Stelpur í London og Jackson 5

Eitt athyglisvert við London, sem ég veit ekki hvort aðrir strákar hafa tekið eftir: *Allar sætustu stelpurnar í London eru af indverskum uppruna!* Semsagt afkomendur innflytjenda frá Indlandi, Sri Lanka, Pakistan og þeim löndum. Ég held að ég sé alveg ágætlega dómbær um þetta. Hefur einhver annar tekið eftir þessu? Nánast undantekningalaust voru sætustu stelpurnar, sem ég sá í London, af þessum uppruna. Magnað, ekki satt?


Síðan hvenær varð “I want you back” með Jackson Five að skylduspilun á íslenskum skemmtistöðum? Ég held að ég geti fullyrt að þau síðustu fjögur skipti, sem ég hef verið á íslenskum skemmtistöðum á laugardögum (þrisvar Ólíver, einu sinni Vegamót), þá hefur það lag *alltaf* verið spilað, jafnvel oftar en einu sinni á hverju kvöldi.

Borgþór og Björk vinir mínir eignuðust litla stelpu í gær. Í tilefni af því fórum við barnlausa fólkið úr Verzló vinahópnum út í gærkvöldi. Núna erum við bara sjö eftir barnlaus. Fórum á Ólíver, sem var fínt. Ég held að borðin við hurðina á Ólíver séu bestu borðin í bænum, þar sem að opna hurðin gerir það að verkum að nánast engin sígarettulykt finnst. Ég þefaði af peysunni minni í morgun og fyrir utan Benetton ilmvatnslykt, þá gaf engin lykt það í skyn að ég hefði verið á skemmtistað í gærkvöldi. Yndislegt alveg hreint. Meira svona!


Jæja, seinni hálfleikur af Góðgerðarskildinum að byrja. Ég elska það að vakna á sunnudögum og getað séð fótbolta um leið og ég kveiki á sjónvarpinu. Það er yndislegt!

London um helgina

Ég er að fara út á laugardaginn. Hef ekki farið til útlanda síðan ég sá Liverpool verða **EVRÓPUMEISTARA** í Istanbúl í maí. Það er auðvitað orðið alltof langt síðan. 🙂

Allavegana, fer til London. Á miðvikudaginn á ég fund í Kettering og sá því fram á að ég myndi ekki mæta í vinnu á þriðjudaginn. Þar sem að vinir mínir eru flestir rólegir um Verslunarmannahelgina, þá fannst mér vera kjörið að nýta ferðina og eyða helginni í London. Pantaði mér því ódýrt hótel nálægt Earl’s Court.

Ætla að reyna að túristast aðeins um London á staði, sem ég hef ekki komið áður. Ætla að fara í [British Museum](http://www.thebritishmuseum.ac.uk/) og eyða allavegna einum degi þar og ætla svo að fara niður til [Stonehenge](http://www.english-heritage.org.uk/stonehenge/). Ætla svo að ryena að hitta systur mína og versla eitthvað.

Veðrið á víst að vera [sæmilegt](http://www.weather.com/activities/travel/businesstraveler/weather/tenday.html?locid=UKXX0085&from=36hr_fcst10DayLink_business). Um 20 stiga hiti og það ætti að sjást til sólar allavegana á mánudag, þannig að ég reyni sennilega að fara til Stonehenge þá.


[Síminn var seldur](http://www.mbl.is/mm/vidskipti/frett.html?nid=1151232;gid=2352) í dag fyrir 67.000.000.000 krónur. Væri ekki best að borga þetta verð beint út til allra Íslendinga? Það myndi þýða að hver lifandi Íslendingur fengi ávísun uppá 230.000 krónur. Einstæð móðir með tvö börn fengi 690.000 krónur. Það væri ekki slæmt.

En nei, auðvitað verður þessu eytt í eitthvað bull. Þarf ekki örugglega meiri pening í landbúnaðarkerfið? Já, eða fleiri jarðgöng útá landi. Það væri líka æði.

Andvaka

Ég get ekki sofnað! Drakk of mikið af kaffinu hjá Jensa og Þórdísi.

Fokk!


Búinn að panta mér flug til London um næstu helgi. Sameina bissness og vonandi ánægju. Fundur næsta miðvikudag, þannig að ég hef laugardag-þriðjudag í London. Ég þarf virkilega á þessu að halda. *Reyna að hreinsa hausinn á mér.* Síðustu vikur og mánuðir hafa verið of skrýtnir, of flóknir. Of mikið vesen.

Er líka búinn að ákveða að fara út í fríið mitt í lok ágúst. Var ekki alveg viss, en er viss núna. Fékk smá bakþanka með að fara til Suð-Austur Asíu. Langar dálítið að fara til Mið-Ameríku. Tala spænsku borða tacos, dansa salsa og reyna við sætar, mexíkóskar stelpur.

Mexíkó eða Tæland? Mið-Ameríka eða Suðaustur-Asía. Ég verð að fara að ákveða mig. Held bara að ég þurfi að fara út sem allra fyrst. Reyna að byrja uppá nýtt. Gera hlutina öðruvísi. Hreinsa hugann. Gleyma öllu hérna heima, setja á mig bakpokann og fara á flakk. Hitta nýtt fólk á hverjum degi. Detta í’ða einhvers staðar þar sem enginn þekkir mig og ég þekki engann. Þar sem ég rekst ekki á neinn. Dansa við ókunnugar stelpur, heimsækja nýja staði. Láta mér leiðast á lestarstöðum og í rútum. Anda að mér mengun í stórborg. Sjá nýja hluti. Verða skotinn í stelpu í nokkra klukkutíma í ókunnugri borg.

Mig langar út….

Helgi á Grundarfirði

Æ mikið var þetta gaman.

Ég var alveg að tapa mér í einhverri fýlu á föstudaginn og var við það að hætta við að fara í útilegu. Guði sé lof fyrir að ég fór. Ég var að koma heim aftur eftir tvo virkilega skemmtilega daga á Grundarfirði með Serrano starfsfólki. Er sólbrunninn (mér líður allavegana einsog ég sé brunninn, þrátt fyrir að ég líti ekki þannig út), með kvef og fáránlega þreyttur. En mikið skemmti ég mér vel.

Á Grundarfirði var bæjarhátíð, sem var nokkuð vel heppnuð. Allur bærinn, og þá meina ég hvert einasta hús, var skreyttur í einum af fjórum litum, en hverfunum var skipt uppí fjóra hópa og var keppt í skemmtiatriðum og skreytingum á milli bæjarhluta. Nokkuð skemmtilegt konsept og það virtust allir bæjarbúar taka þátt í þessu því öll húsin voru skreytt (sjá [lýsingu hjá önnu.is](http://www.anna.is/weblog/arc/004677.html)).

Við komum þarna á föstudagskvöldinu og um leið og við vorum búin að tjalda fórum við í partý í heimahúsi. Eftir það fórum við svo öll á ball með Sálinni. Sem var æðislegt. Veðrið var svo fáránlega gott að fyrir utan félagsheimilið var stappað af fólki. Þannig að bæði fyrir og eftir ballið eyddi ég heillöngum tíma þar fyrir utan og hitti fulltaf skemmtilegu fólki. Inná ballinu var líka frábært.

Laugardeginum eyddi ég í sundi og rölti um bæinn. Í miðbænum voru skemmtiatriði og tívolí ásamt einhverri kraftakeppni. Veðrið var svo frábært að það að vera úti var eiginlega nóg. Hitt skipti ekki jafn miklu máli. Um kvöldið fór ég svo uppí bústað til vinar míns, þar sem ég borðaði kvöldmat og hitti svo allt fólkið. Fórum í bæinn, drukkum og spjölluðum. Kíktum svo í partý og því næst á skemmtistaðina báða. Fíluðum þá ekki alveg nógu vel, þannig að við enduðum kvöldið hjá tjöldunum okkar. Eftir sund og mat keyrðum við svo í bæinn í dag.

Semsagt, virkilega góð helgi. Ég hafði ekki farið í ferð útúr bænum síðan um síðustu verslunarmannahelgi og sú ferð var ferlega róleg, ólík þessari. Ég þurfti á þessu að halda.

Útilega

Ok, ætla að gleyma öllu því sem pirrar mig í dag, því helgin skal vera skemmtileg.

Er á leiðinni í útilegu. Grundartangifjörður er víst áfangastaðurinn. Þar verður gaman. Eða svo vona ég allavegana. Ég er allavegana kominn í stuttbuxur, svo ég er til í fjörið. Góða helgi! 🙂

Dagurinn í dag

Búinn að þrífa íbúðina mína. Búinn að hlaupa 8 kílómetra í sólinni.

Er á leiðinni í BBQ boð og svo á **SNOOP**!!! Jamm, þetta er góður dagur.


Fór á djammið á föstudaginn. Lá í leti í gær. Hef ekki skrifað á þessa síðu í heila fjóra daga. Magnað að maður skuli ekki hafa meira að segja eftir slíka hvíld.

Sunnudagur til sjónvarpsgláps

Ég fokking HATA þetta veður!

Í alvöru talað, á ekki að vera sumar hérna? Er einhver þjóð í HEIMINUM fyrir utan Grænland, sem þarf að þola annað eins veðurfar og við Íslendingar? Í alvöru talað!

Það er eflaust hægt að finna lönd, þar sem veturnir eru miklu verri, en er í alvöru hægt að finna land þar sem sumrin eru jafnömurleg? Kræst!


GSM símar geta verið erfið tæki. Til dæmis eru númerabirtar á öllum GSM símum. Segjum sem svo að þú viljir ná í ákveðna manneskju. Læturðu eitt símtal duga, þar sem að númerið sést á síma viðkomandi, eða hringirðu aftur og aftur og átt þá á hættu að líta út einsog geðsjúklingur þegar að viðkomandi sér 10 “missed calls” frá þér? Lífið væri einfaldara ef að enginn væri með GSM.


Annars er ég búinn að liggja í leti í dag. Ljómandi skemmtilegt alveg hreint. Kíkti útá lífið með vinum á föstudagskvöld. Ætluðum á Ólíver og vorum mættir þar um 11 leytið, en þar var gjörsamlega stappað. Þannig að við enduðum á Vegamótum. Aðsóknin á þann stað virðist algjörlega hafa hrunið eftir að Ólíver opnaði. Það var hálftómt inni alveg til klukkan 2 þegar dansgólfið byrjaði að fyllast af ofurölva 16 ára stelpum. Ljómandi skemmtilegt. Fengum okkur bara nokkra bjóra og vorum nokkuð rólegir.


Horfði á sjónvarpið í dag. Þar á meðal Newlyweds, sem er algjör snilld. Jessica Simpson er óþrjótandi uppspretta misgáfulegra kommenta.

Horfði einnig á The Apprentice. Það er eini raunveruleikaþátturinn, sem ég myndi vilja taka þátt í (kannski fyrir utan Dismissed og amerísku útgáfuna af The Bachelor). Mér finnst alltaf einsog ég hefði getað gert svo miklu, miklu betur en þetta fólk í þættinum. Þetta snýst í raun langflest um eitthvað varðandi markaðssetningu og að starta einhverju nýju, sem ég held að ég gæti staðið mig vel í.

Kláraði líka að horfa á 24, sem endaði skemmtilega.

Já, og kláraði að horfa á Return of The King. Kannski er það bara ég, en mér finnst öll þessi Lord of the Rings sería vera fáránlega ofmetin. Þetta er ágætt, en alltof langdregið. Ég held að ég hafi horft á síðustu myndina í svona 8 hlutum.

Fótboltaslúður og hárið mitt

Ég hef sjaldan verið jafnspenntur á fréttasíðum á netinu og í dag. Enda sést það af afköstum okkar Kristjáns á [Liverpool blogginu í dag](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2005/07/04/). Úff, þvílíkur rússíbani sem þessi dagur er búinn að vera varðandi Liverpool mál. 4 nýjir leikmenn og fyrirliðinn með svaka vesen. Ég hef ekki taugar í svona lagað.

Þrátt fyrir það tókst mér að afkasta alveg lygilega miklu í dag. Undirbjó fund fyrir morgundaginn, fór í ræktina, fór og sótti mann útá flugvöll, heimsótti fullt af búðum (vinnutengt) og fór svo að borða á Argentínu í kvöld. Er enn dálítið uppveðraður af espresso kaffinu, sem ég drakk.


Hárið mitt hefur ekki verið jafn sítt síðan ég var 18 ára. Það er alveg á mörkunum að ég fari í klippingu, er eiginlega alveg að springa. Einn daginn finnst mér allt vera æði, næsta dag langar mér að ráðast á það með skærum. Þetta er eiginlega orðin ein allsherjar úthaldskeppni. Er að prófa hvað ég þoli þetta lengi. Ætli ég haldi þetta ekki út þangað til einhver stelpan á Serrano kemur uppað mér og skipar mér að fara í klippingu. Þannig gerist þetta vanalega.

Annars var ég í partýi fyrir einhverjum dögum, þar sem stelpa hélt því fram að ég væri “ógeðslega típískur verzlingur, þar sem ég væri

a) með krullur í hárinu (hárið að aftan krullast upp. Ég hef ekki nokkra einustu stjórn á því!!!)
b) ég var í póló bol (sem er nokkuð óvenjulegt)
c) ég var með tvö hálsmen
d) allt í íbúðinni minni er víst verzló-legt.

Ljómandi skemmtilegt alveg hreint…

Kanye, golf og markaðsmál

Ef ég byggi í Bandaríkjunum, þá myndi þetta sennilega hljóma einsog ég hefði verið að uppgötva Coldplay í fyrsta skipti, en allavegana, ég var að uppgötva Kanye West. Hef náttúrulega hlustað á plötur, sem hann hefur pródúserað, en undanfarna daga hef ég verið að hlusta á [College Dropout](http://www.amazon.com/exec/obidos/tg/detail/-/B0001AP12G/qid=1120257776/sr=8-1/ref=pd_bbs_ur_1/002-5442069-0116005?v=glance&s=music&n=507846), þar sem hann rappar sjálfur. Allavegana, platan er æði! Mæli með henni, líka fyrir ykkur sem segist ekki fíla hip-hop. *Never Let Me Down* og *We Don’t Care* hafa verið á repeat.


Áðan spilaði ég golf í fyrsta skipti í heilt ár. Vinnan mín var með smá golfmót uppá Bakkakotsvelli. *Hólí Móses* hvað ég var lélegur. Ég þurfti að útskýra fyrir þeim, sem ég spilaði með, að ég hefði actually spilað golf áður á ævinni. En það er ár síðan ég spilaði síðast og ég var búinn að gleyma öllu. Ég á eftir að vera með harðsperrur á morgun eftir öll vindhöggin. Ég meina VÁ hvað ég var lélegur. VÁááá!!!


Mér finnst það voða skemmtilegt að núna eru í gangi fjórar markaðsherferðir, sem ég hef yfirumsjón með. Held að ég hafi aldrei verið jafn aktívur.

Í fyrsta lagi er það Vivana ís, sem er í gangi í sjónvarpi og á fullu í búðum. Fituminni ís frá Nestlé, sem ég mæli hiklaust með. Ég vann auglýsinguna frá grunni með auglýsingastofunni og var það nokkuð skemmtileg vinna. Er líka nokkuð sáttur við auglýsingarnar og hef fengið mjög jákvætt feedback.

Ég er líka með Lion Bar á fullu í sjónvarpi og bíóum. Notum þar franska auglýsingu, sem virkar að mínu mati vel. Súkkulaðið hefur líka breyst og er miklu betra en það var áður. Enda hefur herferðin líka gengið þvílíkt vel.

Svo er það Nescafé Colombie, sem er herferð unnin eftir minni hugmynd. Allar auglýsingarnar í þeirri herferð eru íslenskar, teiknaðar af strákum hjá Vatíkaninu.

Síðast er það svo Nescafé Latte, sem er reyndar einungis dagblaðaherferð.

Í viðbót við þetta hef ég verið með birtingar á Baci súkkulaði, sem og auglýsingar fyrir nýjar tegundir af Yorkie. Þetta er ábyggilega nýtt met.


Umfjöllun mín um [DV og Hér og Nú](https://www.eoe.is/gamalt/2005/06/30/09.56.22/) rataði alla leið í dagblöðin. Hvaða dagblað? Nú, DV auðvitað. Síða 31 í dag. Ekki virðist það hafa aukið traffíkina á þessa síðu, en flettingar eru 533 í dag (innlit 234), miðað við svona 750-800 vanalega (um 350-400 innlit)

Án titils

Veit einhver hvar ég fæ [svona tæki](http://www.trulythefinest.com/prodDetail.cfm/11591) á Íslandi?


Ég gerði fullt gagnlegt og skemmtilegt um helgina, þrátt fyrir vandræði mín. Tók til heima (núna er aftur allt í drasli), kláraði smá vefsíðudót (by the way, veit einhver hvernig ég get fengið scrollbar á sprettigluggana á [svona síðum](http://www.danol.is/vorur/is/index.php)?), horfði á Alfie (sem mér fannst bara fín, mun betri en ég átti von á, fór í mat til mömmu og pabba, fór á Batman Begins í bíó (sem er góð!), grillaði nautasteik, þvoði föt, horfði á Seinfeld, horfði á Mexíkó tapa í Álfukeppninni (fokk!), horfði á Chicago Cubs vinna (Yes!), borðaði ís, las bækur og pantaði mér svo fullt af dóti á Amazon.

Fín helgi!


Annars, þá elska ég [Ask Metafilter](http://ask.metafilter.com/). Það er snilldarsíða. Þarna getur maður lagt fram spurningar um allt milli himins og jarðar og fengið fullt af svörum frá kláru og skemmtilegu fólki. Ég setti til dæmis inn [eina spurningu í gær](http://ask.metafilter.com/mefi/20387) og fékk strax fullt af sniðugum svörum. Ákvað að panta mér strax nokkrar bækurnar, sem mælt var með.