Hin ágæta ríkissjónvarpsstöð SVT í Svíþjóð hefur undanfarna mánuði sýnt tvær þáttaraðir, sem við Margrét höfum horft á spennt hvert einasta miðvikudagskvöld (eða réttara sagt á upptöku á Tivo tækinu okkar). Þetta eru í raun bestu spennuþættir, sem ég hef séð í mörg ár.
Fyrst var það sænsk/danska serían Bron. Ég viðurkenni að ég hafði alla fordóma heimsins gagnvart dönskum þáttum, en þessi sænsk/danska sería var algjörlega frábær. Hún fjallar um að morð er framið á Eyrasundsbrúnni og rannsóknarlögreglumenn í Malmö og Kaupmannahöfn þurfa að vinna saman að lausn málsins. Þetta er 10 þátta röð, sem er gríðarlega spennandi.
Þegar að Bron kláraðist byrjaði svo Homeland, sem er besta nýja ameríska þáttaröð, sem ég hef séð síðan að Mad Men byrjaði. Homeland fjallar um fulltrúa hjá CIA, sem gruna að bandarískum stríðsfanga hafi verið snúið til þess að styðja Al-Quaead til að fremja hryðjuverk í Bandaríkjunum. Þættirnir eru frekar rólegir og fókusera að mörgu leyti á persónurnar í stað þess að fókusera á hasar. Algjörlega frábærir þættir, sem unnu Golden Globe verðlaunin sem besta drama fyrr á þessu ári.
Ég mæli hiklaust með báðum þáttum.
Bron hljómar vel. Þú verður að fara að gefa dönsku þáttunum meiri séns enda á undanförnum árum búnir að framleiða úrvals þætti t.a.m. Borgen http://www.dr.dk/dr1/borgen sem nú er verið að sýna hér heima. Get mælt hiklaust með þeim.
Homeland byrjaði gríðarlega vel en mér fannst þeir farnir að missa máttin nokkuð í síðustu þáttunum, spurning hvernig framhaldið verður.
Já, ég er búinn að panta mér Brottet á Lovefilm – er nokkuð spenntur fyrir þeirri seríu.
Homeland missir aðeins dampinn eftir fyrstu þætti (enda voru þeir með því besta sjónvarpsefni, sem ég hef séð) en samt ekki of mikið að mínu mati.