Serrano – Dagur 1

Jæja, okkur tókst að opna staðinn okkar í dag. Ég held að ég hafi sjaldan upplifað meira stress og vesen á einum degi.

Þetta byrjaði auðvitað á því að ég svaf yfir mig og var ekki kominn niður í Kringlu fyrr en kl. 8.30. Stuttu eftir að ég mætti kom maður frá Heilbrigðiseftirlitinu, sem var himinlifandi yfir eldhúsinu okkar og samþykkti reksturinn. Við stefndum upphaflega á að opna kl. 11 en það var fljótt ljóst að það myndi ekki takast. Það var vesen með rafmagnið, matseðillskiltin pössuðu ekki, eitt tækið var með bandarískri kló og svo tók miklu lengri tíma að elda matinn, heldur en við héldum.

Við ákváðum því að bíða aðeins róleg og settum okkur markmið að opna kl. 3. Þegar klukkan var rúmlega tvö ætlaði ég að testa búðarkassann en mér til skelfingar þá virkaði hann ekki. Hringdi strax í Kristján vin minn, sem kom undir eins en honum tókst ekki að laga vandamálið. Þannig að tíu mínútur í þrjú hringdi ég í Aco-Tæknival og bað um að senda mér mann eins fljótt og mögulegt væri. Rúmlega þrjú kom maður frá þeim og hann lagaði kassann. Við gátum því opnað hálf 4.

Til að byrja með klikkaði allt, sem gat klikkað. Neminn í peningakassanum bilaði og því læstist öll skiptimyntin inni. Því gátu fyrstu viðskiptavinir aðeins borgað með korti á meðan ég beið í biðröð í Íslandsbanka eftir nýrri skiptimynt. Það tókst þó og um hálf fimm var kassinn kominn í lag. Þá ákvað Emil að halda heim enda hafði hann vakað alla nóttina ásamt Borgþóri, sem var að setja upp rafmagsntæki.

Fyrstu tvo tímana gekk þetta heldur brösulega. Þannig að þeir viðskiptavinir, sem komu þá gætu verið eitthvað svekktir. Hins vegar þá lagaðist þetta fljótt og eftir 5.30 gekk þetta einsog í sögu og það var stöðug traffík. Reyndar var það svo í lok dags að við vorum búin með allan kjúkling og einhverjar tegundir af sósum.

Ég veit að ég sagði á þessari síðu að við ætluðum að opna klukkan 11, þannig að ég biðst velvirðingar hjá þeim lesendum, sem mættu svo snemma. Ef einhverjir eru fúlir, sendið mér póst.

Eins ef einhverjir hafa farið á staðinn og hafa einhverjar ábendingar, þá eru þær vel þegnar. Alla aðra hvet ég eindregið til að koma og prófa.

Serrano

Núna er klukkan að verða 2 um nótt og ég var að koma úr Kringlunni. Emil og Borgþór eru ennþá að vinna uppí Kringlu við að setja upp rafmagn, tengja ljós, vaska og fleira. Ég þurfti að fara heim að sofa til þess að geta meikað allan morgundaginn.

Allavegana, við stefnum ennþá á að opna staðinn klukkan 11.30 á morgun (í dag). Það verður fjör!

Heiða og listin að vera ein(n)….og Twin Peaks

Ég rakst inná síðu hjá Heiðu, sem ég þekki ekki neitt. Hún skrifar ansi skemmtilegan pistil um hvernig á að njóta þess að vera einn.

Þar talar Heiða um það hvernig henni finnst oft skrítið að fara ein út. Það er vissulega ekki á hverjum degi, sem maður fer einn á tónleika eða kaffihús. Maður þarf að vera mátulega hugaður til að gera það.

Ég man þegar ég bjó í Mexíkó að fyrsta mánuðinn þekkti ég nánast engann. Ég vann með eldra fólki og ég bjó hjá einhverju leiðinlegu fólki, sem ég nennti ekki að hanga með. Þar, sem ég vildi ekki að hanga heima, fór ég smám saman að drífa mig út einn. Ég fór oft og fékk mér að borða einn á Taco Inn, þar sem ég las bara Newsweek í rólegheitunum og skrapp síðan einn í bíó. Það tók mig smá tíma að venjast þessu en ég kunni bara ágætlega við þetta á endanum. Samt sem áður var lífið þó mun skemmtilegra þegar ég kynntist stelpunni, sem ég var með þar úti.

Hérna heima er þetta dálítið öðruvísi. Ég fór til að mynda í fyrsta skipti einn á tónleika þegar ég sá Maus á Grandrokk. Ég vissi að vinir mínir myndu ekki nenna að horfa á Maus og í stað þess að missa af tónleikunum ákvað ég bara að skella mér einn og ég sá ekki eftir því. Samt leið mér skringilega og ég var alltaf að spá í hvað aðrir væru að hugsa, líkt og Heiða talar um. Ég veit sjálfur að maður dregur ákveðnar ályktanir þegar maður sér fólk, sem er eitt að skemmta sér.

Annars talar Heiða (ég var í fyrsta skipti að sjá síðuna hennar) líka um að hún sé Twin Peaks aðdáandi. Ég elskaði Twin Peaks þegar þættirnir voru sýndir á Stöð 2 en ég man að ég var ávallt skíthræddur við að horfa á þá. Fyrir nokkru keypti ég mér fyrstu seríuna á DVD. Nóttina áður en ég ætlaði að byrja að horfa á þættina aftur fékk ég þá svakalegustu martröð, sem ég hef fengið lengi. Killer Bob var að ráðast á mig og einhvern veginn blönduðust aðrar David Lynch persónur saman við þetta. Eftir þessa martröð var ég bara hálf tregur við að horfa á seríuna og er ekki ennþá byrjaður á henni. Það fer samt að koma að því.

Serrano – mexíkóskur veitingastaður

SerranoÉg hef lítið sagt frá mínu lífi undanfarið á þessari síðu. Aðal ástæða þess er að ég hef verið mjög upptekinn og lítið komist nálægt tölvu. Ég er nefnilega, ásamt Emil félaga mínum, að fara að opna mexíkóskan veitingastað í Kringlunni í næstu viku.

Staðurinn heitir Serrano og verður hann í húsnæðinu, sem Popeye’s var í, við hliðiná McDonald’s. Þessi staður mun selja úrvals mexíkóskan mat. Á matseðlinum verða burritos, tacos (harðar og mjúkar) og nachos auk eftirrétta. Viðskiptavinir munu geta valið sér innihaldið í burritos eða tacos. Hægt verður að velja úr fjölmörgum tegundum af kjöti, grænmeti, salsa sósum, guacamole, osti og fleiru.

Þannig að þessa dagana erum við á fullu við að gera staðinn tilbúinn. Núna eru iðnaðarmenn að smíða veggi, mála, setja upp kæla og fleira því tengt. Ef allt gengur upp, þá stefnum við að því að opna staðinn 1. nóvember, sem er á föstudag eftir viku. Þessi dagsetning er þó ekki opinber, þar sem við vitum ekki alveg hvenær sum tæki koma til landsins. Vonandi gengur það þó eftir.

Laugardagsköld

Ég fór óvænt á djammið í gær. Var búinn að sætta mig við það að vera heima um kvöldið og horfði því á hræðilega Spaugstofu og aðeins skárri spjallþátt með Gísla Marteini, þar sem nágranni minn Guðni Ágústsson fór á kostum.

Allavegana, þá fórum við Emil á djammið niðrí miðbæ. Byrjuðum á Sólon og færðum okkur svo yfir á Vegamót. Báðir staðirnir voru troðfullir og var mjög gaman. Það kemur mér alltaf á óvart hversu ótrúlega mikið er af fallegum stelpum niðrí bæ um helgar. Það er hreinlega með ólíkindum.

Veðrið var ágætt og svakalega mikið af fólki í bænum enda haugur af einhverjum Skotum, sem voru að fagna sigrinum og höstla íslenskar stelpur. Þegar ég kom heim um klukkan 5 var kveikt á tölvunni, sem er náttúrulega hrikaleg mistök, þar sem að þá finn ég ávallt þörf fyrir að skrifa fullt af emailum. Ég var því frekar stressaður þegar ég vaknaði í morgun og fór að fletta í gegnum “Sent” möppuna á póstforritinu mínu. Þar var þó ekkert svo slæmt.

Annars setti ég inn mína fyrstu færslu á Metafilter í dag. Hún er hér.

Maus

Já, tónleikarnir í gær voru náttúrulega snilld. Ekki var við öðru að búast. Þeir voru haldnir á Grand Rokk og heyrði ég að það hefði verið uppselt, en það komast svo sem ekki margir uppá loft á Grand Rokk. Ég þekkti ekki hræðu þarna, en það virtust hins vegar allir hinir þekkja alla. Mér leið einsog ég væri mættur í eitthvað partí, þar sem allir þekktu alla nema mig.

En það kom sko alls ekki að sök því hljómsveitin var góð. Þeir fluttu 5-6 lög af nýju plötunni, sem voru sungin á ensku og hljómuðu þau ágætlega. Síðan tóku þeir gamla slagarar, flesta af “Lof mér að falla að þínu eyra”, svo sem Ungfrú Orðadrepil, Kristalnótt, Ég ímeilaðig, 90 kr. perla og svo náttúrlega höfuðsnilldina Poppaldin. Þeir tóku líka Líkþrá, sem er af “Öllum kenningum heimsins”. Það er ágætis lag en fyrir mér sýnir það vel hversu mikið hljómsveitinni hefur farið fram. Lagið var tileinkað Betu Rokk, en hún er nú eitt af aðal celebrity-um í blogg heimi.

Lof mér að falla að þínu eyra

Af hverju í ósköpunum er ég að uppfæra þessa síðu á föstudagskvöldi? Ekki spyrja mig.

Ég sá að Maus eru að fara að halda tónleika í kvöld og ætla ég að skella mér. Ég ætla ekki einu sinni að reyna að sannfæra vini mína um að fara því þeir hata allir Maus. Af hverju þeir hata þessa frábæru hljómsveit er ofar mínum skilningi. Þetta er án efa besta rokksveit Íslands. Ég veit að ef ég bið þá um að koma fæ ég bara að heyra einhver komment um það hvað Maus sé afskaplega léleg hljómsveit. Ég eyddi til að mynda tveim árum í að reyna að sannfæra fyrrverandi kærustu mína um að Poppaldinn væri yndislega fallega sungið lag en á árangurs.

Ég hef það fyrir reglu að spila að minnsta kosti tvö Mauslög í öllum partíjum, sem ég held. Hingað til hefur enginn fagnað þeirri ákvörðun. Ég á mér þann draum að komast einhvern tímann í partí, þar sem allir elska Maus, Woody Allen, David Lynch, Frank Sinatra, David Bowie, Bítlana og Pink Floyd. Það væri sko flott partí.

Það er næsta víst að tónlistin í kvöld verður talsvert skemmtilegri en á Nasa síðasta laugardag. Og hananú!

Home Improvement

Já, góðir gestir, ég er búinn að fara hamförum í smiðsleik síðustu klukkutíma. Kvöldið byrjaði á því að ég fór í heimsókn til systur minnar, þar sem mágur minn lánaði mér þessa fínu borvél.

Ég kom svo hingað heim og ætlaði að bora gat á einn veginn til að setja símasnúru í gegn (ég tími ekki að kaupa mér þráðlaust net. Einnig er öll tónlistin mín í tölvunni minni en græjurnar eru frammí stofu, þannig að ég þarf aðra snúru í það (ég tími ekki að kaupa mér þráðlausa tengingu við græjurnar). Fyrir þá, sem hafa aldrei borað gat í vegg á ævinni, þá er það ekki alveg jafn auðvelt og það hljómar. Allavegana ekki ef maður vill hafa gatið þráðbeint í gegnum vegginn. Það tókst ekki alveg hjá mér og því fór borvélinn uppí loftið í hinu herberginu og tók allstóran bita úr því ágæta lofti. Það kom þó ekki að sök enda löngu búið að finna upp spasl.

Núna er semsagt komið þetta fína gat á svefnherbergið mitt og að auki tók ég mig til og boraði þrjú göt á stofuvegginn og setti svo upp gluggakistuna, sem ég hafði í einhverju æðiskasti tekið niður þegar ég ætlaði að mála allt. Núna get ég farið að sofa sáttur við lífið og tilveruna.

Nýtt heimili

Ég er búinn að vera frekar latur við að uppfæra þessa síðu undanfarið. Það er þó nóg búið að gerast í mínu lífi undanfarið. Ætli ég fari ekki að færa inn atburði síðustu daga á næstunni.

Einna merkilegast er að ég er fluttur inní nýju íbúðina mína á Hagamelnum. Hún er einmitt á efstu hæð og því voru flutningarnir mjög erfiðir. Ég flutti inn fyrir um þrem vikum og síðan þá hef ég verið smám saman að koma mér fyrir. Ég býst við að íbúðin verði orðin nokkuð góð eftir næstu helgi.

Ég hef komist að ýmsu í þessum flutningum. Aðallega því að ég verð seint talinn mikill iðnaðarmaður. Ég er til dæmis mjög lélegur að mála, ég get varla neglt nagla án þess að eyðileggja eitthvað og svo veit ég svo lítið um rafmagn að ég þarf að biðja vini mína að hjálpa mér að koma upp ljósum í íbúðinni. Þar, sem ég hef ekki druslast til að fá vin minn til að hjálpa mér, þá er íbúðin lýst upp af tveim ljósaperum. Það er ekki nógu gott.

Það er þó mjög gott að vera kominn hérna í Vesturbæjinn. Vissulega er það dálítið skrítið að búa einn eftir að hafa verið í sambúð svona lengi en það er í ágætis lagi, allavegana meðan maður hefur nóg að gera.

Mamma og pabbi eru að flytja um helgina og þegar það gerist þá fæ ég gamla sófasettið þeirra. Þá mun stofan hjá mér heldur betur batna, því hún er frekar tómleg þessa stundina. Þegar sófasettið er komið get ég sett upp öll ljós og allar myndir og þá ætti íbúðin að líta ágætlega út.

Annars er ég mjög sáttur við næsta nágrenni. Þegar veðrið er sæmilegt, einsog það hefur verið undanfarna daga, er hægt að labba niður í miðbæ á um 15 mínútum, sem er fínt, sérstaklega er það gott að spara sér leigubílaferð heim af djamminu.

Hressandi þynnka

Já, það er fátt meira hressandi en að vakna þunnur klukkan hálf þrjú á sunnudegi. Ég er búinn að afreka nákvæmlega ekki neitt í dag, nema að laga kaffi og borða Frutibix. Ég ætlaði að setja upp gardínur í íbúðinni minni en böndin á þeim eru í flækju og eftir að hafa eytt um 20 mínútum í að reyna að leysa flækjuna gerði ég mér grein fyrir að heilinn minn væri ekki tilbúin í nein stórvirki í dag.

Sem sagt, þá var ég á árshátíð hjá Danól í gær. Hún var haldin í Iðnó og var náttúrulega mjög skemmtileg einsog vanalega. Þegar fólk var farið að dansa við gamla slagara þá ákváðum við af yngstu kynslóðinni hjá fyrirtækinu að skella okkur á Hverfisbarinn. Hvað þar gerðist man ég ekki en það hefur sennilega verið gaman.

Annars komst ég að því að nokkrir starfsmenn fyrirtækisins skoða þessa síðu. Ég komst einnig að því að margir vissu að ég hefði verið með bandarískri stelpu úti í Bandaríkjunum. Þannig að allt sé á hreinu, þá erum við hætt saman.