Chi-town

Jæja, ég er kominn aftur til Chicago. Að mörgu leyti er þetta ótrúlega líkt því þegar ég var hérna síðast, en það eru 3 ár síðan ég heimsótti þessa frábæru borg. Veðrið hérna er öllu bærilegra en það var í Texas, rétt yfir 20 gráður í stað 33 gráðu hita í Texas.

Ég og Birkir eyddum tæpri viku í Austin. Mestum tímanum eyddum við í að skoða mexíkóska veitingastaði, en við höfðum þó einhvern smá tíma í annað. Heimsóttum þetta safn, röltum um Austin, reyndum að sjá leðurblökur og eitthvað fleira.

Í gær keyrðum við svo upp til Dallas þaðan sem ég flaug í dag til Chicago. Í gærkvöldi fórum við svo á súrasta bar í Bandaríkjunum. Við vorum að borða á steikhúsi og einn þjónninn þar mælti með því að við færum á “Veterans of Foreign Wars” barinn, sem var hinum meginn við götuna. Þar var afskaplega skrautlegt samansafn af fólki.

Við spiluðum shuffleboard við tvo gaura, létum einhverjar hálf sjúskaðar gellur reyna við okkur, drukkum með risavöxnum fyrrverandi hermanni og svo fékk ég að heyra ævisögu fimmtugrar, 170 kílógramma þungrar konu, sem sagði að ég liti út einsog Matthew McConaghey á milli þess sem hún klappaði mér í framann og sagði mér átakanlega ævisögu sína.

* * *

Og svo kom ég hingað til Chicago í morgun. Tók lestina niðrí bæ og labbaði svo heim til Dan vinar míns. Horfði á restina af Cubs leik, sem mínir menn unnu (auðvitað!) – og er svo búinn að rölta um hverfið, bíðandi eftir því að Dan komi aftur heim úr vinnunni. Í kvöld ætlum við að kíkja út og á morgun er það Cubs leikur á Wrigley Field.

Bud Light-inn bíður kaldur eftir mér inní ísskáp. It’s good to be back!

Skrifað í Chicago, Illinois klukkan 17.53

5 thoughts on “Chi-town”

  1. Hvað er eiginlega málið með Bud Light? Miðað við upprunann (amerískur Budweiser) og “light” viðskeytið er ég fullur efasemda! Er hægt að drekka þetta?

  2. Já, samkvæmt 180 kílóa alkóhólista. Ef maður trúir þeim ekki, hverjum á maður þá að trúa? 🙂

    Og einsidan, ég elska Bud Light, en ég er líka afskaplega lítið hrifinn af sterkum bjór. Ég vill hafa bjórinn minn svalandi með mildu bragði og enginn bjór í heiminum kemur betur út að mínu mati. Mér er nokk sama hvað öðrum finnst. 🙂

  3. Ég ætlaði nú ekki að vera judgemental, en þú ert greinilega alveg á öndverðum meiði við mig í bjórbransanum 🙂

Comments are closed.