Heilablóðfall þrem árum síðar

Einsog eflaust einhverjir lesendur þessa bloggs muna, þá fékk ég heilablóðfall fyrir þremur árum. Það gerðist bara í vinnunni einn daginn og átti sér engan sérstakan fyrirvara. Ég skrifaði um þá lífsreynslu á þessa síðu.

Ég fæ heilablóðfall

Ég fæ oft spurninguna hvernig ég hafi það eftir heilablóðfallið. Svarið er að ég hef það mjög gott. Ég var sirka mánuð að ná mér eftir áfallið. Jafnvægið var ekki uppá það besta og sjónin ekki heldur. Ég fór til sjúkraþjálfara, en hún útskrifaði mig eftir einn tíma.

Í dag finn ég engan mun á sjálfum mér, sem ég rek til heilablóðfallsins. Eina er að ég á það til að rekast á hluti hægra megin við mig. Það hefur þó minnkað með tímanum, enda lærir líkaminn og heilinn að gera ráð fyrir slíkum skekkjum. Það háir mér því ekki í dag.

Fyrir utan það er ég heilbrigður, í besta formi lífs míns og mér líður vel.

Andlega hefur kannski meira breyst. Ég fann að ég notaði áfallið smá sem afsökun í byrjun. Ég gafst fyrr upp á erfiðum reikningsdæmum og slíku, en með tímanum hef ég lært að nota það ekki sem afsökun því að heilablóðfallið mitt var ekki það alvarlegt að það ætti að hafa slæm áhrif á slíka hluti.

Ég hitti lækninn minn fyrir um mánuði í reglulegu tékki og hann spurði mig aðeins útí það hversu mikið ég hugsaði um heilablóðfallið. Ég sagði að ég gerði það nánast aldrei. Ég treysti einfaldlega að það sé ágætlega séð um mig af norrænu heilbrigðiskerfi. Ég er tekinn í reglubundin tékk og þar ætti mestallt að uppgötvast. Annars lifi ég bara heilbrigðu lífi og læt þetta ekki hafa áhrif á mig. Enda svo sem lítið sem ég get gert nema að reyna að lifa sem heilbrigðustu lífi – stunda líkamsrækt og borða ekki of mikið af rusli.

Andlega bregður mér jú þegar ég heyri talað um heilablóðfall, sérstaklega þar sem þau eru nánast alltaf mun alvarlegri en það sem ég lenti í. Mér finnst óþægilegt að horfa á bíómyndir og sjónvarpsefni um heilablóðföll og ég veit að Margréti finnst það enn verra. En læknarnir segja jú að það heilablóðfall sem ég fékk geri mig ekki líklegri til að fá það aftur seinna á ævinni. Í raun er ég ágætlega settur því það er betur fylgst með mér en fólki sem hefur aldrei lent í þessu.

Eftirá að hyggja held ég að heilablóðfallið hafa bara gert mér gott. Ég hugsaði meira um það hvað ég var að gera og hvert ég stefndi. Ég áttaði mig betur á að Margrét, sem núna er eiginkona mín, var það besta sem hefur komið fyrir mig í þessu lífi. Og ég kannski reyni aðeins meira að lifa í nútímanum í stað þess að hugsa alltaf um það sem gerist seinna.

Það er ágætt.

2 thoughts on “Heilablóðfall þrem árum síðar”

Comments are closed.