30

Ég, 30 áraHvað getur maður sagt?

Í dag er ég orðinn þrítugur.

Þetta bara einhvern veginn gerðist.

Fyrir nákvæmlega 10 árum var ég ástfanginn af mexíkóskri stelpu útí Mexíkó. Við eyddum einu besta kvöldi ævi minnar saman á stærsta næturklúbbi Acapulco. Þar vorum við veifum framfyrir röð, drukkum margarítur og tekíla og dönsuðum salsa og merengue langt fram á nótt. Ég hugsa enn til þess afmælisdag með söknuði. Ég var ástfanginn og þrátt fyrir að sambandið væri stormasamt, þá var það frábært. En ég þurfti að fara heim til Íslands og hún bjó í Mexíkóborg og því gengu hlutirnir ekki upp. Að vissu leiti var þetta allt saman dæmigert fyrir það sem kom á eftir, því að fjarlægðir og ferðalög hafa sett stórt mark á mitt tilhugalíf síðustu 10 árin.


Á svona tímamótum getur maður eflaust litið tilbaka og skoðað hvað maður gerði rétt, hvað hefði mátt betur fara og svo framvegis. Mun ég eftir 10 ár geta horft aftur á það tímabil þegar ég var á milli tvítugs og þrítugs og verið sáttur við það sem ég gerði? Aðeins tíminn mun leiða það í ljós, en ég veit allavegana að þegar ég varð tvítugur þann 17.ágúst 1997, þá hafði ég litla hugmynd um það hvað ég vildi gera eða hvar ég myndi standa 10 árum seinna.

Ég hefði þó sennilega giskað á að ég væri búinn að finna mér konu. Einhvern veginn hélt ég að það myndi bara gerast sjálfkrafa. En ég er samt sáttur við mín hlutskipti í dag. Ég hef verið heppinn í ástum og líka óheppinn í ástum. Ég hef kynnst frábærum stelpum, eflaust sært einhverjar og verið særður. En það er svo sem ekkert rosalega margt sem ég hefði viljað gera öðruvísi.

Ég hef verið ástfanginn í grasinu fyrir framan Eiffel turninn. Ég varð ástfanginn á strandbar í karabíska hafinu. Ég hef kysst stelpu í fyrsta skipti við tjörnina í Reykjavík og á trébryggju í karabíska hafinu. Ég hef grátið úr ástarsorg á flugvellinum í Chicago, ég hef klúðrað málunum stórkostlega og hagað mér einsog hálfviti. Og ég hef átt mínar góðu stundir.

Ég sé í dag að ég var alls ekki tilbúinn þegar ég var tvítugur að hitta mína eiginkonu. Ég get eiginlega ekki ímyndað mér að hafa misst af þeirri reynslu, sem ég hef öðlast undanfarin ár. Þó það sé vissulega frábært þegar að fólk hittir sinn maka í fyrstu tilraun, þá hafði ég aldrei trú á því að slíkt myndi gerast fyrir mig. Ég hef lært ótrúlega margt um sjálfan mig og aðra með því að ganga í gegnum þá hluti, sem ég hef gengið í gegnum síðustu 10 árin.


Ég útskrifaðist hæstur í mínum bekk úr Verzló og fór eftir það í einn albesta háskóla í Bandaríkjunum, Northwestern. Þar útskrifaðist ég með próf í hagfræði, var í hópi úrvalsnemenda í því fagi og fékk verðlaun fyrir lokaritgerðina mína.

Árin í Northwestern voru vissulega frábær. Ég eyddi þeim með Hildi, sem ég var með í fjögur ár. Fyrsta árið bjó ég á campus og kynntist þar öllum mínum bestu vinum í skólanum, sem eru sumir enn góðir vinir mínir í dag. Seinna fluttum við Hildur saman í litla stúídó íbúð rétt hjá campus og bjuggum þar þangað til að ég útskrifaðist. Ég á ótrúlega góðar minningar af endalausum partýhöldum, dögum í Chicago, leikjum á Wrigley Field, djömmum á næturklúbbum í Chicago, tailgating á Northwestern fótboltaleikjum og svo frábærum spring break ferðum til New York, Florida og New Orleans.


Í vinnu hafa hlutirnir farið öðruvísi en ég ætlaði. Ég bjóst alls ekki við því að ég myndi enda í veitingastaðabransanum. Ég og Emil ræddum vissulega um það að stofna veitingastað fyrir 9 árum, en það að koma því í verk er meira en að segja það.

Síðustu 5 ár hafa að mörgu leyti mótast af Serrano. Við höfum smám saman byggt það fyrirtæki upp og í dag er ég gríðarlega stoltur af þessu litla barni okkar og á næstunni eru líka gríðarlega spennandi hlutir að gerast. Við höfum ávallt verið að stefna að ákveðnu marki og mér finnst við núna vera að færast nær því á fínni ferð. Það er líka alveg ótrúlega gaman að standa í þessum rekstri. Ég gæti eflaust fengið hærri laun í einhverju skrifstofustarfi, en ég held að það séu nákvæmlega engar líkur á að ég hefði jafnmikinn áhuga á því starfi og ég hef á rekstri veitingastaðanna minna.

Ég eyddi líka þremur árum sem markaðsstjóri hjá stóru innflutningsfyrirtæki. Sá tími reyndist mér mikilvægur. Bæði ferðaðist ég umtalsvert og svo lærði ég einnig afsakplega margt af eldri vinnufélögum og viðskiptavinum. Og sú vinna hjálpaði mér líka að skilja hvernig vinnu ég sæi mig fyrir í.


Ég hef ferðast ótrúlega mikið á þessum tíu árum. Ég bjó í Mexíkó og ég bjó í Bandaríkjunum í þrjú ár. Ég ferðaðist um Rússland. Ég fór til fimm landa í Mið-Ameríku. Ég ferðaðist um öll Bandaríkin. Ég fór í ógleymanlegt hálfs-árs ferðalag með þremur vinum um öll lönd Suður-Ameríku. Ég ferðaðist um SuðAustur Asíu. Og ég ferðaðist til óteljandi staða í Evrópu, bæði vegna vinnunnar og líka til skemmtunnar.

Þessi ferðalög hafa að vissu leyti mótað mig og eru hápunktur ansi margra áranna. Ætli það megi ekki áætla að síðustu 10 ár hafi ég heimsótt yfir 35 lönd. Það hlýtur að teljast góður árangur.


En ég hugsa að það sem mestu máli skipti hvað mig varðar núna sé að í dag er ég gríðarlega bjartsýnn á framtíðina. Mér hefur sjaldan liðið betur. Mér finnst ég aldrei hafa litið betur út, ég er í besta formi ævinnar og ég tel í alvöru að ég sé mun betri maður í dag en ég var fyrir einu ári, hvað þá tíu.

Miðað við það hver ég var og hvernig mér leið þegar ég var tvítugur, þá get ég ekki annað en verið sáttur við stöðuna í dag.

29 thoughts on “30”

  1. Mætti við þetta bæta að þú hefur samviskusamlega ritað á eina skemmtilegustu blogg síðu sem dregur að sér fjöldan allan af fólki sem þekkir þig ekki neitt, einungis til að skyggnast eilítið inn í þinn heim. Held þú getir verið mjög ánægður með sjálfan þig.

    Til lukku með áfangann!

  2. Til hamingju með daginn, þetta var skemmtileg lesning. Þú ert hrikalega góður penni! Hafðu það gott :o)

  3. Ég tek undir með Rúnari, þú gleymir alveg að minnast á það í pistlinum þínum að þú ert orðinn frekar high-profile bloggari. Ég meina það vel, en þú ert Carrie Bradshaw okkar Íslendinga. Og það eru einmitt pistlar eins og þessi hér að ofan sem gera þig að svo merkilegum bloggara. Ég gæti aldrei verið svona hreinskilinn fyrir framan alþjóð. Frábær pistill. 🙂

    Til hamingju með daginn, aftur!

  4. Æ hvað þetta var e-ð sætt blogg 🙂
    Þú munt finna þína eiginkonu þegar þú síst býst við því. Það er alltaf þannig. Ástin finnur mann þegar maður er ekki að leita að henni.
    Annars mæli ég með bókinni The Secret. Bók sem er á toppi metsölulista víða um heim. Þegar þú ert búinn að lesa hana þá muntu öðlast ALLT það sem þig langar í. Alveg satt 🙂
    Já, og innilega til hamingju með afmælið. Vona að þú eigir góðan dag 🙂
    Kveðja, Jóhanna

  5. Skemmtilegt ágrip hjá þér, Einar.

    Þú ert maður á besta aldri, myndarlegur, vegnar vel í lífinu, með framúrskarandi menntun að baki, í draumastarfinu og búinn að ferðast út um allan heim. Ég held það væru margir til í að vera í sömu sporum og þú. Þú ert kjörin fyrirmynd margra, þ.á.m. mín.

    En annars bara til hamingju með daginn og megir þú verða hamingjusamur og vegna vel um ókomna tíð. 🙂

  6. Svei mér þá. Ég hef ekki hugsað út í það að ég þarf að lifa aftur þau fimmtán ár sem ég er búin að lifa til að verða þrítugur.

    Það er mjög langt þangað til!! Ég hef kíkt á síðuna þína á hverjum degi síðasta árið eða svo og finnst ótrulega gaman að lesa þetta blogg.

    Til hamingju með daginn.

  7. Til hamingju med daginn!

    Alltaf gaman ad lesa hja ther siduna, thessi faersla synir einmitt af hverju.

    Og gott ad vita af folki a klakanum sem spair i meira en ad eignast staerra hus og staerri jeppa (sem er svo bara notadur til thess ad keyra krakkana a leikskolann…)

    Skal!

  8. Hvað segirðu nú um að fara í klippingu í tilefni áfangans? Kominn tími til að breyta til.

  9. Til hamingju með daginn Einar 🙂 Þetta er ekki svo slæmt eftir allt saman… þ.e. að verða 30 ára!!! 🙂

  10. til hamingju með afmælið !!!!

    Fannst þetta skemmtilegt blogg – finnst hressandi að þú sért svona jákvæður útí lífið á þessum tímamótum þar sem það er ár í mig.

    Hef eins og þú veist lesið bloggið þitt lengi og kynnst þér létt í raunveruleikanum. Veit að þú ert toppnáungi og ég skil ekki hvernig getur verið að þú sért síngúl enn í dag.

    ketsjú on the flip sæd.

  11. Til hamingju með afmælið í gæær….veit, einum degi of sein, en eins og þú veist er ég ekki þekkt fyrir stundvísi, jafnvel ekki á mikilvægum tímapuktum!

    Vona að þú hafir átt frábæran afmælisdag! 🙂

    Hitakveðjur frá malasíu……

  12. Takk öll!

    Það var ótrúlega gaman að lesa þetta. Og það má líka alveg bæta því við að þessi bloggsíða hefur breytt alveg ótrúlega miklu í mínu lífi. Ég get til að mynda algjörlega fullyrt að síðustu tvö ár hefðu farið á allt annan hátt ef ekki hefði verið fyrir þessa bloggsíðu. Sumt af því hefur verið gott og sumt slæmt, en ég er ótrúlega ánægður með að hafa haldið þessu úti síðustu árin. Ég hef til að mynda kynnst fullt af fólki beint eða óbeint vegna þessarar síðu.

    Majae, ég skil þetta ekki heldur. Þú gerðir allavegana þitt besta. 🙂

    Gaui, ég er búinn að uppfæra síðuna.

    Og nei, ég er ekki að fara í klippingu.

    En aftur, takk öll! 🙂

  13. Sæll Einar…
    Innilega til hamingju með afmælið. Virkilega gaman að lesa bloggið þitt og þú ert svo sannarlega búinn að standa þig vel í lífinu til þess og það er nóg eftir….

    kveðja,
    Jón Haukur

Comments are closed.