Á HM held ég með…

Kærastan mín heldur því fram að ég sé miklu meiri Liverpool aðdáandi en fótboltaaðdáandi. Þegar að ég horfi á Liverpool leiki er ég spenntur, það má ekki trufla mig með málefnum ótengdum Liverpool, ég missi ekki af mínútu úr leik og svo framvegis. Yfir HM (sérstaklega riðlakeppninni) missti ég hins vegar af leikjum og þegar ég var að horfa á leiki þá var alltaf á Twitter eða að gera aðra hluti.

Þegar ég hugsa þetta er þetta að vissu leyti rétt. Ég er fyrst og fremst Liverpool aðdáandi. Og ég hef líka þann kost/galla að ég þarf að hafa tilfinningar til annars hvors liðsins í íþróttaleik til þess að ná að fylgjast með honum af áhuga. Þetta veldur því meðal annars að ég horfi á mun færri fótboltaleiki en ég myndi annars gera. Margir myndu segja að það væri kostur.

Þegar ég var spurður að því fyrir þessa HM keppni með hverjum ég héldi, þá var svarið nokkuð flókið. Einu liðinu held ég með af því að ég haldið með því síðan ég var 10 ára. Hinum liðunum held ég með af því að ég tengdist þeim á einhvern hátt þegar að ég bjó í löndunum eða var á ferðalagi þar. Ég hélt/held með:

1. Holland: Ég hef haldið með Hollandi síðan ég var lítill strákur. Ég á einhverjar smá minningar frá HM 1982, en ég man svo sem ekki hvort það var af því að ég hafi horft mikið á keppnina eða bara séð hlutina í sjónvarpi einhverju seinna. En á HM 1986 hélt ég með Frakklandi og ég held að ég hafi örugglega gert það mín fyrstu ár. Platini var minn uppáhaldsleikmaður og ég man að ég með Juventus (sem Platini spilaði fyrir), einsog ég útskýrði í þessari færslu á Liverpool blogginu um Heysel slysið.

Eftir 1986 hætti Platini að spila og á einhverjum tímapunkti varð Ruud Gullit minn uppáhaldsleikmaður. Þegar ég var 10 ára voru hann og Marco van Basten keyptir til AC Milan og næstu ár voru það myndir af þeim tveim ásamt Frank Riijkard, sem að þöktu veggina í herberginu mínu. Á EM 1988 byrjaði ég fyrir alvöru að halda með Hollandi og þeir unnu auðvitað þá keppni með glæsibrag. Síðan þá hefur Holland verið mitt lið. Ekki vegna þess að ég hafi einhver sérstök tengsl við landið, heldur er það bara Gullit og félögum að þakka að ég hef haldið tryggð við þá síðan þá.
2. Mexíkó: Síðustu 12 ár hef ég haldið með Mexíkó eftir að ég bjó þar. Ég elska Mexíkó einsog ég held að hafi komið fram hér áður. Og í þessari keppni komst ég að því að tilfinningar mínar gagnvart Mexíkó eru talsvert sterkar. Ég var allavegana nógu andskoti fúll þegar að þeir duttu út gegn Argentínu.
3. Argentína: Ég hef haldið með þeim nokkuð lengi þó ég sé ekki einn af þeim, sem elskaði Maradona á HM 1986. Þá hélt ég með Frakklandi og ég man að ég hafði líka talsvert sterkar tilfinningar til Belgíu, sérstaklega til Jean-Marie Pfaff, markvarðar þeirra. Ég man að í einhverri Þýskalandsferð með foreldrum mínum hafði ég fengið Bayern Munchen plakat þar sem að Pfaff var með félögum sínum.

Allavegana, síðustu ár hef ég haft tilfinningar til Argentínu, aðallega eftir að ég eyddi þrem vikum þar með vinum mínum og fór meðal annars á ógleymanlegan Boca Juniors leik þar sem ég var með heitustu stuðningsmönnum þess liðs fyrir aftan annað markið. Ég komst þó að því á þessu HM að tilfinningar mínar til Argentínu eru ekki jafn sterkar og til hinna tveggja liðanna. Ég varð brjálaður þegar að Argentína sló út Mexíkó og ég varð ekkert svo svekktur í gær þegar að Argentína datt út fyrir Þjóðverjum.

Auk þessara þriggja liða hélt ég að mestu leyti með liðum útaf Liverpool mönnum. Ég held með Spánverjum útaf Reina og Torres, en ég verð að játa að um leið og Torres var tekinn útaf í gær varð mér eiginlega alveg sama um leikinn. Þó vildi ég heldur sjá þá áfram því ég vil ekki sjá Þýskaland í úrslitunum. Ég hélt pínu með Englendingum útaf Gerrard og Johnson, en það var ekki mjög sterkt. Auk þessara liða þá hefði ég væntanlega haldið með Svíþjóð og Venezuela ef þau hefðu komist á HM. Eina landið, sem ég hef búið í en held ekki með er sennilega Bandaríkin. Ég bara get ekki haldið með Bandaríkjunum í fótbolta.

Í þessi 22 ár, sem ég haldið með Hollandi, hefur liðinu aldrei gengið jafnvel og á þessu HM móti. Það er ánægjulegt og ekki skemmir fyrir að þeir eru með Liverpool-manninn Dirk Kuyt, sem ég elska að hata og elska. Ég er nokkuð öruggur á því að Holland komist í úrslitin og ég held að á góðum degi ætti liðið að geta unnið bæði Þýskaland og Spán.

2 thoughts on “Á HM held ég með…”

  1. Ég er alveg sammála þér, þegar kemur að landsliðum þá á ég erfitt með að gefa svar með hvaða liði ég held.

    Ég byrjaði á því að heillast af Lothar Matthaus og Jurgen Klinsmann á HM 1990 þannig að ég hélt svolítið með Þjóðverjum í byrjun þess áratugar. Síðan byrjaði ég að halda með Argentínumönnum á HM 1998 (og það varir eiginlega ennþá) aðallega vegna þess að ég var mikill aðdáandi Gabriel Batistuta. Svo byrjuðu Spánverjar að koma inn í dæmið á HM 2006 og festu sig vel í sessi á EM, þannig að ég vona alltaf að þeir standi sig vel. Hollendingar hafa líka alltaf verið lið sem mér finnst eiga skilið að vinna eitthvað, en ég hef aldrei haldið með þeim þannig lagað.

    Það sem ég veit fyrir víst er hvaða lið ég þoli ekki. Ég hef alltaf hatað Frakkland (og reyndar bara Frakka yfir höfuð), ég þoli ekki Portúgal (meira að segja þegar Ronaldo var að redda öllu fyrir Man Utd), Ítalíu og síðasta viðbótin við þann lista er USA.

  2. Jamm, ég er með visst óþol fyrir sumum liðum, en það nær samt takmarkað langt. Það er frekar að óþolið sé fyrir einstökum leikmönnum. Til að mynda Ronaldo.

Comments are closed.