Apple nýjungar

Jæja, kynningin hans Steve Jobs á Macworld er búin. Ég var að klára að horfa kynninguna á netinu. Kynningin var ekki jafn stór og í fyrra (iPhone) enda varla við öðru að búast. Jobs kynnti eftirfarandi:

  • Samblöndu af hörðum diski og Wi-Fi sendi, sem að Apple notendur geta notað til að taka þráðlaust afrit af gögnum á öðrum tölvum með Time Machine. Nokkuð sniðugt. Líkur á að ég kaupi: 50%
  • Nýjan iPhone hugbúnað með smá breytingum. Fyrir það fyrsta er hægt að ákvarða staðsetningu símans út frá GSM sendum (sem ég veit ekki hvort virki á Íslandi). Svo er iPod hlutinn aðeins bættur og hægt að endurraða táknmyndum á símanum. Kannski ekki alveg nógu merkilegt til þess að ég nenni að uppfæra símann minn. Ég er enn að bíða eftir forritum frá öðrum fyrirtækjum, sem ættu að koma í febrúar/mars.
  • Stærsta tilkynningin var eflaust nýtt Apple TV, sem að mun gera fólki kleift að leigja myndir í stofunni í HD myndgæðum. Þetta virkaði alveg rosalega skemmtilegt, en væntanlega aðeins ef maður er með bandarískan itunes aðgang, sem ég er með. Hægt er að leigja nánast allar nýjar myndir (margar hverjar í HD gæðum) og byrja að horfa á þær nánast strax í gegnum netið í fullum gæðum. Eina sem maður þarf er aðgangur að iTunes, Apple TV, þráðlaus sendir og sjónvarp. Engin tölva nauðsynleg. Virkar alveg rosalega sniðugt. Líkur á að ég kaupi: 100% (nema að FrontRow verði líka uppfært, þá gæti verið að ég myndi láta mér duga Mac Mini-inn sem ég er með í dag.
  • Svo kynnti Jobs þynnstu fartölvu í heimi, Macbook Air. Þessi tölva er innan við 1,95cm á þykkt þar sem hún er þykkust og 0,4cm þar sem hún er þynnst (Macbook Pro tölvan mín er 2,5 cm). Svo er hún bara 1,36 kg á þyngd á móti 2,45kg á tölvunni minni. Útlitið er líka mjög samt. Eeeen, ég sé samt ekki ástæðu til að uppfæra. Ég elska Macbook Pro vélina mína og þrátt fyrir að ég sé stanslaust með hana á ferðinni (þar sem ég er ekki með neina fasta skrifstofu) þá hefur mér aldrei fundist hún vera of þung eða stór. Líkur á að ég kaupi: 10% – en Apple á samt eftir að moka þessari tölvu út! (hún kostar um 63% meira en ódýrasta Macbook tölvan, en er líka 200 dollurum ódýrari en ódýrasta Macbook Pro tölvan.

Þannig að því miður kom ekkert iPhone þráðlaust sync, en restin af tilkynningunum var mjög í átt við það sem menn höfðu spáð.

9 thoughts on “Apple nýjungar”

  1. Þetta var fróðlegur Apple-dagur. Eins og þú segir var þetta ekki jafn stórt ‘Keynote’ og í fyrra hjá Jobs, enda ekki hægt að toppa iPhone á hverju ári.

    Ég efast um að ég eigi eftir að kaupa mikið af þessu sem var kynnt í dag, a.m.k. ekki strax. Eins og þú sé ég mest not fyrir Apple TV en á meðan okkur sem ekki eru skráð í Bandaríkjunum er ekki hleypt inn á iTunes-verslunina getur Jobs haldið áfram að fara til fjandans. Ég er kannski ekki nógu mikill tækninörd til að vita ástæðuna, en mér þykir lítið vit í því að hleypa ekki „okkur hinum“ líka inn á verslunina. Hafa menn eitthvað á móti meiri viðskiptum?

    Hvað Air-tölvuna varðar er ég hrifinn … en ekki alveg keyptur. Ég á rúmlega ársgamla, svarta MacBook og ég elska hana meira en allt. Ef ég myndi uppfæra á þessu ári yrði MacBook Pro sennilega fyrir valinu, frekar heldur en Air. Eins og þú segir, þá er ekki eins og MacBook- og Pro-tölvurnar séu einhverjir hlunkar fyrir, þannig að það er óþarfi að kaupa Air bara af því að hún er svona þunn.

    Annars er ég að verða hálf pirraður á að iPhone virðist ekkert ætla að láta á sér kræla hér á landi. Það virðist enginn vita hvort hann kemur, hvað þá hvenær. Fyrir okkur sem vorum ekki jafn fljót að kveikja og þú og redda síma að utan í haust (damn you!) er lítið annað að gera en bíða, þar sem nýjustu uppfærslur símans eru harðlæstar (öfugt við þína uppfærslu).

    Ojæja. Kannski kynnir Jobs iPhone á Íslandi í sérstöku ‘Keynote’ ávarpi í vor … maður má alltaf vona. 🙂

  2. Æji. Svo þetta var ástæðan fyrir því að hætt var við netstuðning í Time Machine á síðustu mínútu. Ef ég fæ ekki netdrifsstuðning í næstu uppfærslu þá er ég hræddur um að það lækki mér sá rómur er fagnaðarerindið boðar.

    Ég stóð annars niðri í Apple búð fyrir rétt viku síðan alveg á brúninni með að versla mér Airport Extreme. Mikið er ég feginn því að hafa ekki gert það alveg strax.

    Nýja TV uppfærslan er annars alveg málið. Hversu mikið verður þetta nothæft hérlendis?

  3. Skemmtilegar nýjungar og er ég þá mest hrifinn af Apple TV, sem hljómar mjög spennandi.

    En hvar er þráðlausa syncið eiginlega? Andskotinn!

  4. Borgar, það hlýtur að vera hægt að nota Airdisk drif fyrir Time Machine afrit – trúi ekki öðru en að það komi í næstu uppfærslu.

    Og Borgar, Apple TV verður væntanlega alveg gagnlaust hérna heima nema með Itunes aðgang. Steve Jobs sagði samt að það væri áhugi á að koma þessu international sem fyrst sem þýðir væntanlega að þjóðir einsog Danmörk og Svíþjóð fá þetta. En Ísland mun sennilega aldrei fá ITunes aðgang. Og ég er ansi hræddur um að það sama gerist fyrir iPhone, að hann komi hreinlega aldrei til Íslands – ekki nema að þeir ákveði að gera hann algjörlega alþjóðlegan Nota bene, hann er ekki heldur ennþá til í Japan, Ástralíu, Kanada, Spáni, Indlandi, Kína, etc etc etc.

  5. Það á að vera hægt að tengja drifið venjulega, nota það sem Time Machine drif, unplugga og tengja sem Airdisk. Annars er Airdisk ekkert voða traust, tengingin.

    Sala á einstökum þáttum og myndum í gegnum iTunes tengist kannski rétthafa í hverju landi fyrir sig og samningum við þá. Svo annað og meira mál kannski að Apple í Bandaríkjunum nenna örugglega ekki að eyða púðri í að setja upp iTunes verslun fyrir 300.000 manna samfélag. Ef maður pælir í því þá er það svipað og að setja upp sé iTunes verslun fyrir… Cambridge 🙂

    iTunes verslun á Íslandi er eitthvað sem maður þarf að eiga við Apple á Íslandi myndi ég halda. Apple á Íslandi er í eigu Baugs, sem hafa unnið lengi að því að koma upp þessari tonlist.is verslun, þá sjá þeir varla að það sé markaður fyrir iTunes verslun á Íslandi eingöngu fyrir myndefni, þar sem að Skjárinn er með þann hóp sem hefur áhuga á því. Sala á stökum þáttum myndi svo náttúrulega ekki koma til greina, því þá gætu þeir misst áskrifendur að Stöð 2 sem væri að kaupa sér staka þætti í staðinn, og myndu átta sig á því hvað Stöð 2 er í raun mikið rusl og okur 🙂

  6. já finnst þetta furðulegt með itunes store, ég reddaði mér aðgangi þarna fyrir ári en inneigning er núna búin. Ég er þannig að ég nenni engan veginn að standa í niðurhali. Finnst mjög fínt að geta keypt þættina gegn vægu verði og þá fengið aðgang að þessu efni á þægilegan hátt. En í staðinn fæ ég þetta stundum ólöglega í staðinn. Held að það séu einmitt fleiri svona eins og ég og hægt að koma í veg fyrir ólöglegt niðurhal með því að hleypa fleirum þarna inn!

  7. Já, ég held því miður að íslenskir rétthafar hafi meiri áhuga á því að þjófkenna allan almenning í stað þess að bjóða fólki uppá góðar og auðveldar leiðir til að nálgast það efni, sem það vill borga fyrir og horfa á.

  8. Einar, you nailed it.
    SMÁÍS eyðir ótrúlegum fjármunum í að ráðast á e-a torrent-töffara.
    Ef þeir eyddu sömu orku og fjármunum í að tryggja íslenskum kaupendum aðgang að efni (sem aðeins er fáanlegt með ólögmætum hætti í dag) mundi torrent-töffurum fækka hratt.

    Þessi íhaldssami gamaldags hugsunarháttur lýsir best á hvaða öld SMÁÍS er. Tækninni fór fram …en þeir misstu af því.

    Standi valið á milli þess að sækja sér með “ólögmætum” hætti tónlist og kvikmyndir í misjöfnum gæðum í óvissu um hvort og þá hvenær slíkt download heppnist, eða að kaupa sér með lögmætum hætti slíkar vörur á sanngjörnu verði, hvort velur hinn skynsami maður?

    Meðan ég man, það er ansi þægilegt að vera með amerískt kort. Ég hef ekki tölu yfir þann fjölda laga og kvikmynda/þátta sem ég hef keypt á itunes 🙂 Ekki fær SMÁÍS krónu þar…

    Hvaða djók er það annars að einn næturvaktarþáttur kosti 350 kr?

Comments are closed.