Dóp

Þetta er athyglisvert: [Dópsalar í Reykjavík](http://www.dopsalar.blogspot.com/). (via [Maju](http://abuse.is/web/majae/index.php?p=467&c=1))

Ég er reyndar *alls ekki* hrifinn af því að menn setji sig í einhvern dómstól götunnar og gefi upp nöfn á mönnum, sem þeir hafi heyrt að séu dópsalar. Lögreglan á auðvitað að sinna þessu, en það er einnig skrítið ef að hún hefur ekki áhuga á málinu.

Einnig er athyglisvert að það virðist færast í aukana að fólk stofni Blogspot síður um umdeild málefni. Sá síðu um DC++ málið, sem enginn bar ábyrgð á (hún virðist reyndar hafa verið tekin niður). Á þessari dópsala síðu er hins vegar allt efnið birt undir nafni og viðkomandi segir sögu sína af samskiptum við dópsala. Auk þess að birta nöfn er svo opið fyrir umræður á vefnum, þar sem fólk er að tjá sig með eða gegn þessari nafnbirtingu. En frásaga mannsins af tilurð þessa lista er nokkuð mögnuð.

**Uppfært**: Eftir því, sem umræðurnar um þetta mál á síðunni aukast finnst manni þetta ávallt ósmekklegra. Þarna virðast vera að kommenta fólk, sem þekkir til í þessum málum og heldur því fram að þeir, sem séu þarna nefndir séu margir hverjir löngu komnir útúr rugli.

Silfurlitaður bíll

Þegar ég var í sambúð var kærastan mín dyggur lesandi allra kvennablaða, sem gefin eru út í Bandaríkjunum. Í þeim blöðum er endalaust af einhverjum könnunum og prófum um karlmenn.

Samkvæmt þeim blöðum geta stelpur fundið út hvort karlmenn henti þeim bara með því að vita hvort þeir fíli popptónlist, gangi í gráum sokkum og bori í nefið á rauðu ljósi. Allavegan, rakst á [þetta á netinu í dag](http://www.femin.is/article.asp?art_id=2125&old=1). Samkvæmt þessu, þá á að vera hægt að dæma menn af litnum á bílnum þeirra.

Jæja, samkvæmt því er ég svona:

>**Silfurlitaður bíll**
“Reglumenn elska silfurlitaða bíla. Svo ef að þú vilt fá reglu í líf þitt, skaltu kíkja eftir karlmanni sem ekur silfurlituðum bíl. Fyrir utan það að vera reglumenn eru þeir jákvæðir, jarðbundnir og sjálfsagaðir”

Spurningin mín er bara þessi: Hvernig fær fólk vinnu við að skrifa svona hluti? Önnur möguleg spurning er þessi: Gæti höfundurinn ekki reynt að láta okkur eigendur silfurlitaðra bíla hljóma aaaðeins leiðinlegri. “Reglumenn, sjálfsagaðir og jarðbundnir?” Zzzzzzz! (Via B2.is)


Annars er byrjunin á þessari viku búin að vera hrein geðveiki. Hef verið langt fram eftir í vinnu undanfarna daga og það lítur svosem ekki út fyrir að þetta sé að minnka á allra næstu dögum.

Fyrir vikið var íbúðin mín orðinn hreinasti viðbjóður, en ég er búinn að laga ástandið umtalsvert eftir að ég kom heim í kvöld. Ég er enn eldhúslaus, þannig að ég hef verið að prófa nýja veitingastaði að undanförnu. Stefni að því að prófa 7 nýja veitingastaði á næstu viku. Er það ekki göfug tilraun?


Er [Járnskvísan](http://www.jarnskvisan.com/) virkilega hætt að blogga? Það er stórkostlegur ósigur fyrir íslenska netmenningu ef hún er hætt!

Af hverju?

[Af hverju birtir](http://www.hverfisbarinn.is/popup.php?pID=31&todo=view&img=5055)
[Hverfisbarinn](http://www.hverfisbarinn.is/popup.php?pID=31&todo=view&img=4981)
[svona](http://www.hverfisbarinn.is/popup.php?pID=31&todo=view&img=5028)
[hræðilegar](http://www.hverfisbarinn.is/popup.php?pID=31&todo=view&img=4851)
[myndir af](http://www.hverfisbarinn.is/popup.php?pID=31&todo=view&img=4852)
[viðskiptavinum](http://www.hverfisbarinn.is/popup.php?pID=31&todo=view&img=4897)
[sínum](http://www.hverfisbarinn.is/popup.php?pID=31&todo=view&img=4940)?

Mblog pælingar

Ég er búinn að setja upp svona móðins [mblog](http://mblog.is/mblog/web?cmd=blogs&mboard=350075) á heimasíðu Símans. Þetta er reyndar vita gagslaust því þetta er hýst á einhverri síðu útí bæ. Mun skemmtilegra væri að hafa þetta á minni eigin síðu í hliðarstikunni.

Þannig að ég spyr hvort einhver hafi reynslu af þessu mblog-i og viti hvernig er hægt að gera þetta gagnlegra. Það sem mér dettur í hug:

1. Er hægt að fá RSS skrá útúr mblog.is?
2. Gæti ég einhvern veginn sent myndir bara beint inná mína heimasíðu í gegnum Movable Type?
3. Er hægt að blogga í gegnum SMS með Símanum (hef séð það gert hjá OgManUnited) inná mína heimasíðu?
4. Get ég eytt myndum útaf mblog.is?

Þetta gæti verið sniðugt dæmi ef að ég gæti einhvern veginn tvinnað þetta inní þessa heimasíðu. Hefur einhver reynslu af þessu? Veit einhver um einhverja skemmtilega fídusa, sem ég er ekki að gera mér grein fyrir?


Já, og svo legg ég til að Síminn í Kringlunni ráði fleira starfsfólk. Takk fyrir.

Ok, farinn útað hlaupa. Það er sko eins gott að það verði fáklæddar stelpur á línuskautum meðfram Ægissíðunni. Annars verð ég verulega vonsvikinn.

Teljarablogg

Sko, ég veit að allir hata bloggfærslur um tölfræði eða “vinsældir” viðkomandi bloggs. Þess vegna hef ég aldrei skrifað um slíka hluti á þessari síðu.

En samt, þá ákvað ég fyrir 3 vikum (23. júní) að setja upp [teljara](http://www.teljari.is) á síðuna. Ég hef aldrei haft teljara á síðunni áður, þannig að ég vissi ekkert hverju á átti von á. Ég veit ekki almennilega af hverju ég hef ekki haft teljara hingað til. Eflaust vegna þess að til að byrja með var ég handviss um að enginn læsi síðuna og vissi að ef ég fengi staðfestingu á því, þá myndi ég fara í fýlu og gefast upp.

Svo komu kommentin á síðuna og mat ég þá oft færslurnar á því hversu margir kommentuðu á færslur. Kommentunum hefur fjölgað með mánuðunum og núna er svo komið að á þessum tveimur árum, sem hægt hefur verið að kommenta á færslur, hafa komið um 2.050 komment á þessari síðu.

En ég varð forvitinn að vita hversu margir skoðuðu síðuna, því ég geri mér grein fyrir að það eru ansi margir sem heimsækja þessa síðu án þess að kommenta. Ég kommenta t.d. mjög sjaldan á flestum af uppáhaldssíðunum mínum. Ég hef verið að lenda í því að ólíklegasta fólk segist lesa síðuna mína.

Þess vegna setti ég upp teljara og eru niðurstöðurnar athyglisverðar. Á hverjum degi heimsækja um 320 manns þessa síðu. Flettingar hjá þessum 320 aðilum eru um 420 á dag.

Af þessum 320 koma um 25% af [Nagportal](http://www.nagportal.net/) og um 5% koma af leitarvélunum, Google og Leit.is. Þetta þýðir að um 220 manns að meðaltali stimpla á degi hverjum eoe.is inní vafrann sinn. Það þykir mér magnað. Eflaust eru einhverjir, sem koma oftar en einu sinni á dag, en á móti eru sennilega margir sem koma hingað 2-3svar í viku.

Þessar tölur eru umtalsvert hærri en ég átti von á, sérstaklega þar sem þessar tölur eru fyrir júlí mánuð. Ég hafði ímyndað mér að um 60-70 manns læsu þessa síðu. Þar tók ég mið af þeim, sem kommenta hérna reglulega, en sá hópur er kannski um 30 manns. Það virðist hins vegar mjög mikið af fólki, sem kommentar aldrei og er það sennilega bara fullkomlega eðlilegt.

Ok, núna er ég semsagt búinn með teljarablogg og lofa því að það verði langt í aðra slíka færslu.

Fahreinheit 9/11 Download

Núna er hægt að nálgast Fahrenheit 9/11 á netinu. Michael Moore hefur gefið það út að hann sé fylgjandi því að menn nálgist myndina á netinu ókeypis.

Fylgið bara þessum leiðbeiningum á [BoingBoing](http://www.boingboing.net/2004/07/08/how_to_bittorrent_fa.html). Þetta er þó utanlandsniðurhal. Myndin er þó gríðarlega vinsæl á netinu og því ætti niðurhalið að vera mjög fljótlegt með BitTorrent.