Assad áróður í Sýrlandi

Fyrir nærri því fjórum árum ferðaðist ég um Mið-Austurlönd og þar á meðal um Sýrland. Ég elskaði Sýrland. Fólkið var algjörlega frábært, maturinn var himneskur og landið býður uppá ótal marga merkilega túristastaði. Ég eyddi meðal annars tæpri viku í Damaskus, sem mér fannst frábær borg. Labbaði á hverjum degi um markaðinn í borginu og sat og naut veðursins inní Umayaad moskunni mögnuðu.

Sýrlendingar eru líka yndislegt fólk heim að sækja. Það voru afskaplega fáir túristar í landinu þannig að oft var komið upp að manni út á götu og fólk byrjaði að tala við mig að fyrra bragði. Það eina, sem pirraði mig við Sýrlendinga var að Ísraelum var kennt um öllum heimsins vandamálum.

Það var líka nokkuð ljóst að maður mátti ekki tala um stjórnmál við Sýrlendinga. Ef að umræðan var flóknari en “Ísraelar gerðu þetta” eða “Þetta er síónistunum að kenna” þá bökkuð Sýrlendingar útúr umræðunni. Enginn vildi tala um Assad eða stjórnmál. Landið var líka frekar lokað og engar vestrænar vörur voru til þar. Það gerir upplifun ferðamannsins ekki minna spennandi, en ég var þó ansi illa haldinn af kaffiskorti í landinu þar sem ég átti erfitt með að finna Nescafé og kaffið sem var boðið uppá var svo hroðalega vont.

Allavegana, þegar ég var að fara í gegnum iPhoto myndir í morgun þá gat iPhoto ekki greint mun á mér og Bashar Assad þegar að forritið var að bera kennsl á andlit á myndum. Alls staðar í Sýrlandi var að finna áróðursmyndir af Assad. Hérna eru nokkrar þær, sem ég tók árið 2008.

Mynd af Assad

Assad áróður

Assad áróður

Og sennilega besta myndin var af þesu magnaða skilti, sem ég tók mynd af útí miðri eyðimörkinni hjá Palmyra

Bashar al-Assad er vinur þinn

Ef einhverjir hafa áhuga á að lesa um Sýrland sem ferðamannaland og skoða myndir frá landinu, þá get ég bent á ferðabloggið mitt og myndir á Flickr.

2 thoughts on “Assad áróður í Sýrlandi”

  1. Hef verið í Sýrlandi mörgu sinnum og séð bæði góðu hliðarnar og þær slæmu (meira að segja mikið slæmu, með spillingu og öllu sem því fylgir). Gaman að sjá að það eru fleirri Íslendingar sem hafa upplifað landið!

    Ég er alveg sammála því að fólkið þarna er bara indælt og maturinn ótrúlega góður. Það er miður að ástandið þarna er eins og það er en ég er hræddur um að ef að Assad verði velt af stóli mun ástandið ekki batna, heldur sennilega versna. Það eru allt of margir hópar sem eru núna að vinna á móti Assad en þessir hópar hata hvor aðra í mörgum tilvikum of ef Assad fellur frá verður valdabarátta í landinu sem mun þýða áframhaldandi dráp á fólki. Ég get allavega ekki séð fyrir mér að þarna verði sett á laggirnar lýðræði þar sem þessir hópar gera upp á pólitískan hátt. Kanski verður ?ýrland næsta Júgóslavía?

  2. Já, ég verð að játa að ég hef ekki hugmynd hvort að ástandið batnar eða versnar ef að Assad hættir. En ég er samt almennt á því að lönd batni þegar að einræðisherrum er steypt. Það gerist kannski ekki strax, en á endanum kemur það.

Comments are closed.