Stefnuræða Bush

Ég var að enda við að horfa á State of the Union ávarp George W. Bush og ef eitthvað er, þá hefur álit mitt á Bandaríkjaforseta aukist enn frekar við það áhorf.

Neeeei, djók! Alveg magnað bull á köflum í þessari ræðu. Bush endurspeglar allt, sem ég þoli ekki við íhaldsmenn. Einlæg sannfæring hans um að hann einn hafi rétt fyrir sér og viti hvað löndum sínum fyrir bestu er með öllu óþolandi.

Bush mótmælti hjónaböndum samkynheigðra, en eyddi varla einni mínútu í að tala um umhverfismál. Hvaða máli skiptir það fyrir Bandaríkjamenn og okkur öll að hommar og lesbíur fái að giftast í friði?

Einnig finnst mér mögnuð sú ótrúlega kjánalega trú íhaldsmanna í Bandaríkjunum að hægt sé að predika skírlífi fyrir unglingum og að það sé einhvern veginn góð lausn á vandamálum kynsjúkdóma. Ekki minnst einu orði á smokka, en peningum skal þess í stað eytt í að predika skírlífi.

Ég spyr, hvernig í andskotanum á að vera hægt að predika skírlífi til handa 16 ára gömlum strákum? Eina skírlífið, sem sá hópur stundar, er ekki af sjálfsdáðum.

Annars fjallar Ágúst Fl. líka um ávarpið í ágætum reiðipistli

Hægrisinnuð bókasöfn

Tómas í Pottinum, sem skrifar um fátt annað þessa dagana en einræðistilburði Heimdellinga, bendir á hálf skrítin vinnubrögð á Frelsi.is. Þar er birt aðsend grein, þar sem sett er útá skoðanir eins stjórnarmanns í Heimdalli. Ritstjórn Frelsi.is ákveður hins vegar að bæta aftan við greinina ummælum, þar sem sett er útá greinina, í stað þess að leyfa einfaldlega stjórnamanninum að svara fyrir sig í öðrum pistli. Þetta finnst mér hálf skrítið.

Hins vegar þá fer málflutningur ritstjórnar Frelsi.is meira í taugarnar á mér en vinnubrögð. Ritstjórnin mælir með einkavæðingu bókasafna og þeim finnst lítið athugavert við það að bókasöfn beri aðeins vinsælustu bækurnar. Ég kommentaði á þetta hjá Tómasi, en kommentið birtist hálf skringilega, þannig að ég endurtek það hér (örlítið breytt þó):

Ég verð að segja einsog er að, sem frjálslyndum hægrimanni, þá leiðist mér röksemdafærsla á borð við þá, sem ritsjórn Frelsis beitir:

Erling getur þess að fjölbreytni kynni að minnka.  Það er rétt hjá honum að einkaaðilar eru ólíklegir til að vilja lána út bækur sem fáir hafa áhuga á að lesa.  Hvaða vandamál í því felst er vandséð.  Höfuðmáli skiptir að fólk geti nálgast þær bækur sem það vill lesa.

Þetta “ef það er ekki vinsælt, þá er það óþarft” attitude fer í taugarnar á mér. Bókasafnið í háskólanum mínum á hundruð þúsundir bókatitla. Flestir þeirra titla hafa sennilega ekki verið skoðaðir í mörg ár.

Sumar hagfræðibækurnar, sem ég notaði við mína vinnu höfðu ekki verið teknar út í mörg ár, en þær voru samt sem áður algjörlega ómissandi fyrir mig og mína vinnu. Jafnvel innan fræðigreina hafa menn gríðarlega ólík áhugasvið og jafnvel í stærstu háskólum er það bókað að þúsundir fræðibóka njóti litla, sem engra vinsælda. Þær eru þó oft ómetanlegar þeim, sem hafa þó áhugann.

Ég er hræddur um að sköpun í þjóðfélaginu og akademíunni yrði ansi lítil ef að allir læsu sömu bækurnar, bara þær allra vinsælustu.

By the way, ritstjórn Frelsi.is bætir líka við sínum skoðunum á eftir viðtölum. Til dæmis, þá svaraði Árni Magnússon spurningum þeirra ekki á réttan hátt og því bæta þeir við sínum skoðunum á eftir viðtali við hann. Þetta er kjánalegt, og þá er breytir engu að ég er ekki sammála skoðunum Árna.

Læknisskoðun

Ok, þá er það opinbert. Þeir á Múrnum hafa núna skrifað fleiri greinar um grimmilega læknisskoðun Bandaríkjamanna á Saddam Hussein, heldur en um öll voðaverk sem Hussein framdi meðan hann var við stjórn.

Verst af öllu er að stjórnvöld í ríkjum heimsins virðast ekki kippa sér upp við þetta. Í það minnsta æmtir hvorki né skræmtir í hinum staðföstu stuðningsmönnum Bandaríkjanna við þessi mannréttindabrot.

Mannréttingabrot? Að það hafi verið leitað að lúsum á gaurnum í sjónvarpi!? Ó plís!! Hvar voru Múrsmenn þegar Saddam framdi sín voðaverk, sem voru flestöll mun alvarlegri en læknisskoðanir? Ekki man ég eftir mörgum mótmælum þeirra útaf illverkum Saddam.

Þetta sannar bara enn einu sinni að einu illmenni heimsins í augum þeirra á Múrnum eru Bandaríkjamenn.

Mitt lið

Ég veit að maður á ekki að hneykslast á Framsóknarmönnum enda hugsa þeir sennilega mjög mikið öðruvísi en við hin. Eeeeeen, þetta svar hjá Dagnýju Jónsdóttir við gagnrýni eðalkratans Ágústs Ólafs á málefni Háskólans er magnað (feitletrun er mín):

Í gær var afar sérstök grein í Morgunblaðinu um að ég hafi látið af sannfæringu minni gagnvart málefnum háskólanna. Ég ætla nú ekki að fara nánar út í efni greinarinnar, enda dæmdi hún sig sjálf. Það sem mér þótti skrítið var að stjórnarandstöðuþingmaðurinn sem hana ritaði virðist ekki gera sér grein fyrir að á þingi eru tvö lið og eins og staðan er núna er ég í stjórnarliðinu. Í þessu felst enginn hroki, bara staðreynd og maður fylgir sínu liði. Meirihlutinn hefur lagt fram tillögur til fjárlaga og fjáraukalaga og þar eru t.d. aukin útgjöld til menntamála.

Til hvers er þessi stelpa á þingi ef að hún lítur svo á að hún eigi bara að fylgja flokkslínunni? Æ, framsóknarpirr! (via Fréttir.com)

Lok, lok og læs

Frábær grein á Múrnum: Fortress Iceland. Hún segir allt, sem mig hefur langað til að segja um meðhöndlun flóttamanna undanfarna daga.

Ég er orðinn hundleiður á að þurfa að skammast mín fyrir stefnu framsóknaríhaldsins í flóttamannamálum. Ekki nóg með það að framlög okkar til þróunaraðstoðar séu skammarleg, heldur þá eru þessi mál líka í lamasessi. Af hverju í ósköpunum þarf að vísa þessu fólki, sem kemur hingað og biður um hæli, úr landi? Getur einhver gefið mér eina góða ástæðu?

Árás

Mikið rosalega verður maður reiður að sjá svona fréttir.

Það hlýtur að vera erfitt fyrir Arafat aðdáendur að halda því fram að áróður gegn Ísrael sé ekki oft á tíðum and-semitískur. Það er allavegana mjög stutt í gyðingahatrið hjá mörgum.


Af hverju getur Ruud van Nilsteroy ALDREI skorað í mikilvægum leikjum með Hollandi? Ef Holland kemst ekki á EM, þá hætti ég að horfa á fótbolta.


Ok, þá er ég búinn að losa um tvo hluti, sem hafa pirrað mig í dag. Annars er ég í mjöög góðu skapi.

Eeeh, hvort vinnur þú í Íslandsbanka eða Landsbanka?

Holy shit! Þvílíkur fjölbreytileiki á þessum framboðslista til formannkosninga í Heimdalli. Á þessum lista eru 12 manns. Hérna eru starfsvettvangar þeirra:

  • Háskólanemar: 8 stykki, þar af 4 í lögfræði
  • Bankastarfsmenn: 4 stykki!

Þannig að þessi breiði framboðslisti samanstendur af 8 háskólanemum og 4 bankastarfsmönnum. Með öðrum orðum: allir á listanum, sem eru í vinnu, vinna í banka! Gátu þeir ekki fundið að minnsta kosti einn, sem ynni ekki í banka? Bara einn?

Ekki það að ég hafi nokkurn skapaðan hlut á móti bankastarfsmönnum. Margir góðir vinir mínir starfa í bönkunum. En come on!

Nú læt ég afskiptum mínum af kosningamálum í Heimdalli lokið. Enda kemur þetta mér ekki rassgat við 🙂

Ungir Davíðsdýrkendur rífast

Hó hó hó, það er gaman sjá únga Sjálfstæðismenn rífast.

Það eru víst einhverjar kosningar hjá ungum Davíðsdýrkendum í Reykjavík. Þessi gaur, sem heldur því fram að hann hafi talað um pólitík við nánast alla Verzlunarskólanemendur, tapaði og segir hann að það sé femínistum að kenna. Alger schnilld!

Annars má þess geta til gamans að þegar úngir Sjálfstæðismenn rífast, þá er það vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn er svo breiður og góður hópur þar sem skoðanaskipti eru ávallt velkomin. Hins vegar ef að ungir Jafnaðarmenn rífast þá er það vegna þess að þeir eru hvort eð er gamlir kommar, sem geta aldrei verið saman í flokki og eru aldrei sammála um nokkurn skapaðan hlut.