Áður fyrr var ég oft spurður af því hvernig ég þorði/nennti að ferðast einn. Ég útskýrði fyrir fólki að það að ferðast einn væri kannski ekki mitt fyrsta val – ef ég hefði haft æsta og skemmtilega ferðafélaga þá hefði ég valið það. En valið stóð oftast milli þess að fara til Evrópu með félögum eða fara til framandi landa einn með bakpoka – og ég valdi það seinna.
Síðustu tvær löngu ferðir (Indónesíu og Indland) hef ég farið með unnustu minni og munurinn er auðvitað mikill. Hérna í Bangladess hef ég verið einn síðustu daga (Margrét þurfti að fara annað – við hittumst svo aftur á morgun á Indlandi) og það er dálítið skrítið að rifja upp gömlu taktana. Allt í einu þarf ég að tala við alla hótelstarfsmenn, sama hversu pirrandi þeir eru og sama þótt þeir tali álíka góða ensku og Manuel í Fawlty Towers. Ég hef enga Margréti, sem getur tekið yfir samræðurnar þegar ég er farinn að æsa mig. Og allt í einu þarf ég að skipuleggja allt, hringja öll símtöl og prútta við alla leigubílstjóra. Það er jú ótrúlega þægilegt að geta deilt þeirri ábyrgð – auk þess að það er auðvitað ómetanlegt að hafa góðan ferðafélaga á öllum öðrum stundum.
Það að ferðast einn hefur þó einstaka kosti. Til dæmis kynnist maður fyrr öðru fólki. Það eru kostir og gallar við það að tala íslensku. Kostirnir eru að enginn skilur mann, en gallarnir eru líka að enginn skilur mann og því hikar fólk við að koma upp að manni og byrja að spjalla. Það er mun auðveldara fyrir enskumælandi fólk að kynnast öðrum óvart þegar að aðrir heyra samtöl þeirra. Þegar maður ferðast einn í Bangladess, þá er maður sífellt að kynnast fólki.
* * *
Ég hef verið hérna í Khulna í Suður-Bangladess síðan á fimmtudag þegar að ég kom hingað með rútu frá Dhaka. Rútuferðin var ein af þessum rútuferðum, sem lítur hrikalega út á pappírnum en reynist á endanum nokkuð skemmtileg. Ég var í krappí rútu í miklum hita og ferðin tók 9 tíma í staðinn fyrir 6 einsog var lofað. En á móti kom að Bangladess er fallegt land og það var gaman að sitja við gluggann og horfa á landið þjóta framhjá. Og ég var líka með frábæran sessunaut, sem talaði góða ensku og talaðu um Bangladess mestallan tímann. Auk þess var langur partur ferðarinnar á bílaferju, þar sem ég fór útúr rútunni og kynntist enn fleira fólki.
Dagarnir hérna í Khulna hafa ekki verið einsog ég planaði þá. Stærsta ástæðan fyrir því að koma hingað suður var að ég ætlaði að fara í ferð til Sundarbans, sem er mikill skógur sem nær niður að Bengal Flóa og er meðal annars heimili Bengal tígursins. Ég skoðaði milljón möguleika á lengri og styttri ferðum, en smám saman fóru þeir allir í rugl. Bæði voru aðstæður ekki sem bestar fyrir slík ferðalög akkúrat núna og svo voru hérna fáir túristar og að lokum stóð ég frammi fyrir því að geta bara farið í dagsferð, sem kostaði yfir 200 dollara. Mér fannst það glórulaust og því hætti ég á endanum við að sjá skóginn.
Ég hef líka verið að jafna mig eftir að hafa verið étinn mjög illa af moskító flugum á hótelinu í Dhaka. Ég vissi það ekki fyrr en eftirá hversu mikil plága moskító flugur eru í Dhaka – því oftast eru moskító flugur minna vandamál í borgum en í sveitum. Á ógeðshótelinu mínu í Dhaka var engin loftkæling og opinn gluggi og það leiddi til þess að ég var gjörsamlega étinn af moskító flugum. Morguninn eftir taldi ég yfir 50 bit á líkamanum. Þau eru að skána núna (þökk sé Tiger Balm og sjálfsaga) en flest sjást þó enn.
Í staðinn fyrir Sundarbans fór ég í dagsferð til Bagerhat og nærliggjandi bæja. Þar skoðaði ég meðal annars frægustu mosku Bangladess, sem var ágæt en svo sem ekkert til þess að skrifa langa pistla um. Ég skoðaði einhverjar aðrar moskur og hindúa turna og eitthvað fleira. Litlu bæirnir virtust vera talsvert íhaldssamari en Dhaka og Khulna því allt í einu var meirihluti kvenna í svörtum sloppum með hulin andlit.
Ég get ekki að því gert að verða alltaf hálf leiður þegar ég sé þennan klæðnað. Það er einsog einhver gleði sé tekin útúr samfélögunum þegar að konur mæta manni ekki í litríkum klæðum heldur í svörtum kápum með hulin andlit. Ég elska að skoða mannlíf í nýjum borgum, en það er bara eitthvað svo þrúgandi við það þegar að helmingur íbúanna er allt í einu í klæðum, sem eiga að fela öll þeirra sérkenni. Ég fékk þetta sterklega á tilfinninguna þegar ég var í Hama á Sýrlandi og aftur núna.
* * *
Stærsti íþróttaviðburðurinn í þessum heimshluta kláraðist í gær – heimsmeistarakeppnin í krikket. Keppnin hefur staðið yfir síðustu sex vikur og var keppt í borgum á Indlandi, Bangladess og Sri Lanka. Það hefur verið ómögulegt að missa af þessari keppni á Indlandi því að indverskir krikket-spilarar eru dýrkaðir og dáðir. Alls staðar er krikket númer 1 og áhugi til að mynda á fótbolta virðist frekar lítill.
Í gær var úrslitaleikurinn á milli Indverja og Sri Lanka. Báðar þjóðir hafa unnið keppnina einu sinni áður, en nánast allar þjóðirnar, sem geta eitthvað krikket hafa einhverja tengingu við Bretland.
Ég horfði á ansi stóran hluta leiksins og reyndi í leiðinni að lesa mér til um reglurnar. Ég þekki hafnabolta vel og því voru þessar leiðbeingar nokkuð hjálplegar. Jafnvel þótt að leikurinn hafi verið gríðarlega langur þá var ég orðinn verulega spenntur í lokin. Indland vann leikinn þrátt fyrir að þeirra þekktasti leikmaður hefði lítið getað í leiknum og ég geri ráð fyrir að fagnaðarlætin verði enn í gangi þegar að við komum aftur til Kolkata.
* * *
En allavegana, ég sit núna á netkaffihúsi í miðbæ Khulna. Eftir klukkutíma tek ég rútu norður til Jessore og þaðan á ég í kvöld flug aftur til Dhaka. Á morgun á ég svo pantað flug frá Dhaka aftur til Kolkata á Indlandi.
Skrifað í Khulna, Bangladess klukkan 2.35