Update nr.8

Núna er búið að senda upp bandarískar orrustuþotur til að mæta flugvélinni, sem er á leið til Washington D.C. Þeir menn, sem fljúga þeirri vél gætu þurft að gera hræðilega hluti, skjóta niður landa sína.

Update nr.7

Nú hefur önnur flugvél hrapað nálægt Pittsburg.

Þetta er án efa einn svartasti dagur í sögu Bandaríkjanna. Skyndilega virkar Chicago ekki endilega örugg. Allavegana er núna verið að tæma allar stærstu byggingarnar í Chicago.

Update nr.6

Núna er búið að tilkynna að það sé flugvél, sem hafi verið rænt, á leið til Washington D.C. Maður getur bara beðið fyrir fólkinu.

Update nr.5

Svo virðist núna sem báðir World Trade Center turnarnir hafi hrunið. Um 50.000 manns unnu í byggingunum.

Einnig sprakk önnur sprengja í Washington D.C.

Update nr.3

Allur syðri hluti Manhattan er fylltur af reyk. Tilkynnt hefur verið um aðra sprengingu, á fyrstu hæð World Trade Center.

Öllum flugvélum hefur verið skipað að lenda.

Update nr.2

Nú er verið að flytja fólk frá Manhattan, það er búið að loka nær öllum fyrirtækjum, hlutabréfamörkuðum.

Einnig er farið að gera varúðarráðstafanir í öðrum borgum, það er verið að koma fólk úr öllum stærri byggingum í Chicago.

Einnig hefur verið tilkynnt um eld í Washington Mall, sem er miðhluti Washington D.C.

Update

Nú segja menn að báðar flugvélarnar hafi verið fullar af fólki. Önnur frá Boston. Þeim var báðum rænt og klesstu fullar af fólki á World Trade Center.

Nú eru líka fréttir af því að flugvél hafi klesst á Pentagon, varnarmálaráðuneytið í Washington D.C.

Það er verið að koma fólki burtu frá Washington D.C.

Þetta er hræðilegt!

Hryðjuverk

Þetta eru alveg svakalegar fréttir. Allir bandarísku netmiðlarnir eru niðri, það er ekki glæta að komast á CNN.com. Við hérna í vinnunni erum þó að hlusta á útvarpið og þar eru menn að nokkuð vissir um að þetta séu hryðjuverk, þar sem menn halda að annarri flugvélinni hafi verið rænt fyrir nokkrum klukkutímum. Þetta er rosalegt.

Helgin – Djamm og baseball

Þá er maður kominn aftur í vinnu eftir helgina. Nú á ég samt bara tvo vinnudaga eftir.

Helgin var frábær. Reyndar byrjaði hún ekki skemmtilega. Eftir vinnu á föstudag fór ég með bílinn í viðgerð til að laga afturbremsurnar. Það var svo sem allt í lagi, fyrir utan það að 20 mínútna verk tók yfir þrjá klukkutíma. Ég var á mörkunum að öskra á starfsmennina eftir að ég hafði lesið eintakið mitt af Wall Street Journal þrisvar sinnum.

Þeir voru loksins búnir klukkan átta og dreif ég mig þá heim. Þar borðuðum við Hildur og svo kom Dan vinur minn í heimsókn. Við horfðum saman á Northwestern fótboltaliðið vinna UNLV (University of Nevada – Las Vegas). Gaman gaman! Eftir leikinn löbbuðum við svo á Bar Louie, nýjan bar sem var verið að opna í Evanston. Fínn bar og vorum við þar fram að lokun.

Á laugardag vaknaði ég við þær hrikalegu fréttir að Liverpool hefði tapað fyrir AVilla (hatur mitt á Peter Schmeichel er nú komið upp á nýtt stig). Ég lét það þó ekki á mig fá og drifum við Hildur okkur niður í Wrigleywille þar sem við fórum að sjá Cubs – Atlanta Braves á Wrigley Field (sem er einmitt fallegasti íþróttaleikvangur í heimi, sjá mynd).

Cubs voru þó ekki alveg að meika það í þessum leik og klúðruðu fullt af færum til að skora. Ég var þó nokkuð sáttur því í áttundu lotu greip ég “foul ball” frá einum Atlanta leikmanninum, Andruw Jones. Jones var að slá, en það gekk ekki betur en að hann sneiddi boltann til hægri og hann fór á fleigiferð uppí efstu sætin, þar sem nokkrir fullir gaurar fyrir framan mig reyndu að ná í hann, en þeir misstu hann og ég náði honum. Ýkt gaman!

Um kvöldið fórum við Hildur svo á djammið niðrí miðbæ Chicago. Við fórum á Club 720. Þetta er staður með Suður-Amerískri tónlist og því voru 99% latinos inni á staðnum. Allavegana þá var þetta snilldar staður. Hann skiptist niður á þrjár hæðir, neðst var merengue, svo salsa og efst suður-amerískt rokk. Við dönsuðum þarna alveg endalaust lengi og var ekkert smá gaman.

Í gær, sunnudag var ég svo vakinn klukkan tólf [takk pabbi :)] og eftir að hafa horft á Chicago Bears tapa (Surprise!!!) fórum við Hildur í smá verslunarferð. Um kvöldið kíktum við svo með Dan niður í indverska hverfið, þar sem við borðuðum geðveikt góðan indverskan mat.