Sko, ég veit að allir hata bloggfærslur um tölfræði eða “vinsældir” viðkomandi bloggs. Þess vegna hef ég aldrei skrifað um slíka hluti á þessari síðu.
En samt, þá ákvað ég fyrir 3 vikum (23. júní) að setja upp [teljara](http://www.teljari.is) á síðuna. Ég hef aldrei haft teljara á síðunni áður, þannig að ég vissi ekkert hverju á átti von á. Ég veit ekki almennilega af hverju ég hef ekki haft teljara hingað til. Eflaust vegna þess að til að byrja með var ég handviss um að enginn læsi síðuna og vissi að ef ég fengi staðfestingu á því, þá myndi ég fara í fýlu og gefast upp.
Svo komu kommentin á síðuna og mat ég þá oft færslurnar á því hversu margir kommentuðu á færslur. Kommentunum hefur fjölgað með mánuðunum og núna er svo komið að á þessum tveimur árum, sem hægt hefur verið að kommenta á færslur, hafa komið um 2.050 komment á þessari síðu.
En ég varð forvitinn að vita hversu margir skoðuðu síðuna, því ég geri mér grein fyrir að það eru ansi margir sem heimsækja þessa síðu án þess að kommenta. Ég kommenta t.d. mjög sjaldan á flestum af uppáhaldssíðunum mínum. Ég hef verið að lenda í því að ólíklegasta fólk segist lesa síðuna mína.
Þess vegna setti ég upp teljara og eru niðurstöðurnar athyglisverðar. Á hverjum degi heimsækja um 320 manns þessa síðu. Flettingar hjá þessum 320 aðilum eru um 420 á dag.
Af þessum 320 koma um 25% af [Nagportal](http://www.nagportal.net/) og um 5% koma af leitarvélunum, Google og Leit.is. Þetta þýðir að um 220 manns að meðaltali stimpla á degi hverjum eoe.is inní vafrann sinn. Það þykir mér magnað. Eflaust eru einhverjir, sem koma oftar en einu sinni á dag, en á móti eru sennilega margir sem koma hingað 2-3svar í viku.
Þessar tölur eru umtalsvert hærri en ég átti von á, sérstaklega þar sem þessar tölur eru fyrir júlí mánuð. Ég hafði ímyndað mér að um 60-70 manns læsu þessa síðu. Þar tók ég mið af þeim, sem kommenta hérna reglulega, en sá hópur er kannski um 30 manns. Það virðist hins vegar mjög mikið af fólki, sem kommentar aldrei og er það sennilega bara fullkomlega eðlilegt.
Ok, núna er ég semsagt búinn með teljarablogg og lofa því að það verði langt í aðra slíka færslu.
“Ég hafði ímyndað mér að um 60-70 manns læsu þessa síðu.”
hehe, ef þú vissir það ekki þá mætti titla þig sem “celeb-bloggara” og þar af leiðandi ættir að vera með frekar gott crowd :laugh:
Ég allavega kíki hérna inn svona 2 sinnum á dag. 🙂
Þessi síða er bra snilld … og það sem þér dettur í hug að skrifa 😉 VÁ sko ég kem nokkrum sinnum hingað .. KEep up the good work …. 😀
Takk 🙂