Mið-Austurlandaferð 12: Jeríkó

Ég er núna kominn til Jeríkó og þar sem ég er inná svo æðislegu hóteli með svona frábæra tölvu þá ákvað ég að henda inn stuttri færslu, þrátt fyrir að ég hafi skrifað líka í gær.

Um sex leytið í dag eftir að haf eytt deginum á ferð um Vesturbakkann og þegar ég sat úti í 35 stiga hita, í blautum (af svita) bol og hugsaði um kostina tvo sem ég átti – annars vegar að gista á hóteli sem bauð ekki einu sinni uppá viftu – og hins vegar að gista á glæsihóteli með loftkælingu og sundlaug (fyrri talsvert meiri pening) – þá ákvað ég að ég ætti inni smá þægindi og skellti mér á dýrari kostinn. Gat því stungið mér til sunds í hitanum hérna rétt hjá Dauða Hafinu í elstu borg heims, en talið er að hér hafi verið byggð í yfir 10.000 ár.

* * *

Ég byrjaði daginn á því að fara útá rútustöð og taka þaðan rútu frá Jerúsalem til Betlehem, sem tilheyrir Vesturbakkanum. Í Betlehem, einsog manni hefur verið kennt í jólalögum frá því að maður var lítið barn, fæddist Jesús. Þrjú hundruð árum síðar kom Helena, móðir Konstantínusar keisara og lét byggja Fæðingarkirkjuna á þeim stað sem talið er að Jesús hafi fæðst. Þá kirkju heimsótti ég í dag. Þar kemur maður inní sal þar sem liggja niður tröppur að helli þar sem er stjarna, sem markar þann stað sem fæðingin á að hafa átt sér stað. Þar var í dag endalaus straumur af túristum, sem snertu stjörnuna á meðan ég reyndi að taka myndir.

Við hliðina er svo Kirkja heilagrar Katrínar, þar sem ár hvert er haldin jólamessa, sem er sjónvarpað til flestra landa í heimi.

Eftir að hafa látið palestínskan homma hanga á mér einsog plástur í um klukkutíma á meðan ég skoðaði miðbæinn og markaðinn, ákvað ég svo að ég hefði séð nóg af Betlehem og tók því leigubíl til Jeríkó.

Eftir að hafa eytt dágóðum tíma í að spjalla við gamla kalla við tré Zaccheus-ar, þá tók ég kláf uppá Fjall Freistingarinnar, þar sem Djöfullinn á að hafa freistað Jesú. Hvort sem það gerðist í raun, þá breytir það því ekki að þar er gríðarlega gott útsýni yfir Jeríkó og Dauða Hafið.

* * *

Ég hef átt nokkur skemmtileg samtöl um trú við ferðalanga og innfædda á þessu ferðalagi mínu. Allar þessar ferðir á Biblíuslóðir hafa fengið mig til að hugsa ansi mikið um trúmál og ég kannski skrifa lauslega um það síðar.  Á þeim stöðum sem ég hef verið síðustu daga er gríðarlega mikið af Kristnum pílagrímum á ferð, flestir frá Bandaríkjunum. Margir hverjir styðja þeir Ísraels-ríki algjörlega gagnrýnislaust (ég sá í dag bandaríska konu með hatt merktan Ísraels-her!) og ansi margir trúa þeir því að Gyðingar eigi rétt á öllu landi Ísraels og Palestínu – og að um það verði ekki deilt – því það sé vilji Guðs. Þessu trúa einnig margir landnemanna, sem búa í landtökubyggðum Gyðinga á Vesturbakkanum. Þegar að fólk trúir einhverju vegna þess að það sé vilji Guðs þá verður oft erfitt að eiga við það samræður.

* * *

Ég endaði svo daginn á því að skoða rústir í Jeríkó, sem eru taldar vera allt að 7.000 ára gamlar.  Í kvöld ætla ég að njóta lífsins á góðu hóteli.  Á morgun ætla ég til Nablus og þaðan til Ramallah.

Skrifað í Jeríkó, Palestínu klukkan 19.44

Mið-Austurlandaferð 11: Frá Wadi Rum til Ísrael

Ég er kominn til Ísrael, er staddur núna inná hóteli í gömlu borginni í Jerúsalem. Ég sit uppá þriðju hæð hótelsins og ef ég sný mér við blasir við mér Klettamoskan uppá Musterishæðinni. Ef ég horfi svo aðeins til hægri sé ég í turninn á Grafarkirkjunni, sem er byggð á þeim stað sem að Jesús á að hafa verið krossfestur.

Þetta er mögnuð borg!

* * *

Ég kom hingað til Jerúsalem seint í dag frá Eilat, sem er strandborg við Rauða Hafið – alveg við landamæri Jórdaníu. Þar gisti ég eina nótt og naut seinni partinn í gær lífsins á ströndinni og baðaði mig í Rauða Hafinu, sem var frekar kalt þrátt fyrir um 35 stiga lofthita.

Ansi margt breytist við það að koma úr Arabaheiminum yfir til Ísrael. Ég ætla að bíða með að skrifa almennt um Ísrael, þar sem ég hef verið hérna í svo stuttan tíma. En um leið og ég fór yfir landamærin frá Jórdaníu þá breyttust strax hlutirnir. Fyrir utan augljsa hluti einsog klæðaburð kvenna, þá er efnahagurinn greinilega umtalsvert betri í Ísrael. Húsin eru fallegri og stærri, bílarnir nýrri og verslanirnar flottari. En svo eru það líka ótal aðrir hlutir sem eru svo ólíkir. Hérna í Ísrael spenna menn öryggisbelti í bílum og fara eftir umferðarreglum. Hér eru gangbrautir virtar, fólk hendir ekki rusli útum allt og svo framvegis

En það er líka mikill munur á Ísrael sem ég sá í Eilat og Ísrael sem ég hef séð á nokkrum klukkutímum í Jerúsalem. á leiðinni á rútustöðina keyrðum við framhjá hverfum þar sem virtust nær eingöngu búa Hasidim gyðingar (sem eru auðþekkjanlegir af klæðaburði og hárgreiðslu (hliðarlokkum)), en svo er gamli miðbærinn hérna í Jerúsalem nánast alveg einsog markaðirnir í Damaskus og Aleppo í Sýrlandi. Hérna í kringum hótelið heyrir maður salam alaykum (arabísk kveðja) miklu oftar en shalom (hebreska).

* * *

Síðustu dögunum í Jórdaníu eyddi ég í Wadi Rum eyðimörkinni. Þar var ég keyrður á jeppum um eyðimörkina þar sem ég skoðaði stórkostlegt landslag (og lenti í skemmtilegum ævintýrum sem ég nenni ekki að skrifa um á svona hrikalega lélegu lyklaborði). Ég svaf svo í Bedúínatjöldum í miðri eyðimörkinni þar sem ég gat horft uppá stjörnubjartan himininn. ógleymanleg ferð! Svo daginn eftir fór ég á úlfalda frá tjöldunum til Wadi Rum þorpsins þar sem ég tók leigubíl til Aquaba við landamæri Ísraels. úlfaldaferðin var skrautleg. Hún tók um 3 tíma án þess að stoppa og ég get staðfest það að rassinn minn hefur ekki enn fyrirgefið mér fyrir þá meðferð.

Við ísraelsku landamærin lenti ég svo í um klukkutíma bið (þrátt fyrir að ég væri nánast einn) þar sem ég var spurður alls konar spurninga, en var svo að lokum hleypt í gegn.

Ég mun sennilega vera með annan fótinn í Jerúsalem í nærri því viku. Hérna er gríðarlega mikið að skoða og svo ætla ég einnig að nota borgina sem grunnbúðir til að skoða Vesturbakkann. Ég er jafnvel að gæla við að fara þangað strax á morgun. Planið er að fara til allavegana Ramallah, Jericho og Betlehem en það er þó ekkert fastneglt.

Skrifað í Jerúsalem, Ísrael klukkan 21.53

Mið-Austurlandaferð 10: Petra og Jórdanía

Ok, fyrir það fyrsta, þá er ég á þessu netkaffihúsi núna búinn að hlusta á I will always love you með Whitney Houston TVISVAR í röð. Allah hjálpi mér!

Í öðru lagi, þá er mér batnað. Líður alveg hreint ljómandi vel og er núna búinn að vera hress tvo daga í röð. Eina sem angrar mig er þetta lélega lyklaborð, sem virðist hoppa yfir annan hvorn staf sem ég pikka inn.

Og núna, Everything I do I do it for you í einhverri stelpubands útgáfu. Ég er farinn. FARINN!

* * *

Ok, ég er kominn á nýtt netkaffihús. Stökk heim á hótel og náði í iPod-inn minn og hlusta nú á BetaBand í staðinn fyrir Whitney og pikka inná sæmilegt lyklaborð. Talsvert betra. Ég er enn staddur í Wadi Musa, sem er við hlið Petra rústanna. Er búinn með minn skammt af Petra og hef því nákvæmlega ekkert að gera það sem eftir lifir af þessum degi nema að lesa eða hanga á netinu.

Jú, ég gæti reyndar verið inná hóteli, en á herberginu mínu er gervihnattasjónvarp með SEX hundruð stöðvum. Gallinn við það eru aðeins tveir. Fyrir það fyrsta eru um 100 stöðvanna klámstöðvar. Nú gæti sennilega margt verið verra en það, en klám hér virðist eingöngu afmarkast af því að gellur í bikiní sitja uppí sófa og klæmast á arabísku við einhverja graða kalla sem eru eflaust dreifðir um Arabaheiminn. Áhugi minn á slíku er takmarkaður. Restin af stöðvunum (fyrir utan Al-Jazeera og BBC World) eru svo stöðvar frá öllum múslima heiminum, allt frá súdönskum stöðum til jórdanskra. Dagskrárgerð virðist aðallega miðast við þætti þar sem að stjórnandinn situr heima í stofu og talar á arabísku. Það er líka slappt sjónvarp, allavegana fyrir mig.

* * *

Jórdanía var teiknað upp sem land af Winston Churchill árið 1921, en landið fékk sjálfstæði frá Bretum árið 1946. Jórdanía er um 10% minna en Ísland og hér búa rúmlega 5 milljón manns – þar af eru um 60% þeirra Palestínumenn sem hafa flúið hingað eftir hin ýmsu stríð, en Vesturbakkinn tilheyrði áður Jórdaníu.

Landið er konungsríki, stjórnað af Abdullah II Hussein. Landið er einnig merkilegt fyrir þær sakir að það skartar sennilega fallegustu þjóhöfðingjafrú í heimi (ég vil allavegana sjá ef að ég hef rangt fyrir mér), en Raina drottning er með ólíkindum falleg.

* * *

Ég er búinn að eyða síðustu tveim dögum að skoða merkustu fornminjar Jórdaníu, Petra. Borgin, sem er að mestu höggvin útúr fjallgarði var byggð af Nabateum frá um 600 fyrir Krist til um 100 eftir Krist. Borgin er ótrúleg. Fyrir það fyrsta er umhverfi hennar magnað með áhrifamiklum fjöllum allt í kring, en svo eru líka byggingarnar ótrúlegar. Fallegustu byggingarnar eru á einhvern ótrúlegan hátt höggnar úr berginu. Frægust er sennilega Al-Kazneh, sem blasir við manni eftir nokkuð langa göngu eftir gjá, sem kallast Siq.

Ég er einsog ég sagði búinn að eyða tveim dögum í að skoða borgina og hafa þeir dagar verið nokkuð þéttskipaðir. Borgin er gríðarlega stór og fjöldi bygginganna (flestar eru þær grafhýsi) gríðarlegur. Ég er búinn að labba um svæðið allt, labba uppá tvö fjöll (þar á meðal til að sjá Al-Deir. Stórkostlegir tveir dagar og þetta er svo sannarlega með mikilfenglegustu stöðum sem ég hef séð á ferðalögum mínum.

Í gærkvöldi sá ég svo Petra að nóttu til. Þá var fólki smalað saman við innganginn að Petra svæðinu, þaðan sem við löbbuðum í röð eftir veginum lýstum af kertum uppað Al-Kazneh.  Ég verð seint talinn fylgismaður slíks hjarðtúrisma, en þetta var víst eina leiðin til að sjá borgina að kvöldi til.

* * *

Í kvöld ætla ég svo að fara snemma að sofa enda föstudagur og frídagur hér og allt lokað – og ég uppgefinn eftir labb síðustu daga. Á morgun ætla ég svo að reyna að koma mér til Wadi Rum.

Skrifað í Wadi Musa, Jórdaníu klukkan 18.55

Mið-Austurlandaferð 9: Móses, Jesús og ég

Dagur 3 í veikindum. Megi þetta verða síðasti dagurinn. Er byrjaður að bryðja einhverjar magatöflur frá Íslandi, sem ég átti að taka í neyð og þriggja daga magakveisa á ferðalagi er neyð í mínum huga. Djöfulsins vesen. Þetta var allavegana ekki þynnka, þannig að ég kenni sushi-inu um. Helvítis viðbjóðslega ofmetna japanska rusl.

Eitthvað við magakveisur á ferðalögum veldur því að ég fæ algera óbeit á matseld innfæddra. Ég man hvernig þetta var í Suð-Austur Asíu þegar ég gat ekki hugsað mér að borða núðlusúpur eða hrísgrjónarétti. Núna get ég ekki hugsað mér að borða shawarma, falafel og allt það dót og hef þess í stað gripið til þess örþrifaráðs að panta á veitingastöðum aðeins hluti, sem ég kannast við frá Íslandi einsog hamborgara. Í þessu er nákvæmlega ekkert vit því að hamborgaranir hérna eru ógeðslegir, en matur innfæddra er frábær. Jæja, þetta hlýtur að fara að skána.

Ég var að koma til Wadi Musa í dag, en það er bærinn sem hýsir hótelin fyrir Petra rústirnar, sem ættu væntanlega að vera einn af hápunktum þessarar ferðar. Þegar ég kom inná hótel um þrjú leytið í dag henti ég öllu draslinu mínu á rúmið og sofnaði, örmagna af þreytu. Málið er að í viðbót við veikindin hef ég verið á alveg rugl lélegum hótelum undanfarna daga. Hótel án allra viftna (og auðvitað án loftkælinga), sem hefur gert það að verkum að ég hef þurft að hafa opna glugga, sem hefur hleypt inn hópum af flugum, sem vilja ekkert meira en blóðið mitt (jú, þeim þykir reyndar dótið sem ég spreyja á mig til að verjast þeim vera líka gott). Þetta hefur valdið því að ég hef lítið sofið útaf ágangi flugnanna og vakna örmagna – og svo er það líka eitthvað við öll þessi bit, sem draga úr mér kraftinn.

En nóg af þessu andskotans væli. Aggi vill hressar sögur, svo að hér með lýkur þessu væli.

* * *

Í gær tók ég leigubíl til að skoða helstu túristastaðina í Jórdaníu á milli Amman og Petra. Við byrjuðum á því að fara til Madaba, borgar rétt sunnan við Amman. Þar skoðuðum við nokkrar mósaík myndir, sem eru eflaust stórkostleg listaverk fyrir áhugamenn um mósaík myndir. Þaðan keyrðum við svo uppá Nebo fjall. Það er fjallið þar sem að Móses kom 120 ára gamall til að sjá fyrirheitna landið og dó. Af fjallinu er gott útsýni yfir Dauða Hafið og Palestínu.

Þaðan keyrðum við svo að Bethany handan Jórdan ánnar, sem er staðurinn þar sem að Jesús var skírður. Auk þess að sjá staðinn þar sem hann var skírður, þá er þetta líka eini staðurinn þar sem hægt er að snerta Jórdan ána, sem ég og gerði og fékk mér fótabað í þessari frægu á, sem er í dag mjög vatnslítil. Áin markar auðvitað landamæri Jórdaníu og Vesturbakkans (Jórdan-árinnar) í Ísrael, en það svæði sem mun vonandi sem fyrst mynda meginhluta lands sjálfstæðrar Palestínu, en Vesturbakkinn var áður undir stjórn Jórdaníu, en Ísrael tók svæðið yfir í Sex Daga Stríðinu árið 1967. Vegna landamæranna er nánast öll Jórdan áin umvafin hernarðarmannvirkjum og því ekki hægt að komast að henni nema á þessum litla stað.

Allavegana, þaðan fórum við svo að Dauða Hafinu. Dauða Hafið heitir því skemmtilega nafni þar sem að mikið saltmagn gerir það að verkum að í vatninu þrífst ekkert líf. Hafið markar einnig lægsta punkt á jörðinni, en það er um 330 metra undir sjávarmáli (og fer lækkandi). Vegna þess hve hratt vatnið gufar upp hefur saltmagnið í vatninu aukist og veldur því núna að hægt er að fljóta í vatninu (sökum þess hve salt það er). Þetta er nokkuð skemmtilegt að upplifa. Maður getur legið í vatninu með hendur undir höfði og slappað af. Einnig er ekki hægt að synda þar sem að stór hluti líkamans flýtur alltaf uppúr vatninu og því ekki hægt að hafa hendur og fætur í vatninu á sama tíma (nema að maður standi). Þetta er allt mjög skemmtilegt að upplifa.

Ég slappaði svo af í sundlaugum nálægt ströndinni og naut ótrúlega góðs veður. Reyndar var hitinn gríðarlegur, sem var í lagi þegar maður var ofaní vatni, en versnaði þegar að vatnið hafði þornað. Eftir þetta fór leigubíllinn svo með mig að Dana þjóðgarðinum, þar sem ég gisti síðustu nótt.

* * *

Í dag byrjaði ég svo daginn á 6 tíma gönguferð um Dana þjóðgarðinn, sem var ágæt og er sennilega best lýst af myndum.

Næstu tvo daga ætla ég svo að skoða Petra rústirnar.  Þaðan ætla ég að fara til Wadi Rum, þaðan til Aqaba og svo yfir til Eilat í Ísrael.

Skrifað í Wadi Musa, Jórdaníu klukkan 21.00

Mið-Austurlandaferð 8: Veikindi og vestræn þægindi í Amman

Heyriði, hérna að neðan eru komnar inn tvær færslur og ekki eitt einasta helvítis komment! Þetta er agalega slappt. Ég geri allavegana ráð fyrir því að íslam færslan mín hafi verið rétt, þar sem enginn hefur kommentað á hana með leiðréttingum.

Allavegana, ég er komin til Amman í Jórdaníu og hef verið hérna í rétt rúman sólahring. Síðustu tveir sólarhringar hafa verið skrautlegir.

* * *

Ég er búinn að vera fárveikur í dag. Ég veit ekki hvort það er uppsöfnuð matareitrun, sushi-ið sem ég borðaði í gær eða flaskan af hvítvíni sem ég drakk með matnum. Það sem ég veit er að ég vaknaði í rúminu mínu klukkan 4 í morgun við það að bænakallarar í moskunni byrjuðu morgunbænirnar sínar og var þá með brjálaðan hausverk og hrikalega magapínu.

Dagurinn í dag hefur því verið nánast óbærilegur. Ég byrjaði á því að staulast útaf hótelinu um klukkan 9 og gerði örvæntingarfulla leit að Starbucks stað, því ég hef ekki fengið annað en arabískt kaffi síðustu daga. Ég fann hann og borðaði morgunmat þar, en leið samt ömurlega. En skyldurækni mín sem túristi er oft mögnuð og ég ákvað þrátt fyrir veikindin að fara í dagsferð til Jaresh rústanna. Eina sem ég gerði aukalega útaf veikindunum var að ég fór í loftkældum leigubíl í stað rútu.

Jerash eru þrjú hundruðustu rómversku rústirnar sem ég sé á þessu ferðalagi og segi ég þetta nú gott af rómverskum súlum. Borgin var uppá sitt besta á árunum blah blah og blah blaaaah! Nei, ég segi svona.  Ég er svona neikvæður því ég var alveg hræðilega slappur í Jerash og meikaði varla að skoða alla staðina. Ekki hjálpaði að hitinn var nánast óbærilegur, um 35 stig í sól sem er of mikið fyrir fárveikan (og fullan af sjálsvorkun) Einar. Eftir þetta fór ég heim á hótel og sofnaði. Vaknaði svo um klukkan 5 og tók þá við röð af vestrænum þægindum hér í borg, sem ekki var hægt að nálgast á Sýrlandi.  Fór fyrst og borðaði á McDonald’s, fór svo í bíó á Iron Man (sem er góð) og slappaði svo af í leðursófa á einhverjum lúxuhótelsbarnum.  Kom svo hingað heim á mitt skítuga og ódýra hótel fyrir smá stundu.

Hótelið sem ég er á er þó nokkuð skemmtilegt.  Það er fyrir það fyrsta viðbjóðslegt, en það skiptir ekki öllu máli.  Það er einsog hótelið hafi verið innréttað árið 1930 og svo hafi hlutirnir bara verið látnir sitja.  En hótel eigandinn bætir upp fyrir þetta.  Hann var brjálæðislega hress inná skrifstofu sinni í gærkvöldi þegar að ég og Rachael komum heim úr sushi-ævintýrinu okkar.  Ég sat og spjallaði við hann í einhverja tvo tíma um ferðalög og jórdönsk stjórnmál.  Frábær kall!

* * *

Síðasta kvöldið mitt í Damaskus var gott.  Suzie, önnur bandaríska stelpan, var á fullu í arabísku tíma um kvöldmatarleytið, þannig að ég og Rachael (hin bandaríska stelpan) ákváðum að skella okkur útað borða á stað sem reyndist bjóða uppá guðdómlega góðan mat.  Ég borðaði grillað sýrlenskt lambakjöt, sem var stórkostlegt (take that!, Guðni Ágústsson!) borið fram með besta hummus-i sem ég hef fengið í ferðinni (og hef ég nú borðað hummus á hverjum degi í þessari ferð) og fersku, nýbökuðu khubz brauði sem var himneskt!

Við kíktum svo heim á gistiheimili, drukkum hvítvín og reyktum nargileh með fólkinu þar.

Ég og Rachael (sem erum bara vinir, bara svo það sé alveg á 110% hreinu) ákváðum svo að samræma plönin okkar og fara saman í gær.  Við ætluðum að fara til Golan hæða, Bosra og svo yfir til Amman.  Það reyndist skrautlegt.

Við byrjuðum á því að fara í innanríkisráðuneytið og sækja um leyfi fyrir Golan hæðirnar, en þar var bílstjóranum okkar (sem talaði ekki orð í ensku) sagt eitthvað, sem olli því að hann ákvað að fara með okkur beint til Quneitra, sem er borgin sem að Ísraelar lögðu í rúst eftir Yom Kippur stríðið.

Áður en við komum þangað fórum við inná sýrlenska herstöð.  Þar var okkur vísað inní aðalherbergið, þar sem voru hvorki fleiri né færri en 4 sýrlenskir hershöfðingjar, sem virtust vera mjööög hátt settir og þar af einn hershöfðingi sem að gat talað í tvo síma í einu fyrir aftan skrifborðið sitt.  Okkur var boðið kaffi, sem við þorðum ekki annað en að þiggja.  Svo sátum við þarna inni á meðan að hershöfðingjarnir horfðu á Al-Jazeera, þar sem akkúrat þurfti að birtast andlitið á Gerge W Bush, sem er sennilega ekki í miklu uppáhaldi hjá þeim.  Eftir þetta kaffiboð stóð aðalgaurinn upp, tók í hendurnar á okkur og við fórum út.  Eftir smá reikistefnu komumst við að því að við fengum ekki leyfi til að heimsækja Golan hæðirnar.  En við fengum allavegana kaffi með hershöfðingjunum.

Það voru vissulega vonbrigði og keyrðum við því til Bosra, sem er fræg fyrir rómverkst (surprise!) leikhús.  Við skoðuðum það og fórum svo í átt að landamærunum.  Á endanum tók það okkur meira en klukkutíma að komast yfir landamærin því að bílstjórinn okkar var stoppaður og af einhverjum ástæðum mátti hann ekki fara inn til Jórdaníu, þannig að við þurftum að húkka okkur far með öðrum leigubíl.  En á endanum komumst við hingað til Amman.

Í gærkvöldi fórum við svo að borða á Vinaigrette, sem er fllottur sushi bar í Shmeisani hverfinu í Amman.  Þar hittum við fyrir gaurinn sem var með okkur í leigubílnum, en hann er bandarískur Harvard nemi sem talar arabísku og er að skrifa doktorsritgerðina sína um Líbanon.  Yfir sushi-inu og hvítvíninu fengum við svo stórkostlegan fyrirlestur um ástandið í Líbanon, sem færði mig kannski aðeins nær því að skilja eitthvað í þessu flókna landi.

Annars er ég alltaf að hitta alveg ótrúlega klárt og skemmtilegt fólk hérna.  Ég er búinn að ferðast með tvítugri stelpu, sem er að læra í Yale og talar arabísku, borða með þessum doktorsnema, drekka hvítvín og spjalla um stelpur með rithöfundi sem hefur gefið út vel heppanaðar bækur í USA, drukkið kaffi með jórdönskum hóteleiganda sem hefur ferðast um hálfan heiminn og svo framvegis.  Ég get ekki kvartað.

Á morgun er stefnan að fara í fótbspor Móses á Nebo fjalli og baða mig í Dauða Hafinu.

Skrifað í Amman, Jórdaníu klukkan 21.00

Mið-Austurlandaferð 7: Damaskus

Fram til þessa í ferðinni hef ég farið nokkuð hratt yfir. Ég fór yfir helstu staðina í Líbanon á viku og fyrsta vikan á Sýrlandi var líka nokkuð þétt skipuð. Það er því mjög gott að hafa slakað aðeins á hraðanum hérna í Damaskus.

Ég hef rosalega gaman af því að vera á fullu alla daga, sjá nýja staði og gera nýja og spenanndi hluti. En svo er líka gaman að ílengjast aðeins í borgum. Vera nógu lengi til að rata á helstu staðina, eignast uppáhalds veitingastaði og svo framvegis. Bæði er Damaskus ótrúlega heillandi borg og svo hef ég líka verið rosalega heppinn með gistiheimilið sem ég er á. Þar hef ég kynnst ótrúlega skemmtilegu fólki, sem ég hef drukkið, borðað, labbað og ferðast með síðustu daga.

Ég er búinn að eyða þrem dögum á rólegu labbi um borgina. Ég kynntist á gistiheimilinu tveim bandarískum stelpum, sem ég hef verið með síðustu daga. Fimmtudeginum eyddum við á labbi um borgina, skoðuðum Umayyad í annað skipti, löbbuðum um markaðina og urðum villt í gömlu borginni. Um kvöldið fórum við með leigubíl uppá Quassioun fjallið, þar sem er alveg frábært útsýni yfir Damaskus og horfðum þar á sólsetrið. Borðuðm svo frábæran mat og reyktum Nargileh á veitingastað með fleira fólki af gistiheimilinu.

* * *

Í gær fórum við svo þrjú til Palmyra rústanna, sem eru sennilega merkustu fornleifar Sýrlands. Palmyra er borg, sem var byggð á vin í eyðimörkinni um 200 km frá Damaskus. Talið er að þar hafi fólk búið frá því fyrir um 4.000 árum, en hápunktur borgarinnar var undir stjórn Zenobia, sem stjórnaði Palestínu, Sýrlandi og hluta Egyptalands frá Palmyra í kringum árið 200.

Í dag eru í Palmyra rústir hofa og aðalgötunnar, sem var umkringd súlum. Við skoðuðum rústirnar í nokkura klukkutíma og eyddum svo restinni af deginum inná kaffihúsi, bíðandi eftir rútu til Damaskus – sem ætlaði aldrei að koma, spjallandi um fulltaf skemmtilegum hlutum.

Ég ætlaði svo bara að taka því rólega inná gistiheimili í gærkvöldi. Fékk mér falafel og settist niður til að klára The Corrections. En þá kom Carl, nýsjálenskur rithöfundur, heim með fulltaf léttvíni – svo við sátum að drykkju frameftir kvöldi með fólki, sem kom inná gistiheimilið eftir því sem á leið á kvöldið.

Í dag er ég svo búinn að taka því frekar rólega. Heimsótti Umayyad í þriðja skiptið, enda fæ ég varla nóg af þeirri stórkostlegu byggingu. Reyndi að heimsækja minnismerki um baráttuna um Golan hæðir án árangurs og labbaði svo meira um borgina. Á morgun ætla ég svo að gera aðra tilraun til þess að fá ferðaleyfi til Golan hæða og svo á mánudaginn er planið að fara með rútu til Amman í Jórdaníu.

Skrifað í Damaskus, Sýrlandi klukkan 17.30

Mið-Austurlandaferð 6: Íslam

Ég er búinn að vera í Damaskus í rúman sólahring og verð að segja að ég er alveg heillaður af þessari borg. Ég er eiginlega bara staddur á internet-kaffihúsi til að kæla mig aðeins niður, enda sólin sterk og veðrið gott. Hérna á netkaffihúsinu hljómar How am I supposed to live without you með Michael Bolton og ég er umkringdur Sýrlendingum, sem keðjureykja. Sannkallaðar kjör-aðstæður!

Ég kom hingað með rútu frá Aleppo í gær og er búinn að eyða deginum í dag í labb um gamla bæinn. Ég gisti á gistiheimili í kristna hverfi gamla bæjarins, rétt hjá Decumanus götu (Straight Street) þar sem að Páll Postuli á að hafa verið skírður eftir að hafa snúist til Kristni á veginum til Damaskus. Hið skemmtilega gistiheimili sem ég bý á er rekið af Palestínumanni, sem hefur búið í Ástralíu lengi en er nýfluttur til Damaskus.

* * *

Í dag skoðaði ég þriðju helgustu mosku múslima (á eftir Mekka og Medina), Umayyad moskuna í Damaskus. Sú bygging er einfaldlega stórkostleg, sannarlega með fallegri byggingum, sem ég hef séð á ævinni. Ég eyddi megninu af fyrri part dagsins inní moskunni. Í henni er m.a. bænasalur þar sem haus Hussein (barnabarns Múhameðs) er geymdur. Sá staður er helgur fyrir Shía múslima. Þegar ég kom þangað inn var þar stór hópur af grátandi fólki í miðjum bænum.

Ég verð að játa það að ég hef alltaf átt erfitt með að muna hvernig skiptin á milli súnní og sjía eru. Ég ákvað því eitt kvöldið að byrja að krota í stílabókina mína töflu til að hjálpa mér við að læra þetta í eitt skipti fyrir öll. Og deili henni hér með ykkur (með fyrirvara um villur, sem þið megið endilega leiðrétta, þar sem ég er enginn fræðimaður í þessum málefnum). Tel þarna til lönd þar sem hvor hópur er í meirihluta og karaktera (flestir miður góðir, enda fréttaflutningur af íslam sjaldnast góður) úr fréttum.

Sjía (15%) Súnní (85%)
Trúa Trúa því að eftir dauða Múhameðs hefði Ali, tengdasonur hans átt að taka við sem leiðtogi múslima (Imam). Viðurkenna ekki áhrif kosinna leiðtoga í íslam, en trúa þess í stað á röð af leiðtogum, sem þeir telja að hafi verið skipaðir af Múhameð eða Guði sjálfum. Trúa því líka að þessir leiðtogar geti ekki gert mistök þar sem þeir séu skipaðir af Guði. Imamarnir hafa því kennivald. Telja að rétt hafi verið að kjósa leiðtoga múslima (Imam) eftir dauða Múhameðs úr hópi hæfra manna (einsog var gert). Telja að leiðtogarnir þurfi að vinna sér inn stöðu sína og ef að þeir standi ekki undir væntingum sé hægt að svipta þá titlinum. Imamarnir hafa því ekki kennivald.
Orðið þýðir Stytting á Shia-t-Ali, eða “Flokkur Ali”. Sá sem fylgir hefðum Spámannsins
Lönd Íran, Írak (65% þjóðarinnar), Bahrain, Azerbaijan, Líbanon (stærsti trúarhópurinn, þó í minnihluta) Sádí Arabía, Palestínumenn, Tyrkland, Sýrland, Jórdanía, Afghanistan, Pakistan, Sameinuðu Arabísku Furstadæmin, Egyptaland, öll önnur múslimaríki sem ekki eru talin upp meðal Sjíalandanna.
Fólk Khomeini (Íran), Muqtada al-Sadr (Írak), Ali Al-Sistani (Írak), Ahmadinejad (Íran), Hassan Nasrallah (Líbanon) Rafik Hariri (Líbanon), Saddam Hussein (Írak), Osama Bin Laden (Sádí Arabía), Ayman Zawahiri (Egyptaland), Yasser Arafat (Palestína)
Samtök Hezbollah, Mahdi herinn Hamas, Al-Qaeda

Vonandi að þetta hjálpi einhverjum. Ég ætla að nota Damaskus sem bækistöð næstu daga, enda kann ég vel við mig á gistiheimilinu meðal skemmtilegs fólks. Ég er að spá í því að fara til Palmyra á morgun og hugsanlega til Golan hæða seinna í vikunni, með stoppum í Damaskus á milli. Þegar ég er búinn að skoða þá staði og allt sem ég ætla að sjá í Damaskus þá mun ég halda til Jórdaníu.

Skrifað í Damaskus klukkan 18.13

Mið-Austurlandaferð 5: Sýrland

Svona bakpokaflakk snýst auðvitað að mörgu leyti um að skoða helstu túristastaðina. Skoða helstu moskurnar/hofin/kirkjurnar í hverri borg, helstu náttúruperlur og gera það sem að allir pakkatúristarnir gera á sínum ferðum.

En svo snýst þetta flakk líka um daga einsog daginn í dag, sem hefur verið nánast fullkominn. Daga þar sem maður getur kynnst innfæddum, daga þar sem maður hefur ekkert betra að gera en að sitja á torgi, stara útí loftið og spjalla við fólkið á götunni. Setjast svo á kaffihús, horfa á mannlífið, lesa góða bók og spila fótbolta við krakka útá götu. Dagar sem að fulltaf litlum, óvæntum og skemmtilegum hlutum gera svo frábæra. Svoleiðis dagar eru líka ótrúlega mikilvægir.

* * *

Sýrland hefur ekki beint á sér gott orðspor. Ég man ekki eftir að hafa lesið neitt gott um þetta land í fréttum áður en ég kom hingað. Landinu hefur í nærri því 40 ár verið stjórnað af al-Assad feðgum, fyrst Hafez al-Assad, sem komst til valda í valdaráni hersins árið 1970 og stjórnaði landinu alveg til dauðadags árið 2000 þegar að sonur hans Bashar al-Assad tók við. Hér búa um 20 milljónir manns, langflestir Súnní múslimar.

Í fréttum hefur Sýrland aðallega verið tengt vandamálum í nágrannaríkjunum. Ríkisstjórnin hefur verið með puttana í málefnum Líbanons, landið hefur staðið í landamæradeilum við Ísrael mjög lengi, ríkisstjórnin var að mati Bandaríkjamanna ekki nógu dugleg við að loka landamærunum að Írak (svo að vígamenn gætu ekki komið inní Írak frá öðrum Arabalöndum) og svo framvegis og framvegis. Í 24 þáttunum eru hryðjuverkamenn frá Sýrlandi og ég man ekki eftir að hafa séð sýrlenskan karakter í bandarísku afþreyingarefni öðruvísi en hann væri tengdur hryðjuverkum. George W Bush tilnefndi svo Sýrland sem einhvers konar viðbótarmeðlim í möndulveldi hins illa ásamt Kúbu og Líbíu.

En ef það er eitthvað sem ég hef lært af ferðalögum mínum um heiminn, þá er það að skilja frá aðgerðir ríkisstjórna og álit mitt á þegnum viðkomandi lands. Ég get til að mynda vel elskað Bandaríkin og þegna þess lands þrátt fyrir að aðgerðir GWB séu mér ekki að skapi og þótt að ég viti að í því landi séu hópar sem mér líkar ekki við.

Þetta er frekar langur fyrirvari að því að koma því frá mér að Sýrlendingar eru með yndislegasta fólki sem ég hef kynnst. Ég veit að ég hef bara verið hérna í 4 daga, en aldrei áður hef ég kynnst jafnmikilli gestrisni. Aldrei hefur mér liðið jafnvel í nýju og ókunnu landi. Aldrei hefur jafnmikið af fólki komið uppað mér á götu og boðist til að hjálpa mér. Ólíkt mörgum fátækari löndum sem ég hef komið til þá eru þessi almmennilegheit algjörlega ótengd því að verið sé að reyna að selja manni eitthvað. Fólkið býður mann einfaldlega velkominn úti á götu af engri auðsýnilegri ástæðu. Mér hefur verið boðið heim til fólks í te, fólk brosir sífellt til mín úti á götu og hvert sem ég fer heyri ég fólk hrópa “Hello!” og brosa til mín. Þetta er með hreinum ólíkindum. 🙂

* * *

Ég er núna staddur í Aleppo, næst stærstu borg Sýrlands í norðurhluta landsins. Hingað kom ég um hádegisbilið í dag með rútu frá Hama. Þeir sem að taka vel eftir ættu að hafa áttað sig á því að planið mitt hefur breyst. Ég ætlaði upphaflega að fara til Palmyra á sunnudaginn, en á laugardagskvöldið ákvað ég að breyta planinu. Þess í stað fór ég á sunnudaginn (sem var einmitt í gær – VÁ hvað tíminn líður oft hægt á svona ferðalögum – Yndislegt!) í ferð um austurhluta Sýrlands.

Hótelið mitt í Hama skipulagði þennan túr, sem fólst í því að leigja leigubíl með arabísku-mælandi bílstjóra og segja honum hvert átti að fara. Við byrjuðum á að skoða Rasafa rústirnar, sem eru magnaðar rústir borgar í miðri eyðimörkinni. Þar var ég einn einsog við flestar fornminjar á þessari ferð minni og það var frábært. Síðan keyrðum við að Efrat ánni, sem rennur í gegnum Tyrkland, Sýrland og Írak. Þar sem við komum að ánni er risastórt uppistöðulón fyrir virkjun, sem var reist af stjórn al-Assad á sjöunda áratugnum. Sú virkjun er mikið þjóðarstolt í Sýrlandi. Hjá lóninu skoðuðum við svo eitt virki í viðbót. Á leiðinni aftur til Hama skoðuðum við svo fleiri rústir og það var eiginlega orðið svo í gær að ég var kominn með nett leið á að skoða gamla steina í eyðimörkinni, enda hafa síðustu dagar verið uppfullir af slíku.

Ég ákvað því að hætta við að fara til Palmyra (sem eru frægustu fornminjar Sýrlands) í bili og tók þess í stað rútu hingað til Aleppo. Hérna er ég svo búinn að eiga frábæran dag. Eftir að ég hafði komið dótinu mitt inná hótel, sem er í miðju hverfi dekkjaverkstæða, þá labbaði ég niður að gamla miðbænum í Aleppo. Þar er hinn frægi markaður, sem er furðu skemmtilegt að labba í gegnum. Aðallega vegna þess að markaðurinn er (ólíkt t.d. Grand Bazar í Istanbúl) ekki mikill túristamarkaður. Þetta er fyrst og fremst markaður þar sem að borgarbúar koma til að kaupa sínar nauðsynjar. Allt frá kindaheilum til kjóla.

Eftir að hafa labbað í gegnum markaðinn og skoðað aðalmoskuna í Aleppo fór ég uppí virkið sem gnæfir yfir borginni. Þar skoðaði ég mig um í smá tíma og settist svo niður á torgi í miðju virkinu. Úr því varð hin besta skemmtun því uppað mér komu strax nokkrar stelpur, sem byrjuðu að spjalla við mig. Þær töluðu nokkuð góða ensku og vildu sennilega æfa enskuna. En svo vildu þær líka taka mynd með mér. Stelpan sem var með mér á myndinni var í litríkum hijab, sem var því fínt tækifæri fyrir mig að ná mynd af slíkum klæðnaði.

Þegar ég var svo sestur aftur og þær farnar settust hjá mér þrjár aðrar stelpur. Ég spjallaði heillengi við þær líka, sem og mömmu þeirra og frænku sem komu síðar. Þegar ég var að fara vildu þær líka fá að taka mynd af mér með sér. Önnur þeirra var í algerlega svörtum hijab með allt hulið nema augun (einsog á þessari mynd efst til hægri), en fyrir myndatökuna tók hún niður blæjuna sem var fyrir andlitinu. Þá var bróðir þeirra mættur á svæðið með eiginkonu sína (sem var gull gull gullfalleg stelpa, sú fallegasta sem ég hef séð á þessari ferð minni) en hann bannaði henni að vera með á myndinni, þrátt fyrir að hann virtist þess utan vera ótrúlega skemmtilegur og líbó gaur. En svona geta hlutirnir verið skrýtnir.

Hérna í Aleppo er einsog í hinum borgunum mismunandi hversu mikið stelpurnar hylja andlit og líkama. Ég hef séð slatta af stelpum, sem hylja allt nema augun, en eru samt sem áður í þunnum hijab sem að sýnir að mörgu leyti vöxt þeirra (og sumar þeirra eru líka í litríkum og fallegum skóm, sem er það eina sem aðgreinir þær). Svo eru ansi margar sem eru í þykkum hijab, sem er einsog þykkur frakki og hylur allan vöxt – svo mikið að maður getur ekki einu sinni greint hvort að undir er ung stelpa eða eldri kona.

Karlmenn klæða sig einsog karlmenn á Vesturlöndum.

* * *

Eftir þessar skemmtilegu samræður og myndatökur fór ég svo útúr virkinu og spilaði á torginu fyrir utan fótbolta með nokkrum krökkum í smá tíma. Svo rölti ég í átt að hótelinu mínu og fann á leiðinni þetta frábæra netkaffihús. Í kvöld ætla ég að vera ótrúlega frumlegur og fá mér kjöt á spjóti eða þá shawarma. Það væri skemmtileg tilbreyting. 🙂

Á morgun fer ég svo með rútu suður til Damaskus.

Skrifað í Aleppo, Sýrlandi klukkan 19.36

Út

Jæja, ég er víst á leiðinni útá flugvöll eftir um hálftíma.

Síðustu dagarnir hérna heima hafa verið rosalega skemmtilegir.  Hámarkið á stressinu var í gær þegar að ég var búinn að bóka 5 fundi um daginn og var auk þess á þeytingi um allan bæ.  Svo kom upp vandamál tengt stóru verkefni, sem ég er að vinna í, sem leystist um það leyti er ég var mættur í opnunarboð á “Af Lífi og Sál”, sem er nýr veitingastaður sem að fyrrverandi yfirkokkurinn á Serrano var að stofna.

Ég var svo mættur ásamt góðum vinum á Victor þar sem ég horfði á Liverpool-Chelsea.  Sá leikur var auðvitað tilfinningalegur rússíbani einsog allir Evrópuleikir með Liverpool.  Liðið datt út en ég held að menn geti verið sáttir við ansi margt, sérstaklega þar sem liðið skoraði flest mörk allra liða í keppninni og ég leyfi mér að fullyrða að ekkert lið bauð uppá jafnmarga skemmtilega leiki í þessari keppni og Liverpool.

Strax eftir leikinn mætti ég svo á árshátíð Serrano, sem var haldin á B5.  Þar var rosalega gaman og ég endaði svo á einhverju stuttu pöbbarölti.  Ég átti eftir að pakka, þannig að ég tók þessu rólega til þess að ég gæti vaknað snemma í morgun.  Sem ég og gerði og núna er bakpokinn minn tilbúinn fram á gangi og ég bíð bara eftir því að vinur minn komi og sæki mig.

Ég á svo flug til London og þaðan til Beirút í Líbanon.  Ef að allt gengur að óskum ætti ég að skrifa næstu færslu frá Beirút.  Ég ætla að reyna að uppfæra þessa síðu nokkuð reglulega og svo líka Twitter síðuna mína, sem ég get uppfært úr símanum.  Þær færslur koma svo auðvitað líka hér vinstra megin á þessari síðu.

Föstudagskvöld – þrif, Ungfrú RVK, klipping og fleira

Einsog þeir sem fylgjast með æsispennandi Twitter síðunni minni vita, þá er ég að eyða þessu föstudagskvöldi í þrif á íbúðinni minni. Það er yndislega sorglegt, en þar sem ég hef verið á djamminu tvo daga síðustu helgar, þá þarf ég hvíld. HVÍLD segi ég!

Við opnuðum Serrano í dag og allt gekk rosalega vel. Biðröð útúr dyrum og ég var þvílíkt feginn að geta hvílt mig eftir átökin.

* * *

Ég horfði með öðru auganu (ég er sko að taka til!) á Svalbarða og á eftir þeim þætti var svo Ungfrú Reykjavík-keppnin, sem er enn í gangi. Svo fékk ég Twitter skilaboð frá netkærustunni minni og þá datt mér í hug (af því að ég nenni ekki að taka meira til) að skoða það hvort að íslenskar stelpur væru að breytast eitthvað með árunum (og í leiðinni að kalla væntanlega yfir mig sömu gagnrýni og alltaf þegar ég fjalla um fegurðarsamkeppnir).

ALLAVEGANA, á Ungfrú Reykjavík síðunni er ekki lengur listað hvort stelpurnar séu á lausu, þannig að ég get ekki uppfært [fyrri tölfræði mína](https://www.eoe.is/gamalt/2005/05/04/23.21.17).

En hins vegar er hægt að skoða hvort að hugmyndir íslenskra stelpna um skemmtilega og spennandi hluti hafi breyst. Fyrir [þremur árum](https://www.eoe.is/gamalt/2005/05/13/22.39.35/) skrifaði ég færslu sem hét [“Er sjónvarpið toppurinn?”](https://www.eoe.is/gamalt/2005/05/13/22.39.35/) þar sem ég var að hneykslast á því hvað hinn ímyndaði fullkomni dagur í lífi fegurðardísanna væri stjarnfræðilega leiðinlegur að mínu mati. Sjö stelpurnar ætluðu að fara í ræktina á hinum fullkomna degi og sami fjöldi ætlaði að horfa á sjónvarpið.

Á þessu ári er ekki lengur spurt um hinn fullkomna dag, en það er hins vegar þarna spurningin: “Hvernig er rómantískt kvöld”. Ok, kannski ekki spurt um rómantískasta kvöld í heimi, en ef maður fær svona spurningar, reynir maður ekki að vera frumleg(ur)? Ha? Allavegana, hér eru nokkur svör:

– Bara að vera með elskunni sinni hvort sem það er í rólegheitunum að borða góðan mat, tala saman og horfa á mynd
– Nú þegar ástin tekur öll völd
– eða bara elda saman heima, eða að minsta kosti reyna það, ég er allavega ekki góður kokkur ..eyða svo kvöldinu saman, fara kannski í heitan pott með kertaljós og horfa svo á rómó mynd og hafa það kosy
– Að elda góðan mat heima með kærastanum og slaka á.. sundferð er líka rosalega kósý:)
– Gera eitthvað sem manni finnst gaman með sinni/sínum heittelskaða/u. Getur verið margt.
– Það er líka mjög rómantískt að vera bara heima með elskunni sinni, skiptir ekki alltaf máli hvað maður er að gera.
– Góður matur, kertaljós, góð tónlist og tvær manneskjur sem geta notið félagsskaps hvors annars.
– Rómantískt kvöld er þegar ég og kærastinn erum ein heima að elda góðan mat og hafa það kósý upp í sófa að horfa á góða mynd.
– Rómantískt kvöld hjá mér væri góður matur og eftirréttur heima með kærastanum við kertaljós og rólega tónlist. Eftir matinn myndum við svo færa okkur upp í sófa með skemmtilega spólu í tækinu.
– Slappa af við kertaljós, rómantíska tónlist og borða góðan mat með þeim sem maður elskar.
– Ég og kærastinn minn að elda saman góða máltíð, tala saman og hafa það rólegt heima.
– Fullkomið kvöld er annað hvort að fara út að borða með elskunni sinni eða bara kúra yfir spólu.

Æ, hvað var aftur pointið hjá mér? Þetta er kannski ekkert sérlega merkileg uppgötvun. 🙂

Já, og þetta er sætasta stelpan í keppninni að mínu mati (miðað við þær myndir sem eru á síðunni). Það þýðir að hún lendir í síðasta sæti

* * *

Þátturinn Útsvar var í sjónvarpinu áðan. Það á víst að vera einn vinsælasti þáttur landsins, en ég hafði aldrei séð hann fyrr en í kvöld. Ég held að ég sé ekki í markhópnum.

Síðustu 10 dagar hafa annars verið einstaklega skemmtilegir í mínu sósíal lífi, en ég nenni svo sem ekki að fara útí smá-atriði þar, enda hæfa þær sögur frekar vinahópnum mínum frekar en bloggsíðu á netinu. Jú, þó, ég get sagt frá því að ég sá frábæra mynd í bíó. Allir eiga að sjá þá mynd.

Jæja, þessi íbúð þrífur sig ekki sjálf!

* * *

Að lokum – ein spurning: Á skalanum 1-13, hversu fáránlegt er það að mæta í klippingu með mynd af kvikmyndastjörnu og segja: “ég vil svona klippingu”?