Djamm á Íslandi

Í gær fór ég á djamm í Reykjavík. Það hefði seint talist til tíðinda, nema að ég hef ekki djammað í Reykjavík í einhverja 80 daga. Vegna ferðalaga hef ég verið erlendis nær allar helgar síðan um miðjan ágúst.

Þannig að síðan ég djammaði síðast í Reykjavík, þá hef ég djammað í Mexíkóborg, San Salvador, Roatan – Hondúras, Livingston – Gvatemala, Cancun – Mexíkó, Köln, Liverpool og Amsterdam. Það er ágætis árangur að mínu mati.

En semsagt í gær, þá var starfsmannapartý hérna í Vesturbænum og eftir það fór ég niðrí bæ. Fór fyrst á Prikið og svo á Ólíver. Ég veit ekki hvað það er, en mér finnst Ólíver hafa breyst slatta mikið. Einhvern veginn virðist standardinn hafa hrapað og auk þess var plötusnúðurinn í gær (Svala Björgvins og einhver gaur, að mig minnir) á sterkum lyfjum. Þegar ég var á dansgólfinu kom m.a. einhver hryllileg syrpa af íslenskum klysjulögum.

Einnig eru klósettmálin í algjöru rugli. Ég þarf að fá næði þegar ég pissa og því get ég ekki pissað í pissuskálar. En hins vegar þá virtust þeim, sem voru inni á klósettunum tveim, líða býsna vel. Ég þurfti því að bíða í um 10-15 mínútur eftir að komast að. Þegar að loksins annað klósettið opnaðist þá komu *tveir* gaurar út og voru alveg brjálaðir yfir því að fólk skyldi vera að banka á hurðina. Þeim fannst greinilega fullkomlega eðlilegt að vera þarna tveir inni í þennan tíma.

Ekki batnaði ástandið þegar að gaurinn, sem fór næstur inn var svo fullur að einhvern veginn tókst honum að rífa niður hurðina af klósettinu þegar hann hékk í henni. Þá ákvað ég að þetta væri komið gott og að ég gæti haldið í mér lengur. Þegar ég kom hins vegar upp aftur, þá var fólkið, sem ég var með, farið burt. Hafa sennilega haldið að ég hefði verið stunginn af, enda ekki eðlilegt að eyða 20 mínútum á karlaklósettinu.


En annars, þá á ég eftir þetta kvöld og reynslu undanfarinna helgia, erfitt með að skilja af hverju útlendingar sækja í íslenskt næturlíf. Fyrir það fyrsta, þá sá ég umtalsvert meira af sætum stelpum í Amsterdam, Liverpool og Mexíkóborg. Einnig er hvergi hægt að dansa á íslenskum skemmtistöðum. Ég batt vonir við Ólíver, en þar er núna alltof troðið af fólki á gólfinu. Það að vera á dansgólfinu á Ólíver í gær líktist því helst að vera í mosh pit á Limp Bizkit tónleikum.

En þrátt fyrir þetta skemmti ég mér ljómandi vel á djamminu. Síminn minn var orðinn batteríslaus þegar að ég týndi fólkinu, þannig að ég ákvað að fara bara niður á Pizza King, þar sem ég keypti mér pizzu og fór svo heim.


Notaði vekjaraklukku-og-excedrin-þynnkutrixið mitt og hef því verið alveg þynnkulaus í allan dag. Er búinn að taka til og núna er íbúðin mín ýkt fín. Horfði svo á Man U vinna Chelsea (sem er gott) og fór svo uppí Kringlu, þar sem ég vann í nokkrum hlutum.

Ljómandi góður dagur.

5 thoughts on “Djamm á Íslandi”

  1. Þynnkuvandamálið mitt er fyrst og fremst hausverkur.

    Áður en ég fer að sofa set ég 1 lítra af vatni og tvær Excedrin hausverkjartöflur við rúmið. Ég stilli svo klukkuna á einhvern tíma, þar sem ég er 100% viss um að ég sofna aftur. Þannig að ef ég er að koma heim af djamminu og klukkan er 5, þá er ég viss um að ef ég stilli vekjaraklukkuna á 9, þá mun ég sofna aftur.

    Svo vakna ég klukkan 9, fæ mér töflur, allt vatnið og sofna aftur. Þetta svínvirkar. Það virkar ekki að taka hausverkjartöfluna áður en maður sofnar, því hausverkurinn er ekki kominn og því fer virknin áður en maður fær hann og ef maður tekur töfluna eftir að maður vaknar eðlilega, þá er líka erfitt að losna við hann. Þannig að þetta er að mínu mati besta lausnin. 🙂

  2. Þetta hljómar vel, hefur virkað vel fyrir mig að taka rumsk-töflu. Örugglega margir sem geta notað þetta
    Hinsvegar er minn vandi meira magaónot (lifi alkaseltzer) og að geta ekki sofið út. amm.

  3. mjög sammála þér með Oliver 🙁 ég batt miklar vonir við þann stað…en hann er orðinn eins og allir aðrir staðir – yfirfullur, hávaði, ljóskur og unglingar, ömurleg klósett, lélegt dansgólf og almennt subbulegur um helgar 🙁

  4. Jammm, finnst reyndar ekkert sérstaklega slæmt að hafa ljóskur á staðnum, en standardinn hefur lækkað verulega. Eigendur staðarins mega passa sig dálítið, því þessi staður lofaði verulega góðu í upphafi.

Comments are closed.