Af hverju ertu ekki á föstu?

*Ok, þetta er ekki [færslan](https://www.eoe.is/gamalt/2005/02/27/22.53.05/index.php), en eflaust tengt henni. Eflaust eiga einhverjir vinir mínir eftir að hneykslast á því að ég skuli tala um þetta hér. En mér er nokk sama. Læt þetta bara flakka.*


Eftir að hafa lesið aftur [nýlega færslu](https://www.eoe.is/gamalt/2005/02/27/22.53.05/index.php) og viðbrögð við henni hef ég verið að hugsa… Gæti ástæða þess að mér finnist ég vera minna persónulegur á þessari síðu verið sú að það sé einfaldlega minna að gerast í mínu einkalífi og að ég hafi minni áhyggjur af mínum málum?

Ég get ekki losnað við þá tilfinningu að kannski sé ég bara orðinn vanur þessu hversdagslífi og sáttur við það allt. Sáttur við það hvað ég er að gera, sáttur við að vera single, sáttur við að búa í Vesturbænum. Tíminn er farinn að líða svo fáránlega hratt að mér bregður þegar ég horfi á dagatalið. Ég meina það er kominn mars! Tíminn í mínu lífi líður hratt þegar ég geri sama hlutinn dag eftir dag, viku eftir viku. Það hægist ekki á honum nema ég sé erlendis, hvort sem er í viðskiptaerindum eða í fríi.


Það fara að nálgast þrjú ár síðan ég hætti í langa sambandinu mínu, þrjú ár síðan ég útskrifaðist úr háskóla, þrjú ár síðan ég flutti heim, þrjú ár síðan ég flutti í Vesturbæinn. Ég hef gert meira í vinnunni en mig hefði órað fyrir, en stundum bregður mér þegar ég hugsa til þess hversu lítið hafi gerst utan vinnu.

Þegar ég les skrif mín á þessa síðu frá því fyrir um ári, þá var ég með stelpur á heilanum. Mér fannst ég ekki getað lifað án þess að vera í sambandi. Ég hafði vanist því að vera alltaf með einhverja stelpu á heilanum, alveg frá því ég man eftir mér.

Var í fyrsta alvöru sambandinu 17 ára. Varð ástfanginn í fyrsta skipti 19 ára. Í Verzló var ég með stelpu á heilanum, svo aðra og svo byrjaði ég með stelpu, sem ég var með í 5 ár. Eftir að það endaði, byrjaði ég svo strax með annarri stelpu. Þegar ég kom heim fékk ég aðra stelpu á heilann, sem varð til þess að ég endaði sambandið.

Gleymdi svo stelpunni, en fékk aðra stelpu á heilann. Hugsaði alltof mikið um hana þangað til að ég kynntist annarri stelpu á skemmtistað. Var með henni í einhvern tíma. Hættum saman, náði mér á því. Fékk aðra stelpu á heilann, er eiginlega enn skotinn í henni.

Á Vegamótum síðasta sumar skrifaði ég sjálfum mér sms þegar ég var blindfullur og sagði að ég þyrfti að gera eitthvað í mínum málum varðandi þessa stelpu. Fimm mínútum eftir að ég sendi sms-ið hitti ég aðra stelpu. Við kysstumst og ætluðum á deit daginn eftir.

Það fór einhvern veginn allt til fjandans. Áttaði mig aldrei á af hverju, en það varð bara þannig. Var dálítið erfitt fyrir mig að sætta mig við það. Fann svo út að hin stelpan, sem ég sendi sms útaf, var komin á fast. Stuttu seinna heyrði ég að Vegamótastelpan væri komin á fast.

Fór út til Bandaríkjanna, kom heim. Uppgötvaði stelpu, sem ég þekkti fyrir. Varð hrifinn, þrátt fyrir að hún væri á föstu. En gafst upp eftir einhvern tíma, þar sem ég fann alltaf einhverjar ástæður til að gera ekki neitt.


Þetta gerðist í desember og svo er hægt að bæta við öllu því, sem skildi ekki eftir nein för, öllu því sem skiptir mig í dag engu máli.

Síðan í desember hefur hins vegar *ekkert* gerst. Ég er ekki skotinn í stelpu (allavegana ekki neinni, sem ég leyfi mér að vera skotinn í), ég hef ekki hitt neina stelpu, sem ég hef heillast af, enga til að hafa á heilanum. Ég hef hvorki reynt við stelpu á skemmtistað, né annars staðar. Ekki neitt. Það er engin stelpa í mínu lífi og ég hef ekkert gert til að breyta því. Það furðulega er að mér finnst það allt í lagi.

Ég er alltaf að fá spurninguna af hverju ég sé ekki á föstu. Hvernig á ég að svara? Hver er ástæðan?

Ég veit það ekki. Sennilega af því að í lífi mínu kemst ég ekki oft í kynni við nýtt fólk. Og ég get ekki myndað tilfinningatengsl við stelpur á skemmtistöðum. Bara get það ekki. Öllu mikilvægari er þó sú staðreynd að ég er líka hræddur um að stelpa muni neyða mig til að breytast í einhverja þá átt, sem mig langar ekki til að breytast. Ég er ekki fullkomlega sáttur þar sem ég er í dag og ég vil ekki að stelpa festi mig niður á þeim stað eða á öðrum stað, sem ég myndi ekki vilja vera á.

Með öðrum orðum, mig langar ekki að verða ástfangin af stelpu, sem langar svo að byrja að eignast börn og flytja í úthverfin. Ekki að það sé neitt að því. Ég er ekki svo mikill asni að gera lítið úr því. Það er bara ekki það, sem *ég* vil núna. Kannski seinna, hver veit? En *ekki núna*. Því velti ég því fyrir mér hverjar séu líkurnar á að hitta sæta stelpu á skemmtistað í Reykjavík, sem deilir með mér sömu ævintýraþrá, sömu þránni á að verða ekki gamall alveg strax? Stelpu, sem langar að prófa nýja hluti, búa á nýjum stöðum, sem langar ekki að festa sig niður á ákveðinn stað alveg strax.

Líkurnar eru sennilega ekki miklar.


En hver svo sem ástæðan er, þá hugsa ég minna um stelpur en áður. Ég er orðinn dálítið hræddur við að mér finnist það of þægilegt að vera single. Áður fyrr þá átti ég aldrei von á að vera single mikið eitthvað fram í tímann. Núna er ég að skipuleggja ferðalög uppá eigin spýtur marga mánuði fram í tímann.

Kostur a) væri alltaf að finna þessa stelpu, sem hugsaði svipað og ég, sem væri til í að breyta til, til í að gera nýja hluti. Hinir möguleikarnir eru að b) gera hlutina uppá eigin spýtur eða c) leyfa stelpu að breyta plönunum. Ég veit að möguleiki a) er sá besti, en ég er ekki viss um hvort ég vildi fórna b) fyrir stelpu. Þess vegna er ég pínulítið hræddur við að hitta stelpu og verða ástfanginn. Kannski er það hluti ástæðunnar.

Ég hef áður látið stelpur stjórna ansi miklu í mínu lífi. Hvert ég hef farið, hvað ég hef gert. Þess vegna er ég dálítið hræddur við að það gerist aftur.

En hvað sem það er, þá pæli ég minna í þessum málum.
Hef ekki jafn miklar áhyggjur. Er sáttari við það hver ég er. En það er samt pínu skrítið að vera ekki með neina stelpu á heilanum. Ég held að ég vilji ekki venjast því.

23 thoughts on “Af hverju ertu ekki á föstu?”

 1. vá þú ert greinilega mikið búinn að pæla í þessu og ÞAÐ eitt og sér gerir manni svo gott, að komast að niðurstöðu sjálfur 🙂 gott hjá þér að skrifa þetta og fær mann alveg til að hugleiða það að setjast niður og taka til í sjálfum sér :blush:

  en þúst ég er bara singúl af því ég bý í danmörku og sætu strákarnir eru á íslandi :laugh:

 2. Á skemmtistaða-ofurölvun minni síðustu ár hef ég einu sinni hitt stelpu (sem ég man eftir) sem var með sanna ævintýraþrá. Einhver sem hafði ferðast og ætlaði sér meira. Meira en bara að útskrifast og kaupa sér Volvo.

  Hún var á föstu.

  Það er hægt að draga stelpur í ferðalög og fá þær til að hafa gaman að þessu en þær sem eru fæddar með þessa þrá eru fáar, og sennilega á föstu, alltaf.

  Ætti maður að skjóta á að til að finna þessa stúlku þína þá verður þú að vera á ferðalagi og rekast á hana á einhverju gistiheimilinu í Fjarskaniztan sem þið bæði funduð gegnum LonelyPlanet bókina ykkar. Annað eins hefur nú gerst.

  Kannski er konan þín þar 😉

 3. Ja sko. Get kannski huggað þig með því að þú ert ekki einn í þessari stöðu. Það er ótrúlega þægilegt að þurfa ekki að taka tillit til maka og samrýma sína dagskrá og langanir við hans, gera bara það sem manni langar til þegar manni langar til þess. En svo koma þessir tómu tímar eins og á sunnudagskvöldum og á jólunum sem manni finnst eitthvað vanta. Skemmtilegt hvernig þú setur dæmið upp sem kosti, þarna kemur hagfræðingurinn fram í þér Nú er bara að reikna út fórnarkostnað þess að vera single og að vera í sambandi. Það er allavega ekki bæði hægt að eiga kökuna og éta hana.

 4. Kommon, strákar! Ekki dæma okkur allar konurnar á einu bretti. Kannski eruð þið bara að leita á röngum stað að ævintýrakonunum. Ég á fullt af vinkonum sem eru þannig, en því miður fyrir ykkur búa þær í útlöndum! Að minnsta kosti hanga þær ekki á Vegamótum.

  Takk fyrir góðar færslur Einar!

 5. Erna: Það sem ég átti við eru að skemmtistaðir eru ekki ákjósanlegir staðir til að finna ævinatýra konuna sem einar leitar eftir.

  Og þegar stelpur segjast eiga fullt af vinkonum sem eru eitthvað ákveðið er það venjulega 1. Þetta er reynsla.

  T.d þegar manni er boðið í samdrykkju og sagt að þar séu fullt af sætum einhleypum stelpum þá eru þær nánst aldrei fleirri en 2 og oftast 1. Hinar eru á föstu eða ná ekki lágmarkinu fyrir ÓL. (Þá er ég að sjálfsögðu að tala um lágmarkið sem útsendingarstjórar nota til að ákveða hvort viðkomandi líti nógu vel út til að vera notaður sem áhorfandi á viðkomandi keppnisgrein í sjónvarps útsendingunni.)

  En vel má vera að þú eigir ævintýrakonu í hverju horni en þá átt þú stórt hlutafall af þeim sem vitað er um.

  Hvaða ferðalag er annars verið að skipuleggja núna.

 6. Jamm jamm, ég sagði aldrei að það væri ekki til svona stelpur. Ég sagði bara að líkurnar á því að sæta stelpan, sem maður hrífst af á skemmtistað væri í svipuðum pælingum 🙂

  Annars, Daði, þá er þetta ágætis pæling hjá þér. Ég hallast að því að það sé betra að finna stelpu þegar maður er á þeim stað í lífinu, þar sem maður vill vera.

  Og SB, sammála. Ég þarf að finna einhverja formúlu, sem leysir þetta. Best væri náttúrulega að geta sett þetta á graf. 🙂

 7. Eftir þennan lestur finnst mér eins og mitt samband sé svo fullkomið… við erum alltaf sammála um það sem mér finnst og svo gerum við það sem mig langar til að gera!!!
  Sé bara ekkert flókið við að lifa lífinu og vera í sambandi :biggrin2:

 8. >Sé bara ekkert flókið við að lifa lífinu og vera í sambandi

  Nei, enda hélt ég því aldrei fram. Það var ekki point-ið. Point-ið er að það er ekki *sjálfsagt* að sá, sem maður heillst af sé með sömu (eða svipaða) drauma og maður sjálfur.

  Ég efast til dæmis ekki um að það eru þúsundir para á Íslandi í dag, þar sem báðum aðilunum langar að búa í úthverfin og eignast börn sem fyrst. Ég er hins vegar ekki spenntur fyrir því og væri ekki til í að verða hrifinn af stelpu, sem vildi það heitast í lífinu.

  Spurningin er bara hversu mikið maður vill gefa eftir af sínum draumum. Allir þurfa að gefa eitthvað eftir. Ég vil bara ekki gefa of mikið eftir.

 9. Takk kærlega fyrir þessa færslu, rosalega kannast ég við þetta. Að vera á stoppistöð hérna heima þegar allir aðrir eru á endastöð. Allir aðrir eru að hugsa um að settla, manni finnst hálf partinn að það væri lúalegt að byrja með stelpu þegar maður veit að maður er ekki tilbúin til þess að binda sig niður í einhvern bíll,barn&hús-pakka. En það má hugga sig við að það hljóta að vera einstaka stelpur þarna úti sem bölva því á sama tíma hvað það eru fáir strákar eftir með alvöru ævintýraþrá. Eða erum við kannski bara búnir að morkna hérna heima í tilbreytingarleysinu aðeins of lengi? Jafnvel þó lífið hér sé ágætt svosem þá er það svo tilbreytingarlítið, kunnuglegt. En engar áhyggjur, stelpan bíður einhversstaðar í Kasakstan …

 10. hey mig langar ekki í börn og úthverfahús… en aftur á móti nenni ég heldur ekki að ferðast útum allt en er alveg til í að prufa að búa á fleiri stöðum í útlöndum..
  annars sýnist mér á öllu að það sé bara best að einar byrji með daða, þeir gætu haft það helvíti gott saman

 11. en af hverju er ekki bara hægt að vera í sambandi en samt að lifa sjálfstæðu lífi með því… hver segir að samband sé endilega einhver endastöð á öllu öðru heldur en barneignum og flutningi í úthverfin.

  hver segir að allar stelpur sem eru á lausu og langar að hitta einhvern sætan strák og verða ástfangnar langi endilega til þess að eiga börn og flytja í úthverfin?

  það er ekkert leiðinlegra heldur en vinir sem eignast kærasta/kærustu og hætta í kjölfarið að hringja, djamma og hafa samband.

 12. Góð færsla! Ég bý einmitt erlendis og fæ alltaf áfall þegar ég kem heim og sé hvað allir eru æstir í að komast sem fyrst í pakkann.

 13. >en af hverju er ekki bara hægt að vera í sambandi en samt að lifa sjálfstæðu lífi með því… hver segir að samband sé endilega einhver endastöð á öllu öðru heldur en barneignum og flutningi í úthverfin.

  >hver segir að allar stelpur sem eru á lausu og langar að hitta einhvern sætan strák og verða ástfangnar langi endilega til þess að eiga börn og flytja í úthverfin?

  Ég sagði þetta allavegana ekki. Ég er handviss um að það er fullt af stelpum, sem deilir sömu skoðnunum og ég. Það virðast allavegana stelpur, sem kommenta hér, vera í svipuðum pælingum.

  Pointið var bara að líkurnar á að maður myndi hitta slíka stelpu á skemmtistað eru harla litlar. 🙂

 14. Þú ert ekki spéhræddur við internetið 😉

  Ég myndi taka mér langt sumarfrí og bæta nokkrum löndum á kortið. Áhugaverðustu stelpurnar eru alltaf erlendis (íslensku líka). Þær eru allavega ekki heima hjá sér og síst á djamminu í smáborginni Reykjavík :rolleyes:

  Verst er að “ferðalagasambönd” endast ekkert voðalega vel. En hver veit…

 15. vá frábært blogg. frábærar pælingar. frábærlega uppsett.

  persónulega finnst mér (og nú verð ég skotin í kaf hjá vinkonuhópnum) bull og vitleysa hvað allir eru að flýta sér mikið. byrja saman, búa saman og eiga börn saman á núll-einni.

  reyndar datt ég í þennan pakka um tvítugt en eiginlega sem betur fer þá losnaði ég úr honum, enda engan vegin tilbúin í einhverja endastöð.

  ef ég á að vera hreinskilin þá eru 99% stelpna á okkar aldri tilbúnar í barneignir. og í rauninni að reyna að verða ófrískar. að vera 26 ára 3ja barna móðir fær mig bara til að svitna. hvaða bull er þetta? er ekki nægur tími til stefnu??

  annars finn ég sjálf hvað maður er akkúrat á þessum aldri þar sem ALLIR eru að gifta sig, kaupa íbúð, bíl, eignast börn o.sv.frv. og ég verð eiginlega að segja að þetta er soldið yfirþyrmandi. sérstaklega þegar maður er sjálfur stopp.

  kannast líka við þetta að hafa hitt kynið á “heilanum”. hef verið soldið dugleg að vera skotin í strákum .. eða á föstu… en í dag þá er ég ekki skotin í neinum og er mjög sátt! ótrúlegt en satt! fyrst kunni ég einfaldlega ekki á þessa ró sem því fylgdi .. en hún venst vel. en gæti reyndar kannski orðið leiðinleg til lengdar.

  en auðvitað áttu að gera það sem þig langar. ef þú kynnist stelpu á meðan þá er það bara flott mál. hún verður einfaldlega að taka tillit til þinna langanna. og ef það gengur ekki so be it.

  en annars veit ég ekki hvar hægt sé að hitta hitt kynið. sumir segja í ræktinni .. en ég er ekki alveg að sjá það gerast (maður lítur sjaldan eins illa út og einmitt þar!) …

  ég held það sé bara best að njóta þessa tímabils á meðan það varir. þú verður ekki singúl alla ævi, því get ég lofað. af hverju ekki að nota tímann vel núna, rækta sjálfan þig og gera það sem þig langar þegar þig langar.

 16. Ég viðurkenni að ég nenni ekki að lesa commentin þannig að ég veit ekki hvað hefur verið sagt.

  En ég veit að þessi ævintýraþrá er sumu fólki eðlislæg (eins og mér og greinilega þér líka) og þótt að við séum kannski smár þjóðfélagshópur þá er það þess virði að bíða eftir að hitta manneskju sem deilir þessari þrá.

  Afhverju að lækka standardana sína? :biggrin2:

 17. Frábær færsla. Er 100%sammála þér með þetta allt saman. Líður nákvæmlega eins og þér fyrir utan kannski vandræðaganginn með stelpurnar.

  Lífið er of stutt, hef ferðast mikið en ekki nærri því eins og ég ætla mér.

  Þú fékkst mig til að hugsa um mikið af hlutum, spurning um að fara að endurskoða suma.
  Takk takk fyrir þetta innlegg.

 18. þetta er skemmtileg umræða..
  það sem fer mest í taugarnar á mér er að fólk ætlast alltaf til að maður vilji fara nákvæmlega sömu leið og það hefur farið og það sé hin eina sanna leið til hamingjunnar.. ég tek eftir þessu bæði hjá þeim sem eru að settla sig niður og líka hjá þeim sem eru engan veginn á leiðinni að festa rætur. æh.. ætti maður ekki bara að fá að gera það sem maður vill og finna sínar eigin leiðir sama hvort einhverjum öðrum finnst það norm eða ekki? það væri yndislegt..

 19. “Með öðrum orðum, mig langar ekki að verða ástfangin af stelpu, sem langar svo að byrja að eignast börn og flytja í úthverfin. Ekki að það sé neitt að því. Ég er ekki svo mikill asni að gera lítið úr því. Það er bara ekki það, sem ég vil núna. Kannski seinna, hver veit? En ekki núna. ”

  Einar þú tekur þetta tímabils ástand hjá þér sem alltof varanlegt ástand.

  Ég veit nú ekki hvar best væri að hitta stelpur og skemmtistaðafílingurinn er oft pirrandi þar sem maður þarf helst að þekkja vinkonu vinkonu eða e-ð álíka til að brjóta ísinn.
  Hinsvegar ef þú hittir konu á morgun sem þú féllir fyrir þá finnst mér ólíklegt að hún vilji fara að eignast börn með þér fyrr en eftir nokkur ár í fyrsta lagi. Líklega myndu langflestar stelpur gjarnan vilja ferðast og leika sér þannig að það finnst mér ekki nokkur issjú. Konum í dag liggur ekkert brjálæðislega á og því síður ef þær eru að hugsa um frama í starfi.

  Ef þig langar svo ekkert í börn eftir nokkur ár er það þitt mál en það er mjög ólíklegt ef þú virkilega elskar viðkomandi konu

  Hitt er að þessi úthverfafóbía þín eru algjörlega ástæðulaus. Geturðu ekki átt konu og börn í miðri Reykjavík?

  þinn einlægur,FÓ 😉

 20. Já, en Friðrik, kannski snýst málið ekki bara um miðbæinn vs. Kópavog, heldur Ísland vs. önnur lönd.

  Og þetta snýst ekki um börn, alls ekki. Heldur að fólk vilji festa sig niður í eitthvað ákveðið, sem nánast allir á Íslandi vilja gera, þrátt fyrir að þú haldir öðru fram. Það eru allir að flýta sér. Ég er hræddur um að festast á einhverjum ákveðnum stað. Einhvern veginn finnst mér einsog ég þurfi að gera eitthvað aðeins meira í lífinu, hvort sem það er að búa annars staðar eða eitthvað annað, áður en að ég dett niður í Gísla Martein pakkann. [Not that there’s anything wrong with that](http://www.pkmeco.com/seinfeld/outing.htm).

  Annars get ég útskýrt þetta mun betur undir fjögur augu. Ég átti von á því að vinir mínir myndu misskilja þetta, sem ég var að reyna að segja 😉

  Og já, Emma, rétt – það eru ekkert nema barnafjölskyldur á Hagamelnum. 🙂

 21. Annad hvort eru lesendur thessarar sidu allir ferdaodir og tilbunir ad lifa lifinu eda allir seu her ad vidurkenna ad eignast 3 born fyrir 27 ara aldurinn, husnaedislan og bill seu mistok hja odrum.

  Eg veit vel ad ekki hafa allir ahuga a ad sja neitt umfram Effelturninn i Paris og islendingabarinn a Benidorm og gerast svo villt/ur annad hvort ar og fara til, tja, Corfu.

  Eg a vini sem eiga born, hus og eru i pakkanum. Thau eru mjog hamingjusom og finnst bara gaman ad heyra sogurnar minar en hafa takmarkadan ahuga sjalf. Thad er frabaert.

  En thad er ekki fyrir alla og saumaklubba thrystingurinn virdist stundum koma upp i stelpum. Barn, NUNA.

  Eftir thad sem eg les thig, Einar, meira held eg ad thu sert a kolrangri hillu i lifinu nuna. Nyttu taekifaerid. Fardu ut, losnadur vid mestu ferdahyggjuna og thu verdur betri madur eftir 5 ar.

  Annars attu alltaf eftir ad hugsa um hvad thu hefdir getad gert og afhverju einhver stoppadi sig. Thad er ekki gott fyrir thig ne tha ungu stulku/konu sem thu endar med.

  Get bent ther a nokkur spennandi throunarverkefni sem hagfraedingar geta komid ad, s.s. micro-credit scheme til ad folk geti byggt vatnshana, kamra, geymslu fyrir korn og svo framvegis.

  Reyndu ad gledja thig yfir LFC i 8 lida thangad til.

Comments are closed.