Silfur Egils í dag

Í Silfri Egils töldu stjórnandi og viðmælendur eftirfarandi:

1. Að það væri veikleikamerki á Samfylkingunni að ekki væri næg endurnýjun á framboðslista (ólíkt xD í Reykjavík) og að þingmenn sætu sem fastast á sínum sætum (en vikju ekki einsog t.d. Sólveig Pétursdóttir)
2. Að það væri veikleikamerki á Samfylkingunni að tveir þingmenn hefðu verið felldir í prófkjörum síðustu daga.

Það er erfitt fyrir Samfylkinguna að þóknast andstæðingum sínum.

Sumum viðmælendum þótti það í lagi að minnst sé sérstaklega á það þegar að *innflytjendur* nauðga konum. Það þykir mér ótrúlegt. Þætti sama fólki í lagi að sjá eftifarandi fyrirsagnir?:

1. Sjálfstæðismaður nauðgaði konu í miðbæ Reykjavíkur í gær.
2. Garðbæingur nauðgaði konu í miðbæ Reykjavíkur í gær.

Hvað gera svona fyrirsagnir annað en að sverta orðspor alls hópsins, sem hafði ekkert með glæpinn að gera?

Ég legg til að Frjálslyndi flokkurinn leggi til tillögur um það hvernig skal keyra áfram íslenskt efnahagslíf án þáttöku erlends vinnuafls. Þeir hefðu ágætt af því að starfa sem starfsmannastjóri hjá stóru fyrirtæki í nokkra daga.

Varaformaður Frjálslyndaf flokksins vill ekki fá inn Múslima til Íslands af því að þeir eru svo mikið öðruvísi. *Samt* segist hann ekki vera rasisti. Ég tel að hann sé ekki fær um að dæma það hvort hann sé sjálfur rasisti.

Jens í 4. sætið

Þetta er auðvitað alltof seint sett hérna inn, en ef einhverjir eiga eftir að kjósa í prófkjöri Samfylkingarinnar í Kraganum, þá hvet ég þá til að setja [Jens vin minn í 4. sætið](http://www.jenssigurdsson.com/).

Jens er **snillingur**, hugsjónamaður og eðaljafnaðarmaður. Hann myndi svo sannarlega koma með ferska vinda inná Alþingi.

Við Jens höfum verið vinir í næstum því 10 ár og við engann annan hef ég átt jafnmargar og jafnskemmtilegar umræður um pólitík. Kjósið Jensa í 4. sætið – hann á svo sannarlega erindi á Alþingi.

Smá útúrdúr um íslenska pólitík

Ekki bara ein, heldur þrjár góðar fréttir úr íslenskri pólitík.

  1. Ríkisstjórnin lækkar vörugjöld og vsk á matvælum. Ég hefði aldrei búist við þessu, en það er við hæfi að hrósa íhaldsstjórninni fyrir þetta! Húrra fyrir farmsókn og íhaldinu!
  2. Kristrún Heimis er á leiðinni í framboð fyrir Samfylkinguna. Það er frábært. Ég kynntist Kristrúnu aðeins þegar ég vann með henni í framtíðarhópi Samfylkingarinnar og hef mikið álit á henni eftir þá vinnu. Hún er snillingur og á fullt erindi inná þing!
  3. Jens vinur minn er líka að fara í farmboð fyrir Samfylkinguna. Jens er líka snillingur og ég mun eflaust skrifa lengri lofgrein þegar ég kem heim.

Allavegana, gott mál.

Smá útúrdúr varðandi pyntingar.

Smá útúrdúr varðandi stjórnmál. Ég var líka að setja inn [nýjan ferðapistil](https://www.eoe.is/gamalt/2006/09/30/7.45.21/), sem er hérna fyrir neðan.

Þegar ég [var í Tuol Sleng fangelsinu](https://www.eoe.is/gamalt/2006/09/25/7.00.13/) gat ég ekki forðast það að hugsa um tilgangsleysi og mannfyrilitningu Rauðu Khmeranna. Í fangelsinu pyntuðu þeir fólk eingöngu til að fá fram játningar, sem voru oftast rangar, til að réttlæta óumflýjanlega aftöku fanganna. Pyntingaraðferðir Khmeranna voru sérstaklega hannaðar til að vera eins hræðilegar og hraðvirkar til að fá fram sem flestum fölskum játningum á sem skemmstum tíma frá örvæntingarfullum föngum.

Í fangelsinu voru aðallega notuð tvö pyntingartæki, í öðru héngu menn á slá í langan tíma þangað til að þeir féllu í yfirlið en þá var þeim skellt oní vatn til að þeir vöknuðu og voru svo hengdir aftur upp. Í hinu pyntingartækinu var fólk fest við spýtur og vatni hellt ofan á hausinn á því til að líkjast því að fólkið væri að drukkna – einsog sést á [þessari mynd úr fangelsinu](http://www.davidcorn.com/archives/Waterboard3-small.jpg).

Af hverju á þetta við okkur í dag?

Jú, af því að fyrir Bandaríkjaþingi liggur í dag tillaga um það að leyfa vitnisburð, sem er fenginn með vissum pyntingaraðferðum, sem sumir kalla “vægar”. Hver ætli sé ein af þeim aðferðum, sem á að leyfa? Jú, akkúrat [sama aðferð og að Rauðu Khmerarnir](http://www.davidcorn.com/archives/Waterboard3-small.jpg) notuðu til að pynta fanga sína í Tuol Sleng fangelsinu fyrir 30 árum.

Með öðrum orðum, Bandaríkjamenn stefna í dag á að gera löglega sömu pyntingaraðferð og var í uppháldi hjá **Rauðu Khmerunum**!

Kertafleyting gegn Ísrael

Jens skrifar um kertafleytinguna og minnist akkúrat á það, sem hefur gert það að verkum að ég hef ekki mætt á þann atburð í nokkur ár:

Það var hins vegar fremur pirrandi að hlusta á ræðumann gærkvöldsins blóta Ísrael í sand og ösku á meðan hún fann fjölda sögulegra réttlætinga fyrir aðgerðum Hizboullah.

Ég held að ég hafi þolað allavegana tvær kertafleytingar þar sem undirstaða aðalræðunnar var að Ísraelsríki væri orsök alls ills í heiminum og að Palestínumenn hefðu á einhvern hátt unnið sér rétt til að sprengja sjálfa sig í loft upp í strætóum í Ísrael. Eftir seinna skiptið þá gafst ég upp á því að mæta. Leið einsog ég ætti ekkert sérstakt erindi þarna víst ég er þeirra trúar að Gyðingar séu ekki uppspretta allra vandamála í Mið-Austurlöndum.

Slíkar ræður má fyrir mér halda á atburðum til stuðnings Palestínumönnum, en þeim á að halda frá atburðum þar sem hvatt er til friðar í heiminum. Það er jú enginn sérstakur skortur á and-Ísraels áróðri á Íslandi sem stendur.

Eða einsog Jens segir:

ef þú ert sannur friðarsinni þá er andstyggð þín á stríði aldrei hlutdræg. Ég hef jafn mikla andstyggð á glæpum Hizboullah og Ísrael. Morð á saklausum borgurum er alltaf morð á saklausum borgurum. Friðarsamkomur sem þessar eiga að fordæma dráp beggja stríðsaðila en ekki lýsa skilning á aðgerðum annars aðilans á meðan hinn er fordæmdur.

Skipuleggjendur kertafleytingarinnar mættu hafa þetta í huga.

For the record – mín skoðun: 1 – Hizbullah réðst á Ísrael 2 – Ísrael hefur rétt á að verja land sitt hvort sem það er fyrir hryðjuverkamönnum eða herjum annarra landa 3 – viðbrögð Ísraela eru úr öllum takti við alvarleika byrjunnar átakanna.

Álagningarskrár

Af hverju heyrist alltaf hæst í SUS þegar að [álagningarskrár eru lagðar fram](http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1214868)?

Ekki það að málefnið er gott, en það er einsog þeir fái alltaf aukinn kraft í kringum þetta eina málefni. Ekki sér maður sama eldmóð þegar kemur að hlutum sem skipta almenning actúallí einhverju máli. Til dæmis hluti einsog matvælaverð, sem er mikið í umræðunni þessa dagana.

LOWEST ENERGY PRICES!!

Þetta er [gríðarlega hressandi](http://64.233.161.104/search?q=cache:FrskP6XfKRkJ:www.alcoa.com/brazil/en/news/whats_new/2005_10_06.asp%253FinitSection%253D1000%2B&hl=is&gl=is&ct=clnk&cd=1&client=firefox-a)!:

Þetta er tekið úr viðtali við forsvarsmann Alcoa í Brasilíu

>But the agreed price — 30 dollars per megawatt-hour — was far from ideal. In Iceland, the company pays half that.

Semsagt, Alcoa borgar helmingi hærra verð fyrir orku í Brasilíu en á Íslandi. Skál fyrir því.

(og þeir borga líka 8 sinnum minna en við Íslendingar borgum fyrir okkar eigin rafmagn)

[via](http://www.malbein.net/pallasgeir/?p=149) (greinininni var eytt útaf neti Alcoa, en Google á [afrit](http://64.233.161.104/search?q=cache:FrskP6XfKRkJ:www.alcoa.com/brazil/en/news/whats_new/2005_10_06.asp%253FinitSection%253D1000%2B&hl=is&gl=is&ct=clnk&cd=1&client=firefox-a).