Aftur af stað… Indland, Nepal, Bútan og Bangladess

Þá er komið að því að við Margrét ætlum á langt ferðalag á ný. Ég tók mér nánast ekkert frí á síðasta ári. Tók að ég held 5 frídaga, en restin af ferðalögunum voru öll til Íslands þar sem ég vann allan tímann. Þannig að núna eigum við inni slatta af fríi og ætlum að byrja að nýta okkur það. Margrét er í utanskóla námi á þessari önn og getur því tekið sér frí.

Hugmyndin er sú að fara til Suður-Asíu. Grunn hugmyndin er að heimsækja flest/öll þessi lönd: Indland, Nepal, Bútan og Bangladess. Við höfum annaðhvort 6 vikur eða 8 vikur – það fer aðeins eftir því hvort okkur finnst við ná öllu á þeim tíma.

Við erum búin að skoða þetta talsvert, en ég hef mikinn áhuga á að lesa reynslusögur frá fólki, sem hefur farið til þessara landa og fá þeirra hugmyndir.

Okkar grunnhugmynd var svona: Byrja í Mumbai, færa okkur svo upp til Udaipur, Jaipur, Agra (Taj Mahal), svo uppí Norð-Vestur hlutann – Amritsar, Dharamsala og svo einhvern veginn koma okkur austur til Varanasi. Koma okkur svo upp til Nepal, þar sem við myndum skoða svæðið í kringum Kathmandu. Við höfum sennilega ekki tíma fyrir lengri gönguferðir í Nepal, þannig að við látum Annanpurna bíða til betri tíma (ég er vongóður um að við munum aftur fara þangað). Svo aftur inn til Indlands og þaðan í stutta ferð til Bútan (kannski 4-5 dagar – við þyrftum þó að fljúga þangað samkvæmt því sem ég hef lesið). Þaðan í gegnum Indland inní Bangladess, þar sem við myndum skoða Dhaka og Sundabans. Síðan var hugmyndin að fljúga annaðhvort frá Kalkútta eða Dhaka yfir til vesturstrandar Indlands og eyða einhverjum tíma í Goa og Kerala.

Eftir megni viljum við forðast stórborgir, nema þær sem hafa eitthvað spennandi uppá að bjóða.

Það eru nokkrar spurningar í þessu, sem við erum að velta fyrir okkur.

1. Ættum við að fara til Norð-Vestur Indlands? Ég veit að sumir hlutar þar eru ófærir á þessum tíma árs – við verðum í mars (t.d. Leh, Dal vatnið í Kasmír og svo framvegis) Það tæki talsverðan tíma, en ég veit ekki hvort það sé þess virði. Maður þyrfti kannski að blanda inn heimsókn til Pakistan, sem ég er óviss um að sé sniðugt. Semsagt, eigum við að heimsækja eitthvað fyrir norðan Delhi?
2. Ég tel bara upp helstu borgirnar og túristastaðina, en ef einhver veit um góða staði á milli (við munum sennilega taka mun þéttara plan – ekki bara þessi higlight), þá er það frábært.
3. Hefur einhver reynslu af Bútan?
4. Erum við að sleppa einhverju augljósu? Ég veit að maður gleymir alltaf einhverju þegar maður byrjar að skipuleggja og plön breytast þegar maður kemur á staðinn.
5. Er þetta of þétt plan miðað við tíma?

14 thoughts on “Aftur af stað… Indland, Nepal, Bútan og Bangladess”

 1. Mér finnst þetta persónulega aðeins of metnaðarfullt. Ég var 6 vikur í Indlandi og fannst það svolítið rushed. Fór þá til flestra þeirra staða sem þú nefnir (Delhi, Agra, Jaipur, Udaipur, Goa, Varanasi, Mumbai ofl. en ekki norður af Delhi).

  Lestarkerfið er mjög gott en lestarferðir taka þó oft mjög langan tíma enda eru vegalengdirnar langar, t.d. milli Delhi og Varanasi, Delhi og Mumbai, og Mumbai og Góu (mæli með því að kaupa lestarskrána strax við komu). Á vinsælum leiðum getur einnig verið erfitt að fá miða og þarf stundum að kaupa með nokkurra daga fyrirvara, sem leiðir til þess að maður þarf kannski að stoppa lengur á einhverjum stöðum og getur ekki farið eins hratt yfir. Ég flaug annars í eitt skipti á milli Delhi og Mumbai en þurfti að bíða heilllengi á flugvellinum þar sem fluginu var seinkað um marga tíma. (gaman frá því að segja að einhverra hluta vegna vorum við 5 íslendingar í vélinni!).

  En ef þið planið vel og fljúgið á milli staða þá gæti þetta örugglega heppnast á 8 vikum, þetta fer bara allt eftir því hvernig þið viljið ferðast og á hvaða tempói… hvað þið eruð vön og hvað hentar ykkur. Einnig verður fólk oft mjög veikt og þarf að gera ráð fyrir því í plönunum (mæli annars með því að sleppa ölli kjöti og halda sig í grænmetisréttunum).

  Anyways, þegar ég var þarna var ég líka mjög hrifin af Jodpur og Jaisalmer. Sú seinni var pottþétt einn af highlightunum (ásamt Varanasi) og fór ég þaðan í 2-3 daga úlfaldaferð út í eyðimörkina. Einnig fannst mér margir mjög hrifnir af Pushkar þar sem úlfaldamarkaðurinn er, en ég fór ekki þangað. Einnig heyrði ég góðar sögur af ströndunum í Gokarna, fyrir sunnan Goa en þær eiga að vera rólegri.

  Varðandi Bangladesh þá er mjög lítið af ferðamönnum þar og lítið um markverða “túristastaði”. Samt alveg frábært að koma þangað því fólk er mun vingjarnlegra en í Indlandi og upplifunin meira “ekta”. Í Dhaka er gaman að taka siglingu á ánni og rölta um gamla bæjinn… en ég hef ekki komið til Sundabans.

  Persónulega myndi ég sleppa annaðhvort Nepal eða Bangladesh, ja, eða Bhutan og þannig einbeita mér að færri löndum í einu í svo stuttri ferð. En þetta verður þó örugglega alveg frábært – skemmtið ykkur vel! 🙂

 2. Ég mundi 100% reyna að stoppa í Chandigarh ef þið hafið tíma, og ég mundi reyna að vera í héraði sem er meirihluti Hinduar í kringum Holi/Phagwah (sem er yfirleitt í Mars), það er alveg sérstök lífreynsla.

 3. Takk kærlega Pálína og Sigurdís.

  Við þurfum að skoða þetta betur með tímasetninguna – ég var í þessu plani að gera ráð fyrir sirka 22-25 dögum samanlagt í Nepal, Bangladesh og Bútan. Þannig að restin af ferðinni (sirka 40 dagar) væru á Indlandi. Við höfðum ekki planað mörg flug nema Kolkatta-Goa og svo til og frá Bútan – og svo hugsanlega Delhi og Varanasi ef við gerum ekkert þar á milli.

  Við tékkum á þessum stöðum, sem að þið talið um.

 4. Vorum í tvær vikur á Indlandi í fyrra og Pushkar stóð upp úr: http://en.wikipedia.org/wiki/Pushkar

  Lítill og kósí bær með litlu stöðuvatni (sem er reyndar þurrt núna vegna hreinsunar, en kom ekki að sök).

  Frábær stemmning, góður matur, bæði indverskur og ‘vestrænn’.

 5. Annað sem ég var að muna eftir (þó svo að ég ætli nú ekki að gera eins langa ritgerð núna)! Þegar ég var í Varanasi gisti ég á krúttlegu gistiheimili þar sem ég var í einskonar þakherbergi og hafði rosa flott útsýni yfir Ganges all to myself. Man þó ekki nákvæmlega hvað gistihúsið hét því miður… en annað var að gistihúsið skipulagði fyrir mig einkatíma í jóga í 3 daga og kom þá gúru á gistihúsið til mín og kenndi mér jóga við sólarupprás upp á þaki með Ganges í bakgrunni. Alveg magnað og hugsanlega eitthvað sem Margrét hefði áhuga á að gera. Annars er örugglega hægt að fá jógakennara hvar sem er þarna úti, bara spurning um kynna sér það betur!

 6. Hæ – ég var í mánuð í Bangladesh og það er mjög áhugavert. Ég myndi ekki gera ráð fyrir meira en 2 dögum í Dhaka, borgin er mjög erfið og átakalegt að sjá dáið fólk á götunum, fólk með holdssýki og fátæktin er gríðarleg. Í Dhaka eru tveir markaðir sem eru í Gulshan eitt (eg number) og Gulshan tvö (dví number), mæli með þeim og svo er magnað að fara niður á stórskipahöfnina og fá einhver til að sigla með ykkur um slippinn, þar eru togarar allstaðar að úr heiminum og magnað að sjá. Forðist Banani eins og heitan eldinn, það er skuggalegt hverfi.

  Sundabans var fínt, Chittagong ströndin er æði og svo mæli ég með Mongla. Það er hægt að taka bát yfir bengalflóann til Mongla sem er mögnuð hafnarborg sem er nær eingöngu hægt að komast að siglandi og því nær bílalaus.

  Fannst rosa gaman að vera úti í sveit í Bangladesh og þar ferðast maður um á þakinu á rútunum, ekki hægt að fá hnífapör neinsstaðar og ekki hvíta manneskju að sjá. Dhaka fannst mér mjög erfið þrátt fyrir að ég væri í afgirtu diplómatahverfi.

  Góða skemmtun, vona að þetta hjálpi e-ð.

 7. Já og svo mæli ég með því að ferðast sem mest um landið á bátum, það er helsti kosturinn við Bangladesh að mínu mati.

 8. Svo ég ofsæki þig aðeins meira þá sé ég að ég er aðeins að rugla… Chittagong er borgin sem ég sigldi til og Cox’s bazar er æðislega ströndin og Mongla er bara Mongla. En þetta var einhver 24 klst sigling sem var magnaði í grenjandi rigningu á ofhlöðnum gömlum togara og miklum öldugangi.

 9. Takk kærlega Kristín Soffía – mjög gagnlegt. 🙂

  Það var ekki inná planinu að fara til Chittagong – en ég skoða það eitthvað betur núna.

 10. Ætli það sé ekki best að byrja á öfugum enda í spurningunum.

  5) Já, þetta er of þétt plan. Indland og ríkin þarna eru hæg í öllu. Við höfum báðir eytt tíma í Mið- og Suður Ameríku og þó það sé ekki eins og SJ þá er Indland mun hægara, ekki nauðsynlega verra.

  4) Jodhpur án vafa. Einn af 2 hápunktum Rajasthan fyrir mér. Hinn var Bikaner, en ég er sennilega einn um þá skoðun.

  3) Því miður.

  2) Bikaner eins og áður var nefnd. Mount Abu er æðislegur staður nánast án útlendinga á leiðinni frá Mumbai til Udaipur. í Austur Indland er sá hluti af West Bengal sem liggur að Bhútan og Sikkim allur yndislegur, og ef þú hefur gaman að fjalla landslagi þá er Sikkim yndislegur staður (Darjeeling)

  1) Amritsar og Punjab héraðið allt er skemmtilegt, ég myndi ekki fara norðar en það.

  Ég elskaði hverja mínútu á Indlandi, held að þú getir ekki valið vitlaust fyrst þú er nú þegar búinn að ákveða að vera lítið í stórborgunum (Delhi, Mumbai) því þær eru ótrúlega innihaldslausar.

  Rough Guide bækurnar um Indland eru að mínu viti langtum betri en LonelyPlanet fyrir þetta svæði.

 11. Takk Daði. Við erum eiginlega komin á þá skoðun að sleppa Nepal útúr þessari ferð. Þannig að þetta verða 8 vikur Indland, Bhútan og Bangladess.

  Skoða þessa punkta.

  Af hverju fannst þér Rough Guide betri? ég er orðinn svo vanur LP.

 12. Einar:

  Ég á frekar erfitt með að útskýra Rough Guide yfir LP. Ég hef aldrei vanist annari bókinni frekar en hinni, og hoppa á milli mjög mikið en á Indlandi, útaf stærðinni ákvað ég að vera með báðar auk LP Rajastan sem ég get þó mælt með því hinar (Indland) ná ekki að fjalla nógu vel um það svæði í einni stórri bók.

  Ég hafði gríðarlegan áhuga á Indlandi í sagnfræðilegum skilningi, mat og mannlífi, og mér fannst Rough Guide komast nær því að halda mér frá verztu túrista búllunum. Svo hafði ég líka á tilfinninguna að Indverjar vissu allir um LP og væru mjög fljótir að nýta sér það, mun meira en aðrar þjóðir. 10 staðir á sömu götu með sama nafni og mælt er með í LP bók og verðið tvöfalt á við það sem gerðist venjulega á þeim stað var ekki til að gleðja mig.

  Loks fannst mér Rought Guide vera miklu betri í að leiðbeina mér milli borga, sem skipti mig miklu máli því ég notaði alla ferðaskjóta sem mögulegt var, bíll, lest, rúta, flutningabíll og loks flug. (Mæli með SpiceJet og Kingfisher, SLÆMT reynsla af Decan, ítrekað).

  Að lokum, sennilega óþarfi en myndi sjá eftir því ef ég læsi svipaða sögu í ferðablogginu þínu eftir nokkra mánuði, þá er algengasta svindlið sem Indverjarnir reyndu á mig þegar ég tók rickshaw var að segja 15 (eða 16,17,18,19 við mig en reyna svo að rukka 50 eða (60,70,80,90). Ég endaði á að gefast upp og borgaði alltaf 20 rúpíur fyrir allar ferðir (3 sænskar held ég) því það spari mér riflidli sem var annars í helming tilvika.

  Smá þreyttur, ekki viss um að ég sé mjög skiljanlegur í málsgreinunum að ofan svo þér er frjálst að senda mér póst ef þú hefur frekari spurningar.

  Daði

Comments are closed.