Áramótaávarp 2012

Dálítið seint þar sem ég hafði engan tíma á gamlársdag

2012 hefur verið ótrúlegt ár.

  • Við Margrét eignuðumst lítinn strák í apríl, sem við nefndum Jóhann Orra.
  • Jóhann Orri er snillingur og nánast allt í okkar lífi hefur breyst við komu hans. Á þessum átta mánuðum sem hann hefur verið með okkur hafa tilfinningar mínar í hans garð bara orðið sterkari og sterkari. Mér þótti vænt um hann frá því að ég sá hann á spítalanum í Danderyd. En með mánuðunum þá hafa tilfinningarnar mínar breyst. Þegar hann fór að brosa til mín, fatta hver ég var og sýna viðbrögð þá urðu tilfinningarnar svo miklu sterkari.
  • Jóhann Orri situr við hliðiná mér þegar ég skrifa þetta. Hóstar af því hann er veikur, lítur svo upp og brosir til mín. Þetta barn!
  • Sonur okkar hefur kúkað í klósett síðan hann varð 6 mánuða gamall. Það er algjörlega fáránlegt hversu ótrúlega miklu stolti maður getur fyllst við að sjá strákinn sinn kúka í klósett. Að vera pabbi er svo ótrúlega gefandi útaf öllum þessum litlu sigrum.
  • Gaurinn sem endar steggjapartí niðrá Hlölla á Lækjartorgi talandi við vini sína um hversu æðisleg barnið sitt er – það er núna ég.
  • Við Margrét prófuðum að vera fullorðin og fara í frí til Tenerife og gista á all-inclusive hóteli. Sú tilraun misheppnaðist. Við erum ekki tilbúin í þann pakka. Næsta ferðalag verður frumlegra.
  • Ég fór í tvær frábærar ferðir til Liverpool og sá Liverpool ná heilu stigi útúr þeim tveimur leikjum. En ferðirnar snérust um frábæra vini miklu frekar en þetta blessaða fótboltalið sem hefur gert mér lífið leitt á árinu.
  • Við Margrét seldum gömlu íbúðina okkar í Stokkhólmi og fluttum í nýja íbúð, sem hentar betur fólki með lítið barn, barnavagn og því sem tilheyrir. Við búum enn á eyjunni Södermalm af því við erum enn ung og hipp og kúl. En samt orðin mamma og pabbi og vöknum klukkan 8 á laugardagsmorgnum og allt það.

Við enduðum árið 2012 á Íslandi þar sem ég afrekaði á 14 dögum að fara í tvær 15 klukkutíma langar steggjanir, tvö frábær brúðkaup, innflutningspartí, tvö matarboð, vera þunnur eftir tvö brúðkaup, innflutningspartí og tvær steggjanir, fara í boð á aðfangadag, jóladag og annan í jólum. Fara í partí á annan í jólum, spila pool með vinum, horfa á Liverpool með vinum mínum og fara í löng brunch-boð þrisvar sinnum. Svona eru þessar Íslandsferðir – þvílík dagskrá – en þær eru samt alltaf frábærar.

Á árinu 2013 verður mikið nýtt að gerast í tengslum við Serrano í Svíþjóð og við Margrét stefnum á að fara loksins í brúðkaupsferð. Það verður fjör.

Gleðilegt ár!

One thought on “Áramótaávarp 2012”

  1. Til hamingju með þetta allt saman Einar Örn, Margrét Rós og Jóhann Orri 🙂
    Já, það er rétt sem þú segir Einar……þessi litli drengur er einn RISA stór sólargeisli !

Comments are closed.