Góður dagur

owenbaroswenger.jpgJá, nú er sko gaman að vera Liverpool aðdáandi. Liverpool unnu og hinir “ósigrandi” Arsenal töpuðu þriðja leiknum í röð. Svo náði Man United bara jafntefli gegn hinu arfaslaka Aston Villa. Urugvæski meistarinn Diego Forlan náði meira að segja að skora fyrir United. Á Ölveri, þar sem stuðningsmenn Liverpool voru að horfa á Liverpool-Tottenham, þá klöppuðu Liverpool stuðningsmennirnir þegar þeir sáu að Forlan hafði loksins skorað.smile

Annars var þessi leikur allt í lagi. Tottenham léku varnarbolta mestallan leikinn og hélt þulurinn á Stöð 2 vart vatni yfir því hvað þeir væru “skipulagðir og einbeittir” í leik sínum. Ef Liverpool hefði spilað svipað og Tottenham þá hefði það sennilega verið kallað “leiðinlegur varnarbolti”.

Danny Murphy (sem er að mínu mati orðinn einn af fjórum bestu ensku miðvallarleikmönnunum, ásamt Scholes, Beckham og Gerrard) skoraði stórkostlegt mark. Úr kyrrstöðu rétt fyrir utan vítateig skaut hann boltanum uppí samskeytin. Dean Richards jafnaði en snillingurinn Michael Owen tryggði Liverpool sigurinn úr vítaspyrnu, sem hann sjálfur fiskaði. Hann klobbaði varnarmann Tottenham og svo braut Carr greinilega á honum.

Annars var Salif Diao að mínu mati besti maður Liverpool í leiknum. Hann og Hamann voru traustir á miðjunni. Einnig átti Murphy góða spretti og svo voru Dudek, Hyppia og Traore traustir.

Nú eru sem sagt Liverpool komnir með 4 stiga forystu á Arsenal. Arsenal slógu víst eitthvað met í dag þegar þeir skoruðu í milljónasta leiknum í röð. Mér var nokk sama um það enda má Arsenal slá eins mörg met og þeir vilja á meðan Liverpool eru efstir.