Jæja, hvað á ég *svo* að gera?

Þetta er skrítin helgi.

Í fyrsta skipti í margar, margar vikur er nákvæmlega ekkert skipulagt hjá mér yfir heila helgi. Ég þarf svo sem ekkert að vinna, vinir eru flestir að gera eitthvað annað og því varð það úr að ég hafði nákvæmlega ekkert planað þessa helgi.

Því eyddi ég gærkvöldinu hérna heima, horfandi á sjónvarpið. Horfði meðal annars á nýja kvöldþáttinn á Sirkus, sem er sæmilegur. Ég vil ekki vera neikvæðari nema eftir nokkra þætti. Það væri fáránlegt að dæma þáttinn algjörlega út frá fyrstu tilraun. Þetta getur alveg orðið gott.


Í morgun saf ég svo út en dreif mig síðan inní World Class. Kannski er það vonda veðrið, en World Class var fullt af sætum stelpum á réttum aldri. Ég, sem er þarna alltaf í hádeginu, er ekki vanur slíku. Allavegana, lyfti og hljóp svo 7 kílómetra. Eldri systir mín hljóp maraþon hlaup um daginn og við þær fréttir fannst mér að ég þyrfti að fara að hlaupa meira, svo þetta er skref í áttina.

Fór svo uppá Serrano og hélt áfram að prófa mig áfram með nýja rétti á staðnum. Það er allt að koma.


Og þá er ég búinn. Búinn að fara í líkamsrækt og uppá Serrano, þannig að samviskubitið getur ekki mögulega nagað mig þessa helgi. Því hef ég næstu 36 tímana gjörsamlega óplanaða. Það er eiginlega alveg skuggalegt að hugsa til þess. Veðrið er ömurlegt, þannig að ég fer ekki út. Horfi auðvitað á [baráttuna um Chi-town klukkan átta](http://chicago.cubs.mlb.com/NASApp/mlb/news/article.jsp?ymd=20050624&content_id=1102522&vkey=news_chc&fext=.jsp&c_id=chc) en veit ekki um annað. Ætli ég kveiki ekki bara á Xbox tölvunni minni í fyrsta skipti í tvo mánuði.

Eða kannski ætti ég að gera eitthvað aðeins menningarlegra. Ég veit ekki. Það er alltof erfitt að eiga svona mikinn lausan tíma.

Vinnupartý og útilegur

Mér finnst vanalega alveg óstjórnlega leiðinlegt að keyra. Ég keyri fram og aftur úr vinnu nánast í einhverju móki, alveg hugsanalaust. Gleymi mér oft þegar ég ætla að fara uppá Serrano á leiðinni heim og er kominn hálfa leið í Vesturbæinn þegar ég átta mig á hlutunum. Er svo vanur að fara sömu leið alveg án þess að hugsa, að öll tilbreyting veldur nánast uppnámi.

En einstaka sinnum er gaman að keyra. Einsog t.d. í kvöld. Var að keyra frá Hellu og í bæinn. Einn í bíl, með iPod-inn minn í eyrunum í æðislegu veðri með sólina í andlitið. Fannst einhvern veginn allt svo fallegt í kringum mig. Sami vegur og ég hef keyrt svo oft áður, en stundum er einfaldlega gaman að vera í bíl á 100 90 kílómetra hraða.


Þetta er búin að vera góð helgi. Ég var með starfsmannapartý hérna á fimmtudagskvöld og það var frábært, einsog vanalega. Ég veit að auðvitað er maður að halda starfsmannapartý *fyrir* starfsfólkið, en ég hef bara svo ótrúlega gaman af þeim líka. Maður lærir líka svo margt. Flestar stelpurnar eru of feimnar til að segja manni merkilega hluti í vinnunni, en í partýjunum þá losna þær við feimnina.

Ég fór svo í bæinn. Labbaði með tveim stelpum á meðan að flestar fóru á bílum. Fór með þeim á Gauk á Stöng. Þar sem ég er *orðinn tvítugur* var ég ekki alveg að fíla mig þarna inni. Spilaði púl við eina stelpuna, en svo ákváðum við að fara á aðra staði. Fórum og borðuðum á Purple Onion, löbbuðum svo uppá Café Oliver þar sem við vorum til lokunnar. Enduðum svo á Hverfisbarnum.

Á leiðinni heim um klukkan hálf sjö var komin glampandi sól og yndislegt veður í bænum. Þegar ég labbaði framhjá tjörninni hitti ég nokkra Ástrala, sem voru þar samankomnir og voru að reyna að sannfæra hvort annan um að fá sér sundsprett í tjörninni. Eftir smá umræður ákváðu þeir allir að stökkva í ískalda tjörnina. Eftir smá umhugsun ákvað ég að fylgja ekki á eftir.


Í dag fór ég svo í útilegu með hinni vinnunni minni. Þetta var fjölskyldu útilega, svo ég ákvað að gista ekki, en fór þess í stað í morgun og er búinn að vera þarna í allan dag. Var að koma heim áðan og er einsog karfi í framan. Veðrið var æði og ég borðaði yfir mig af grillmat. Maður getur ekki beðið um meira.

Í kvöld ætla ég svo að taka því rólega, klára að lesa Angels & Demons og njóta þess að sofa út á morgun. Vonandi verður morgundagurinn góður.

Góður dagur

Sko, í fyrsta lagi þá trúi ég því ekki enn að enginn hafi kommentað á [Los Pericos færsluna mína](https://www.eoe.is/gamalt/2005/06/15/18.17.22/index.php). Ég hélt að það myndi allt flæða yfir af tölvupóstum og kommentum, þar sem mér væri þakkað fyrir að benda fólki á þessa snilld. Er fólk kannski ekki að fíla þetta? Nei, það getur ekki verið.

Allavegana, ég var búinn í vinnunni í dag klukkan *hálf þrjú*. Ég ákveð reyndar minn eigin vinnutíma, sem þýðir vanaleg að ég vinn lengi, en í dag var ég sáttur við að hafa klárað ákveðið verkefni og ákvað að gefa mér frí. Fór í Kringluna, keypti mér föt, borðaði Serrano og kom svo heim. Er að fara í körfubolta með vinum mínum á eftir og svo er ég með starfsmannapartý fyrir Serrano fólk í kvöld og fer svo væntanlega í bæinn á eftir. Ég verð bara einn með partýið, þar sem Emil, hinn eigandinn, er úti. Það verður fróðlegt.

Svo ætla ég í útilegu um helgina. Það er sko eins gott að það verði sól um helgina. Annars afsala ég mér ríkisborgaréttinum og sæki um pólitískt hæli í Ástralíu.

Hver verður númer 200.000 á þessari síðu? Spennan er nánast óbærileg.

Þynnkumeðal

Ég ætla að forðast það að vera með miklar yfirlýsingar um að mér hafi tekist að finna lausn við þynnkavandamálum mínum. Einu sinni hélt ég m.a.s. að ég væri ónæmur fyrir þynnku. Fyrstu árin, sem ég drakk áfengi, þá varð ég aldrei þunnur.

En síðustu ár fæ ég alltaf verulega slæman hausverk daginn eftir drykkju. Hausverkurinn er vanalega svo slæmur að verkjalyf duga ekki á hann og því eyði ég öllum deginum í eymd og volæði.

Allavegana, ég er komin með ágætis lausn á þessu vandamáli, sem hefur virkað nokkuð vel síðustu skipti. Trixið er að still vekjaraklukkuna mjög snemma. Nógu snemma til þess að ég sé alver öruggur um að ég muni sofna aftur. Ég miða því vanalega við svona 5 tímum eftir að ég sofna. Ég vakna þá, fer fram og fæ mér tvær verkjatöflur og fer svo aftur að sofa. Þegar ég vakna svo aftur nokkrum tímum seinna er verkurinn mjög nálægt því að vera farinn. Þetta hefur allavegana virkað nokkrum sinnum.


Þetta virkaði í morgun. Ég var í útskriftarveislu í gær og drakk kannski pínku ponsu of mikið, enda var mikið af áfengi í veislunni og ég blandaði saman bjór, hvítvíni og gini. Það er ekki sniðugt.

En veislan var skemmtileg og ég fór svo með vinum mínum niðrí miðbæ. Fórum á Café Oliver, sem mér líst ágætlega á. Reyndar hafði loftið á staðnum þau áhrif á mig að ég varð verulega slappur. Ég leit sennilega hræðilega út og ég var í einhverjum erfiðleikum með að tjá mig almennilega.

Þannig að ég ákvað að fara heim. Ég var í jakkafötum og óþægilegum spariskóm, þannig að það var ekkert voðalega þægilegt að labba heim. Kíkti á Purple Onion og fékk mér shawarma, sem ég borðaði á leiðinni heim.


Já, og [Lifehacker](http://www.lifehacker.com) er snilldarsíða!

Bleeeeh!

Þessi síða er að drabbast niður í algjöra meðalmennsku og skortur á nýju efni fer að verða vandræðalegur. Af einhverjum ástæðum get ég ekki fengið mig til að skrifa eitthvað. Ég er of önnum kafinn í vinnunni til að blogga um eitthvað af viti og svo utan vinnu hef ég ekki nennt að setjast niður.

Kannski er þetta bara sumarið?


Ég fór í útskrift hjá frænku minni um helgina. Fór svo með vinum hennar í annað partý, þar sem ég hitti gamlan félaga úr handboltanum. Hann var búinn að tala við mig í um 10 mínútur þegar hann fattaði að hann var að tala við *mig* en ekki 19 ára gamlan frænda minn. Mér finnst það pínkuponsu skrítið að fólk skuli ruglast á mér og frænda mínum.

Beið í biðröð á Hverfis seinna það kvöld. Ég er með VIP kort þar, sem virðist hafa tapað áhrifamætti sínum. Eftir að allir dyraverðirnir voru reknir virðast vera komnar þrjár biðraðir. Það er venjulega röðin, VIP röðin og svo einhver miðjuröð, þar sem allt freka fólkið fer. Auðvitað er svo freka-fólks röðin sú eina, sem gengur. Ég nenni ekki svona lengur. Hverfis er kominn í bann fo’sure.

Annars er ég í fínu skapi í dag. Það er gott.


En það er hins vegar ekki gott að þessi síða skuli bara vera einhver upptalning á djammi. Þarf að gera betur.

Annars, þá er nýja Oasis platan góð. Sú besta í mörg ár. Mér er alveg slétt sama þótt allir og mömmur þeirra segi að Oasis séu léleg hljómsveit, mér hefur alltaf fundist hún góð. Slide Away, Live Forever, Whatever, Wonderwall, Champagne Supernova, Masterplan og fleiri lög eru öll á meðal minna uppáhaldslaga. Síðustu plötur hafa verið drasl, en þessi nýja er góð.

Nýja Gorillaz platan er líka góð. Reyndar mjög góð. Já

Helgin

Mikið er þetta búin að vera góð helgi.

Þetta byrjaði á því að ég fór með hópi frá vinnunni á Ungfrú Ísland á föstudagskvöld. Við vorum þarna 8 saman auk stelpunnar, sem var Oroblu stelpan í fyrra. Ég var þarna í matnum og alveg til enda. Fín skemmtun og aldrei þessu vant var ég sæmilega sáttur við úrslitin. Hefði reyndar viljað að [þessi stelpa](http://www.ungfruisland.is/fullungfru.php?lang=is&id=27) hefði unnið, en ég meina hey.

Við fórum svo saman niðrí bæ. Byrjuðum á Vegamótum og fórum svo á Hverfis. Ég skemmti mér frábærlega, en ég er núna kominn á það stig að ég þarf að finna mér nýja staði til að fara á. Þarf einhverja tilbreytingu. Einhverjar tillögur? Þarf góða tónlist, dansgólf, skemmtilegt fólk og sætar stelpur, helst á aldrinum 20-26 ára.


Allavegana,

Á laugardaginn fór ég á landsfund Samfylkingarinnar. Var þar stóran part dagsins. Ég var gríðarlega ánægður með bæði úrslitin í formanns- og varaformannskjörinu, sérstaklega auðvitað með varaformanninn. Held að Ágúst verði góður í því embætti.

Í gærkvöldi fór ég svo í matarboð til vina, þar sem ég var til klukkan 2. Deginum í dag hef ég svo eytt útá svölum, hlustandi á Dylan og lesandi [Fear and Loathing in Las Vegas](http://www.amazon.co.uk/exec/obidos/ASIN/0007204493/qid=1116799447/sr=8-1/ref=pd_ka_0/202-2944781-6415055), sem er snilld og [No Logo](http://www.amazon.co.uk/exec/obidos/ASIN/0006530400/qid=1116799472/sr=1-1/ref=sr_1_2_1/202-2944781-6415055).

Jamm, góð helgi, leiðinleg færsla. C’est la vie.

Tyrkland eftir tvo daga. Gott. Mjög gott.

Istanbúl

Jæja, núna er það orðið nokkurn veginn pottþétt að ég er að fara til Istanbúl í næstu viku. Mun þar horfa á mitt lið, Liverpool, mæta AC Milan í úrslitum Meistaradeildarinnar.

Ég einfaldlega gat ekki látið þetta tækifæri framhjá mér fara. Ég var 6 ára gamall síðast þegar Liverpool spilaði úrslitaleik í Evrópukeppni Meistaraliða, þannig að þetta gerist ekki á hverjum degi. Ég fer út næsta þriðjudag og verð í þrjá daga. Held að ég hafi aðeins einn dag í Istanbúl, þannig að ég mun ekki geta gert margt merkilegt þarna… nema fara á stærsta leik ævi minnar.

Mig hefur alltaf dreymt um að komast til Tyrklands og ég hlakka til að sjá Istanbúl, þrátt fyrir að það verði eflaust aðeins í mýflugumynd. Það er aðeins vika í ferðina. Ég hef ekki hlakkað svona mikið til utanlandsferðar í laaaangan tíma.

En allavegana, þá er ég búinn að monta mig af þessu bæði hér, [sem og á Liverpool blogginu](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2005/05/16/21.19.05/) 🙂

Dagur í lífi

Miðað við að ég vaknaði með þynnkuhausverk klukkan 8 í morgun, þá hefur þetta verið ansi indæll dagur. Þegar ég vaknaði hafði ég rænu á því að fara fram úr og fram á klósett, þar sem ég fékk mér tvær exedrin og fór aftur að sofa.

Vaknaði svo um 11 leytið, án hausverks. Fór í föt, setti iPod-inn í vasann og fór útí göngutúr. Vesturbærinn er æðislegur á svona sunnudagsmorgnum, þegar veðrið er jafn frábært og það hefur verið í dag. Labbaði um hverfið mitt og svo niður á höfn, þar sem ég fékk mér hamborgara á búllunni. Rölti svo niður í miðbæ í góða veðrinu.


Gærdagurinn var góður. Eyddi stærstum parti dagsins að hjálpa vini mínum að flytja. Hann er að flytja úr Reykjavík í Kópavog. Hann og kærastan hans búa núna nánast uppá Vatnsenda. Það er alveg ferlegt (fyrir mig), þar sem það er löööng keyrsla þangað úr Vesturbænum, en það reddast þó. Við kláruðum flutningana á skömmum tíma og fengum okkur svo pizzu og bjór.

Í gærkvöldi fór ég svo með vinum mínum á Maru. Það er ágætis staður fyrir utan það að réttirnir eru alveg hreint með ólíkindum litlir. Eftir súpu og aðalrétt var allur hópurinn enn sársvangur, svo við gripum á það ráð að fara á Apótekið í desert. Eftir það fórum við á Kaffibrennsluna. Eftir að hafa setið þar inni til miðnættis fóru óléttir einstaklingar í hópnum heim, en við sem eftir sátum vorum allir orðnir svangir aftur. Þannig að við röltum yfir á Purple Onion, nýjan stað, sem ég vildi endilega prófa. Reyni að gefa öllum veitingastöðum allavegana einn sjens.

Allavegana, staðurinn er þar sem Nonnabiti var einu sinni. Að sögn gaursins, sem var að afgreiða þá eru eigendurnir tveir. Það er gaurinn, sem var að afgreiða, sem er frá Jórdan og svo annar frá Litháen. Það er einmitt ástæða þess að á matseðlinum er helmingurinn af matnum frá Mið-Austurlöndum en hinn helmingurinn er rússneskur. Yndislega skrítin blanda. Allavegana, prófuðum Shawarma, sem var ágætt. Hef fengið 10 sinnum betri Shawarma, en ég er bara svo ánægður að fá svona stað að ég var jákvæður. Mæli með að fólk gefi þessum stað sjens. Mér finnst það allavegana frábært að strákur frá Jórdan reki veitingastað í Hafnarstræti.


En allavegana, fórum svo uppá Vegamót, þar sem við vorum næstu klukkutíma. Þar var ágætt. Reyndar er einsog íslenskir karlmenn hafi bara gefist upp og séu búnir að gefa eftir íslenskt næturlíf til útlendinga. Svona 60% karlmannana þarna inni voru útlendingar, stór hluti greinilega partur af einhverjum hóp.

Við vinirnir vorum þarna inni til klukkan 3 þegar við ákváðum að fara heim. Þegar ég rölti heim hugsaði ég til þess hversu gáfulegra það væri að byrja fyrr á djamminu og vera búinn að klára sinn skammt klukkan 3 í stað þess að vera þá að mæta í bæinn. Þessi breyting á opnunartíma skemmtistaða, sem ég hélt einu sinni að væri alger snilld, er hræðileg hugmynd. Í stað þess að maður geti farið á djammið og gert eitthvað daginn eftir, þá keyrir fólk sig algerlega út til klukkan hálf sjö inná skemmtistöðum og eyðir svo næsta degi í eymd og volæði langt fram eftir degi. Væri ekki nær að byrja frekar fyrr og vera búinn að klára skammtinn sinn klukkan tvö?

Ha, var fótbolti í kvöld?

Svona lít ég út akkúrat núna:

stor_smilie2.gif

[Skýringuna má finna hér](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2005/05/03/21.08.45/)

Walk on…. walk oooooooooon with hope in your heart…
And you’ll never walk aaaaaaaaalone
You’ll nee-eeever walk alone.

Ég elska Liverpool. **ELSKA ÞETTA LIÐ!!!** Er orðinn hás af því að syngja You’ll never walk alone. Jei, ég er svo happí 🙂