Ég horfði á Kastljós í

Ég horfði á Kastljós í gær og var þátturinn mjög áhugaverður. Þar voru Arnþór Helgason og Björgvin G. að þræta um heimsókn Li Peng. Ég hef séð Arnþór halda ræður nokkrum sinnum, aðallega í tengslum við mótmæli á viðskiptabanninu við Írak. Þar hefur hann talað fyrir mannréttindum og á móti harðstjórum. Ég var nokkuð hrifinn af ræðum hans og taldi hann vissulega vera mikinn mannúðarsinna.

Það er skemmst frá því að segja að skoðun mín breyttist í gær. Þá rann upp fyrir mér að hann, eins og alltof margir, eru aðeins mannúðarsinnar þegar viss lönd eiga í hlut. Hann mótmælir þegar menn eru teknir af lífi í Bandaríkjunum en reynir að gera lítið úr því þegar mótmælendur eru teknir af lífi í Kína. Það er augljóst að hann er ekki á móti mannréttindabrotum, heldur er hann einungis á móti Bandaríkjunum og öðrum áhrifamiklum þjóðum í hinum vestræna heimi.

Ég sé þetta því miður alltof oft. Bæði vinstri- og hægrimenn gera sig sekir um þetta. Vinstri menn eru fljótir að mótmæla þegar Bandaríkjamenn ráðast inní önnur lönd, en gleyma svo því þegar þjóðir einsog Kúba og Kína fara illa með þegna sína.

Hægri menn eru lítið skárri. Þeir mótmæla harðlega þegar menn einsog Castro eða Li Peng fremja illvirki en eiga það svo til að fyrirgefa mönnum mannréttindabrot þegar hinir sömu menn aðhyllast markaðsstefnu.