Skórinn minn er á brú í Indiana

Um síðustu helgi fórum við strákarnir í fótboltaliðinu í keppnsiferð til Ann Arbour, þar sem við kepptum við U of Michigan og fleiri skóla. Ég ætla ekki að tala um úrslitin, en þess má geta að nemendur í U of Michigan eru um 50.000 á móti um 7.000 í Northwestern.

Við fórum af stað klukkan 2 á laugardagsmorguninn. Klukkan 3, þegar við vorum rétt komnir út úr Chicago þurfti hins vegar einn í bílnum að pissa. Því stoppuðum við á einhverri brú rétt áður en við komum að verksmiðjuhelvítinu Gary Indiana. Ég var hálf sofandi og áttaði mig ekki á því fyrr en ég vaknaði um 6 leytið að þessi félagi minn hafði óvart sparkað öðrum strigaskónum mínum út úr bílnum. Liggur því þessi skór sennilega ennþá á þessari brú í Indiana.

Þetta varð einmitt til þess að ég fór í fyrsta skipti út að borða í takkaskóm.

Núna á eftir er ég að fara með þrem vinum mínum til Indiana. Við ætlum að heimsækja Purdue, þar sem (ameríska) fótboltaliðið okkar er að keppa. Ég veit ekki ennþá hvort ég eigi að stoppa og kíkja á brúna.

Afmæli

Þetta er búin að vera fín helgi. Ég fór á fótboltaleik á laugardagsmorgun og þess vegna vorum við bara róleg á föstudagskvöld. Við fórum með Dan út að borða og svo kíktum við á Northwestern “homecoming” skrúðgönguna. Við fórum svo þrjú í bíó að sjá Mulholland Drive.

Á laugardag vaknaði ég svo um 9 og hitti Dan, Becky og Dave og við röltum uppá fótboltavöll. Þar var fullt af “tailgaiting” partíjum, svo við fengum okkur að borða og drekka þar. Leikurinn byrjaði svo klukkan 11. Northwestern vann Minnesota 23-17. Leikurinn var góður og fín stemning á vellinum, þrátt fyrir að það hafi rignt stanslaust allan leikinn. Maður var frekar blautur eftir að hafa staðið úti í rigningunni í meira en þrjá tíma.

Hildur átti afmæli í gær og fögnuðum við því náttúrulega. Við fórum saman út að borða á Va Pensiero, sem er frábær ítalskur staður hérna í Evanston. Ég held að ég hafi sjaldan fengið jafn góðan mat. Eftir matinn fórum við svo í partí hjá einum vini okkar. Þar var geðveikt gaman og stóð það yfir eitthvað fram á morgun. Mjög gaman!

Tímaeyðsla á föstudegi

Það var frí í stærðfræitímanum mínum í morgun, þannig að ég var ekki í neinum tímum í dag. Ég ætlaði því aldeilis að nota tækifærið og lesa fullt í stjórnmálafræði.

Núna er klukkan að verða sex og ég hef ekki hugmynd hvert dagurinn fór. Ég er búinn að læra frekar lítið, hef lesið einhverjar hundrað blaðsíður. Restin af deginum hefur farið í hangs. Jú, ég fór reyndar að hjálpa Dan vinu mínum að starta bílnum hans en hann var rafmagnslaus. Ég og Ryan mættum á staðinn og vorum við einhvern klukkutíma að vesenast í þessu, þurftum m.a. að fara í Ace og kaupa einhverja varahluti og vesen. En þetta tókst á endanum. Fyrir utan það get ég ekki sagt að ég hafi gert mikið gagnlegt í dag.

Lærdómur

Það er alltaf sama sagan, mér gengur alltaf illa að koma mér af stað í lærdómnum á haustin. Ég þarf þó nauðsynlega að læra eitthvað í dag því ég er að fara með fótboltanum í keppnisferð til Bloomington Indiana, þar sem við munum spila við Ball State, University of Indiana og Indiana State. Ferðin niður til Bloomington tekur um 5 tíma og við eigum fyrsta leik klukkan 10 í fyrramálið, þannig að það þýðir að við förum sennilega af stað fyrir klukkan 4 í nótt. Gaman gaman.

Þannig að nú er það bara einn bolli af Starbuck’s espresso og svo að kíkja á stærðfræðina.

Is it cool to make fun of Bush yet?

Við Hildur vorum að koma af Northwestern sýningu með grínistunum David Cross og Lewis Black (sjá mynd).

Lewis Black er mun þekktari en hann kemur vikulega fram í the daily show með John Stewart, sem er lang lang lang lang laaaang besti “late night” þátturinn. Black er þekktur fyrir að vera mjög æstur, að frussa blótsyrðum og skömmum út úr sér. Hann hefur mjög sérstakan stíl og er meiriháttar fyndinn.

Báðir töluðu um árásina 11.sept og gerðu grín að ýmsum hlutum skyldum atburðunum. Þeir voru báðir í New York þann dag. Það hefur verið mikið tabú að tala um árásirnar og allt í kringum þær á gamansaman hátt. Einhver kallaði árásina “The Death of Irony”. Báðir gerðu þó grín að atburðunum á þann hátt að fáir myndu sennilega móðgast (nema kannski flugvallarstarfsmenn). Allavegana, þá voru bæði Cross og Black frábærir í kvöld. Snilld!

Sigurrós

Við Hildur erum að fara að sjá Sigurrós spila í kvöld í The Vic. Það er auðvitað löngu uppselt á þessa tónleika.

Þetta er í annað skiptið, sem við sjáum Sigurrós spila hérna í Chicago. Fyrra skiptið var í Park West í maí að mig minnir. Þeir tónleikar voru frábærir.

Það var nokkuð gaman að því að þegar Chicago Tribune voru að tala um þá atburði, sem væru mest spennandi í menningarlífi Chicago búa í vetur. Þeir listuðu 3-4 atburði í hverjum flokki. Þegar talað var um popptónleika, þá nefndu þeir 3 tónleika. Tveir af þremur listamönnunum eru frá Íslandi, Sigurrós og Björk. Þetta finnst mér ótrúlegt. Sérstaklega, þar sem að hér í Chicago koma nokkurn veginn allar þær vinsælustu og heitustu hljómsveitir, sem eru að spila í dag. Íslendingar mega svo sannarlega vera stoltir.

Ég gaf einum vini mínum hérna úti diskinn með Sigurrós og er hann strax orðinn aðdáandi. Flestir, sem hafa heyrt tónlistina falla fyrir henni. Nú vil ég bara fara að sjá Quarashi meika það hérna. Þá verður gaman.