Embla.is

Embla er víst ný leitarvél, sem að okkar merki menntamálaráðherra opnaði fyrir einhverju síðan. Ég batt nokkrar vonir við að þetta yrði eitthvað skárra en leit.is. verð því miður að segja að ef að eitthvað er, þá held ég að þetta sé verri leitarvél en leit.is (uppfært (EÖE): ég er reyndar sannfærður núna um að hún sé betri en leit.is – það breytir ekki þeirri gagnrýni, sem hér fylgir)

Fyrir það fyrsta, þá heitir leitarvélin “Embla”, en á embla.is er hins vegar ferðaskrifstofa. Til að fara á Emblu, þarf maður því að fara á mbl.is/embla.

Ég tók nokkur tékk á leitarvélina og bar saman við leit.is

Prófaði fyrst leitarorðið “Serrano”. Á leit.is þá kemur serrano.is sem fyrsta niðurstaða einsog væri eðlilegt. Á emblu, þá kemur hins vegar serrano.is númer 11. Áður en að sú síða kemur upp koma nokkrar blogsíður, sem fjalla um Serrano. Sem betur fer, þá eru dómarnir jákvæðir, ólíkt því sem gerist þegar maður flettir upp Mcdonalds á Emblu eða Burger King.

(Þegar ég fletti í gegnum Serrano linkana rakst ég m.a. á þennan link þar sem ég er tilnefndur af ónefndum aðila sem Metró maður Íslands. Gríðarlegur heiður það.)

Ef ég ætla til dæmis að leita að Vesturbæjarlauginni, þá kemur mín eigin síða upp á leit.is, en á Emblu kemur umfjöllun Stefáns Pálssonar um laugina. Hvergi sést hins vegar heimasíða sjálfrar laugarinnar.

Í stuttu máli virðist þessi leitarvél vera alltof hrifin af bloggum, á kostnað þá þess sem bloggin eru að fjalla um. Ef ég skrifa færslu, sem heitir “Dominos er æði” þá er líklegt að sú færsla myndi verða hærra á listanum heldur en sjálf heimasíða Dominos. Ef mig vantar að panta pizzu á netinu (ef það er þá hægt), þá þyrfti ég að fara í gegnum 20 síður af bloggum um það hversu góðar eða vondar pizzurnar á þeim stað eru.

Ekki nógu gott. Ennþá eru engar leitarvélar, sem komast nálægt Google, jafnvel þegar að kemur að því að leita á íslenskum síðum. Mér er alveg sama þótt að leitarvélin “kunni íslensku” ef að niðurstöðurnar eru ekki nytsamlegar.

8 thoughts on “Embla.is”

 1. Sæll Einar,

  Hjálmar Gíslason heiti ég, ég er stofnandi Spurl ehf. en Embla er einmitt samstarfsverkefni okkar og mbl.is (leitaralgóriþminn sjáfur er búinn til af okkur).

  Þetta er góð gagnrýni og við munum taka þetta til skoðunar. Ég er fyrsti maðurinn til að viðurkenna að enn má margt bæta í vélinni, en fannst ástæða til að útskýra engu að síður nokkra hluti.

  Í fyrsta lagi, þá kemur þín eigin síða líka upp efst á Google ef þú leitar að “Vesturbæjarlaugin” og síðu laugarinnar hvergi að sjá. Ef þú hinsvegar leitar að “Vesturbæjarlaug” kemur “rétt” síða upp efst á Google og Emblu, en númer 2 á leit.is Þetta sýnir hvernig “íslenskukunnáttan” skiptir máli, en orðið “Vesturbæjarlaug” því miður ekki í orðasafninu okkar. Þú sérð hins vegar kosti beyginganna vel ef þú prófar að bera saman leit að orðum eins og “mannslíkaminn” eða “flugvöllur” á öllum þremur vélunum (dæmin eru auðvitað miklu fleiri).

  Við erum enn að lesa inn síður og Google er með eitthvað stærra safn en Emblan ennþá – það er að breytast. Röðunaraðferðirnar eru svo það sem útaf stendur og þar reikna ég með að við verðum í einhverjar vikur að laga til áður en við verðum að fullu sáttir. Reyndar reikna ég með að við verðum alltaf að laga hann örlítið til.

  Ég hef ákveðnar grunsemdir um hvað veldur því sem þú vísar til sem “alltof hrifin af bloggum” og ætla að kafa aðeins í það.

  Svona ábendingar eru afar gagnlegar við þessa vinnu og ég hvet sem flesta til að setja sig í samband við okkur t.d. á embla@spurl.net

  Takk fyrir áhugann,
  -hjálmar

 2. Sæll Hjálmar,

  Ánægjulegt að þið fylgist með þessu.

  Eitt, sem mér fannst líka dálítið pirrrandi: Það vantar að flokka saman niðurstöður frá sömu síðu. Oft þegar maður er að leita, þá koma 10 niðurstöður í röð frá sömu síðu, sem er frekar þreytandi.

  Sjáðu til dæmis [þetta](http://www.mbl.is/mm/embla/?s=serrano;start=101)

  Þarna er alltaf verið að vísa í sama textann, sem er að vísu vistaður undir nokkrum síðum á sama vefsvæðinu. Þetta þyrfti að flokka saman, líkt og Google gerir.

  En vonandi að þið bætið þetta og að þetta verði samkeppnishæft við erlendar leitarvélar með tímanum.

 3. Annar punktur: Ef ég leita til dæmis að [Liverpool Blogginu](http://www.mbl.is/mm/embla/?s=liverpool+bloggi%F0), sem er talsvert vinsæl síða meðal ákveðins hóps, þá kemur bloggið sem leitarniðurstaða númer þrjú.

  Samt, þá er bloggið listað sem “Ónefnt skjal” þrátt fyrir að index skjölin séu öll réttilega merkt. Tók eftir þessu á fleiri stöðum. Þið ættuð að kíkja á þetta.

 4. Sæll aftur,

  Fínar ábendingar. Varðandi hópun af sama léni, þá hefurðu líklega tekið eftir að við gerum þetta á niðurstöðusíðunum. Við sleppum þessu stundum þegar komið er aftur fyrir 100. niðurstöðu. Ástæðan er sú að þetta tefur leitina dálítið og að oftast flettir fólk ekki svona neðarlega í niðurstöðurnar. Við lögðum því af stað með þetta trade-off, en vissulega er það pirrandi.

  Það merkilega er að svipað gerist stundum neðarlega á listunum hjá Google. Finn ekki dæmið sem ég rakst á í svipinn (vissulega sjaldgæfara en hjá okkur) – en pósta því ef ég sé það. Annað sem er merkilegt þar er að það er aldrei hægt að skoða fleiri en 1000 niðurstöður frá stóru leitarvélunum (Google, Yahoo, MSN), sem mig grunar að sé “sparnaðarráðstöðfun” sprottin af svipuðum meiði og okkar 100 síðna takmörkun á hópun síðna.

  Varðandi Liverpool bloggið, þá myndi það klárlega vera efst undir eðlilegum kringumstæðum. Þegar síðan var hins vegar sótt síðast (þann 3. október) virðist hún hafa verið skráð án titils og texta hjá okkur. Annað hvort hefur það verið einhver tímabundinn galli okkar megin, eða síðan verið í skrítnu ástandi (ég veðja á okkur :))

  Þetta mun lagast þegar síðan verður heimsótt næst, sem ætti að vera á næstu dögum. Við erum ekki alveg komnir í eðlilegan endurnýjunarhraða á síðuefninu, en takmarkið er að síður sem uppfærast reglulega séu ekki eldri en 1-2 vikna í okkar safni.

  Takk aftur fyrir ábendingarnar. Það er gott að það komi fram að við hlustum á þetta og tökum inn í ákvörðunarferla varðandi breytingar og betrumbætur í framhaldinu.

  -h

 5. Mér finnst það ekki spennandi vél þessi bloggleit.is – virðist til dæmis ekki grípa síður, sem eru gerðar í Movabletype eða öðrum erlendum kerfum

  Prófaðu t.d. að leita að

  “Um tilgangsleysi allra hluta”
  “Liverpool bloggið”
  “katrín.is”

  og þú sérð að þessar síður koma ekki upp þrátt fyrir að það sé leitað að réttu nafni

Comments are closed.