Ég fæ heilablóðfall

Lífið er skrýtið.

Á þriðjudagsmorgni er ég á fullu í vinnunni. Ég byrja daginn í sænskukennslu og fer svo yfir á skrifstofuna á símafund um nýtt innstimplanakerfi fyrir starfsfólk Serrano.

Og núna ligg ég allt í einu á föstudagsmorgni inná þriggja manna stofu á Karólínska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi. Ég er með leppa fyrir auganu og við hliðiná mér er verið að skipta á bleijum á einum sjúklingi á meðan að hinn kallinn í stofunni kvartar. Hvernig í ósköpunum gerðist þetta?

* * *

Um tvö leytið á þriðjudaginn var ég með mann á fundi á skrifstofunni minni. Hann hafði lýst yfir áhuga á því að opna Serrano stað í öðru bæ í Svíþjóð og óskaði eftir nokkrum mínútum með mér til að kynna sig og sínar hugmyndir. Þegar hann hringdi stökk ég niður og opnaði fyrir honum og hoppaði svo aftur upp tröppurnar á meðan ég spurði hvernig hann hefði það.

Um leið og ég kom inná skrifstofuna byrjaði mér að líða sérkennilega. Ég bauð manninum uppá kaffi en hann vildi bara vatn, svo ég hellti honum í glas. Mér svimaði hins vegar svo mikið og leið svo einkennilega að ég ákvað að drekka sjálfur vatnsglasið og hellti honum svo í annað.

Hann tók þá eftir því hvað ég var einkennilegur, svo ég baðst afsökunnar á því hve furðulegur ég væri á meðan ég settist. Ég gerði svo nokkrar tilraunir til að hefja fundinn með því að segja aðeins sögu Serrano. Sögu sem ég hef sagt 100 sinnum og kann utanbókar, en gat samt ekki komið upp neinu heillegu. Ég lokaði augunum og reyndi að segja honum söguna þannig, en allt var í rugli. Að lokum spurði hann mig hvort ég vildi ekki bara fresta fundinum og gera þetta seinna. Ég þáði það boð, en hafnaði því þegar hann bauðst til að hringja á sjúkrabíl.

Þegar ég var orðinn einn á skrifstofunni lokaði ég tölvunni minni og svo var einsog allt færi í rugl. Ég staulaðist á milli stólsins míns og skrifborðsins og gat hvorki séð neitt skýrt né staðið á fótunum Ég datt á gólfið og það leið sennilega yfir mig oftar en einu sinni. Ég eyddi ábyggilega einhverjum 10 mínútum að reyna það einfalda verkefni að taka tölvuna mína og setja hana í töskuna mína. Einhvern veginn tókst mér það og næsta verkefni var því að slökkva ljósin á skrifstofunni og koma mér út. Skrifstofan okkar, sem við deilum með íslensku fyrirtæki sem rekur tískuverslanir hérna í Stokkhólmi, er pínkulítil. En samt þá tókst mér að gleyma algjörlega hvar væri hægt að slökkva á ljósunum. Ég rembdist við það í nokkrar mínútur að samhæfa þá aðgerð að taka upp töskuna, slökkva ljósin og opna hurðina. Allt í kringum mig virtist snúast á 100 kílómetra hraða.

Ég komst út, datt næstum því í tröppunum og labbaði útá götu. Grev Turegatan er nokkuð vinsæl gata. Hún er göngugata og á henni eru vinsælir barir og veitingastaðir. Þegar ég labbaði útá götu þá gat ég bara farið í eina átt, til hægri. Ég endaði því með líkamann uppað búðunum hægra megin götunnar. Strax kom uppað mér strákur, sem spurði hvað væri að. Mér tókst að koma uppúr mér einhverju um að ég væri í lagi og þyrfi bara að leggja mig. Ég gat ekki komið setningunum almennilega uppúr mér og sum orðin komu fáránlega út auk þess sem það var hroðalega erfitt að reyna að halda fókus á andlitinu á stráknum. Loks tókst mér að komast frá honum og ég stönglaðist niður götuna, einhverja 50 metra. Þar lenti ég inní húsasundi, þar sem ég gat hvílt mig en ég var algjörlega örmagna eftir þetta 50 metra labb. Loks komu þar að mér tveir gaurar sem sannfærðu mig um að það væri vitlaust að ætla að taka strætó og þess í stað þyrfti ég leigubíl. Þeir náðu í einn og sannfærðu í leiðinni leigubílstjórann um að ég væri ekki fullur og sennilega ekki á neinum eiturlyfjum heldur.

* * *

Leiðin heim á Södermalm er um 15 mínútur í traffíkinni um miðjan dag í Stokkhólmi. Ég reyndi á þeim tíma áfram að hringja í kærustuna mína. Ég er með iPhone – á þeim síma þarf maður að ýta á 3 takka til að hringja í Margréti, sem er efst á hraðvalslistanum. En sama hversu mikið ég reyndi, þá gat ég ekki hringt í hana. Það besta var að mér tókst að hringja í mann sem vinnur með mér en þegar hann svaraði vissi ég ekki hvað ég átti að segja þannig að ég hlustaði bara á hann spyrja hver þetta væri á meðan að ég starði útí loftið.

Þegar við vorum rétt hjá íbúðinni okkar á Söder spurði bílstjórinn hvort við værum komin. Ég sagði já, þótt að við værum ennþá um 100 metra frá henni. Einhvern veginn þótt mér það alltof flókið að útskýra það fyrir honum að íbúðin mín væri 100 metrum lengra niður sömu götu.

Ég fór því útúr bílnum og einsog áður leitaði ég alltaf til hægri og klesstist því uppað búðargluggunum. Í einni búðinni voru tveir stólar fyrir utan búðina og þar sem ég sá nánast ekki neitt þá klessti ég beint á þá og datt næstum því. Strákur kom uppað mér og vildi ekki sleppa mér fyrr en ég hafði sagt við hann 10 sinnum að ég byggi þarna rétt hjá.

Mér tókst svo að komast upp tröppurnar að byggingunni og einhvern veginn komst ég líka uppá 4. hæð að íbúðinni okkar. Þar rembdist ég við það í 2-3 mínútur að opna hurðina með lyklinum. Það var nánast óbærilega erfitt þar sem að allt var svo óskýrt og mér leið hálfpartinn einsog það væri líka einhver að elta mig allan tímann. Ég var reyndar á tímabili viss um að gaurinn sem ég hitti á fundinum hefði eitrað fyrir mér og svo elt mig og ætlað að ræna mér.

En að lokum opnaði ég hurðina, læsti á eftir mér, stönglaðist einhvern veginn í gegnum íbúðina og uppí rúm. Þar fór ég að sofa

* * *

Ég svaf með iPhone heyrnartólin í eyrunum en þrátt fyrir það þá vaknaði ég ekki við það að Margrét hringdi 6 sinnum í mig.

Ég var loks vakinn þegar að hún kom heim 4 tímum eftir að ég hafði sofnað uppí rúmi. Hún reyndi að tala við mig en þegar ég gat ekki komið almennilegum setningum útúr mér, þá brá henni gríðarlega og hún hringdi á sjúkrabíl. Stuttu seinna kom sjúkrabíllinn og sjúkraliðarnir gerðu einver próf á mér og ákváðu svo að fara með mig í burtu á Karolínska sjúkrahúsið, sem er rétt fyrir norðan miðbæ Stokkhólms. Þar er ég nú.

Eftir að ég kom þangað man ég hlutina ekkert sérlega skýrt. Ég man eftir Margréti grátandi og hringjandi í ættingja og ég man þegar að ég kom inná neyðarmóttökuna. Ég man svo eftir frábærum lækni, sem talaði við mig og reyndi að fá eitthvað af viti útúr mér. Þrátt fyrir að ég væri allur af vilja gerður þá kom oft ekkert nema bull útúr mér. Ég kvartaði yfir hausverk og yfir því að gosbrunnarnir í andlitinu á mér væru á fullu og talaði svo um að ég hefði labbað á fimm ísskápa. Og annað var eftir þessu. Ég man svo eftir að vera tekinn í cat scan og einhverjar fleiri prufur. Ég man þegar að vinir okkar komu og hjálpuðu Margréti og ég man eftir því hversu ruglaður ég var og þegar að ég tók svefntöflur um tíu leytið.

* * *

Morgunin eftir vaknaði ég um sjö leytið með Margréti við hliðiná mér. Hún sagði mér betur frá því sem hefði gerst kvöldið áður, í hverja hún hafði hringt og hverjum hún hefði heyrt frá. Hún sagði mér líka frá því að mamma og pabbi væru á leið til Stokkhólms þá þegar um morguninn.

Síðustu dagar hafa því verið nokkurn veginn eins. Margrét hefur verið hjá mér mestallan tímann, dekrað við mig og haldið mér á lífi hér meðal gamla fólksins. Mamma og pabbi voru hérna hjá mér báða dagana, en þau fóru svo heim til Íslands þegar að það leit út fyrir að það versta væri afstaðið.

Næturnar hérna voru hálf erfiðar. Fyrstu nóttina var ég á nokkurs konar gjörgæsludeild þar sem að blóðþrýstingurinn var tekinn á mér á klukkutíma fresti og sífellt fólk að fara inn og útaf stofunni. Seinn var ég svo færður á rólegri deild þar sem ég ligg núna ásamt tveimur gömlum köllum. Annar þeirra reyndi að brjóta niður skilrúmið hjá mér í fyrri nótt þar sem hann ímyndaði sér að þar lægi klósettið – og hinn hóstar svo skelfilegum hósta á korters fresti að ég get varla komist hjá því að kúgast.

En ég get varla kvartað. Svona er þetta bara. Ég þakka Guði fyrir að hafa veikst á Norðurlöndunum, þar sem hérna er heilbrigðiskerfið stórkostlegt og eingöngu er tekið á móti manni á allra besta hátt þótt að ég hafi bara búið hérna í 3 mánuði og geti varla bjargað mér á sænsku.

Ég er svo búinn að fara í milljón próf. Síðast í dag í einhvers konar sónarskoðun á hjarta og svo í MRI. Og niðurstöðurnar eru komnar. Ég fékk heilablóðfall. Læknirinn segir að það hafi verið vægt en enn er ekki vitað hverjar orsakirnar eru. Ég ætti að vera langt frá áhættuhópnum. Ég er ungur, ég stunda líkamsrækt nánast á hverjum degi, ég borða hollt, ég reyki ekki og svo framvegis. Þannig að ennþá hafa læknarnir ekki fundið neina augljósa skýringu á þessu öllu.

Ég sé ekki alveg einsog ég sá áður. Allir hlutir eru tvöfaldir þegar að ég er með bæði augun opin og því þarf ég að vera með sjóræningjalepp á öðru hvoru auganu ef ég vill lesa eða horfa á sjónvarp. Einnig er jafnvægisskynið ekki gott. Alveg einsog þegar það versta gekk yfir, þá halla ég alltaf til hægri, en það er þó 20 sinnum betra í dag. Læknirinn, sem er íslenskur, segir að það muni lagast ásamt sjóninni á smá tíma.

Þannig að núna er ég á leið heim aftur. Það hittir akkúrat þannig á að við Margrét erum að flytja í nýju íbúðina okkar á mánudaginn. Ég mun því miður ekki taka mikinn þátt í því, en það er gott bara að komast aftur heim og geta sofið eðlilega.

* * *

Og hvað kemur svo útúr öllu þessu? Jú, ég get ekki lýst því hvað það hjálpaði mér mikið að heyra frá vinum og ættingjum. Margrét sá um að senda öllum póst um líðan mína og það að heyra aftur í fólki, hvort sem það var á pósti eða í síma, eða bara að heyra af því að það forvitnaðist um mig, var ómetanlegt. Og það var frábært að fá foreldra mína hingað í heimsókn.

Takk ÖLL!

Og það sannaðist það sem mig hafði grunað áður: Ég á bestu kærustu í heimi. Ég hef kannski ekki eytt púðri í það á þessari síðu að tíunda hversu ótrúlega kærustu ég á, en ég get vart lýst því hvað ég er ástafanginn. Hún er stórkostleg persóna, fáránlega skemmtileg, ótrúlega falleg og líka yndislega góð og hugulsöm. Ég veit ekki hvernig ég hefði getað komist í gegnum þetta án hennar.

60 thoughts on “Ég fæ heilablóðfall”

 1. Það er skelfilegt hvernig svona lagað getur komið fyrir með engum fyrirvara fyrir jafn hraustan einstakling og þig.

  Gott að heyra að það horfi allt til betri vegar… og farðu endilega vel með þig!

 2. Vá Einar….. ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja, en ég vona að þeir finni út hvað olli þessu heilablóðfalli.
  Takk fyrir að lýsa þessu svona ótrúlega vel, mér fannst mjög merkilegt að lesa þetta. Tengdapabbi fékk einmitt heilablóðfall á aðfangadag og það lísti sér svipað og þú varst að tala um, en ég fékk ekki svona nákvæma lýsingu.

  En vá hvað það var gott að Margrét er með þér úti og kom þér á sjúkrahús og allt hitt.
  Ég vona að þú náir bata sem allra fyrst og þið hafið það sem allra best í Svíþjóð ..

  Kær kveðja frá mér

 3. Hef lengi lesið bloggið þitt þótt ég þekki þig ekki persónulega. Finnst þú alltaf svo jákvæður og duglegur – veit að það mun reynast þér mikilvægt í bataferlinu. Mínar bestu óskir um skjótan bata og ég samgleðst þér að eiga svona góða kærustu. Vona að þið hafið það sem allra best í framtíðinni 🙂

 4. Ja hérna. Ég var með hjartað í buxunum á meðan lesturinn stóð. Óhugnalegt hversu skjótt svona getur dunið yfir.

  Ánægjulegt að heyra að þú ert á batavegi. Ég óska þér og þínum alls hins besta.

  kv, tobs

 5. Ég er búin að vera að hlæja og gráta hérna á víxl, hefði kannski átt að lesa þetta heima (er upp í skóla og fólk er farið að horfa skringilega á mig).
  En guð hvað ég er fegin að þú sért komin með tilfinningu alls staðar og við getum sko þakkað guði fyrir hana Margréti, hún er náttla bara engill.
  Vonandi hafi þið það rosa gott í nýju fínu íbúðinni ykkar.
  Knús og kossar frá Íslandi
  Rakel og Hemmi

 6. Ég þekki þig ekki neitt en ég les Liverpool-bloggið og ramba stundum inná þessa síðu, hef samt ekki kommentað hér fyrr en nú.

  Ótrúleg saga! Ég tek undir með Tobba, ég var með hjartað í buxunum við lesturinn. Ég vona innilega að þú náir fullum bata sem allra, allra fyrst.

  Farðu vel með þig 🙂

 7. Ég þekki þig ekki neitt heldur en slysast stundum hingað inn af Liverpool-blogginu. Ég vildi bara senda þér batakveðjur og verð að taka undir með hinum og segja að ég var líka með hjartað í buxunum við að lesa þetta. Alveg hræðilegt hvernig svona getur komið fyrir hraust og ungt fólk!

  Gangi ykkur vel!

 8. Elsku kallinn… þið eruð svo sannarlega heppin að eiga hvort annað að. Ég sendi þér batnaðarkveðjur og strauma og vona að allt fari á besta veg. Farðu vel með þig félagi.
  Kveðja af landsfundi,
  Fanney Dóra

 9. Ég er “laumu-lesandi” eins og einhverjir aðrir hérna. Vildi bara óska þér góðs bata. Óhugnaleg lýsing á atvikum.

  Gangi þér vel.

 10. Það er svo skrítið að ég kíki hingað inn annað slagið og hef gert það síða 2006 eða fyrr, þega ég datt inn á síðuna þegar þú varst á bakpokaferðalagi. einnig skoða ég kop.is sem er barn þitt og þessarar síðu:) er orðinn háður serrano 🙂

  það er altaf gaman að sjá hvað þú ert að gera í lífinu og hvað þetta gengur vel. og þá er altaf jafn erfitt að lesa um vandamál og heilsubresti.

  Vonandi áttu eftir að ná þér vel, og standa upp sem sterkari maður og lífið haldi bara áfram á góðum nótum.

  Batakveðjur úr vesturbænum Kristján R austfirðingur 🙂

 11. Alveg hrikalegt að heyra þetta 🙁

  En gott að heyra að þetta endaði vel.

  Maður finnur alltaf hverjir eru vinir manns þegar svona áföll gerast.

  Var einmitt að velta því fyrir mér hvað hefði eiginlega komið fyrir þig, ungur maður á besta aldri og í góðu formi.

  Gangi ykkur sem allra best, og farðu vel með þig 🙂

  Kveðja,
  Stígur

 12. Láttu þér batna Einar, þekki þig lítið sem ekkert fyrir utan tvo þrjá hittinga og svo síðulestur og slíkt. Hins vegar áttu allt gott skilið og í þér býr að mínu mati drengur góður.

  Ég þekki þónokkra sem hafa lent í heilablóðfalli og mér sýnist af því að lesa frásögnina þína að þú hafir komist þokkalega frá þessu. Vona að batinn verði snöggur og hlakka til að lesa skriftir þínar um ókomna framtíð.

 13. Eins og einhverjir hér að ofan þekki ég þig ekki persónulega heldur bara af skrifum þínum hér og á Liverpool blogginu. Langar engu að síður að óska þér góðs bata.

  Frásögn þín á atburðarásinni er einstaklega nákvæm og magnþrungin og ég get tekið undir með öðrum hér að hjartað sló harðar og þyngra við hverja málsgrein.

  Hafðu skjótan bata og kærar þakkir fyrir lifandi og skemmtilegar blogg síður, þessa og kop.is. YNWA.

 14. Hrikaleg lýsing. Vona að þú náir góðum bata karlinn minn. Gangi þér, og ykkur, vel í baráttunni!

 15. Elsku Einar…ég sendi þér batakveðjur og vona að þú náir góðum bata.
  Þú ert mikið lánsamur að eiga hana Margrét Rós hún er náttla bara yndislegust…og þið að eiga hvert annað.Það er gott að heyra að allt er í betri farvegi…knús til ykkar beggja frá mér og Gumma.

 16. Maður var alveg orðlaus þegar amma og afi sagði okkur fréttirnar, maður hugsaði sér bara hvernig þetta gat gerst fyrir þig! Uppáhaldsfrændinn! Núna er bara lýta á björtu hliðarnar og halda áfram með lífið. Óska þér þann besta bata sem er frammundan, og ég veit hún Margrét á eftir að hjálpa þér eithvað með fyrstu skrefin (jafnvægið kannski), þess vegna er stundum sagt, You Never Walk Alone.

  kv. Finnur frændi

 17. Svakalegt að lesa þetta, og gott að þetta er á góðri leið.
  Vinkona mín fékk alvarlegt heilablóðfall síðasta sumar og það leit ekki vel út en hún hefur náð sér ótrúlega hratt og vel og ég efast ekki um að þú hristir þetta af þér í einum grænum 🙂
  Bestu batakveðjur

 18. Vá.. þetta var rosaleg lesning! Lýsingin akkúrat eins og allar auglýsingarnar sem maður sér í sjónvarpinu hér um einkenni heilablóðfalls, úffff….. magnað hversu margir vildu hjálpa 🙂

  Ég óska þér skjóts bata!
  Á þessum tímum er samt ekki annað hægt en glotta að þú leitir svona mikið til hægri!

  Farðu vel með þig!
  Kveðja

  Ása

 19. Er einsog margir hérna laumulesandi til margra ára og maður fékk bara sjokk við að lesa þetta.

  Get ekki ímyndað mér hvernig er að lenda í svona og vona ég þurfi sjálfur ekki að upplifa.

  Gott að heyra að allt fer batnandi!

  b.kv,
  Rúnar

 20. Ég er einnig laumulesandi og búin að fylgja þér síðan að mig minnir 2006. Ég vil bara senda þér og þínum baráttu kveðju! Gangi þér vel í batanum!

 21. Vildi bara taka undir með öðrum hérna og óska þér bata. Þú getur líklegast þakkað því að þú ert ungur, hraustu og reyklaus að ekki fór verr. Og já þú ert heppinn að eiga svona góða konu þér við hlið, og örugglega er hún mjög heppin að eiga þig líka!

  Good luck

 22. Ég hef einmitt eins og aðrir rambað inn á síðuna þína af Liverpool blogginu.

  Ég var ekkert smá hissa að heyra þetta! Ég vona að þú fáir góðan bata!
  Gangi ykkur allt í haginn.

 23. Ég hef fylgst með blogginu þínu í þónokkurn tíma, hef mjög gaman að lesa það. Byrjaði aðallega að lesa það vegna þess að bróðir minn sagði mér frá því, en þú hittir hann víst og kærustuna hans á Asíuferðalagi þínu; þau eru Kiddi og Heiðrún sem sagt..
  En mikið brá mér að lesa þetta! Svona ungur og hraustur maður; ég er ekki frá því að maður verði bara pínu hræddur.

  Ég sendi bara allar mínar batakveðjur þarna út til ykkar og óska ykkur alls hins besta. Þú ert heppinn að eiga góða að og ég trúi ekki öðru að þú jafnir þig á þessu með hjálp jákvæðni þinnar. 🙂

 24. Eins og margir hérna hef ég lesið þig í dágóðan tíma og maður var einmitt farinn að velta því fyrir sér hvort það væri ekki kominn tími á nýtt blogg frá þér. Svo að titillinn á þessari færslu var smá sjokk.

  En frábært að heyra að þetta hafi verið vægt og að þú náir fullum bata. Gangi þér vel!

 25. Takk kærlega öll fyrir kveðjurnar!

  Það er ótrúlega gaman að sjá hversu margir, sem ég þekki ekki neitt persónulega, láta sig varða um minn hag. Mér þykir ótrúlega vænt um að lesa þessar kveðjur.

  Þær og allar kveðjurnar á Feisbúk, í tölvupóstum og símtölum hafa heldur betur lífgað uppá tilveru mína síðustu daga. Ég er virkilega þakklátur.

 26. Krossbrá við að heyra þetta, láttu þér batna sem fyrst, við hugsum öll til þín.

 27. Hi Einar. Mikid svakalega bra mer thegar eg las thessa faerslu. Lifid er svo sannarlega hverfult. Vildi bara oska ter gods bata.
  K. kv.
  Svana

 28. Sæll Einar

  Ég eins og margir aðrir er bara laumulesandi, kíki einstaka sinnum til að athuga hvort heimsferðablogg eða snilldar uppboð er í gangi, bara einn takki frá Liverpool blogginu 🙂

  Ég vildi bara óska þér góðs bata, þetta var fáranlega vel skrifuð grein um erfiða lífsreynslu. Þú ert líka greinilega heppinn með kærustu og til hamingju með það. Vonandi batnar þér vel of fljótt 🙂

  Bestu kveðjur

 29. Hæ elsku frændi.

  Mikið var átakanlegt að lesa þessa upplifun þína. Já undarlegt hvernig þetta líf getur verið. En eins og þú segir sjálfur frá þá er svo gott og nauðsynlegt að eiga góða að, eins og þú átt greinilega. Bæði hana Margréti þína, fjölskyldu, ættingja og vini sem þykir mjög vænt um þig. Yndislegt að heyra hvað þið eruð hamingjusöm. Til lukku með það.

  Verð alveg að segja að þú fékkst hana frænku þína til að tárast yfir lesningunni.

  Áfram, góðan bata minn kæri og bestu kveðjur til Margrétar

  Kærleikskveðja frá mér

 30. Sæll Einar,

  Ég er held ég einn af fáum sem þekki þig ekki neitt og er samt ekki púlari. Hinsvegar þykir mér Serrano alveg ofsalega gott og þess vegna hef ég laumast til að lesa sögur af þér og serrano.

  Það er hinsvegar eitthvað svo mikil samkennd í íslenska hjartanu að manni þykir fréttir eins og þessar alveg rosalegar og þá sérstaklega miðað við ,,aldur, menntun og fyrri störf” eins og svo oft er nú sagt.

  Ég óska þér góðs bata og kem til með að fylgjast með framhaldinu.

  Kveðjur af klakanum,
  Steinar Þór

 31. Sæll Einar.

  Er vinur MRS og mikill aðdáandi kop.is. Svakaleg lesning að lesa þetta. Vil óska þér góðs bata og minni þig á að það sem drepur mann ekki styrkir mann.

  kv. Vilhjálmur Alvar

 32. Elsku vinur,
  svakalegar fréttir, þetta kennir manni að vera duglegur að þakka guði fyrir heilsuna. Ég hugsa til ykkar og sendi ykkur baráttustrauma og kveðjur, gangi ykkur vel elsku vinir 🙂
  kveðja Katrín

 33. Sæll elsku frændi.

  Mikið er gott að heyra að þú ert að braggast í Sverige. Ótrúlegt að lesa þessa upplifun þína og þrautsegju, eitthvað er þetta nú seiglan í ættinni… og ekkert verið að drífa sig strax uppá spítala. Það er eins gott að þú áttir Margréti að á þessum örlagaríka degi. Við hugsum öll til ykkar og óskum þér góðs bata. Farðu vel með þig og Margréti þína. Yndislegt að heyra hvað þið eruð hamingjusöm, til hamingju með það.

  Það er þetta með vinina, traustur vinur getur gert kraftaverk og þú finnur hverjir eru vinir í raun þegar erfið verkefni eru lögð fyrir okkur á lífsleiðinni. Gangi þér vel að ná bata og njóttu stundarinnar. Svenni og Hilmar Björn litli frændi þinn biðja að heilsa ykkur. Baráttukveðja frá Hildi Björk frænku.

 34. Sæll félagi.
  Rosaleg lesning – greinilegt að þú hafir verið stálheppinn að ekki fór verr!
  Góðan bata og baráttukveðjur með Serrano-ævintýrið 🙂

  Kv.
  Heimir

 35. Risaknús til þín kallinn minn og baráttukveðjur.. svona lesning hristir aðeins upp í manni og fær mann til að sjá það að lífið er lúxus sem maður á ekki að taka sem gefinn.

 36. Rosalegt að lesa þetta og mikið er ég viss um að maður hefði brugðist eins við… bara drulla sér heim að hvíla sig!!!! Ég vona að þú þurfir ekki að lifa eins og sjóræningi í framhaldinu 🙂 Og meðan ég man þá vill ég þakka fyrir kop.is vefinn, hann er snilld! Megir þú njóta góðs bata.

 37. Sæll vinur !!!

  Ég þekki þig því miður ekki neitt og held ég meira að segja að við höfum aldrei hist. Þetta var alveg svakaleg lesning og maður liggur við er með tárin í augunum. Tek undir það að maður veit alltaf hverjir standa manni næst þegar að áfall eða áföll dynja yfir. Það er gott að þér líði betur eftir þessi ósköp og mikið er ég þakklátur að þú hafðir kærustuna þína til að hugsa um þig og hjúkra. Er einmitt að spá í að knúsa konuna mína vel og lengi eftir þessa lesningu :0)

  Takk fyrir að kop.is, sem harður púllari þá fer ég þangað inná hverjum degi til að lesa hvað bræður okkar og systur hafa skrifað :0)

  Kv
  Heiðar Austmann

 38. Sæll Einar minn.
  Gott að heyra að þú ert á réttu róli. Þetta er ótrúlegt en þín reynsla kennir okkur að það er engin formúla fyrir veikindum þau bara skella á okkur að okkur forspurðum sem er auðvita óþolandi. Farðu varlega þú átt bara einn líkama og eitt líf. Góðan bata.
  Kv. Arna og Sighvatur.

 39. Við þekkjumst ekki neitt (les Kop.is) en ég er búinn að vera bíða eftir færslu sem segði mér að sagan sem ég heyrði væri rugl, hún var það því miður ekki, og þetta var átakanleg lesning. Óska þér góðs bata og vona þú verðir kominn á fullt sem allra fyrst. Ég meina, kop.is og Serrano, þú hefur gert Ísland að betri stað til að búa á.

  Kv. Matti

 40. Sæll Einar,
  ég kannst bara lítilega við þig úr Garðabænum. Árinu yngri en þú og man vel eftir þér úr Garðaskóla. Bara varð að senda þér kveðju hérna eftir að hafa lesið þessa sláandi frásögn, og finnst mér gríðarlega ánægjulegt að heyra að ekki fór verr en raunin varð.
  Það veit greinilega enginn hvað gerist á morgun og maður bara fer að hugsa sig alvarlega um þegar maður heyrir af svona reynslu.
  Baráttukveðjur,

  Frosti Logason

 41. Sæll Einar, liverpoolmaður og samfylkingarfélagi!

  Innilegar bataóskir til þín. Virkilega góð lesning þótt hrikaleg væri.

  Gangi þér sem allra allra best.

 42. Skelfilegar fréttir! Þó finnst mér mest undarlegt að þú hafir orðið fyrir þessu, þar sem þú ættir að vera eins og þú segir, langt frá áhættuhópnum vegna þess hversu duglegur þú ert að hreyfa þig og ert ávallt með hollustuna í fyrirrúmi. En ég sendi þér mínar bataóskir og vona að þú munir jafna þig sem fyrst.

  Mbk.

 43. Sæll Einar, ég var að lesa bloggið þitt eftir að sonur minn sendi mér þetta. Sjálf fékk ég heilablóðfall 2003 eins og þrumu úr heiskýru lofti, ég var sex vikur á spítala hér en var svo heppinn að það komu læknar frá Svíþjóð með tækin sín og skoðuðu mig.
  Það sem hefur reynst mér best er að vera í sambandi við annað fólk sem hefur lent í sömu aðstæðum.
  Þegar að maður fer að verða óþolinmóður og finnst þetta allt ganga hægt til baka, þá er gott að tala við einhvern sem þekkir stöðuna, manni finnst læknarnir ekki gefa nógu skýr svör, því auðvitað vill maður bara heyra hvenær þetta gengur til baka.
  Af mér er það að frétta að ég er í dag eins og ég hafi aldrei fengið heilablóðfall, en auðvitað þurfti ég að læra að slaka á og vita hver mín takmörk eru.

  Þér er velkomið að hafa samband við mig ef þú vilt.

  Gangi þér sem besti í baráttunni.

  kveðja Hjördís Hjörleifsdóttir
  hjordis@fb.is

 44. Þetta er það átakanlegasta blogg sem ég hef nokkurn tíma lesið. Er búinn að lesa bloggið þitt lengi og haft mjög gaman af þó ég hafi farið silent hér um… Var algjörlega orða vant við að lesa þetta. En hef nú loksins fengið málið þó seint sé.

  Takk fyrir að deila þessu með okkur og gangi þér sem allra allra best í endurhæfingunni.

Comments are closed.