Haust?

Mér líður hálf skringilega núna.  Sumarið er einhvern veginn búið hérna á Íslandi.  Hérna er búin að vera rigning og haustveður.  Sem er fáránlegt, því alls staðar í Evrópu er enn sumar.  Þetta sumar á þessu landi er hálfgert djók.  Það byrjar eiginlega ekki fyrr en í júlí og svo byrja allir að tala um að það sé búið fyrstu vikuna í ágúst.

Ég hef ekki upplifað haust á Íslandi í sennilega ein 8-9 ár.  Þegar ég var í háskóla þá var ég alltaf farinn af Íslandi í kringum 10-15.september og þá upplifði ég sumarveður í Chicago nánast fram í október.  Síðustu ár hef ég svo alltaf farið til útlanda á haustin.  Fyrst Rússlands, svo Bandaríkjanna, svo Mið-Ameríku og núna síðast til Suð-Austur Asíu þar sem ég eyddi öllum september og október mánuði.

Þess vegna hefur mér alltaf tekist að framlengja sumarið mitt umtalsvert.  Þetta haustið mun það hins vegar ekki gerast, aðallega vegna þess að ég hef ekki treyst mér til að fara frá fyrirtækinu mínu akkúrat þessa stundina.  Þess vegna er ég að reyna að sætta mig við að sumarið sé búið.  Það er dálítið erfitt þar sem mér finnst einsog ég hafi ekki gert neina sumarhluti.  Ég var ekki ástfanginn, ég fór ekki í útilegu, ég lá ekki í grasinu á Austurvelli og ég borðaði nær aldrei úti.

Einhvern veginn er einsog þetta sumar hafi bara farið í vinnu.  Vissulega hefur hún skilað ýmsu, en samt þá skilur þetta eftir  einhverja tómatilfinningu hjá mér.

Í gær kláraðist ákveðið verkefni í vinnunni og því líður mér hálf skringilega í dag.  Ég var með vinum í bænum í gærkvöldi, en samt er engin þynnka í gangi.  En það var ákveðið spennufall í morgun og því er ég hálf skrýtinn í hausnum.  Mig langar út.  Ég er búinn að vera að hugsa um gömul ferðalög og velta í hausnum fyrir mér nýjum áfangastöðum.  Ég held að ég komist því miður ekki í neitt langt frí á þessu ári, en vonandi opnast þá möguleiki fyrir enn frekari ferðalögum á því næsta.

Afmælishelgin

Þetta er búin að vera algjörlega frábær helgi.  Einsog ég [skrifaði um](http://eoe.is/gamalt/2007/08/17/09.20.31) þá átti ég stórafmæli á föstudaginn.  Í tilefni dagsins var ég með partý á B5 fyrir vini og fjölskyldu.  Fyrst fórum við nokkur saman útað borða á Argentínu en þjónustan þar var svo hæg að ég mætti hálftíma of seint í mitt eigið partý, sem var frekar vandræðalegt.

En partýið var algjörlega frábært.  Það mættu yfir 50 manns og margir voru á staðnum langt fram á nótt.  Þetta var skemmtilegasta afmæli sem ég hef haldið og því get ég ekki annað en verið ótrúlega ánægður.

* * *

Í gær fór ég svo með nokkrum vinum mínum í rafting ferð á Austari Jökulsá.  Einhvern veginn tókst mér að vakna eftir tveggja tíma svefn á laugardeginum og keyra með þeim alla leið í Varmahlíð.  Þetta var í fyrsta skipti sem ég hef farið í rafting og þrátt fyrir að þetta hafi verið pínu erfitt á tíma, þá var þetta alveg ótrúlega gaman.  Ég hef lengi ætlað að prófa að fara í rafting, en einhvern veginn hefur það alltaf klikkað þangað til núna.

Eftir rafting fórum við svo saman í sumarbústað þar sem við grilluðum og fengum okkur í glas.

* * *

Dagurinn í dag var svo næstum því hinn fullkomni fótboltadagur, nema það að [þessi](http://en.wikipedia.org/wiki/Rob_Styles) trúður [klúðraði](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2007/08/19/16.57.59/) málunum.

30

Ég, 30 áraHvað getur maður sagt?

Í dag er ég orðinn þrítugur.

Þetta bara einhvern veginn gerðist.

Fyrir nákvæmlega 10 árum var ég ástfanginn af mexíkóskri stelpu útí Mexíkó. Við eyddum einu besta kvöldi ævi minnar saman á stærsta næturklúbbi Acapulco. Þar vorum við veifum framfyrir röð, drukkum margarítur og tekíla og dönsuðum salsa og merengue langt fram á nótt. Ég hugsa enn til þess afmælisdag með söknuði. Ég var ástfanginn og þrátt fyrir að sambandið væri stormasamt, þá var það frábært. En ég þurfti að fara heim til Íslands og hún bjó í Mexíkóborg og því gengu hlutirnir ekki upp. Að vissu leiti var þetta allt saman dæmigert fyrir það sem kom á eftir, því að fjarlægðir og ferðalög hafa sett stórt mark á mitt tilhugalíf síðustu 10 árin.


Á svona tímamótum getur maður eflaust litið tilbaka og skoðað hvað maður gerði rétt, hvað hefði mátt betur fara og svo framvegis. Mun ég eftir 10 ár geta horft aftur á það tímabil þegar ég var á milli tvítugs og þrítugs og verið sáttur við það sem ég gerði? Aðeins tíminn mun leiða það í ljós, en ég veit allavegana að þegar ég varð tvítugur þann 17.ágúst 1997, þá hafði ég litla hugmynd um það hvað ég vildi gera eða hvar ég myndi standa 10 árum seinna.

Ég hefði þó sennilega giskað á að ég væri búinn að finna mér konu. Einhvern veginn hélt ég að það myndi bara gerast sjálfkrafa. En ég er samt sáttur við mín hlutskipti í dag. Ég hef verið heppinn í ástum og líka óheppinn í ástum. Ég hef kynnst frábærum stelpum, eflaust sært einhverjar og verið særður. En það er svo sem ekkert rosalega margt sem ég hefði viljað gera öðruvísi.

Ég hef verið ástfanginn í grasinu fyrir framan Eiffel turninn. Ég varð ástfanginn á strandbar í karabíska hafinu. Ég hef kysst stelpu í fyrsta skipti við tjörnina í Reykjavík og á trébryggju í karabíska hafinu. Ég hef grátið úr ástarsorg á flugvellinum í Chicago, ég hef klúðrað málunum stórkostlega og hagað mér einsog hálfviti. Og ég hef átt mínar góðu stundir.

Ég sé í dag að ég var alls ekki tilbúinn þegar ég var tvítugur að hitta mína eiginkonu. Ég get eiginlega ekki ímyndað mér að hafa misst af þeirri reynslu, sem ég hef öðlast undanfarin ár. Þó það sé vissulega frábært þegar að fólk hittir sinn maka í fyrstu tilraun, þá hafði ég aldrei trú á því að slíkt myndi gerast fyrir mig. Ég hef lært ótrúlega margt um sjálfan mig og aðra með því að ganga í gegnum þá hluti, sem ég hef gengið í gegnum síðustu 10 árin.


Ég útskrifaðist hæstur í mínum bekk úr Verzló og fór eftir það í einn albesta háskóla í Bandaríkjunum, Northwestern. Þar útskrifaðist ég með próf í hagfræði, var í hópi úrvalsnemenda í því fagi og fékk verðlaun fyrir lokaritgerðina mína.

Árin í Northwestern voru vissulega frábær. Ég eyddi þeim með Hildi, sem ég var með í fjögur ár. Fyrsta árið bjó ég á campus og kynntist þar öllum mínum bestu vinum í skólanum, sem eru sumir enn góðir vinir mínir í dag. Seinna fluttum við Hildur saman í litla stúídó íbúð rétt hjá campus og bjuggum þar þangað til að ég útskrifaðist. Ég á ótrúlega góðar minningar af endalausum partýhöldum, dögum í Chicago, leikjum á Wrigley Field, djömmum á næturklúbbum í Chicago, tailgating á Northwestern fótboltaleikjum og svo frábærum spring break ferðum til New York, Florida og New Orleans.


Í vinnu hafa hlutirnir farið öðruvísi en ég ætlaði. Ég bjóst alls ekki við því að ég myndi enda í veitingastaðabransanum. Ég og Emil ræddum vissulega um það að stofna veitingastað fyrir 9 árum, en það að koma því í verk er meira en að segja það.

Síðustu 5 ár hafa að mörgu leyti mótast af Serrano. Við höfum smám saman byggt það fyrirtæki upp og í dag er ég gríðarlega stoltur af þessu litla barni okkar og á næstunni eru líka gríðarlega spennandi hlutir að gerast. Við höfum ávallt verið að stefna að ákveðnu marki og mér finnst við núna vera að færast nær því á fínni ferð. Það er líka alveg ótrúlega gaman að standa í þessum rekstri. Ég gæti eflaust fengið hærri laun í einhverju skrifstofustarfi, en ég held að það séu nákvæmlega engar líkur á að ég hefði jafnmikinn áhuga á því starfi og ég hef á rekstri veitingastaðanna minna.

Ég eyddi líka þremur árum sem markaðsstjóri hjá stóru innflutningsfyrirtæki. Sá tími reyndist mér mikilvægur. Bæði ferðaðist ég umtalsvert og svo lærði ég einnig afsakplega margt af eldri vinnufélögum og viðskiptavinum. Og sú vinna hjálpaði mér líka að skilja hvernig vinnu ég sæi mig fyrir í.


Ég hef ferðast ótrúlega mikið á þessum tíu árum. Ég bjó í Mexíkó og ég bjó í Bandaríkjunum í þrjú ár. Ég ferðaðist um Rússland. Ég fór til fimm landa í Mið-Ameríku. Ég ferðaðist um öll Bandaríkin. Ég fór í ógleymanlegt hálfs-árs ferðalag með þremur vinum um öll lönd Suður-Ameríku. Ég ferðaðist um SuðAustur Asíu. Og ég ferðaðist til óteljandi staða í Evrópu, bæði vegna vinnunnar og líka til skemmtunnar.

Þessi ferðalög hafa að vissu leyti mótað mig og eru hápunktur ansi margra áranna. Ætli það megi ekki áætla að síðustu 10 ár hafi ég heimsótt yfir 35 lönd. Það hlýtur að teljast góður árangur.


En ég hugsa að það sem mestu máli skipti hvað mig varðar núna sé að í dag er ég gríðarlega bjartsýnn á framtíðina. Mér hefur sjaldan liðið betur. Mér finnst ég aldrei hafa litið betur út, ég er í besta formi ævinnar og ég tel í alvöru að ég sé mun betri maður í dag en ég var fyrir einu ári, hvað þá tíu.

Miðað við það hver ég var og hvernig mér leið þegar ég var tvítugur, þá get ég ekki annað en verið sáttur við stöðuna í dag.

Dans á Vegamótum, MySpace, Nicole og Laugar

Ég er bara hress!

* Ég fór útað borða með vinkonu minni á laugardagskvöldið og svo sátum við eitthvað fram eftir kvöldi á Vegamótum. Við vorum bæði hálf edrú þegar við löbbuðum út af þeim ágæta stað um 2 leytið. Á þeirri stundu fengum við ágæta sýningu á því að Íslendingar hafa enga hugmynd um það hvað þeir eigi að gera á dansgólfi á skemmtistað. Inná staðnum var verið að spila eitthvað nýlegt popplag (JT að mig minnir) og við það dansaði eitt par að mér sýnist einhverja útgáfu af salsa (með allsherjar snúningum og slíku) á meðan að nokkrar stelpur dönsuðu hliðar-saman-hliðar. Við þurfum að koma okkur saman um einhvern einn dans, svo að dansgólfið líti ekki svona furðulega út. Spurning um að DJ-ar komi sér saman um að hrópa slíkt á milli laga: **”OK! Allir í stuði? Nú dönsum við öll saman Fugladansinn!”**
* Á slíkum stundum sakna ég óheyrilega næturklúbba í Suður-Ameríku. Þá vissi maður alltaf hvernig maður ætti að dansa. Þá gat maður líka notað léttustu og bestu pick-up línu í heimi: “Viltu dansa?” Slíka línu er varla hægt að nota með góðu móti á íslenskum skemmtistöðum.
* Ég get ekki betur séð en að PoppTV sé smám saman að koma til móts við þá [kröfu mína](https://www.eoe.is/gamalt/2006/08/24/18.48.11/) að spila myndbönd með Pussycat Dolls á repeat allan daginn. Allavegana voru þær spilaðar bæði í gærmorgun og í hádeginu í dag. Það er fátt meira hressandi en að horfa á [Nicole](http://images.google.com/images?q=Nicole+Scherzinger&hl=en&client=firefox-a&rls=org.mozilla:en-US:unofficial&hs=iu2&um=1&sa=X&oi=images&ct=title) dansa klukkan 6 á mánudagsmorgni. Hún þyrfti bara að losa sig við hinar beyglurnar úr sveitinni og þá væri ég alsæll.
* Ég er hjá einkaþjálfara á morgnana, sem er gríðarlega hressandi (og í raun eina mögulega leiðin til þess að ég vakni klukkan 5.45 á morgnana). Líkamsfitan lækkaði niður í 9,9% á fyrstu tveim vikunum og því stefni ég ótrauður að því að vera í [svona fötum](http://dlisted.com/files/janicehumiliated1.jpg) á jólunum.
* Einhvern tímann mun snjall maður gefa út bók með bestu MySpace myndakommentunum, sem að strákar skilja eftir á myndum hjá stelpum.
* Hann gæti til dæmis byrjað á þessum, sem ég hef séð á síðustu dögum (flest hjá íslenskum stelpum): *”You are the most beautiful rose in the garden”* og *”you are so hot n sexy !!! like a ray of sunshine your picture is blinding”* og *”nice white teeth like snow. I bet ur heart is as warm as…….. “* og *”I wish i looked like you. If I did, I would be pretty too”* og *”you are falling from the heavens to brighten here on earth. Beauty you are……”* og *”your eyes remind me of the woods of mordor. i love you”* og *”AM I ON A DREAM??? WELL PLEASE DON’T WAKE ME UP PLEASEEEEEEE”* og og og, ég gæti haldið áfram í allt kvöld.

Jammmm.

Skotlandsferð

Það er furðulegt hversu mikið stuttar kveðjur eða samtöl í upphafi ferðar geta haft mikil áhrif á viðhorf manns til viðkomandi lands. Ég verð til að mynda alltaf fúll þegar tekið er á móti mér á Íslandi með því að tollarar skoði ALLTAF töskurnar mínar. Og það má segja að viðhorf mitt til El Salvador hafi verið markað að miklu leyti á skemmtilegasta tollara í heimi. Hann bað um að skoða töskurnar mínar, baðst velvirðingar á trufluninni og sagði svo: [Bienvenido a mi pais](https://www.eoe.is/gamalt/2005/09/05/23.32.43/) af innlifun. Hann kom mér strax í gott skap og þessi stutta kveðja gerði það að verkum að ég varð sjálfkrafa jákvæðari gagnvart Salvadorum. Þeim tókst að láta mig líða einsog ég væri velkominn til El Salvador, þess frábæra lands.

Í Skotlandi um síðustu helgi hafði ég bara staðið útá götu í rúmlega hálfa mínútu með kort í hendi þegar að Skotar komu upp að mér og spurðu hvort þeir gætu hjálpað. Það er merki um gott fólk og gerði það að verkum að ég varð miklu jákvæðari gagnvart Skotum en ég hefði sennilega verið fyrir.  Það eru alltaf þessir litlu hlutir sem skipta máli.

Ferðin til Skotlands var vel heppnuð. Ég eyddi 3 dögum í Edinborg og einum degi í Glasgow. Munurinn á þessum borgum er gríðarlegur. Sennilega er hann hvergi jafn augljós og þegar maður kemur útaf lestarstöðvum í þessum borgum. Í Glasgow kemur maður útí  húsasund þar sem maður sér ljótar byggingar í allar áttir. Í Edinborg kemur maður útá miðja götu þar sem við manni blasir Edinborgarkastali uppá hæðinni og aðalverslunargatan til hliðar. Það er varla hægt að byrja borgarferð með betra útsýni.

Ég náði að túristast einhvern slatta í Edinborg. Ég heimsótti vitanlega Edinborgarkastala, sem er helsta tákn Edinborgar. Hann situr uppá hæð í miðri borginni. Í kastalanum eru geymd konungsdjásn Skota og [Örlagasteinninn](http://en.wikipedia.org/wiki/Stone_of_Scone) auk þess sem þar eru nokkur söfn. Einnig er úr kastalanum frábært útsýni yfir Edinborg. Ég labbaði svo Royal Mile og skoðaði staði í kringum þá götu auk þess sem ég kíkti á skoska þinghúsið og einhver söfn.

En mestum tímanum eyddi ég inná kaffihúsum eða útá bekkjum lesandi bækur. Ég las nokkrar góðar bækur, sem ég ætla að fjalla um í sér færslu. Ég þurfti nefnilega bara að slappa af. Það hefur verið mikið að gera hjá mér í vinnunni (og margir spennandi hlutir sem ég get væntanlega talað um hérna á næstunni) þannig að það var fínt að slappa af. Fyrir mér þá er það frábært frí að geta slökkt á símanum, sest inná kaffihús með svart kaffi og lesið bækur.

Í Glasgow gerði ég ekki marga merkilega hluti. Verslaði einhvern slatta af fötum og labbaði um helstu staði í miðri borginni. Veðrið þar var líka leiðinlegra en í Edinborg og sennilega hefur það haft einhver áhrif. Ég tók nokkrar myndir og þær eru [hér](http://www.flickr.com/photos/einarorn/sets/72157601332575033/)

Gærdagurinn

Ég var í brúðkaupi í gær, sem var skemmtilegt einsog hefð er fyrir í brúðkaupum vina minna.

Highlight kvöldsins fyrir mig voru tvö. Fyrir það fyrsta mjög metnaðarfullar tilraunir vinkvenna minna við að koma mér á sjens með einni stelpunni í boðinu. Hið seinna var svo þegar að vinur minn sýndi fyrirlitningu sína á [sólgleraugunum mínum](http://www.flickr.com/photos/einarorn/780207278/) með því að henda þeim í vegg. Hann vildi að ég losaði mig við þau og fengi mér í staðinn gleraugu frá [alvöru merki](http://oakley.com/), en ekki gleraugu sem væri hægt að kaupa á 5 pund í Next.

Kíktum svo saman í bæinn á Vegamót / Boston / Ölstofuna. Vorum þar til klukkan 3.

Sem var frábært, því ég var farinn að sofa rétt eftir klukkan 3. Munurinn á því og að fara að sofa klukkan 6-8 einsog hefur gerst á flestum djömmum undanfarið, er gríðarlegur. Ég vildi óska þess að íslenskir skemmtistaðir færu aftur í gamla opnunartíma sinn. Þegar maður verður eldri (hóst) þá kann maður alltaf betur að meta fríin um helgar og það er svo hræðileg sóun að eyða öllum deginum í þynnku.

Mun betra væri að geta gert þetta einsog í Bretlandi. Það er að kíkja útá lífið um klukkan 7 og vera svo búinn rétt eftir miðnætti. Það myndi þýða að maður gæti náð 8 tíma svefni, en verið samt vaknaður fyrir klukkan 10 daginn eftir. Þá ætti maður allan daginn framundan til að njóta, í stað þess að allur dagurinn fari í svefn. Þetta myndi bæta skemmtanalífið í Reykjavík til muna og einnig hvetja fleira fólk til þess að kíkja út á lífið. Margir á Íslandi hætta mun fyrr að fara útá lífið en í útlöndum og ég held að ein stærsta ástæðan sé það hversu lengi fólk er að í bænum.

Ég er enn að reyna að gera það upp við mig hvort ég eigi að skella mér til útlanda um næstu helgi og ef svo er, hvort ég eigi að fara til London í n-ta skipti eða til Skotlands. Veðrið í London lítur ágætlega og svo hef ég alltaf ætlað að fara og skoða Stonehenge, sem ég gæti gert núna. Verð að ákveða þetta í dag.

Hugarró

Svona lítur MBL.is hjá flestum (smellið á mynd til að sjá stærri útgáfu):

Svona lítur það út hjá mér eftir smá breytingar. Engar geðsýrðar hreyfiauglýsingar, sem gefa manni flogaköst. Og það sem er mikilvægast: ekkert tuð frá Moggabloggurum við hverja einustu helvítis frétt.

Þökk sé þessu og þessu.

Annars er það alveg ólýsanlega æðislegt að vakna svona snemma á laugardagsmorgni, laus við alla þynnku og allt vesen. Vikan er búin að vera ótrúlega spennandi og skemmtileg, sérstaklega þegar að kemur að vinnu. Fulltaf spennandi hlutum, sem ég get vonandi greint frá fljótlega. Í morgun er búinn að eyða síðustu 3 tímunum í vinnu og því get ég slappað af án samviskubits. Ætla að fara útá svalir í sólina og lesa [nýju bókina mína](http://www.amazon.co.uk/How-Talk-Widower-Jonathan-Tropper/dp/0752885766/ref=pd_bbs_sr_1/203-4349188-7099122?ie=UTF8&s=books&qid=1185624393&sr=8-1)þ

Svo seinna í dag er ég að fara í giftingu til góðs vinar míns. Í lok dagsins verða því aðeins tveir ógiftir strákar úr Verzló vinahópnum. Úff.

En ég er verulega spenntur fyrir brúðkaupinu. Steggjaveislan um síðustu helgi var skemmtileg og UJ útilegan sem ég fór í á eftir veislunni var líka afskaplega skrautleg og skemmtileg.

Þetta er fínt líf.

Eheheeeeeh…

Góða kvöldið!

  • Ég elska þetta veður!
  • Ég elska að geta gengið um á sandölum og í stuttbuxum.
  • Ég var með tvo frábæra bandaríska stráka á Couchsurfing um helgina.
  • Við fórum á djammið á laugardaginn. Byrjuðum á Vegamótum og vorum þar til 3
  • Hitti fyrrverandi fótboltaþjálfara minn.
  • Hann staðfesti sögu sem ég hef sagt nokkrum sinnum. Málið er að þegar ég var sirka 13 ára þá fór ég með Stjörnunni á knattspyrnumót í Wales. Ég var á yngra ári og spilaði með B-liðinu. Einn af andstæðingunum var Dynamo Kiev. Sá leikur var eftirminnilegur. Fyrir það fyrsta þá spilaði ég frammi og sá um að taka miðjur. Þær urðu alls 15 talsins í leiknum, þar sem við töpuðum 14-0. Dynamo Kiev strákarnir voru miklu stærri og betri en við. Nokkrum árum síðar las ég viðtal við þennan ágæta framherja. Þá komst ég að því að hann var akkúrat einn af þessum strákum, sem spiluðu á móti okkur. Væntanlega var hann framherjinn sem skoraði að mig minnir helming marka Kiev liðsins. Þannig að þrátt fyrir að ferill minn í fótbolta hafi ekki verið glæsilegur þá get ég allavegana alltaf sagt að ég hafi spilað á móti Andriy Shevchenko (þetta er staðfest á Wikipdia síðunni um Shevchenko).
  • Um 3 leytið urðum við þreyttur á Vegamótum og ákváðum að færa okkur um set. Það voru hins vegar biðraðir á öllum stöðum þannig að við ákváðum að hætta okkur niður fyrir Lækjargötu og á Hressó. Það var skrautlegt.
  • Fyrir það fyrsta þá var strákurinn, sem ég var með, laminn þegar hann reyndi að stoppa slagsmál á miðju dansgólfinu.
  • Þegar við komum út sáum við svo slagsmál númer 2.
  • Við hittum svo hinn strákinn og hann sagði að einhver Íslendingur hefði ýtt sér þegar hann var að fara í hraðbanka.
  • Ég skil ekki hvernig fólk nennir að slást á djamminu.
  • Við löbbuðum svo niðrá tjörn. Í tjörninni sá ég glytta í fjallahjól og óð því útí tjörnina og náði það. Hjólið reyndist vera í fínu lagi og ákvað ég því að hjóla aðeins um nágrennið enda veðrið stórkostlegt.
  • Um 7 leytið hittum við hóp af sósíalistum sem voru í einhvers konar picnic við tjörnina. Þar sátu þau, staupuðu Absolut og sungu Internationale-inn. Við ákváðum að setjast hjá þeim og spjalla, enda einn Íslendinganna ákafur í að ræða við Bandaríkjamennina um stjórnmál.

Jammmm…

Kjötbollur? Í alvöru talað?

Ég er kominn heim. Þið getið því formlega kysst þetta góða veður BLESS!

* * *

Tveir náungar sem ég þyrfti að eiga orð við. Fyrir það fyrsta: Gaurinn sem ákvað að Flugleiðir myndu servera kjötbollur úr kjötfarsi í Ameríku-fluginu! Í alvöru talað? Kjötfars er að mig minnir samblanda af bylgjupappa og innyflum úr óþekktum dýrategundum. Gat enginn hjá Icelandair fundið aaaðeins ódýrara kjöt? Var allt hvalkjöt uppselt?

Seinni gaurinn er diplómat í Brussel, sem ákvað það – að eftir að maður hefur farið í gegnum vopnaleit í USA þar sem ég þurfti meðal annars að fara úr skónum og standa inní klefa þar sem einhverjum efnum var sprautað á mig í 15 sekúndur – og eftir 5 tíma flug í þröngri flugvél, þá þyrfti maður líka að standa í biðröð eftir því að fara í aðra vopnaleit þegar maður er kominn heim til Íslands.

Svo þegar maður er nýbúinn að setja á sig beltið, þá tekur tollurinn aftur af mér allar töskurnar og leitar í þeim líka.

Velkominn til fokking Íslands.

(Annars var ferðin frábær. Skrifa meira um hana seinna).

Helgin í Chicago

Helgin hérna í Chicago er búin að vera frábær. Ég sit núna inná Melrose diner-num, sem er við hliðiná íbúðinni hans Dan hérna í Lake View hverfinu, og bíð eftir uppáhaldsmorgunmatnu mínum, french toast. Hverfið sem Dan býr í er akkúrat einsog ég vil hafa hverfi. Full af búðum og kaffihúsum og af lífi. Það er alltaf fulltaf fólki útá götu og inná kaffihúsunum hérna í kring. Svona á þetta að vera. Og ekki skemmir þetta yndislega veður sem hefur verið hérna í Chicago síðustu daga.

Á föstudagskvöldið kíktum við aðeins útá lífið. Borðuðum fyrst á mið-austurlenskum veitingastað með Dan, kærustu hans og vinkonu hennar og kíktum svo á einhverja 2-3 bari. Dan var eitthvað hálf slappur þannig að við entumst ekki mjög lengi.

Á laugardaginn ákváðum ég og Dan svo að kíkja uppí Wrigleyville til að kíkja á það hvort við fengjum ekki miða á Cubs leikinn þann daginn. Við áttum vissulega miða á sunnudagsleikinn líka, en ég vildi sjá eins marga leiki og ég gat þannig að ég ákvað að splæsa á miða líka á laugardaginn. Við fengjum því frábæra miða rétt fyrir aftan fyrstu höfn, þar sem við sátum í sólinni og drukkum bjór. Leikurinn fór reyndar ferlega illa, en það breytir ekki öllu.

Um kvöldið fórum við svo á heljarinnar djamm. Byrjuðum heima hjá kærustu Dan í grillpartíi þar sem nokkrir vinir okkar voru samankomnir. Svo um miðnætti fórum við á Crobar næturklúbbinn, sem mér fannst dálítið fyndið þar sem þetta er sami næturklúbburinn og við Hildur fórum nokkrum sinnum saman á þegar við bjuggum hérna í Chicago. Þótt ótrúlegt megi virðast þá eru 5 ár núna síðan ég flutti heim frá Chicago. Stundum er það hreinlega asnalegt hvað tíminn líður hratt.

En allavegana, djammið var frábært og entist ansi lengi og því var þynnkan í gær næstum því óbærileg. Við fórum þó fjögur saman á annan Cubs leik (ég, Dan, kærasta hans og bróðir hennar) á Wrigley Field. Í þetta skiptið sáum við þó glæsilegan sigur. Eftir það fórum við á hverfahátíð þar sem við borðuðum pizzur og horfðum á útitónleika. Gærkvöldinu eyddum við Dan svo heima, þar sem við létum restina af þynnkunni renna útúr kerfinu með því að spila NBA Live.

Í dag er það svo Taste of Chicago, sem er snilldarhátíð í Grant Park þar sem tugir veitingastaða setja upp bása í garðinum og bjóða uppá sína bestu rétti. Á morgun er það svo flug til Washington DC.

Skrifað í Chicago, Illinois klukkan 11.40