svo fallegur að Margrét hélt því fram um tíma að hann væri fallegasta dýr, sem hún hefði séð (s.s. fallegri en kötturinn Suarez, sem býður eftir okkur í Stokkhólmi).
Við fórum svo innná Himalayan Mountaineering Institute (HMI), sem að frægasti sonur Darjeeling – Tenzing Norgay – var forstöðumaður fyrir lengi. Á HMI er safn, þar sem sýndur eru munir tengdir fjallgöngu og fjallað ítarlega um það þegar að Darjeeling búinn Norgay varð fyrstur manna, ásamt Edmund Hillary, til að klífa Mount Everest. Fyrir utan safnið er svo stytta af kappanum, sem að Hillary afhjúpaði eftir andlát hans.
* * *
Í dag fórum við svo í göngu í nágrenni Darjeeling. Við höfum ekki mikinn tíma, en ákváðum að taka fyrsta hluta Maneybhanjang-Phalut leiðarinnar. Við keyðrum því yfir til Nepal, þar sem að gæd tók á móti okkur. Hann labbaði svo með okkur í þrjá tíma í grenjandi rigningu og nánast engu skyggni. Það gerðist sirka tvisvar á göngunni að við sáum lengra en 10 metra (sjá mynd). Eftir þann tíma ákváðum við að stytta gönguna og fara tilbaka, enda lítið gaman að labba blaut í gegn án þess að sjá neitt.
Núna sitjum við því inná hóteli og reynum að ná einhverjum hita aftur í líkamann. Á morgun verður vonandi eitthvað útsýni til að sjá fjöll við sólarupprás og svo um hádegið eigum við flug til Kolkata.
*Skrifað í Darjeeling, Vestur Bengal, Indlandi klukkan 14.40*
Mig langar að setja LIKE á: “dýr, sem heita í höfuðið á nýjasta Apple MacOSX stýrikerfinu” með von um skyggni ágætt í ykkar nánustu framtíð!
Margrét talaði reyndar um köttinn Torres, en það skiptir kannski ekki öllu máli. 😛
Margrét er enn í afneitum varðandi nafnabreytinguna.