Hár, reykköfun og Seltjarnarnes

Ef ég hefði sent inn bréf til Skjás Eins fyrir tveim mánuðum með þeirri hugmynd að búa til hálftíma sjónvarpsþátt, þar sem 20 krakkar fara saman í reykköfun og í leiki uppí sveit, ætli hugmyndinni hefði verið vel tekið?

Ég sé að einhver hefur fengið þessa hugmynd og búið til sjónvarpsþátt úr því. En líka með því snilldar twist-i að hafa krakkana 20 alla keppendur í Ungrú Ísland. Einsog ég hef nú gaman af sætum stelpum (reyndar mjög gaman), þá breytir það ekki þeirri staðreynd að hugmyndin að sjónvarpsþættinum er ekki góð. Það er fínt að gera þátt um þessa keppni, en menn verða að finna eitthvað skemmtilegra fyrir stelpurnar að gera.


Ég er búinn að fatta að ég horfi ekki á venjulega sjónvarpsdagskrá lengur (fyrir utan íþróttir). Horfi frekar á heilar þáttaraðir þegar mér hentar. Í kvöld þegar ég kom loksins heim ákvað ég þó að horfa á sjónvarpið.

Ég geri fastlega ráð fyrir því að í kvöld sé stelpukvöld á Skjá Einum. Á undan þættinum um Ungfrú Ísland var þáttur af America’s Next Top Model. Það er nú meiri endemis hörmungin. Alveg eins hrifin og ég er af drasl raunveruleikasjónvarpi, þá er vælið í þessum þætti alveg nóg til að gera mig geðveikan. Get a fokking grip!

Ok, horfi ekki á fleiri þætti.


Í dag hrindgi ég í heilsugæslu Seltjarnarnes, sem er víst heilsugæslan mín þar sem ég bý í Vesturbænum. Ég spýtti næstum því kaffinu útúr mér þegar mér var sagt að ég fengi tíma útaf auma puttanum mínum *á morgun*! Á MORGUN! Finnst ykkur það ekki merkilegt? Ég tek tilbaka allt ljótt, sem ég hef sagt um Seltjarnarnes og Sjálfstæðismenn á Seltjarnarnesi. Æ, reyndar var það ekkert ljótt – þeir eru algjörar dúllur.


Ég fór í klippingu á föstudaginn og stytti hárið um 3-4 sentimetra. Það er svo sannarlega efni til skrifa á þessari síðu. Hafði bara einu sinni verið svona síðhærður áður. Hárið var orðið það sítt að ef ég teygði toppinn (hárið mitt krullast mjög mikið) þá gat ég snert hárið með tungunni. Ég sýndi þetta m.a. uppá Serrano, en þetta vakti takmarkaða hrifningu þrátt fyrir að mér finndist þetta vera æðislega merkilegt.

En allavegana, þessi síði toppur gerði það að verkum að ég gat verið ofboðslega hipp og kúl og haft toppinn fyrir augunum. Ég hafði talið mér trú um að það væri kúl og myndi fara mér vel. Hins vegar komst ég að því að ég hef nákvæmlega *enga* þolinmæði í þá greiðslu, þar sem ég var alltaf að taka toppinn úr augunum á mér, sérstaklega þegar toppurinn sveiflaðist til og stakkst í augað á mér á fullri ferð, sem mér fannst gerast frekar oft.

En núna er hárið komið niðrí [þessa sídd](https://www.eoe.is/ummig/), sem er umtalsvert þægilegra.


Já, og ef einhver hefur fleiri tillögur fyrir Parísarferðina mína, endilega [komið með þær](https://www.eoe.is/gamalt/2006/05/03/10.58.02/).

3 thoughts on “Hár, reykköfun og Seltjarnarnes”

  1. ég fór nú til parisar í fyrrasumar, en er í fílu þar sem þú ert að taka kærustuna þína frá mér þegar það er próflokadjamm.

    Þannig að ég ætla bara ekki að segja þér neitt. Takk fyrir túkall.

Comments are closed.