Brúðkaupsafmæli

Mamma og pabbi eiga í þessari viku 40 ára brúðkaupsafmæli.

Það finnst mér ekki slakur árangur og óska ég þeim auðvitað til hamingju. Pabbi gifti sig einmitt þegar hann var tvítugur. Ég varð tvítugur fyrir fjórum árum, en samt er ég ekki ennþá giftur. 40 ára brúðkaupsafmæli er, samkvæmt þessari síðu, ruby. Ég veit ekki hvernig það þýðist yfir á íslensku.

Mamma og pabbi eru einmitt þessa vikuna að fagna afmælinu á Spáni en einsog þeir, sem þekkja þau vita, þá leiðist þeim ekki að fara til útlanda.

Til hamingju, mamma og pabbi!!!!!!!

Labor Day helgin

Það var ekkert smá gott að fá aukafrídag í gær, en þá var Labor Day. Við nýttum því helgina ágætlega.

Á laugardag vorum við að hjálpa Ryan, vini mínum, en hann var að flytja út úr co-op húsinu (nokkurs konar kommúna) yfir í eigin íbúð, sem er um 50 metra frá okkar íbúð. Hann var ýkt sniðugur og fékk íbúð á þriðju hæð, þannig að það var ágætis vinna að flytja allt dótið upp stigann. Um kvöldið fórum við svo í partí yfir í co-op húsið og skemmtum okkur vel fram eftir nóttu (enda frír bjór í boði).

Á sunnudag var Hildur að læra, svo ég gerði lítið nema að spila í PS2 og horfa á baseball. Um eftirmiðdaginn fór ég þó og hjálpaði Ryan að klára að flytja. Við notuðum einmitt bílinn minn við að flytja, og var merkilegt hvað mikið komst þar fyrir. Um kvöldið fórum við Hildur svo með Ryan út að borða á CPK.

Í gær fórum við Hildur svo niður á Oak Street Beach og lágum þar í sólbaði í nokkra tíma. Veðrið var alveg frábært, sól og um 30 stiga hiti. Þegar við vorum orðin vel rauð, línuskautuðum við yfir á Navy Pier, þar sem við fengum okkur ís. Síðan löbbuðum við yfir á Michigan, kíktum í búðir og tókum svo lestina heim.

Smá meiri vinna

Bara 45 mínútur eftir af vinnudeginum. Mikið afskaplega hefur þessi dagur verið lengi að líða. Um helgina er einmitt Labor Day Weekend, sem þýðir að það er frí á mánudaginn.

Það þýðir bara tvennt: djamm og strönd.

Lifið heil!

Notaleg vinna

Eitt af því góða við það að vera að vinna í stað þess að vera í skóla er að maður getur farið heim á kvöldin án þess að hafa samviskubit yfir því að maður sé ekki að læra eða gera eitthvað. Þegar ég er í skóla finnst mér það alltaf vera eitthvað, sem mig vantar að gera. Maður gæti alltaf verið að reikna hagfræðidæmi í stað þess að horfa á sjónvarpið.

Þegar maður er að vinna er þetta öðruvísi. Gott dæmi um það er dagurinn í dag. Núna á ég ekki nema um 15 mínútur eftir af vinnunni og svo tekur við klukkutími í umferðarteppu. Síðan eftir það er ég alveg laus. Ég fór út að hlaupa í morgun og því get ég gert hvað sem mér hentar, án þess að vera með neitt samviskubit.

Það er góð tilfinning.

Tóm skrifstofa

Það er búið að vera dálítið skrítið hérna í vinnunni í dag. Þannig er að allir í hönnunardeildinni (nema ég) eru staddir í Los Angeles. Þeir eru þar til að kenna nýjum viðskiptavini á kerfið okkar.

Þess vegna er ég hérna einn inní deildinni. Allt í kring eru tóm skrifborð. Það er ekki laust við að maður verði frekar þreyttur á því að sitja svona allan daginn fyrir framan tölvuskjá án þess að eiga nein mannleg samskipti.

Verslunarmannahelgi

Í fyrsta skipti síðan ég bjó í Mexíkó var ég ekki heima um verslunarmannahelgi. Þannig að í staðinn fyrir að horfa á Jet Black Joe með vinum mínum var ég staddur hérna í Chicago í 40 stiga hitabylgju.

Okkur Hildi fannst þó nauðsynlegt að gera eitthvað þessa helgi og halda hana hátíðlega. Við fórum því í útilegu með Kate og Ryan, vinum okkar. Við keyrðum í 3 tíma suð-vestur af Chicago í Kickaboo State Park. Þar vorum við með flott tjaldstæði, þar sem við grilluðum grænmetisborgara (já, grænmetisborgara), kveiktum varðeld, átum heil ósköp af S’mores, spiluðum domino’s og drukkum Budweiser.

Þetta var svona amerísk útgáfa af verslunarmannahelgi og var mjööög gaman.

Hitabylgja

Moggin fjallar um hitabylgjuna, sem hefur farið yfir Chicago og miðvesturríkin undanfarna daga. Ég held að hún hafi nú náð hámarki í gær, allavegana var alveg hrikalegt að sofa því við erum ekki með neina loftkælingu í íbúðinni okkar.

Við vorum að spá í að kaupa okkur loftkælingu fyrir nokkrum vikum, en ákváðum að hætta við. Við létum okkur nægja viftuna okkar, sem er á fullu útí glugga. Í þessari hitabylgju gerir hún hins vegar nákvæmlega ekkert gagn.

Þegar ég er í bílnum á leiðinni heim úr vinnunni horfi ég líka öft öfundsjúkur á fólkið í hinum bílunum, sem er með rúðurnar skrúfaðar upp og loftkælinguna á fullu. Ég er alltaf með rúðurnar niðri og reyni að keyra eins hratt og ég kemst til þess að það leiki einhver smá vindur um bílinn en það tekst sjaldan.

Annars er ég ekkert að kvarta, því við höfum geta notið þess að vera úti um helgar. Það er bókað að við förum á ströndina um næstu helgi.

Síðustu dagar

Það er orðið dálítið síðan ég skrifaði eitthvað af viti. Allavegana, þá áttum við Hildur fína helgi. Á föstudeginum fórum við í stórt partí, sem er reglulega haldið í einbýlishúsi, þar sem um 25 Northwestern krakkar búa. Þar var fjör einsog vanalega.

Á laugardag gerðum við furðu lítið. Ætluðum að fara að sjá Planet of the Apes, en nenntum því ekki og á endanum og fórum því bara út á Blockbuster og leigðum okkur DVD myndir.

Á sunnudag fórum við svo á Taste of Lincoln Avenue, sem er enn ein útihátíðin hérna í Chicago. Þar röltum við um í hitanum og hlustuðum á tónlist. Um kvöldið var ég svo fastur fyrir framan sjónvarpið að horfa á baseball, en Fred McGriff var að spila sinn fyrsta leik fyrir mitt lið Chicago Cubs, sem vann St.Louis Cardinals. Gaman gaman.

Síðasta helgi var líka fín, en þá bar hæst að við fórum í Six Flags skemmtigarðinn, sem er fyrir norðan Chicago. Þetta er stór rússíbanagarður, sem er alger snilld og skemmtum við okkur frábærlega. Hildur þorði meira að segja í nær alla rússíbanana. Það er auðvitað mikið afrek.

Afmæli

Anna systir mín á afmæli í dag. Til hamingju með það!!

Ég vil hvetja alla íbúa Leicester í Englandi til að taka í höndina á henni og óska henni til hamingju.