Mad Men sería 5

Við Margrét kláruðum í vikunni að horfa á síðustu Mad Men seríuna, sem var að klárast í sænsku sjónvarpi. Ég man að eftir bæði fyrsta og síðasta þáttinn í þessari seríu þá hugsaði ég með mér: Þetta eru langbestu sjónvarpsþættir, sem eru í framleiðslu í dag“.

Eftir því sem þáttunum fjölgar þá verður Roger Sterling alltaf í meira og meira uppáhaldi hjá mér (sjá nokkur góð atriði með honum hér). Í síðustu tveimur seríum hefur hann verið nokkurs konar trúður á skrifstofunni og það hlutverk fer honum einstaklega vel. Það eru ófá skiptin sem ég hef hlegið upphátt að honum og það er nokkuð skrítið í þessum annars miklu dramaþáttum.

Ef þú ert ekki að horfa á Mad Men þá ættir þú að byrja á því strax. Fyrsta serían er alls ekki sú besta, en þættirnir verða bara betri og betri. Að mínu mati var til dæmis þessi sería, sem var að klárast, sú besta hingað til. Pete, Megan og Roger Sterling hafa borið af öðrum.

Meðmæli

Fyrst ég er byrjaður að mæla með efni á þessu bloggi þá get ég haldið áfram að tína til það sem ég hef elskað síðustu mánuði.

Freedom eftir Jonathan Frantzen er frábær bók – sú besta sem ég hef lesið í mörgu ár. Ég elskaði The Corrections – las hana á einhverju ferðalagi fyrir nokkrum árum og var því spenntur fyrir Freedom. Ég og Margrét lásum hana bæði í Indlandsferðinni og við vorum bæði mjög hrifin. Ef þú lest bara eina bók á árinu, þá er Freedom góður kostur.

Besta bíómynd sem ég hef séð síðustu vikur er 50/50. Frábær mynd þar sem Joseph Gordon-Levitt leikur 27 ára gamlan strák sem fær krabbamein. Seth Rogen leikur besta vin hans og Anna Kendrick er frábær sem læknir hans (hún var frábær í Up in the Air og ekki síðri í þessari mynd).

Já, og ég held að ég hafi ekki skrifað um það á þessu bloggi en síðasta sería af Curb Your Enthusiasm (númer átta) er stórkostleg. Ég er á því að þetta séu fyndnustu sjónvarpsþættir í heimi . Sería 7 þar sem hann safnar saman Seinfeld leikurunum var ekkert rosalega góð að mínu mati, en áttunda serían, sem gerist að hluta til í New York, er frábær.

Homeland og Bron

Hin ágæta ríkissjónvarpsstöð SVT í Svíþjóð hefur undanfarna mánuði sýnt tvær þáttaraðir, sem við Margrét höfum horft á spennt hvert einasta miðvikudagskvöld (eða réttara sagt á upptöku á Tivo tækinu okkar). Þetta eru í raun bestu spennuþættir, sem ég hef séð í mörg ár.

BronFyrst var það sænsk/danska serían Bron. Ég viðurkenni að ég hafði alla fordóma heimsins gagnvart dönskum þáttum, en þessi sænsk/danska sería var algjörlega frábær. Hún fjallar um að morð er framið á Eyrasundsbrúnni og rannsóknarlögreglumenn í Malmö og Kaupmannahöfn þurfa að vinna saman að lausn málsins. Þetta er 10 þátta röð, sem er gríðarlega spennandi.

Þegar að Bron kláraðist byrjaði svo Homeland, sem er besta nýja ameríska þáttaröð, sem ég hef séð síðan að Mad Men byrjaði. Homeland fjallar um fulltrúa hjá CIA, sem gruna að bandarískum stríðsfanga hafi verið snúið til þess að styðja Al-Quaead til að fremja hryðjuverk í Bandaríkjunum. Þættirnir eru frekar rólegir og fókusera að mörgu leyti á persónurnar í stað þess að fókusera á hasar. Algjörlega frábærir þættir, sem unnu Golden Globe verðlaunin sem besta drama fyrr á þessu ári.

Ég mæli hiklaust með báðum þáttum.

Tvær mjög góðar heimildamyndir um íþróttir

Á síðustu vikum hef ég séð tvær mjög góðar heimildamyndir um íþróttir, sem óhætt er að mæla með.

Sú fyrri er **The Two Escobars**, sem að ég sá á kvikmyndahátíðinni í Stokkhólmi fyrir einhverjum vikum síðan. Þetta er heimildamynd framleidd af ESPN og fjallar hún um tvo Kólumbíumenn með sama eftirnafn, Pablo og Andres Escobar.

Andres Escobar var einn besti fótboltamaður í Kólumbíu og lék með hinum frábæra kólumbíska landsliði, sem margir bjuggust við að myndu gera stóra hluti á HM í Bandaríkjunum 1994. Ég man vel eftir þessu liði enda höfðu þeir leikið frábæran fótbolta í aðdraganda mótsins. Þetta var auk þess lið fulltaf furðulegum karakterum einsog Carlos Valderama (með gula afró hárið), markmanninn Rene Higuita og Faustino Asprilla. Andres Escobar var fyrirliði liðsins og einn vinsælasti leikmaður þess.

Hinn Escobar-inn var svo Pablo Escobar, sem var þekktasti og illræmdasti eiturlyfjabarón Kólumbíu. Kvikmyndin segir sögu þessara tveggja manna og hvernig líf þeirra tengdust – en þeir voru að lokum báðir drepnir með stuttu millibili. Fyrst Pablo Escobar þegar að yfirvöld byrjuðu að þjarma að veldi hans – og svo Andres Escobar, sem var skotinn í Bogota eftir að hann hafði skorað sjálfsmark í leik á HM, sem að gerði að engu vonir Kólumbíumanna um að fara langt á HM. Þetta er frábær mynd.

* * *

Seinni myndin var svo sýnd í sænska sjónvarpinu fyrir nokkrum vikum. SVT, sænska ríkissjónvarpið, sýnir í hverri viku heimilidarmyndir frá ýmsum löndum. Thrilla in Manila, sem var framleidd af HBO, fjallar um bardaga milli Joe Frazier og Muhammed Ali, sem fór fram í Manila á Filipseyjum árið 1975 – og er af mörgum talinn besti boxbardagi sögunnar. Þá voru Frazier og Ali nokkurn veginn jafn góðir boxarar, en í dag er Ali margfalt þekktara nafn og Joe Frazier býr einn í litlu herbergi við hliðiná gamla box-salnum sínum í fátækrahverfi í Fíladelfíu.

Myndin sýnir aðdraganda bardagans frá hlið Joe Frazier og fjallar um það hvernig honum fannst hann vera svikinn og niðurlægður af Ali og hvernig að sá biturleiki er enn til staðar núna 25 árum seinna. Einhverjum finnst myndin sennilega taka fullmikið upp hanskann fyrir Frazier, en þar sem að við sjáum nánast aldrei neitt frá hans hlið í dag, þá er það bara ágætt að mínu mati. Áður en ég sá myndina, þá mundi ég ekki hvernig bardaginn í Manila fór – og það er klárlega kostur, því hún nær að byggja upp spennu fyrir sjálfum bardaganum.

Margrét horfði á báðar þessar myndir með mér og var hrifin af þeim báðum, þannig að það er alger óþarfi að vera sérstakur áhugamaður um fótbolta eða box til að hafa gaman af þessum tveimur myndum.

Dolph!

Þar sem að það búa ekki allir í Svíþjóð (ógó hallærislegt!) og það horfa ekki allir á sænsku undankeppni Eurovision (vá) og það lesa ekki allir Facebook síðuna mína (hva?) þá er hér (via Birkir) stórkostlegt tímamótamyndband frá undankeppninni á laugardaginn. Ég og Margrét horfðum á þetta (seinni hlutann það er) eftir að ég hafði dregið hana labbandi um hálfa Södermalm til þess að uppfylla laugardagsþörf mína fyrir alvöru hamborgara (sem fást á Mississippi Inn fyrir þá sem vilja vita).

Allavegana, hérna er sjálfur Ivan Drago, skúrkurinn úr Rocky IV, mættur uppá svið á þessari sænsku söngvakeppni (sem er rugl vinsæl hérna í Svíaríki) og mæmar lag og dansar og spilar á trommur og brýtur spýtur og ég veit ekki hvað. Þetta er svo lygilega fáránlegt að maður þarf í raun að horfa á þetta þrisvar til að meðtaka alla snilldina (Dolph mætir á sirka 0.56).

Ekki nóg með að Dolph hafi næstum því drepið Rocky, heldur endurskilgreinir hann núna á sextugs aldri hvernig skemmtiatriði í söngvakeppni eiga að vera. Þetta verður allt niðrávið frá þessu mómenti síðasta laugardagskvöld. Því miður.

Sjónvarpsgláp síðustu vikna

Ég sé að það er ansi langt síðan að ég skrifaði um sjónvarpsgláp á þessari síðu. Í stað þess að blogga þá hefur Facebook og Twitter komið í staðinn. Ég hef ekkert fjallað um sjónvarp síðan að ég hvatti alla til að horfa á Office fyrir tæpu ári. Það á auðvitað enn við í dag.

Umræða um sjónvarpsefni er samt dálítið erfið þessa dagana. Allir eru á mismunandi stað í mismunandi seríum og sá tími löngu liðinn að maður geti spjallað um sjónvarpsefni við vini sína. Líkurnar á að fólk sé á sama stað í sömu seríum eru einfaldlega mjög litlar. Mér fannst það t.d. fyndið þegar ég var að hlusta á BS Report með Bill Simmons og hann vildi ekki gefa upp plott-twist sem gerðist í fyrstu seríu af The Wire – þætti sem var sýndur fyrir 7 árum, einfaldlega vegna þess að fullt af fólki er ennþá að uppgötva þá þætti í dag.

Allavegana, hérna er gott efni sem ég hef horft á að undanförnu;

Jershey Shore: Ég er forfallinn aðdáandi raunveruleikasjónvarps, einsog oft hefur komið fram á þessari síðu. Þegar við Margrét vorum að byrja saman fannst henni þetta rosalega hallærislegt og hún lýsti vandlætingu yfir því hverslags rusl sjónvarp ég væri að horfa. 18 mánuðum seinna með mér þá er hún auðvitað orðinn forfallinn aðdáandi svona drasl-sjónvarpsefnis.

Ég fylgist vanalega með Real World og Real World vs Road Rules challenge. Einnig hef ég verið að fylgjast með einhverjum dating þáttum á VH1, en þeir hafa hrapað í gæðum að undanförnu (Ray-J er t.d. ekki nærri því jafn skemmtilegur og Bret Michaels). En ég hef einfaldlega afskaplega gaman af því að sjá hvað fólk gerir í skiptum fyrir tímabundna frægð.

Þegar ég heyrði fyrst um Jersey Shore varð ég sannfærður um að þetta yrði snilld og ég fór strax og keypti þáttinn á iTunes. Þátturinn fjallar um 8 krakka, sem fara í sumarfrí í bæ á Jershey Shore. Öll eru þau svipaðar típur – elska ljósabekki, líkamsræktarsali, sjálft sig, techno tónlist og djamm. Blandan verður stórkostleg. Í mánuð er fylgst með þeim á djamminu, og í húsinu þar sem þau búa. Ef þú hefur minnsta gaman af raunveruleikaþáttum þá er Jersey Shore tær snilld. Ég mæli líka með spjalli um Jersey Shore í þættinum BS Report á milli Bill Simmons og Dave Jacoby, sem er sérstakur sérfræðingur um rauveruleikaþætti. Fáránlega fyndnir þættir (sjá þættina 7.des og 26.jan).

Mad Men: Þetta eru sennilega bestu þættirnir í sjónvarpi í dag. Ég varð ekki alveg hooked á fyrstu þáttunum, en það gerðist smám saman. Núna erum við hálfnuð með síðustu seríuna. Þetta eru drama þættir um starfsfólk á auglýsingastofu í kringum árin 1960-65. Frábært drama.

Dexter: Við kláruðum að horfa á síðustu seríuna í Dexter fyrir nokkrum dögum. Ég fílaði alls ekki síðustu seríu á undan, en þessi sería var frábær. Nýjasta serían fjallar um eltingaleik Dexters við annan fjöldamorðingja. Dexter er líkt og Mad Men keyrt í frekar stuttum seríum (12 þættir) og það passar nokkuð vel fyrir svona seríur þar sem að plottið nær yfir alla seríuna (en ekki sér plott fyrir sérhvern þátt – ég nenni sjaldan að horfa á slíka þætti).

Curb Your Enthusiasm: Við höfum verið að horfa á síðustu seríur í þeim þætti (ég er komin á 5. seríu). Margrét getur aldrei horft á mikið meira en einn þátt þar sem hún fær svo mikinn kjánahroll yfir öllu því fáránlega sem að Larry David kemur sér í. Ég elska þessa þætti. Það er alltof lítið af góðum gamanþáttum í sjónvarpinu.

Auk þessa erum við að horfa á Office og Lost, sem var að byrja að nýju. Ég mun ábyggilega skrifa um þá þætti meira á næstu vikum.

Allir ættu að horfa á The Office

Ég lenti í samtali um jólin og svo í öðru samtali við góðan vin minn mjög nýlega, sem komu mér gríðarlega á óvart. Ég komst nefnilega að því að það horfa ekki allir á The Office!

Fyrir okkur hin, sem horfum á The Office í hverri viku, er erfitt að ímynda sér þetta. Ég held að partur af ástæðunni gætu verið fordómar gagnvart bandarísku sjónvarpsefni. Hinir tólf bresku þættir sem voru framleiddir voru svo stórkostlegt sjónvarpsefni að ég hélt að þeir yrðu aldrei toppaðir og þegar ég sá fyrstu þættina í bandarísku seríunni þá fannst mér þeir svo slæmir að það var nánast pínlegt.

dwight-andy

En The Office var, þrátt fyrir daufa byrjun, haldið áfram í framleiðslu og núna er að ljúka í Bandaríkjunum fimmtu seríunni. Þættirnir hafa á þessum 5 árum styrkst gríðarlega (með smá lægðum inná milli þó) og serían, sem nú er að klárast, er að mínu mati sú besta. Þetta eru einfaldlega bestu grínþættirnir í sjónvarpi í dag. Karektarnir eru nánast allir frábærir, jafnt þeir sem skipta mestu máli uppá grínið (Michael, Dwight og Andy) til þeirra sem koma fram kannski einu sinni í þætti (Kelly, Creed, o.s.frv).

Þannig að skilaboð mín til ykkar eru einföld. Horfið á The Office. Þetta eru stórkostlegir þættir og fólk hefur enga ástæðu til að horfa ekki á þá. Ég skil það alveg þegar að fólk segir við mig að það horfi ekki á LOST (sem eru hinir uppáhaldsþættirnir mínir) en fyrir því að horfa ekki á The Office eru engar afsakanir.

Ó MTV!

Ó, MTV!

Ef einhver hefur nokkurn tímann efast um að hjá raunveruleikasjónvarps-deildinni hjá MTV vinni eitthvað nema snillingar, þá geta menn hætt að efast núna. Nýjasta snilldin á MTV er nefnilega [A Double Shot At Love](http://www.youtube.com/watch?v=hqmfDe8dqLU).

Þetta er framhald á þætti þar sem hin tvíkynhneigða Tila Tequila valdi úr hópi 10 lesbía og 10 straight karlmanna. Mig minnir að hún hafi valið karlmann í fyrri seríunni, en í þeirri seinni (þar sem að fyrra sambandið entist ekki eina viku) valdi hún lesbíu, sem hafnaði henni. Því virðist hún hafa gefist upp á þessari (ótrúlega pottþéttu) leið til að finna ástina.

Hvernig toppum við þetta, hafa menn á MTV þá eflaust spurt sig?

Jú, með því að fá tvíkynhneigða TVÍBURA, sem vinna líka fyrir sér sem SUNDFATAMÓDEL til að velja úr hópi 10 karlmanna og 10 lesbía. Hvernig getur svona sjónvarpsþáttur klikkað? Og hvernig getur maður, sem hefur ítrekað lýst ástfóstri sínu á ömurlegum raunveruleikaþáttum, sleppt því að horfa á þetta? Ég veit ekki. Því fór ég á iTunes og keypti seríuna. Það eru aðeins búnir 3 þættir en þeir lofa góðu.

Stórkostlegt rusl.