Hvað getur maður sagt?
Í dag er ég orðinn þrítugur.
Þetta bara einhvern veginn gerðist.
Fyrir nákvæmlega 10 árum var ég ástfanginn af mexíkóskri stelpu útí Mexíkó. Við eyddum einu besta kvöldi ævi minnar saman á stærsta næturklúbbi Acapulco. Þar vorum við veifum framfyrir röð, drukkum margarítur og tekíla og dönsuðum salsa og merengue langt fram á nótt. Ég hugsa enn til þess afmælisdag með söknuði. Ég var ástfanginn og þrátt fyrir að sambandið væri stormasamt, þá var það frábært. En ég þurfti að fara heim til Íslands og hún bjó í Mexíkóborg og því gengu hlutirnir ekki upp. Að vissu leiti var þetta allt saman dæmigert fyrir það sem kom á eftir, því að fjarlægðir og ferðalög hafa sett stórt mark á mitt tilhugalíf síðustu 10 árin.
Á svona tímamótum getur maður eflaust litið tilbaka og skoðað hvað maður gerði rétt, hvað hefði mátt betur fara og svo framvegis. Mun ég eftir 10 ár geta horft aftur á það tímabil þegar ég var á milli tvítugs og þrítugs og verið sáttur við það sem ég gerði? Aðeins tíminn mun leiða það í ljós, en ég veit allavegana að þegar ég varð tvítugur þann 17.ágúst 1997, þá hafði ég litla hugmynd um það hvað ég vildi gera eða hvar ég myndi standa 10 árum seinna.
Ég hefði þó sennilega giskað á að ég væri búinn að finna mér konu. Einhvern veginn hélt ég að það myndi bara gerast sjálfkrafa. En ég er samt sáttur við mín hlutskipti í dag. Ég hef verið heppinn í ástum og líka óheppinn í ástum. Ég hef kynnst frábærum stelpum, eflaust sært einhverjar og verið særður. En það er svo sem ekkert rosalega margt sem ég hefði viljað gera öðruvísi.
Ég hef verið ástfanginn í grasinu fyrir framan Eiffel turninn. Ég varð ástfanginn á strandbar í karabíska hafinu. Ég hef kysst stelpu í fyrsta skipti við tjörnina í Reykjavík og á trébryggju í karabíska hafinu. Ég hef grátið úr ástarsorg á flugvellinum í Chicago, ég hef klúðrað málunum stórkostlega og hagað mér einsog hálfviti. Og ég hef átt mínar góðu stundir.
Ég sé í dag að ég var alls ekki tilbúinn þegar ég var tvítugur að hitta mína eiginkonu. Ég get eiginlega ekki ímyndað mér að hafa misst af þeirri reynslu, sem ég hef öðlast undanfarin ár. Þó það sé vissulega frábært þegar að fólk hittir sinn maka í fyrstu tilraun, þá hafði ég aldrei trú á því að slíkt myndi gerast fyrir mig. Ég hef lært ótrúlega margt um sjálfan mig og aðra með því að ganga í gegnum þá hluti, sem ég hef gengið í gegnum síðustu 10 árin.
Ég útskrifaðist hæstur í mínum bekk úr Verzló og fór eftir það í einn albesta háskóla í Bandaríkjunum, Northwestern. Þar útskrifaðist ég með próf í hagfræði, var í hópi úrvalsnemenda í því fagi og fékk verðlaun fyrir lokaritgerðina mína.
Árin í Northwestern voru vissulega frábær. Ég eyddi þeim með Hildi, sem ég var með í fjögur ár. Fyrsta árið bjó ég á campus og kynntist þar öllum mínum bestu vinum í skólanum, sem eru sumir enn góðir vinir mínir í dag. Seinna fluttum við Hildur saman í litla stúídó íbúð rétt hjá campus og bjuggum þar þangað til að ég útskrifaðist. Ég á ótrúlega góðar minningar af endalausum partýhöldum, dögum í Chicago, leikjum á Wrigley Field, djömmum á næturklúbbum í Chicago, tailgating á Northwestern fótboltaleikjum og svo frábærum spring break ferðum til New York, Florida og New Orleans.
Í vinnu hafa hlutirnir farið öðruvísi en ég ætlaði. Ég bjóst alls ekki við því að ég myndi enda í veitingastaðabransanum. Ég og Emil ræddum vissulega um það að stofna veitingastað fyrir 9 árum, en það að koma því í verk er meira en að segja það.
Síðustu 5 ár hafa að mörgu leyti mótast af Serrano. Við höfum smám saman byggt það fyrirtæki upp og í dag er ég gríðarlega stoltur af þessu litla barni okkar og á næstunni eru líka gríðarlega spennandi hlutir að gerast. Við höfum ávallt verið að stefna að ákveðnu marki og mér finnst við núna vera að færast nær því á fínni ferð. Það er líka alveg ótrúlega gaman að standa í þessum rekstri. Ég gæti eflaust fengið hærri laun í einhverju skrifstofustarfi, en ég held að það séu nákvæmlega engar líkur á að ég hefði jafnmikinn áhuga á því starfi og ég hef á rekstri veitingastaðanna minna.
Ég eyddi líka þremur árum sem markaðsstjóri hjá stóru innflutningsfyrirtæki. Sá tími reyndist mér mikilvægur. Bæði ferðaðist ég umtalsvert og svo lærði ég einnig afsakplega margt af eldri vinnufélögum og viðskiptavinum. Og sú vinna hjálpaði mér líka að skilja hvernig vinnu ég sæi mig fyrir í.
Ég hef ferðast ótrúlega mikið á þessum tíu árum. Ég bjó í Mexíkó og ég bjó í Bandaríkjunum í þrjú ár. Ég ferðaðist um Rússland. Ég fór til fimm landa í Mið-Ameríku. Ég ferðaðist um öll Bandaríkin. Ég fór í ógleymanlegt hálfs-árs ferðalag með þremur vinum um öll lönd Suður-Ameríku. Ég ferðaðist um SuðAustur Asíu. Og ég ferðaðist til óteljandi staða í Evrópu, bæði vegna vinnunnar og líka til skemmtunnar.
Þessi ferðalög hafa að vissu leyti mótað mig og eru hápunktur ansi margra áranna. Ætli það megi ekki áætla að síðustu 10 ár hafi ég heimsótt yfir 35 lönd. Það hlýtur að teljast góður árangur.
En ég hugsa að það sem mestu máli skipti hvað mig varðar núna sé að í dag er ég gríðarlega bjartsýnn á framtíðina. Mér hefur sjaldan liðið betur. Mér finnst ég aldrei hafa litið betur út, ég er í besta formi ævinnar og ég tel í alvöru að ég sé mun betri maður í dag en ég var fyrir einu ári, hvað þá tíu.
Miðað við það hver ég var og hvernig mér leið þegar ég var tvítugur, þá get ég ekki annað en verið sáttur við stöðuna í dag.